Samanburðurinn við Yellowstone er æpandi, svo orð fá vart lýst því.

Um þrjár milljónir manna koma í Yellowstone þjóðgarðinn í Bandaríkjunu, sem er frægur eins og Ísland fyrir hverasvæði sín. Um garðinn liggja alls um 1600 kílómetrar af gönguleiðum og milljónir fara um hverasvæði svipuð þeim sem eru hér á landi, svo sem við Geysi, í Krýsuvík, Hverarönd og víðar. 

Fyrir tuttugu árum sagði þýskur prófessor, sem hingað kemur á hverju ári með tugi manns með sér, að ástandið við Geysi væri þjóðarskömm. 

Þetta var og er enn því miður svona. 

En ástandið sem sjá má myndir af með tengdri frétt á mbl.is er þó þannig að engu tali tekur hvílík þjóðarskömm er að breiðast út um landið. 

Samanburðurinn við Yellowstone varðandi það að sjá um það með vöktun, ítölu og gerð göngupalla eða nothæfra göngustíga til þess að tryggja hreina notkun án skemmda á gróðri og jörð á öllum 1600 kílómetra löngum gönguleiðum garðsins er í svo æpandi mótsögn við það sem er í gangi hér á landi, að mann skortir orð. 


mbl.is Göngustígurinn er eitt drullusvað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaða Íslands frá 1949.

Við inngöngu Íslands í NATO 30. mars 1949 fengu vitrir ráðamenn því framgengt að sá fyrirvari væri bókaður um inngöngu í NATO að Íslendingar hefðu sjálfir engan her og myndu ekki hafa. 

Í frumvarpi stjórnlagaráðs segir í 31. grein: "Herskyldu má aldrei í lög leiða." 

Ákvæðið um sérstöðu Íslands í NATO helgaðist af smæð þjóðarinnar. Norðurlandaþjóðirnar eru 15 til 20 sinnum fjölmennari hver þjóð en Íslendingar og stóru Evrópuþjóðirnar í kringum 150 til 250 sinnum fjölmennari. 

Mikilsvert er að athuga þetta vel þegar gengist er undir alþjóðlegar skuldbindingar og þess vegna er gott að sérstöðunni sé haldið vel til haga varðandi aðgerðir gegn rússneskum yfirvöldum. 

Því að sem dæmi um óhagkvæmni smæðarinnar má nefna hve herfilega við fórum út úr því að taka skilyrðislaust þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum vegna innlimunar Krím. 

Hlutfallslegt tjón okkar miðað við aðrar þátttökuþjóðir í þessum aðgerðum varð margfalt meira, ekki hvað síst vegna þess, að þegar valinn var gildissvið aðgerðanna, gátu áhrifamestu þjóðirnar haft áhrif á útfærsluna til þess að lágmarka fórnir sínar.  


mbl.is Taka mið af stærð Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er engin leið að hætta? Popplag í G-erræðisdúr?

Landsnet, áður Landsvirkjun, vandist því um margra áratuga skeið að geta farið nokkurn veginn sínu fram við lagningu háspennulína. 

Aldrei þurfti að hafa neinar áhyggjur af því að skoða möguleikann til annarrar leiðar fyrir línuna en hentaði línulagnarmönnum, hvað þá að leggja hana nokkurs staðar í jörðu. 

Dæmin eru svo mörg að það er erfitt að velja. Á einum besta útsýnisstaðnum í Friðlandi að Fjallabaki þar sem horfa má á góðum veðurdegi alla leið norður til Bárðarbungu liggur háspennulína þvert yfir sjónsviðið milli Ljótapolls og Svartakróks. 

Þótt flestir erlendir ferðamenn, sem koma til landsins, segi í skoðanakönnunum, að háspennulínur séu þau mannvirki sem trufli mest upplifun þeirra af þeirri einstæðu og ósnortnu íslensku náttúru, sem þeir séu komnir til að skoða, virðast háspennulínumenn aldrei hafa haft áhyggjur af slíku. 

Þeir flögguðu dýrri og mikilli skýrslu hér um árið, sem átti að sanna að það væri allt of dýrt að setja línur í jörð, en þegar þeir voru í krafti upplýsingalaga krafðir um að birta hana, sögðu þeir að hún væri týnd!!

Nú ætla þeir að fara með risalínu i gegnum öll vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og dýrmæt útivistar- og náttúruverðmætasvæði bara rétt si svona og segjast alveg undrandi yfir því að vera beðnir um að skoða möguleika á jarðstreng. 

Það kostar jú svo mikla peninga að gera rándýrar skýrslur sem gufa upp og finnast ekki.

Maður heyrir Stuðmenn fyrir sér: "Það er engin leið að hætta...", - popplag í Gerræðisdúr.

Og ekki er að sjá að þeim finnist þeir sjálfir hafa valdið neinu um þá stöðu sem er komin upp. Nei, "málið er í uppnámi vegna úrskurðar."

Ekki vegna þess að það átti að nota gamla trixið að skjóta fyrst og spyrja svo og treysta á, að málið væri komið svo langt og þegar orðið svo dýrt að engin leið væri að hætta.  

 


mbl.is Í uppnámi vegna úrskurðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott þarna norðan megin, afleitt sunnan megin.

Það munaði ekki miklu að tveimur af sögufrægustu samkomuhúsum Reykjavíkur yrði tortímt. 

Einbeittur vilji var til þess upp úr síðustu aldamótum að rífa Austurbæjarbíó og reisa íbúðablokkir í staðinn. 

Daginn, sem þetta varð gert kunnugt datt það út úr mér í fjölmiðlum og fékk flug og athygli, að engu væri líkara en að yfirvöld í borginni væru haldin sjálfseyðingarhvöt hvað snerti margar merkustu byggingar í Reykjavík. 

Til liðs komu Ólafur F. Magnússon og fleiri, sem lögðu andófi gegn þessum fyrirætlunum lið, og það tókst að bjarga þessu samkomuhúsi, sem var ekki bara venjulegt bíó, heldur stóð tónlistarfólk í Reykjavík að smíði hússins eftir stríð og það varð vettvangur helstu tónlistarviðburða næstu 20 árin, meðal annars tónleika margra af þekktustu tónlistarmönnum og hljómsveitum heims. 

Hámarkið fyrir æskuna voru hljómleikar Kinks 1965. 

Sjálfstæðishúsið, sem nú verður endurreist við Torvaldsensstræti, var glæsilegasti samkomu- og skemmtistaður borgarinnar eftir stríðið og þar áttu revíurnar glæstan lokakafla undir heitinu Bláa stjarnan. 

Er vel að þessi staður rísi nú í sinni upprunalegu mynd. 

Öðru máli gengur um enn eitt hótelið, sem á að troða niður á við suðvesturhorn Austurvallar ofan á einn elsta helgistað Reykjavíkur, Víkurkirkjugarð, og eyðileggja hann og koma í veg fyrir að nauðsynlegt andrými myndist til vesturs frá Austurvelli. 

Það væri efni í viðbótarpistil en þennan. 


mbl.is Nasa-salurinn rifinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðarbandalag sem getur mistekist að vera alltaf til friðs.

Margt fór um huga manns árin 1948 og 1949, þegar Kalda stríðið magnaðist, NATO var stofnað í skugga mestu óeirða hér á landi á okkar tímum, og Sovétríkin urðu kjarnorkuveldi. Upp var að alast ung kynslóð, sem yrði hin fyrsta í sögunni til þess að verða við því búin að verða gereytt í logum kjarnorkustyrjaldar. 

Enn í dag fara því hugleiðingar á kreik, þegar unnin eru skemmdarverk á minnismerki á Íslandi, sem er eitt NATO-ríkjanna. 

Þótt NATO væri hernaðarbandalag þegar það var stofnað 1949, var því lýst yfir að það væri stofnað til að tryggja frið í Evrópu og væri því friðarbandalag. 

Ég er nógu gamall til þess að muna eftir andrúmsloftinu hér á landi og í öðrum ríkjum Vestur-Evrópu þegar Berlínardeilan og loftbrúin til Berlínar voru helstu fréttir hvers dags og hættan á hernaðarátökum milli Sovétríkjanna og Vesturveldanna var næstum áþreifanleg í loftinu. 

Bandaríkjamenn fluttu herlið sitt að mestu í burtu í stríðslok en söfnuðu kjarnorkusprengjum í staðinn sem tryggingu fyrir því, að ef Stalín gengi of langt í notkun herafla Sovétríkjanna og færi yfir línuna sem hann og Churchill höfðu dregið frá suðri til norðurs um þvera álfu, yrði þessum ca 50-80 kjarnorkusprengjum varpað á valdar borgir í Sovétríkjunum. 

De facto hernám Tékkóslóvakíu vakti ugg, því að það ríki hafði verið með lýðræðislega stjórn á vestrænan mælikvarða. 

Ekki þarf þó annað en að líta á Evrópukort til að sjá, að á þeim tíma lá landið eins og sverðsfleygur frá landamærum Vestur-Þýskalands alla leið austur að Úkraínu og var því afar mikilvægt hernaðarlega. 

Ætlun Stalíns með því að gera landið að leppríki Sovétríkjanna var að það yrði hluti af risavöxnum "stuðpúða" milli Vesturveldanna og Sovétríkjanna. 

Vesturveldin gátu enga rönd reist við innlimun Tékkóslóvakíu í þennan "stuðpúða", því að á korti Churchills og Stalíns hafði landið lent á "áhrifasvæði" Sovétríkjanna. 

Á sama hátt hreyfði Stalín ekki litla fingur til þess að aðstoða uppreisn kommúnista í Grikklandi. 

Kort Stalíns og Churchills gilti allan Kalda stríðs tímann, "járntjaldið" sem Churchill nefndi svo í frægri ræðu í Fulton háskóla vestra, var áþreifanleg staðreynd allt til 1989 og Rússar komustu upp með að bæla niður andspyrnu í Austur-Berlín 17. júní 1953, Ungverjalandi 1956, Tékkóslóvakíku 1968 og um stundarsakir í Póllandi 1980. 

Því er þetta rifjað hér upp að listaverkið Tuttugu logar við Hótel Sögu var að vissu leyti afleggjari þeirrar friðarhugsunar, sem fór um lönd við lok Kalda stríðsins. 

Ári eftir að listaverkið var gert, réðust nokkrar NATO-þjóðir inn í Írak og lýstu íslenskir ráðamenn yfir því að Íslendingar styddu þá hernaðaraðgerð heils hugar. 

Ekki var það nú samt gert í mínu nafni og margra annarra Íslendinga. 

Við lok Kalda stríðsins varð til munnlegt samkomulag Bakers utanríkisráðherra Bandaríkjanna við Gorbatsjof um að nágrannaríki Rússlands í vestri yrðu eins konar ný gerð af friðsamlegum "stuðpúða" milli Rússlands og Vestur-Evrópu. 

Eystrasaltsríkin og önnur fyrrverandi leppríki Sovétríkjanna litu hins vegar á aðild sína að NATO sem nauðsynlega tryggingu fyrir sjálfstæði aínu gagnvart hinum stóra nágranna sínum í austri. 

Færð voru rök fyrir hernaðaríhlutun NATO í deilurnar við upplausn Júgóslavíu sem aðgerð til að tryggja réttlátan frið þar um slóðir. 

Í framhaldinu héldu menn að svipaður árangur kynni að nást með hernaðaríhlutun í Líbíu 2011, sem við Íslendingar studdum eins og aðrar NATO-þjóðir.

Þar að auki hafa öflug NATO-ríki beitt hervaldi í Írak 1991 og 2003, veitt uppreisnarmönnum "Arabíska vorsins" hernaðarlegan stuðning frá 2011 og fallist var á skilgreiningu Bandaríkjamanna á hryðjuverkaárásunum á New York og Washington á þann veg að árás utan frá á eitt NATO ríki félli undir það ákvæði NATO-sáttmálans, að árás á eitt ríki NATO teldist árás á þau öll og yrði því svarað með því að ráðast inn í Afganistan. 

Núverandi Bandaríkjaforseti lagði áherslu á það í kosningabaráttu sinni 2016 að íhlutun Bandaíkjamanna í Írak 2003 hefði þvert ofan í yfirlýsingar um tilgang hennar skapað ófriðarbál í Írak og Sýrlandi, sem enn sér ekki fyrir endann á. 

Með öðrum orðum: Friðarbandalagið NATO ætti erfitt með að vera alltaf til friðs.

Ísland er aðildarríki að NATO og skemmdarverk á listaverki, sem er helgað ákveðnu friðsemdartímabili í sögu þess hernaðarbandalags, er því ein af afleiðingum andrúmsloftsins, sem nú ríkir í alþjóðastjórnmálum og í stríðsrekstri einstakra NATO-þjóða eða hernaðaraðgerðum í nafni allra bandalagsþjóðanna. 

Helst ætti að halda listaverkum og íþróttum utan við stjórnmál, en "svona er Ísland í dag" og "svona eru NATO og heimsstjórnmálin í dag."  


mbl.is Telur að verkið verði aldrei til friðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af því sem spáð var fyrir 20 árum.

Auknir hitar og þurrkar og sandmistur, ættað frá Norður-Afríku, voru atriði sem nefnd voru sem hugsanlegar afleiðingar af hlýnun loftslags á jörðinni. 

Jafnframt hafa flest tölvulíkön varðandi loftslag þessarar aldar sýnt hugsanlega kólnun suðvestur af Íslandi og aukinni úrkomu og svala um norðvestanverða Evrópu. 

En veðurfar á jörðinni allri er svo flókið fyrirbæri, að vafasamt er að hægt sé að spá nákvæmlega um það í smáatriðum.  

Til dæmis er sú hlýnun, sem verið hefur á nyrsta hluta jarðar, verið mun meiri síðustu misseri en reiknað var með. 


mbl.is Furða sig á appelsínugulum snjó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað gerðist í Nýsköpunarstjórninni.

Núverandi ríkisstjórn er að því leyti til svipuð svonefndri Nýsköpunarstjórn 1944 til 1947, að að þessum ríkisstjórnum standa þrír flokkar, sá sem er yst til vinstri, sá sem er yst til hægri og síðan einn miðjuflokkur. 

Einu atkvæði munaði flokksstórn Alþýðuflokksins að sá flokkur færi í ríkisstjórn, en allir þingmann flokksins stóðu þó að ríkisstjórnarsamstarfinu þegar á hólminn var komið. 

Andstaðan innan Alþýðuflokksins var einkum óbeit á samstarfi við Sósíalistaflokkinn.

Innan Sjálfstæðisflokksins var líka andstaða við samstarf við Sósíalistaflokkinn, og var hún það mikil að fimm þingmenn flokksins studdu ekki ríkisstjórn Ólafs Thors. 

Ríkisstjórnin hafði samt öruggan meirihluta, og aldrei kom til að vantrauststillaga væri borin upp á stjórnina né einstaka ráðherra hennar. 

Þegar stjórnin stóð að vinsælum aðgerðum í almannatryggingamálum og endurnýjun togaraflotans hjaðnaði andstaðan innan raða krata og Sjalla við stjórnina og flokkslínur voru nokkuð skýrar í Alþingiskosningunum 1946 ef undan er skilið, að skiptar skoðanir voru um Björn Ólafsson þingmann Sjalla í Reykjavík svo að hann fékk miklar útstrikanir. 

Nýsköpunarstjórnin sprakk út af grundvallarágreiningi sósíalista við hina flokkana í utanríkismálum. 

Ólafi Thors var mikið í mun að halda stjórnarsamstarfinu áfram þótt dökkar blikur væru á lofti í efnahagsmálum, stórkostlegur gjaldeyrisforði uppurinn og mikill efnahagssamdráttur í helstu viðskiptalöndum okkar gerði óhjákvæmilegt að taka upp harðar skömmtunaðgerðir og höft. 

Hugsanlega hefðu efnahags- og kjaramálin sprengt Nýsköpunarstjórnina ef utanríkismálin hefðu ekki sprengt hana. 

Ólíklegt er að utanríkismál muni sprengja núverandi stjórnarsamstarf en órói á vinnumarkaði gæti orðið skeinuhættur og undirliggjandi er ágreiningur í umhverfismálum, sem gæti blossað upp. 

Slit síðasta stjórnarsamstarfs komu eins og þruma úr heiðskíru lofti og ekki er hægt að afskrifa að orsök stjórnarslita nú gæti komið á óvart. 


mbl.is Hvað yrði um flokkinn þá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil tvöfeldni Trump.

Donald Trump sýnir mikla tvöfeldni með því að skipa John R. Bolton þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna. 

Í kosningabaráttu sinni hamraði Trump á því hvílíkt glapræði innrásin í Írak hefði verið árið 2003 og gekk svo langt að segja, að hún og síðar "Arabiska vorið" hefðu haft þær afleiðingar,  þar á meðal stofun Íslamska ríkisins, að Hillary Clinton og Barack Obama væru stofnendur ISIS!

Og að allar hörmungarnar í Sýrlandi væru af þeirra völdum.  

Nú hefur Trump gert þann mann, sem laug í Georg W. Bush Bandaríkjaforseta, að gereyðingarvopn væru í Írak og hvatti Bush til að gera innrás í landið, að þjóðaröryggisráðgjafa sínum. 

Og ekki nóg með það. John R. Bolt hefur líka hvatt til að Bandaríkin ráðist af fyrra bragði á bæði Norður-Kóreu og Íran! 

Í þessu felst alveg lygileg tvöfeldni hjá Trump, að fordæma innrásina í Írak fyrir kosningar, en fela síðan mesta stríðshauk síðari tíma í Bandaríkjunum að sjá um þjóðaröryggismál og komast í kjöraðstöðu til þess að Bandaríkin geri tvær innrásir í stíl við innrásina í Írak.  


mbl.is Fundur Kim og Trump í uppnám?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Solarcars on the run!"

"Sólbílar á ferðinni!" sem eitt af atriðunum í komandi óhjákvæmilegum orkuskiptum mannkyns er ein af setningunum sem sungnar eru í hvatningar tónlistarmyndbandinu "Let it be done!"

Þegar textinn og myndbandið voru sett saman mátti deila um, hvort væri þessi sýn væri raunhæf. 

En nú er meira að segja farið að framleiða létta eins manns sólbíla, sem byggjast á svipaðri samvinnu fóta og sólarhorku og rafreiðhjól. 

Þak er yfir ökumanni, þakið sólarsellum. 

Úr því að hvatningarsetningin um sólbílana fékk að fljóta með í myndbandinu, stefnir í að það sé að verða úrelt og að það þurfi að leita að myndskeiði sem sýni slíkan bíl. 

Ég hef séð slíkt myndskeið á netinu og nú er að leita það uppi. 

Stefnt er að því að setja tónlistarmyndbandið "Let it be done!" í núverandi mynd inn á facebook síðu mína seinna í dag og breyta því myndbandi síðan við fyrsta tækifæri. 


mbl.is Suðurpólför á sólarknúnum plastbíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessu var spáð í 60 mínútum.

Margir þættir í seríunni 60 mínútur í Bandaríkjunum eru afar vel unnir og fróðlegir. 

Í umfjöllun um sjálfkeyrandi bíla var rætt við mann, sem talinn var einn af fróðustu mönnunum, sem ynnu að tilkomu sjálkeyrandi bíla. 

Hann sagði að of mikil bjartsýni ríkti um að þessir bílar tækju við af ökumönnum og nefndi nokkur rök fyrir því, svo sem að umferðin, hegðun ökumana og gangandi og hjólandi fólks væru svo gríðarlega flókin, að langt væri þangað til að búið væri að hnýta fasta alla lausa enda í þeim efnum. 

Athyglisvert var, að hann nefndi sem dæmi nokkurn veginn það sama og gerðist núna í Arizona, og stillti því upp sem gamalli og hrumri konu, sem tæki allt í einu upp á því að ganga út á götu eða yfir á rauðu ljósi. 

Tæknin í sjálfkeyrandi bílnum ætti miklu verra með að átta sig á því hvort einhver tæki upp á svonalöguðu heldur en lifandi ökumaður, sem sæi það frekar á útliti og hegðun hins gangandi, að hann gæti átt það til að ganga skyndilega í veg fyrir bíl. 


mbl.is Sjálfkeyrandi bíll drepur vegfaranda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband