"Ekki hægt að éta kökuna og eiga hana síðan."

í ofangreindum ummælum útlendings, sem rætt var við í Kveik í fyrrakvöld, átti hann við þá mótsögn, að íslensk orkufyrirtæki, sem telja sig framleiða endurhýjanlega og hreina, græna orku, selji svokallaðar upprunaábyrgðir á evrópskum markaði og taki með því upp tvöfalt bókhald hjá sér sem orki verulega tvímælis.

Í því bókhaldi, er þessi verslun með upprunaábyrgðir þannig bókfærð, að hinn erlendi kaupandi veifar vottorðinu um hreinu orkuna í sínu bókhaldi, en íslenska orkufyrirtækið setur orkuöflun úr kjarnorku, kolum eða olíu inn í orkureikinga sína til handa innlendum orkukaupendum, en heldur áfram að guma af notkun hreinna orkugjafa í sölu orkunnar á erlendum markaði. 

Bókhaldið væri að vísu líka skakkt, þótt ofangreint trix kæmi ekki til, heldur stunda sum íslensku orkufyrirtækin rányrkju á orkulindunum, einkum við nýtingu hennar fyrir gufuaflsvirkjanir.  

Á öllu svæðinu frá Reykjanestá norður til Hellisheiðar og Nesjavalla er sú forsenda fyrir nýtingu látin nægja, að orkan endist í 50 ár, en það er augsjáanlega langt frá því að standast kröfur, sem gerðar eru til sjálfbærrar þróunar. 

Nú þegar, eftir um 15-20 ára nýtingu háhitasvæðanna, fer orka þeirra dvínandi svo mjög, að til dæmis Hs orka er í óða önn að undirbúa vatnsaflsvirkjanir um allt land, allt frá Hvalárvirkjun á Vestfjörðum ausstur í Skaftárhrepp. 

Athyglisverð voru þau ummæli forstjóra Landsvirkjunar við gangsetningu Þeystareykjavirkjunar, að hún hefði getað orðið miklu stærri en hún varð.

En með tilliti til þess að hún entist lengur, yrði 90 megavatta afl látið nægja til að byrja með.

Þetta þýðir viðurkenningu á því að ekki sé hægt að éta kökuna alla og eiga hana jafnframt áfram.

Og á líka í raun við um þá fullyrðingu að öll orkuöflun á Íslandi sé 100 prósent græn, endurnýjanleg og hrein.   

 


mbl.is Sala á upprunaábyrgðum grafi undan ímynd Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Rok undir Eyjafjöllum" 1945 - "...á Kjalarnesi" 2020.

Þegar veðurfregnir fóru að heyrast á ný í útvarpi eftir stríðslok 1945 fór á ný að heyrast viðvörunarorðin "rok undir Eyjafjöllum" sem viðbót við þáverandi spásvæðið Suðvesturland.

Þótt flestir glöggir menn vissu þá, að stífur vindur á Suðvesturlandi gæti orðið mun hvassari undir Eyjafjöllum en annars staðar á suðvestanverðu landinu var þssari setningu samt skeytt við spána.  Líklega vegna þess að með því væri tilvist roksins staðfest af til þess bærum sérfræðingum og einnig vegna þess að um þetta atriði vissu ekki alltaf allir.  

Þegar lægðin, sem nú herjar, var að koma upp að landinu, mátti heyra það sagt í fréttum, að gular viðvaranir yrðu á öllum spásvæðum á landinu, nema við Faxaflóa og á höfuðborgarsvæðinu. 

Nú er það svo að Kjalarnes er samtímis við Faxaflóa og á höfuðborgarsvæðinu, og þegar lægðin var komin á fullt eftir hádegi í gær, náði vindhraðainn 33 metrum á sekúndum í hviðum undir Kjalarnesi, og það hefði því ekki skaðað neinn þótt sérstakri viðvörun vegna Kjalarness og svæðisins undir Hafnarfjalli hefði verið skeytt við almennu lýsinguna. 

Á báðum þessum svæðum urðu óhöpp og vandræði vegna ofsaveðurs og fárviðris samfara hálku, og því fulll ástæða til þess að vara sérstaklega við því 


mbl.is Lægðin títtnefnda ekki úr sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þetta reddast" hugarfarið þrátt fyrir appelsínugular viðvaranir.

Appelsínugul viðvörun er næstalvarlegasta viðvörunin á vegum landsins á eftir rauðri viðvörun,  og liggja aðvaranir þessar venjulega fyrir með nokkurra dægra fyrirvara ásamt spám um vind, úrkomu og lofthita, sem liggja við mörk fárviðris, og flughállar hálku í krapa eða snjó. 

Samt er eins og þetta hrífi ekki á marga vegfarendur eins og öll vandræðin, útköllin, strandaglóparnir, óhöppin og slysin bera vitni um. 

Hugarfarið "þetta reddast" hefur hingað til verið hermt upp á Íslendinga sérstaklega, en virðist orðið býsna alþjóðlegt í hinum mikla straumi erlendra ferðamanna undanfarin ár. 


mbl.is Strandaglópar úti um allt í Öræfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgardrengurinn, sem gerði gagnmerka dreifbýlismenningu að ævistarfi.

Hallgrímur Sveinsson var einn af mörgum ógleymanlegum bekkjarsystkinum síðuhafa í Gagnfræðaskólanum við Lindargötu á árunum 1953 til 1955. 

Þótt þessi bekkjarsystkin sætu aðeins tvo vetur í skólanum, varð hópurinn einstaklega samhentur og skemmtilegur. 

Hallgrímur var vörpulegur og knár og driffjöður í íþróttum og skólalífi og fas hans allt gaf til kynna, að hann væri líklegur til afkasta og verka. 

Engan óraði fyrir því þegar hann útskrifaðist úr Kennaraskólanum og hóf kennslu í Reykjavík,  að leið hans myndi liggja út á land þar sem hann ætti eftir að skila óvenjulega gjöfulu ævistarfi, eins og yfirlit yfir æviferil hans ber glöggt með sér. 

Leiðir okkar lágu oftast saman meðan hann var staðarhaldari á Hrafnseyri og stóð fyrir því að myndarlega væri staðið að varðveislu minningar Jóns Sigurðssonar, sem þar lagði í uppvexti sínum í dreifbýli grunninn að mikilsverðu starfi bæði suður í Reykjavík og í Kaupmannahöfn.  

Hallgríms er sárt saknað og samúðarkveðjur streyma vestur. 

 


mbl.is Andlát: Hallgrímur Sveinsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þróunin er í áttina að hreinum rafbílum.

Eitt stærsta skrefið í innrás notkunar rafhreyfla í bíla var þegar Toyota Prius var valinn bíll ársins í Evrópu upp úr síðustu aldamótum. 

Á þeim tíma hafði Toyota forystu á þessu sviði svonefndra hybrid-bila, en ákvað að sækja lengra í átt frá hreyfli knúnum jarðefnaeldsneyti með því að þróa vetnisbíla. 

Núna er Toyota í fararbroddi í smíði slíkra bíla, en Honda og Hyundai fylgja fast á eftir. 

Stærsti kostur vetnisbílanna er sá, að aðeins tekur 3-5 mínútur að hlaða orku inn á slíka bíla, sem er meiri hraði en fæst við hleðslu á eldneytisknúnum bíl og margfalt meiri hraði en á venjulegum rafbíl.  

Gallarnir felast í dýru verði vetnisbíla og skorti á kerfi hleðslustöðva fyrir vetnisbíla, því að þrátt fyrir uppgefið drægi allt að 650 kílómetra á hleðslu, verður bitastætt hleðslustöðvakerfi að vera fyrir hendi. 

Skorturinn á hleðslustöðvakerfinu er einfaldur; yfirgnæfandi meirihluti bílaframleiðenda veðjaði eingöngu á þróun bíla, sem eru eingöngu með rafafl sem orkubera. 

Tengiltvinnbílar hafa þann kost að hægt er að aka þeim á eldsneyti eingöngu ef rafaflið þrýtur vegna þess hve rafdrægni slíkra bíla er lítil, aðeins um 30-50 kílómetrar. 

Þá er gott að hafa aðgang að hinu geysivíðtæka neti bensínstöðva um allt land.

En það þýðir jafnframt þann ókost, að ökumennirnir hyllist til að aka nær eingöngu fyrir afli eldsneytis og eyða jafnvel meira af því en á sambærilegum bíl, sem hefur aðeins brunahreyfil en verður að bera þungt kerfi rafaflsins, einkum þunga rafhlaðnanna. 

Sé mikið um slíkan akstur, bitnar það á árangri af aðgerðum gegn kolefnisútblæstri. 

Gallinn að þessu leyti við hybrid-bíla eins og Prius, er svipaður og í tengil-hybrid bílum, einkum í samfelldum utanbæjarakstri, og af þessum sökum er þróunin, bæði hjá yfirvöldum og framleiðendum, að stuðla aðallega að þróun hreinna rafbíla og innviðakerfis fyrir þá. 


mbl.is UX 300e fyrsti rafbíll Lexus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótlegt til að sjá stöðuna: Lesa textann á umbúðunum.

Utan á flestum gosdrykkjaflöskunum stendur, að í hverjum 100 ml séu um 40-42 hitaeiningar. 

Meðalmaður þarf um 2000 hitaeingingar á dag, þannig að þessar 40 sýnast litlu máli skipta. 

Öðru máli skiptir er neyslan er 10 dúsir, 330 ml hver. 

Þá verður sólarhringneyslan 1300 hitaeiningar eða meira en langleiðina í þá orku en manneskjan þarf. 

Ein hálfs líters flaska þykir ekki mikið, en í henni eru 200 hitaeiningar, eða meira en tíundu hluti sólarhringsþarfarinnar. 

Ef hálfs lítra flöskurnar eru tvær, er skammturinn orðinn 400 hitaeiningar. 

Og fjórar hálfs lítra flöskur, sem margir slurka í sig daglega, innifelur 800 hitaeiningar.

Sé síðan aðeins fjórum Prins Póló stykkjum bætt við, eitt að morgni, annað á hádegi og hið þriðja að kvöldi, eru þar komnar um 200 grömm með 800 hitaeiningar í viðbót, og bara þetta tvennt, súkkulaðið og gosið, gefur svo mikla orku, að aðeins það fer langt í að anna allri orkuþörfinni, án þess að neitt annað sé étið. 


mbl.is Skipti yfir í sykurlaust gos og léttist um 40 kíló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfismálin skipta margar milljónir ófæddra Íslendinga máli.

Unga skólafólkið, sem hefur látið sig umhverfismálin skipta milljónum saman um allan heim, er að tala fyrir málstað sem kalla mætti "jafnrétti kynslóðanna." 

Það snýst um að núlifandi jarðarbúar hrifsi ekki til sín auðlindir, bruðli þeim og eyði og skekki svo loftslag, lífríki og náttúruverðmæti, að margfalt fleiri ófæddir jarðarbúar eigi eftir að líða fyrir það. 

Loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra valda í meginatriðum sömu vandræðum fyrir óbornar kynslóðir og rányrkja á óendurnýjanlegum orkugjöfum og auðlindum. 

Hvað Ísland varðar, er um það að ræða, að rúmlega 200 þúsund fullorðnir Íslendingar taki í græðgi sinni ráðin af þeim mörgu milljónum, sem eiga væntanlega eftir að lifa í landinu.  


mbl.is Helmingur telur fréttir af alvarleika hlýnunar réttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Snjóboltatrix" frekar en alhliða rannsóknir og niðurstöður.

Eitt þekktasta atvikið í deilunni og rökræðunni um hlýnun loftslags á jörðnni að mannavöldum var það, þegar einn þingmanna á Bandaríkjaþingi kom á þingfund að vetrarlagi með snjóbolta í hendi, kastaði honum á gólfið og sagði þennan snjóbolta vera sönnun þess, að loftslag væri alls ekki að hlýna, heldur þvert á móti að kólna. 

Svipað hefur oft verið notað af skoðansystkinum þessa manns, að leitað hafa verið uppi tölur eða aðstæður, sem eiga að sanna, að það sé ekki hlýnun í gangi, heldur kólnun, en aðferðin líkust því sem segir í vísunni um lastarann, í þessu tilfelli lastara loftslagsvísindamanna; "finni´hann laufblað fölnað eitt / fordæmir hann skóginn."  

Tvö góð dæmi hefur mátt sjá í tveimur Morgunblaðsgreinum, þar sem í báðum eru birtar tölur úr mælingum á sjávarhita og lofthita á völdum mælistöðum á Íslandi og sagt að þær sýni glögglega hverjar hinar raunverulegu staðreyndir séu, engin markverð hlýnun, heldur jafnvel kólnun.  

Tökum fyrst skyldleikann við snjóboltann á Bandaríkjaþingi, stærð jarðarinnar annars vegar og Íslands hins vegar. 

Flatarmál jarðar er 511 milljón kílómetrar, en flatarmál Íslands 0,1 milljón. Ísland er einfaldlega einn fimmþúsundasti hluti af hnettinum. 

Jafnvel þótt svæðið sem Ísland feli í sér landhelgina, er það langt innan við eitt prósent af flatarmáli allrar jarðarinnar. 

Og að sjálfsögðu er ástand lofthjúpsins mælt með því að nota mælitölur frá mörg þúsund mælistöðvum um alla jörð notaðar í heild til að finna út heildarástand lofthjúpsins.  

Á öllum tölvulíkönum, sem síðuhafi hefur séð af hita lofts á jörðinni, hefur mátt sjá tvo til þrjá "ljósbláa fleti" inni í misrauðum loftmössum jarðarinnar. 

Annar rétt fyrir suðvestan Ísland en hinir hinu megin á hnettinum. 

Það hlýnar sem sagt ekki jafn mikið alls staðar. 

Til víðbótar snjóboltatrixinu í þessum tveimur blaðagreinum, eru þessar afmörkuðu og sérvöldu tölur ansi mikið afbakaðar í útskýringum og notkun á þeim.  

Í fyrri greininni er það sett upp sem stórletrað aðalatriði greinarinnar, að íslenskir jöklar hafi gengið fram á árunum 1965 til 1990. 

Þar með er alveg skautað yfir þá staðreynd að jöklarnir hafa í heild rýrnað og minnkað í meira en öld.  

Framhlaupsjöklar svonefndir hlaupa oftast með ákveðnu árabili án beins sambands við veðurlag. 

Af þeim toga eru til dæmis framhlaup Brúarjökuls á miðjum kafla hlýrra ára 1934 og Síðujökuls upp úr 1990. 

Í stað þess að nota ævinlega árshitatölur í blaðagreinunum, er það aðeins gert einu sinni, en annars hyllst til að nota sumarhitatölur, og á línuriti yfir hita, sem sagt er sýna kólnun, blasir greinilega við öllum, sem það vilja sjá, að tímabilið með hæsta hitann hefur verið frá því um síðustu aldamót. 


mbl.is Yfir 20 stiga hiti mældist á Suðurskautslandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitt virkjunarsvæðið í sigti skjálftavirkninnar?

Tvö svæði, sem nýtt eru til gufuaflsvirkjana, eru á ysta hluta Reykjanesskaga, Svartsengi og Reykjanesvirkjun. Undanfarnar vikur hefur verið landris með mikilli skjálftavirkni við fjallið Þorbjörn, en undir svæðinu Svartsengi-Eldvörp er orkuhólf, sem nýtt hefur verið fyrir Svartsengisvirkjun. 

Á þessari loftmynd er horft yfir gígaröðina Eldvörp úr norðaustri og sjást gufureykirnir í Reykjanesvirkjun í fjarska. Eldvörp. Reykjanes fjærst.

Örnefnið Reykjanes er yst á Reykjanesskaga, og er nesið nokkurn veginn ferkantað og vel afmarkað landfræðilega séð, þótt mikil tilhneiging sé til að nafnið sé notað um allan skagann. 

Reykjanesvirkjun er á hinu eiginlega Reykjanesi, en Reykjanestá er allra ysti hluti þess ness.  

Þegar jarðskjálftahrinan við Þorbjörn og landris rétt vestan við það fell, var bent á það hér á síðunni, að nýjar og nákvæmar hæðarmælingar með gps-tækni hefðu sýnt hratt landsig á örfáum árum í kjölfar mikillar dælingar á orku upp úr orkuhólfunum handa gufuaflsvirkjununum. 

Hjá Landmælingum á Akranesi fengust þær upplýsingar í dag, að mælingarnar hefðu byrjað 1993 og landssigið verið 18 sentimetrar á 25 árum, en þar af voru 12 sentimetrar á árunum 2004 til 2012, eða um fimmfalt meiri hraði þau ár sem virkjanirna höfðu byrjað orkunýtingu sína. 

Nú gæti röðin verið komin að Reykjanesinu sjálfu hvað varðar óróa og skjálftavirkni, og verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála. 


mbl.is Aukin skjálftavirkni á Reykjanestá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sextándi vegvísirinn varðandi virkjanastefnuna: Sæstrengirnir.

Í Fréttablaðinu fyrir ári birtist grein um orkustefnu Íslendinga þar sem tínd voru til tíu sgtefnumarkandi atriði eða eins konar vegvísar hjá ráðamönnum þjóðarinnar varðandi þessa stefnu, sem öll hníga að því að virkja alla virkjanlega orku landsins og þyrma ekki náttúruverðmætum þess. 

Síðan þá hefur vegvísunum fjölgað hratt og sá sextándi leit dagsins ljós í ummælum iðnaðarráðherra þess efnis að það verði að leggja sæstreng til landsins. Tók hana ekki langan tíma að snúa ársgömlum fyrirheitum sínum um að sæstrengur kæmi ekki til greina yfir í hið gagnstæða. 

En í umræðunni um þriðja orkupakkann í fyrra kepptust margir við að afneita sæstrengnum, sem raunar getur aldrei orðið bara einn strengur, heldur minnsta kosti tveir strengir en jafnvel fjórir "til þess að tryggja afhendingaröryggið" eins og það er orðað. 

Tengsl þriðja orkupakkans og sæstrengja eru þó skýr að því leyti, að 3. orkupakkinn getur á engan hátt komið í veg fyrir strenginn, heldur geta hugsanleg áhrif hans eingöngu orðið til þess að liðka fyrir sæstreng. 

Ástæða þess að rétt er að tala um sæstrengi í fleirtölu er sú, að 1994 í könnunarferð þáverandi iðnaðarráðherra og orkumálastjóra til Bretlands, kom í ljós að strengirnir yrðu að vera minnsta kosti tveir vegna seguláhrifa og nægði þessi staðreynd þá til þess að öllum áformum um slíka framkvæmd var aflýst. 

Enda yrði kostnaðurinn talinn í þúsundum milljarða króna. 

Þar að auki kæmi ekki á óvart þótt talin yrði nauðsyn að bæta öðrum strengjum við, því að öllum tilfellum annars staðar í Evrópu, er um varaflutningsleið að ræða. 


mbl.is Þórdís segir raforkumarkaðinn óþroskaðan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband