Meira en 60 ára gamalt fyrirbrigði.

Umræðuefnin á flokksráðsfundi Vinstri grænna eru mörg, en í ljósi stjórnmálaumræðna síðustu daga vekja málefni dómsmálaráðherra mesta athygli. Ekki er þó vitað, hvort vantrauststillaga verði borin upp á þingi, enda skiptar skoðanir um málið.

Dæmi um það að ráðherra í samsteypustjórn hafi staðið af sér vantrauststillögu er að finna frá því snemma á sjötta áratug síðustu aldar. Þá var borin upp vantraustststillaga á þáverandi menntamálaráðherra, Bjarna Benediktson, vegna embættisfærslu á Akranesi.  

Sjálfstæðisflokkurinn var þá í stjórn með Framsóknarflokknum og voru stjórnarþingmenn samtaka um það að fella vantrauststillöguna. 

Eftir öll þessi ár er erfitt að muna, í hverju meint embættisafglöp Bjarna fólust, en hitt man ég glögglega, að Bjarni flutti eftirminnilega ræðu, þar sem hann varðist sérlega fimlega. 

Hér á landi hefur skort á samábyrgð forsætisráðherra og annarra ráðherra á embættisfærslum hver annars og hefur sjálfstæði ráðherra frekar aukist en hitt. 

1934 varð áhrifamesti stjórnmálamaður þess tíma, Jónas Jónsson, sem var formaður Framsóknarflokksins 1934-1944, að sætta sig við það að verða ekki ráðherra vegna eindregnar andstöðu Alþýðuflokksmanna í stjórnarmyndunarviðræðum. 

Varð Jónas aldrei ráðherra eftir það. 

Smám saman hefur myndaðist sú hefð, að þegar stjórnir væru myndaðar, réði formaður hvers flokks því innan síns flokks, hverjir skipuðu ráðherrasæti flokksins. 

Nú gildir nær alltaf nokkurs konar samtrygging allra ráðherranna, að "ef þú skiptir þér ekki af því sem ég geri, skipti ég mér ekki af því sem þú gerir." 

Í tillögu stjórnlagaráðs er skerpt á reglum um ráðherraábyrgð á þann hátt, að ráðherrar teljist samábyrgir hverjir fyrir aðra, nema þeir færi annað til bókar þegar embættisfærslan á sér stað. 

Það er liður í því meginmarkmiði að skerpa valdmörk og að auka innbyrðis aðhald í stjórnsýslunni, sem oft hefur skort hér á landi. 

Vísa í tónlistarmyndband á facebook síðu minni í tilefni dagsins.  


mbl.is Vinda lægt innan VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar rafmagnið datt út og það bjargaði vonlausri sýningu.

Þegar Hekla gaus 17. ágúst 1980 stóð svo illa á, að Sumargleðin var með auglýsta sýningu og dansleik á Hótel Sögu um kvöldið, þá fyrstu í Reykjavík í sögu hennar, þegar eldgosið og Rafmagnsveita Reykjavíkur tóku völdin. 

Salurinn var troðfullur og á tíunda tímanum um kvöldið áttu herlegheitin að hefjast. 

En ég var illa fjarri góðu gamni vegna eldgossins og ekki væntanlegur, sem var hið versta mál, því að ég átti að vera á sviðinu meirihluta sýningartímans. 

Vegna fréttaferðar fyrir Sjónvarpið austur að Heklu bæði í lofti og á landi var ég enn austur við Heklurætur þegar dagskráin átti að hefjast á tíunda tímanum, alveg upptekinn við að sinna kvikmyndatökum og fréttaflutningi meðan fjallið gaus sem óðast. 

Nú blasti við eitt af uppáhalds kjörorðum okkar Ragga, "að klóra í bakkann", en spurningin var bara, hvernig í ósköpunum það yrði mögulegt.  

En þá gerðist alveg ótrúleg tilviljun, sem reddaði málunum og kannski er þessi tilviljun einsdæmi:

Rafmagnið datt út af öllum Vesturbænum, og allt slokknaði í Súlnasalnum, ljós, hljómflutningstæki, hátalarakerfi og rafknúin hljóðfæri. 

Sólin var að setjast, það dimmdi óðum, og engin leið að byrja skemmtunina! 

Bassi, gítar, kordóvox og hljómborð, allt var þetta ónothæft án rafmagns. 

Hljómsveitarmenn og skemmtikrafar sáust ekki einu sinni. 

Fólkið varð að hírast í myrkrinu, sem datt á, og bíða eftir að rafmagnið kæmist aftur á.

Fjarvera mín skipti ekki nokkru máli og út um gluggana sá fólkið í salnum aðeins myrkvuð húsin í kring. 

Ég var að vísu ekki kominn þegar rafmagnið kom loksins, seint og um síðir, en ég kom þó nógu tímanlega til þess að hægt væri að flytja alla dagskrána og bjarga kvöldinu í horn, "klóra í bakkann."   

  


mbl.is Björgvin Franz gleymdi að mæta í leikhúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar múrar þóttu tákn um gjaldþrot viðkomandi ríkja.

Tveir múrar, sem reistir voru á síðustu öld, þóttu smánarlegir og merki um gjaldþrot viðkomandi þjóðfélaga. 

Sá frægasti og myndrænasti var Berlínarmúrinn, sem reistur var 1961 til þess að koma í veg fyrir að fólk flytti frá Austur-Þýskalandi til Vestur-Þýskalands. 

Valdhafar í Austur-Þýskalandi, ríki, sem hafði verið stofnað á hernámssvæði Sovétmanna eftir stríðið, sáu fram á að áframhaldandi flótti fólks til vesturs jafngilti því að þjóðinni blæddi út hvað snerti það að geta viðhaldið innviðum landsins og atgerfi þjóðarinnar. 

Vestrænum þjóðum þótti múrinn smánarlegur og tákn um gjaldþrot hins kommúniska þjóðfélags í Austur-Þýskalandi. John F. Kennedy Bandaríkjaforseti fór í heimsókn til Vestur-Berlínar og mælti fleyg orð: "Ich bin ein Berliner". 

Og Ronald Reagan hélt þar líka ræðu og sagði: "Gorbatsjof, rífðu þennan múr niður!" 

Í Suður-Afríku fylgdu hvítir valdhafar harðri aðskilnaðarstefnu, Apartheit, sem fólst í því að girða kynþætti af, og voru þeir "múrar" sem þar voru notaðir til þessa, fordæmdir í alþjóðasamfélaginu og Suður-Afríka sett í skammarkrók á Ólympíuleikum og alþjóðlegum íþróttamótum. 

´Bandaríkjamenn voru fremstir í flokki meðal þeirra þjóða, sem fordæmdu aðskilnað og múra á síðustu öld. 

En nú er öldin önnur, 21. öldin. Ísraelsmenn hafa reist múr til að skilja sig frá Palestínumönnum með velþóknun Bandaríkjamanna, og Donald Trump á enga ósk heitari en að reisa risamúr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.  


mbl.is Vill 25 milljarða dala vegna múrsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrígreining valdsins - einn stærsti vandi lýðræðisríkja.

Það er einn stærsti vandi lýðræðisríkja að viðhalda þrígreiningu valdsins á þann hátt að jafnvægi ríki á milli hinna þriggja þátta. 

Hvað löggjafarvaldið áhrærir gildir fulltrúalýðræði þar sem þegnarnir kjósa þingmenn til þess að setja lögin. 

Best er að kosningin sé bein, það er, að kjósandinn velji endanlega einstaklingana, sem bjóða sig fram, í kjörklefanum. 

Þetta er gert í nokkrum ríkjum á mismunandi veg og þyrfti að komast á hér á landi. 

Með þingbundinni ríkisstjórn er meirihluta þingmanna fært vald til að skipa í hana. Að því leyti er framkvæmdavaldið háð þinginu, en hins vegar hefur valdið samt færst ansi mikið frá þinginu í praxis, þannig að oft á tíðum virkar þingið eins og afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið, og ofan á það bætist, að vald sérfræðinga og embættismanna er oft heldur mikið. 

Erfiðast er að viðhalda sjálfstæði dómskerfisins, mest vegna þess að einhver þarf að velja þar fólk til starfa. 

Vegna þess að endanlegar lyktir mála verða oft útkljáðar fyrir dómstólum, hefur þetta þriðja vald afar mikið vægi og ef það er framkvæmdavaldið, sem velur fólk til starfa, dregur það oft úr nauðsynlegu aðhaldi, sem dómstólar veita. 

Gott dæmi eru Bandaríkin, þar sem forsetar reyna að velja helst hæstaréttardómara, sem eru hallir undir viðkomandi stjórnmálaflokk. 

Mikilvægið sést á því, að úrskurður Hæstaréttar BNA þess efnis, að engin takmörk skuli gera á fjárframlögum til þingmanna, hefur þegar valdið vaxandi spillingu meðal þeirra og ert fjársterkum aðilum kleyft að hafa óeðlilega mikil áhrif á lagasetningu og valdið því, að þingmenn eyða flestir meiri tíma í að sinna þessum velgjörðarmönnum sínum en þingstörfunum. 

Óheppilegar afleiðingar af þessu má sjá í vaxandi mæli vestra. 

Jakob Möller, formaður margumtalaðrar hæfnisnefndar, hefur nefnt það sem víti til varnaðar að fyrrum hafi komið fyrir að dómsmálaráðherrar nýttu sér vald sitt í einstaka tilfellum til þess að ganga fram hjá hæfustu umsækjendum um dómarastörf á nokkuð áberandi hátt og að nota verði aðferð, sem minnkar hættuna á óeðlilegu pólitísku inngripi. 

En það er ekki auðvelt að komast hjá því að í einstaka tilfellum verði valið umdeilanlegt og matsaðferðirnar líka, rétt eins og öll mannanna verk.  

Þetta er og verður eilífðarvandi. Víðast í öðrum löndum er reynt að búa til kerfi, sem tryggir sem best valddreifingu, aðhald og ákveðið eftirlit (checks and balances), en seint verður þetta fullkomið. 


mbl.is Fleiri ósammála Hæstarétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vökvafleyting hættulegri en hálka. Það verður að útrýma henni.

Ef fimm sentimetra "löglega" djúpt hjólfar er fullt af vatni, myndast skilyrði til þess að breið og slétt dekk farið að fljóta ofan á vatninu. 

Fyrirbrigðið er kallað "aquaplaning" eða "vökvafleyting" og er að því leyti hættulegri en hálka, að ökumaður, sem annars er sæmilega vanur að fást við það þegar bíll skrikar á hálku, veit oft ekki sitt rjúkandi ráð þegar bíllinn byrjar skyndlega að rása, án þess að nokkur viðvörun hafi sést um það að þetta sé að gerast. 

Gott dæmi um vökvafleytingu birtist þegar ávalri steinvölu er kastað lárétt út yfir sléttan vatnsflöt, svo að hún "fleytir kerlingar."  

Fyrir rúmlega tveimur áratugum vöktu myndir af litlum flugvélum, sem flugmenn lentu í snertilendingum á sléttum haffleti á Hofsvík á Kjalarnesi og hófu aftur til flugs.

Hraðinn líklega í kringum 100 km/klst eða ekki langt frá hraða bíla á stofnbrautum. 

Út af þessu varð málarekstur og bar sérfræðingur frá NASA vitni við réttarhöldin og lýsti fyrirbærinu sem gat fleytt flugvélum eftir sléttum vatnsfleti. 

Vökvafleyting bíla á vatni í hjólförum er svipaðs eðlis, en að sjálfsögðu eyðileggur hún alveg möguleika á að stjórna og stýra bílnum, sem getur jafnvel snúist í hring eins og sýnt var í sjónvarpsfréttum fyrir rúmum 30 árum. 

Þetta er lífshættulegt fyrirbæri og að sjálfsögðu eru reglur, sem var breytt til hins verra í kjölfar Hrunsins, fráleitar, áratug síðar þegar hér er einhver mesti efnahagsuppgangur í sögu landsins. 

Að "hafa til skoðunar" að breyta til baka er fráleitt. Það hefði átt að vera búið að breyta þessu fyrir langa löngu. 

 

P.S.  Örn Johnson birtir afar mikilvægara upplýsingar um fleytinguna í athugasemd. 

 

 


mbl.is Ræða um breytta hjólfaradýpt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýnt að hafa íslenskan mælingabúnað tiltækan.

Í Grímsvatnagosinu 2011 tókst að halda flugvöllum við Faxaflóa opnum með notkun sáraeinfalds mælingabúnaðar í lítilli einshreyfils vél, en ef það hefði ekki verið gert, hefði tölva í London ráðið því að flugvellirnir hefðu verið lokaðir í á annan sólarhring. tf-tal_maelingar_1260578

Jónas Elíasson prófessor hannaði búnaðinn og lét smíða hann eftir samtöl við okkur Sverri Þóroddsson sem lagði til flugvélina, en við Þóroddur Sverrisson flugum vélinni á vaktaskiptum meðan tölvan í London þráaðist við. 

Í fluginu með okkur voru tveir mælingamenn. 

Allan tímann, sem flugvélin flaug var heiðskírt við allan Faxaflóa, meira en 120 kílómetrar.tf-tal_maelitaeki

En stjórnendur aðgerða vegna gossins í London, tóku vitnisburði um skyggni allt til Snæfellsjökuls ekki gilda, af því að þeir sem horfðu yfir flóann gátu ekki sent gögn á pappír um það!  

Þeir voru sem sagt á svipuðu stigi og greint er frá í Íslandsklukku Halldórs Laxness: "Hefurðu bréf upp á það?"tf-tal_maelt_inni

Jónas hafði hins vegar útbúið mælingatæki sitt þannig, að tölurnar um mengun loftsins, sem flogið var í gegnum, birtust jafnóðum á pappírsstrimli, og farið var með gögnin upp í Flugturninn í Reykjavík svo að hægt var að láta London sjá það svart á hvítu, að í öllu fluginu kom aðeins fram mengun í nokkrar sekúndur. 

Það var þegar flugvélinni var flogið í stafalogni í góðri hæð beint yfir Hellisheiðarvirkjun!   

Jónas Elíasson fór síðar til Japans til að mæla öskumagn vegna lítils eldgoss þar og reyndist búnaðurinn vel. 

Alþjóða flugmálastofnunin býr yfir staðli um það, hve mikið öskumagn þarf að vera í lofti til að ekki sé hægt að ábyrgjast að þotuhreyflar þoli það. 

Mælingaflugið 2011 hófst á Selfossi, en þá var þar 5 kílómetra skyggni í öskumettuðu  lofti. 

Í ljós kom, að í slíku lofti var askan við þessi mörk, og er þessi mæling mikils virði, því að nokkuð auðvelt er að leggja mat á skyggni séð frá jörðu. 

Svo skörp voru skilin á milli öskumettaðs lofts og hreins loft að loftið var öskumettað í Þorlákshöfn, en rofaði alveg til fyrir vestan Selvog. 

 


mbl.is Eldgos hefði víðtæk áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Gæi gas rak mig á gat.

Íslensk örnefni eru dásamlegur hluti af íslenskri menningu. Það úir og grúir af þeim, einfaldlega vegna þess hve þau eru nytsöm við að staðsetja viðburði og fyrirbæri. 

Sem dæmi má nefna, að þar sem ég var í sveit að Hvammi í Langadal í Húnavatnssýslu man ég enn, 64 árum eftir síðustu sumardvölina 29 örnefni, bara í landareign Hvamms, sem nær frá Blöndu og yfir þann hluta fjallsins á milli Geitaskarðs/Skarðsskarðs og Hvammsskarðs, sem telst til jarðarinnar Hvamms. . 

Hvernig stendur á því að þessi örnefni eru svona lífseig?  Það er af því að minningarnar frá dvöl í fimm sumur tengjast við þessa staði og þessi fyrirbæri og nöfn þeirra styrkja þessar verðmætu æskuminningar. 

Til gamans eru þessi örnefni sett hér á lista, talið neðan frá Blöndu og frá norðri til suðurs: 

Blanda, Gráeyrar, Ysta-Flæði, Miðflæði, Fremsta flæði, Starasýki, Öfund, Holureitur, Grundin, Skriðan, Grundin, Partur, Hólhús, Hólhússlétta, Lambhús, Lambhússlétta, Kvíabrekka, Skriðan, Hvammsá, Hvammsgil, Hólarnir, Votihjalli, Nautahjalli  Steinahjalli, Steinahjallagata, Tröllið, Tröllaskarð, Höggið, Brunnárdalur. 

Örnefnin eru vafalaust enn fleiri.

Sum ornefnin vitna um horfna tíð, svo sem Ysta-, Mið- og Fremsta-Flæði, Gráeyrar, Holureitur, Starasíki, Hólhús, Lambhús og Kvíabrekka. 

Um miðja síðustu öld var Garðar Þormar, oft nefndur Gæi gas, eftirminnilegur rútubílstjóri hjá Norðurleið. 

Hann kunni að sjálfsögðu ógrynni af örnefnum og sögum frá löngum ferli. 

Eitt sinn þegar ég hitti hann spurði ég hann hvort hann þekkti örnefni, sem væru fáránleg eða óskiljanleg og hvort hann gæti nefnt mér dæmi um slíkt. 

"Hér er dæmi," sagði Garðar, og brosti stríðnislega. Veistu hvar Kattmúsará er". 

"Kattmúsará! Ertu að grínast?" svaraði ég. 

"Nei, nei," svaraði Gæi og nefndi staðinn. 

Og nú spyr ég. Hefur einhver heyrt þetta örnefni áður?


mbl.is Hvað er „Klofalækjarkjaftur“?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að læra af reynslu annarra þjóða.

Í vinnu við stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er afar mikilvægt að reynt sé að læra af reynslu og þekkingu annarra þjóða af þjóðgörðum. Einkum getur reynsla þjóða með svipaðar aðstæður og hér eru verið dýrmæt. 

Sem dæmi má nefna reynslu Norðmanna af stofnun Jóstedalsjökulsþjóðgarðs, en sá jökull er stærsti jökullinn á meginlandi Evrópu. 

Á sínum tíma gekkst Landvernd, þegar Tryggvi Felixson var þar framkvæmdastjóri, fyrir því að Erik Solheim kæmi til landsins til að miðla af þekkingu sinni varðandi stofnun þessa merkilega norska þjóðgarðs. 

Norðmönnum tókst að leysa vandamál varðandi þá sem stunduðu landbúnað í nágrenni við jökulinn og þeir voru ekkert að tvínóna við að koma sem mestu landi í efsta flokks verndunar. 

Hættu til dæmis við hagkvæmustu vatnsaflsvirkjun á Norðurlöndum sem fól þó í sér afar lítil umhverfisáhrif. Fólst í því að stækka lítið vatn, Langavatn, sem hvorki sést frá jöklinum, né sést jökullinn frá vatninu, og steypa vatninu niður í gegnum göng næstum 1000 metra fallhæð inn í lokað stöðvarhús niðri við sjó. 

Hætt var við þetta á þeim forsendum að þetta fæli í sér of mikla skemmd á ásýnd svæðisins! 

Á íslenska miðhálendinu eru alls sjö jöklar, og Vatnajökull er 20 sinnum stærri en Jóstedalsjökull. 

Gildi íslensks miðhálendisþjóðgarðs er kannski í svipuðu hlutfalli miðað við stærsta jökul meginlands Evrópu. 


mbl.is Nefnd um stofnun miðhálendisþjóðgarðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of misjafnar hindranir.

Það er vandaverk að hanna hraðahindranir og ekki síður að ákveða, hvar hver þeirra á að vera. 

Þetta blasir við hér í borginni. Þar að auki má stundum sjá fleiri en eina gerð hraðahindrana á sömu götu. 

Verst er þegar hindranir, sem tilsýndar sýnast alveg eins, reynast vera jafn misjafnar og þær eru margar, og engin leið fyrir bílstjóra að sjá muninn tilsýndar. 

Á nútíma bílum eru svonefnd lágprófíl dekk algeng, en þá er hæðin frá götu upp í felgu jafnvel ekki meira en 5-7 sentimetrar. 

Víða er hægt að finna götur þar sem sumar hindranirnar hafa verið flausturslega gerðar, þannig að gróp liggur þvert á akstursstefnu við hindrunina, sem hjólbarðarnir höggvast á. 

Þetta er alveg afleitt og getur skemmt bæði dekk, felgur og fjöðrunarbúnað. 

Að aka á sumum bílum yfir svona hindranir er illmögulegt á 30 kílómetra hraða, og þarf jafnvel að læðast yfir, og trufla með því umferð annarra bíla, sem á eftir aka. 

Á tímabili var það þannig í Síðumúlanum að ein hraðahindrun skar sig úr og var bæði talsvert hærri og brattari en allar hinar. Hugsanlega langhæsta hraðahindrun borgarinnar. 

Á tímabili var gamall smájeppi, sem ég ók, afar hastur, og þegar ég ók á honum í fyrsta skiptið eftir Síðumúlanum, bókstaflega henti þessi hraðahindrun hinum stutta bíl upp í loftið, en allt hafði verið í lagi á öllum hinum hindrununum. 

Hliðstæð dæmi má nefna um hraðahindranirnar út um alla borg. 

Púðarnir svonefndu, sem sagt er að sé íslensk uppfinning, eru brandari sem getur breyst í óhapp. 

Ég á einn gamlan afarbreiðan Range Rover fornbíl á 38 tommu dekkjum. 

Þessir púðar virka ekki fyrir hann, því að ef stýrt er nákvæmt, fara hjól hans sitt hvorum megin við púðana, og jafnvel þótt annað hjólið færi yfir púðann, er fjöðrunin svo mjúk og dekkin svo stór, að varla finnst fyrir því. 

Síðan hef ég líka átt svo mjóa fornbíla af minnstu gerð, að auðvelt væri að aka framhjá púðunum. Sjá má ökumenn á mjóum bílum gera það á Snorrabrautinni þegar lítil umferð er. 

En þar liggur í leyni sú hætta að þetta stórsvig trufli ökumenn sem koma á eftir eða skapi jafnvel árekstrahættu ef menn gæta ekki nógu vel að sér. 

Eitt sinn gerðist það þegar ég fór á vespuhjólinu mínu eftir Langarimanum, að ég var ekkert að láta hjólið fara yfir púðana, sem þar eru, heldur ók beint áfram en þó á jöfnum löglegum 30 km hraða. 

Á þessari götu hindranir fjölmargar og af tveimur gerðum, ýmist öldur eða púðar, auk þrenginga, og vegna þess að engin biðskylda er fyrir umferð frá fjölmörgum stuttum þvergötum, er nauðsynlegt að halda hraðanum fast niðri. Það er nú eitt af vandamálum íslenskrar umferðar, að það er eins og að margir viti ekki hvaða regla gildir þegar ekkert biðskylduskilti er við gatnamót. 

Af þeim sökum skapast oft hætta og varasamt óvissuástand við þessa götu og aðrar svipaðar.  

Á eftir mér ók ökumaður á lágum bíl með mjög lágum og breiðum dekkjum og sportlegri hastri fjöðrun. Þar að auki með lága "spoilera" að framan og aftan og lága krómlista með hliðunum. 

Þegar ég var búinn að fara mína beinu leið framhjá tveimur púðum byrjaði hann að flauta og blikka ljósum eftir að hafa klöngrast yfir púðana. 

Ég sá ekki að neitt væri athugavert hjá mér og hélt áfram en þegar við komum niður á Hallsveg, hafði hann gefið hressilega í eftir að komið var yfir síðustu hindrunina, ók upp að hliðinni á mér og gaf mér fingurinn.  

Enn sá ég ekkert athugavert og hélt áfram niður að umferðarljósunum. Þá stansaði hann við hliðina á mér, rúllaði niður rúðunni og hrópaði: "Þú átt ekkert með að aka svona! Ég kæri þig fyrir þetta!" 

"Ha?" svaraði ég. "Ég ók bara á löglegum 30 km hraða og tafði þig ekki neitt, heldur þvert á móti. Þú ókst langt fyrir neðan 30 og dróst aftur úr þess vegna." 

"Já, en þú fórst aldrei yfir hraðahindrunarpúðana". 

"Auðvitað ekki" svaraði ég. "En ég fór yfir öldurnar, gatan er ein akrein og ég hélt mig allan tímann inni á henni á löglegum hraða. Þessir púðar eru ekkert skemmtilegir að hossast yfir á svona litlu hjóli." 

"Til hvers heldurðu að púðarnir séu!" hrópaði hann, "þeir eru til þess að það sé ekið yfir þá! Það eiga allir að gera það!" 

Nú var komið grænt ljós og bílstjórinn fyrir aftan okkur flautaði, þannig að samtalið gat ekki orðið lengra. 

Skondin saga þetta, en gefur hugmynd um þann óróa sem hraðahindranir geta skapað.

Og kannski var reiði bílstjórans skiljanleg eftir að þurfa daglega að fást við það á viðkvæmum bíl sínum að glíma við hinar fjölbreyttu hraðahindranir í Reykjavík án þess að skemma hraðskreiða djásnið. Og síðan kom einhver auli á hræódýru litlu vespuhjóli og gat haldið 30 km hraðanum á meðan hann varð að hægja á sér niður í 15 km hraða á hverri hindrun.  

Vestasta ölduhindrunin á Langarimanum er raunar með djúpri hvassri skoru sem getur hoggið í sundur mjó dekkin á hinum litlu hjólum Hondunnar minnar ef maður gætir sín ekki og fer yfir hindrunina  hægra megin til að halda 30 km hraða í staðinn fyrir að fara niður í 10 þeim megin sem skoran er. Á hjóli er hægt að fara yfir ölduna til hliðar við skoruna, en ekki á bíl. Svona mismunun á ekki að líðast og þessi síðasta hraðahindrun hefur kannski verið kornið sem fyllti mælinn hjá blessuðum manninum. 


mbl.is Skapa hættu og hafa lítinn tilgang
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dulið böl að miklu leyti?

Margt bendir til þess að svonefnt læknadóp og afleiðingar þess sé að stórum hluta dulið böl. 

Þegar þeir, sem eldri eru, líta til baka, og hafa þekkt læknadópsjúklinga á sínum ævidögum, er munað eftir einstökum læknum á mismunandi tímum, sem ýmist héldu sjúklingum við efnið með ritun lyfseðla, eða voru jafnvel sjálfir fíkniefnaneytendur. 

Þetta böl er jafnvel mun verra en áfengisbölið hvað snertir þöggunina í kringum það, sem ýmsar ástæður liggja að baki.

Nefna má, að það þykir enn skömm og auðmýking fólgin í því að það vitnist um hver fórnarlömbin eru. 

Og enn meira þöggunarefni er hverjir þeir læknar kunni að vera, sem ávísa of miklu. 

Að ekki sé minnst á, hvaða læknar kunni að vera fíklar sjálfir. 

Mestallur fréttaflutningur og umræða snýst um neytendur ólöglegra fíkniefna, þótt tjónið af völdum læknadópsins eða löglegra lyfja sé meira. 

Það yrði stórt framfaraskref ef hægt yrði að ná meiri árangri í varnarbaráttunni gegn þessum vágesti en náðst hefur fram að þessu.  


mbl.is Lögleg lyf drepa fleiri en ólögleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband