"Aðili er aðila gaman." Hvað næst? "Mannfall varð"?

"Bílvelta varð" og orðið "aðilar" blómstra sem aldrei fyrr hjá fjölmiðlafólki, samanber það nýjasta, að Millie Bobby Brown sé einn af "100 áhrifamestu aðilunum" í heiminum. 

Hvað næst: "Í Kína búa 1,4 milljarðar aðila"? "Fimm aðila bíll"?  "Sjaldan veldur einn aðili þá tveir aðilar deila"? 

Eða, eins og ég sá haft eftir Þórarni Eldjárn á facebook: "Aðili er aðila gaman" í stað orðtaksins "maður er manns gaman."

Engin leið er virðist að nota tvö atkvæði yfir það þegar bíll veltur: "Bíll valt". 

Nei, það verður að vera helmingi lengra: "Bílvelta varð." Nú síðast í frétt í fyrradag. 

Ef maður dettur í hálku eða af hesti má senn fara búast við orðalaginu "mannfall varð."  


mbl.is Ein af 100 áhrifaríkustu í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjallir bændur á knörrum frekar en víkingar á langskipum.

Mýtan um að íslenskir landnámsmenn hafi upp til hópa verið blóðþyrstir víkingar á langskipum, samanber ósk Egils Skallagrímssonar:  "..höggva mann og annan", fær skell í fornleifarannsóknum. 

Raunar segir Egill sjálfur um ósk sína í ljóðinu "Það mælti mín móðir...", að hún hafi falist í að "..stýra dýrum knerri." 

Athyglisvert sjónvarpsviðtal var á Hringbraut við Árna Björnsson þjóðháttafræðing þar sem hann rökstuddi mjög vel og skemmtilega þá skoðun sína að nær allir landnámsmenn hafi verið bændur en ekki víkingar og komið hingað á knörrum en ekki langskipum. 

Egill rauði hafi verið ágætt dæmi um landnámsmann á Grænlandi, sem bjó á smájörð á Íslandi og þótti þröngt um sig. 

Svipað gæti hafa átt við um langflesta þá, sem komu hingað frá Noregi, landþrengsli eða að sætta sig ekki við að borga Haraldri hárfagra skatt. 

Gott og upplýsandi viðtal við Völu Garðarsdóttur á mbl.is. 

Henni sést þó yfir eitt veigamikið atriði varðandi rýrnandi landgæði, en það var hrís- og skógarhöggið sem svipti jarðveginn bindingu svo að uppblástur náði sér á strik. 

Orðið holt þýðir skóglendi, samanber "oft er í holti heyrandi nær" og þýska orðið "holz", og holtin á öllu höfuðborgarsvæðinu segja sína sögu. 


mbl.is Blómlegt mannlíf við landnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla lausungin gengur ekki lengur.

Vaxandi umferð á göngu- og hjólastígum kallar á það að skerpa á reglum um hjólreiðar. Náttfari í Elliðaárdal

En einnig þurfum við, hjólreiðafólk, og raunar allir í umferðinni að kynna sér þær breytingar og þau nýmæli, sem koma fram. 

Sem dæmi má nefna að margir vita ekki að nú er leyfilegt að fara á reiðhjóli eftir gangbraut sem liggur yfir akbraut, án þess að hjólreiðamaðurinn þurfi að fara af baki og leiða hjólið. 

Hann má hins vegar ekki fara á fullri 20 til 25 km/klst ferð, heldur að vera niður við gönguhraða. 

Mikið skortir upp á að hjólreiðafólk noti bjöllurnar til þess að láta vita af sér. 

Það er eins og að einhver feimni ríki við þetta eða að þeim, sem hikar við að hringja bjöllunni þyki bjölluhringing beri vott um frekju þess sem hringir. 

Bjölluhringingar og það að líta vel í baksýnisspegil eru nauðsynleg atriði í því að koma í veg fyrir óþarfa árekstra. 

Það er mjög óþægilegt að allt í einu þjóti fram úr gangandi eða hjólandi manni hjólreiðamaður á miklum hraða, sem hefur komið svo hratt aðvífandi, að það kemur öðrum í opna skjöldu. 

 


mbl.is Nýtt sektarákvæði fyrir hjólreiðafólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sífelld vandræði í gegnum tíðina.

Bjarni Vestmann er ekki fyrsti vélhjólamaðurinn, sem verður fyrir barðinu á lúmskri hálku á götunum. 

Sem dæmi um slíkt má nefna, að þegar verið er að leggja nýtt malbiksslitlag á götur myndast oft flughálka á því fyrst á eftir. 

Aldrei minnist ég þess að sett hafi verið upp aðvörunarskilti þar sem vélhjólamenm og aðrir ökumenn geta skyndilega lent úti á svo hálu malbiki, að það likist svelli. 

Þegar umferð er drjúg, geta önnur ökutæki skyggt á hinn nýja flughála kafla sem er framundan. 

Þannig voru til dæmis aðstæður þegar alvarlegt vélhjólaslys varð fyrir rúmum áratug og hins slasaða beið margra ára barátta og læknisaðgerðir til að komast í viðunandi heilsu á ný. 

Þegar rignir breytist fínn leir í hála slepju, og út um allt gatnakerfið má sjá á þurrum dögum hvernig stórir og breiðir bílar þeyta leirnum upp og búa til mekki af svifryki. 

Ég veit um mörg dæmi um svipuð óhöpp og slys vegna óforsvaranlegra aðstæðna.  

Það er engin afsökun að þetta hafi alltaf verið svona hér á landi. Það á alveg að vera hægt að hafa stjórn á þessu hér eins og erlendis. 

Lausnin felst m.a. í stóraukinni og örari hreinsun gatna, betra efni í götunum, minni notum negldra hjólbarða og að með lækkun á verði vetrarhjólbarða verði ökumenn hvattir og þeim auðveldað að skipta fyrr út slitnum dekkjum fyrir ný.  


mbl.is Lenti undir mótorhjólinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningin um oddaaðstöðu miðjuflokkanna og möguleika Sjalla.

Brotthvarf Bjartrar framtíðar úr borgarmálum er að leggja nýjar línur í borgarmálefnum. 

Verði niðurstöður kosninga svipaðar niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins þyrfti núverandi meirihluti að fá stuðning eins fulltrúa Viðreisnar eða annars miðjuframboðs. 

Núverandi meirihluti hefur fjógurra ára reynslu af því að vinna saman, svo að það þarf ekki að vera mjög flókið mál að kippa einum eða tveimur nýjum borgarfulltrúum inn í það.

Ef Sjálfstæðisflokkkurinn á hins vegar að eiga möguleika á að mynda meirihluta, þarf Eyþór að byrja viðræður við aðra flokka alveg frá grunni, sem gæti orðið flóknara mál en það yrði hjá Degi. 

Og þá er spurningin hvort Sjalla-Samfó módel gæti komið upp, sterkur tveggja flokka meirihluti. 

Yfirleitt eru borgarmál einfaldari pólitískt séð en landsmál og því gæti þessi möguleiki komið upp ef stjórnarkreppa verður í borgarstjórn. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byltingarkennt tengiltvinnhjól á leiðinni.

Einfaldleiki og léttleiki rafhreyfilsins er einn helsti kostur rafknúinna ökutækja. En langerfiðast er að eiga við þann ókost, hvað orkuberinn, rafhlöðurnar, eru þungar. 

Þannig eru rafhlöðurnar í algengustu rafbílunum um og yfir 300 kíló að þyngd, en það er um sjö sinnum meiri þyngd en bensín, sem gefur álíka drægni. 

Meira að segja í minnsta og langléttasta rafbíl landsins, hinum ítalska Tazzari Zero, vega rafhlððurnar 130 kíló, eða ca 15 sinnum meira en samsvarandi orka af bensíni myndi vega. 

Dæmið myndi líta oðruvísi út ef hægt væri að skipta rafhlöðunum út og setja hlaðnar í í staðinn fyrir tæmdar, eins og hægt er að gera á sumum nýjustu rafhjólunum. 

Ástæðan þess að hægt er að koma þessu svona fyrir á léttum vélhjólum er einfaldlega sú að þau eru margfalt léttari en bílar og þurfa margfalt minni orku.

Aðeins þarf laufléttan 125cc 15 hestafla hreyfil til að knýja létt vespuhjól upp í meira en 100 kílómetra hraða. 36. Léttir við Möðrudal,Herðubreið

Og um tvær 15 kílóa útskiptanlegar rafhlöður þarf til að knýja rafknúið hjól þannig að það sé vel brúklegt í umferðinni. 

Nú er Honda með tvö byltingarkennd hjól í smíðum, sem stefnt er að að setja á markað í Japan í lok þessa árs. 

Annars vegar Honda PCX hjól af svipaðri gerð og ég á, sem verður hreint rafhjól með útskiptanlegum rafhlöðum, sem á orkusölustöðvum framtíðarinnar yrði hægt að skipta þar út á svipaðan hátt og nú er hægt að skipta út gaskútum.

Slíkar orkustöðvar eru þegar komnar um allt borgarsvæði Taipei, höfuðborgarsvæði Taívan fyrir rafhjól af Gogoro gerð.  

Hins vegar er Honda með enn meira spennandi hjól, sem mér líst enn betur á hreint rafhjól, þ.e. fyrsta tengiltvinnhjól heims, sem líka verður byggt á PCX vespuhjólinu.  

Langlíklegast að þetta hjól verði með svipuðu fyrirkomulagi og flestir tengiltvinnbílar, með öflugri bensínvél en litla rafvél. 

Hjólið yrði þá afram með nógu öflugan 125 cc bensínhreyfil til að skila því upp í 100 kílómetra hraða en bætt yrði við nettum rafhreyfli, sem nægir- til 20 til 30 kílómetra aksturs. 

Bensíneyðslan á núverandi Honda PCX hjóli er aðeins rúmir 2 lítrar á hundraðið innan borgar en 2,5 á fullum þjóðvegahraða á landsbyggðavegum. 

Tengiltvinnhjól, sem bætir möguleikanum á akstri með rafafli eingöngu við þennan eiginleika, verður vegna léttleika síns og orkunýtni lang ódýrasti og umhverfisvænasti samgöngumátinn þegar þar að kemur. 


mbl.is Kippur í innflutningi tengiltvinnbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldur og ís í allan dag.

Fréttir dagsins eru litaðar af einkennum Íslands, eldi og ís. Fyrst eldsvoði við safn þar sem eru íshelldir og önnur undur landsins, sem eldvirkni og ís hafa skapað. Öræfajökull sigk. RAX

Síðan fullt Háskólabíó af fólki sem brennur af áhuga á kórónu landsins, Vatnajökli og eru á meðal félaga í samtökunum "Vinir Vatnajökuls."

Á meðfylgjandi mynd er Magnús Tumi Guðmundsson að halda fróðlegan fyrirlestur um jökulinn og eldvirknina undir honum. 

Einnig er hér fleiri fyrirlestrar með myndum framundan þegar þetta er skrifað hér í bíóinu, Óli og Tómas Guðbjartssynir og RAX, sem væntanlega á eftir að sýna myndir af sigkatlinum nýja í Öræfajökli. 

Það er heilmikið að gerast á þessu sviði þessa dagana, svo sem næstkomandi föstudag, þegar verður áhugaverð ráðstefna í Veröld, húsi Vigdísar, um samspil byggðar og þjóðgarða, sem Sigurður Gísli Pálmason er hvatamaður að. Vatnajökull, Háskólabíó


mbl.is „Ömurlegt að horfa upp á þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðflóttaaflið þeytir fólkinu áfram.

Í eðlisfræðinni er talað um miðflóttaafl. Hliðstætt miðflóttaafl var, er og virðist ætla að verða áfram í þróun byggðar á Suðvesturlandi. 

Hlutfallsleg fjölgun fólks á Suðurnesjum og á Árborgarsvæðinu á sér varla hliðstæðu síðan á tímum gríðarlegra fjölgunar í Kópavogi fyrir 60 árum. 

Í stórfjölskyldu minni eru teiknin skýr. Nú er fjórða kynslóð að koma til skjalanna, langafabörnin, og þau verða Njarðvíkingar. 

Afabörnin eru flest Mosfellingar. 

Um síðustu aldamót var tekin upp ofsafenginn áltrúnaður hér á landi, trúin á stórvirkjana- og stóriðjustefnu. 

Einnig trú á að markaðurinn sæi best um það sjálfur að standa fyrir mettun húsnæðisþarfar. 

Þegar hið "ómögulega", "eitthvað annað", brast á 2011 voru allir óviðbúnir varðandi uppbyggingu innviða og húsnæðismál. 

Æ stórkarlalegri og ævintýralegri kosningaloforð í húsnæðismálum í komandi kosningum eru dæmi um ástandið. 

En unga fólkið og þeir, sem minna mega sín, flytja ekki inn í kosningaloforð og tugi þúsunda íbúða, sem eru á pappírnum, meðal annars meðfram Borgarlínu, sem er líka á pappírnum. 

Ekki heldur inn í miklu dýrara húsnæði miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. 

Miðflóttaaflið þeytir þessu fólki til Þorlákshafnar, Selfoss, Voga og Reykjanesbæjar. 

Og ef verið er að leita að stjórnmálaflokki, sem beri ábyrgð á því andvaraleysi, sem ríkt hefur, hafa þeir nær allir verið við völd meira og minna síðan 2011 og geta því ekki fríað sig ábyrgð. 

Inn í tómarúm getuleysis flokkanna sækja því ný öfl. 

Það hlýtur að vera ein af ástæðunum fyrir því að nú hrúgast upp ný framboð sem keppast við að yfirbjóða hver annan með húsnæðismálaloforðum. 

Á meðan þau eru ekki orðin að veruleika í tilbúnu húsnæði heldur miðflóttaafl húsnæðisvandaræðanna áfram að svínvirka. 

 


mbl.is Nýju íbúðirnar of dýrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sýna mörk, skoruð á sjálfu HM, án þess að boltinn sjáist.

Upprifjun á HM í knattspyrnu frá fyrri tímum á mánudögum í Sjónvarpinu er góð hugmynd svo langt sem hún nær. 

Það er gaman að rifja upp minningar frá þessum mótum en þó einkum þeim þeim, sem voru áður en beinar útsendingar fengust frá þeim. 

Að maður nú ekki tali um þau heimsmeistarmót sem voru haldin áður en sjónvarp kom til sögunnar á Íslandi með Puskas, Pele, Garrincha, Eusebio og Maradona. Skoða nánar snilli þessra manna og umdeild atvik, fræðast um bakgrunn einstakra liða og manna og fylgjast með hugarástandi þeirra og persónuleikum í meðbyr og mótlæti. 

Þetta er það jákvæða, en það verður ekki komist hjá því að minnast á gallana. 

Það vekur undrun hvert kvikmyndagerðarmaðurinn er að fara. Oft er hreinlega eins og einhver áhugamaður hafi laumast að hliðarlínunni og reynt að taka myndir út frá svo flötu sjónarhorni og þröngu, að á myndinni er stundum engin leið að sjá hvar á vellinum boltinn er, hvað þá að gera sér grein fyrir leikskipulagi og yfirliti yfir völlinn eða gangi leiksins. 

Hins vegar eru endalausar þröngar myndir af mönnum eða líkamshlutum að kútveltast hver um annan. 

Í kvöld var þó sett nýtt met þegar sýnd voru ein fimm eða sex mörk skoruð í röð án þess að boltinn sæist nokkurn tíma í mynd! Einn og einn leikmaður sást hlaupa áfram, þannig að aðeins sást efri partur hans, og síðan heyrðust hljóð í áhorfendum. 

Þetta var vítaspyrnukeppni og ef það hefði ekki verið sagt áður í þulartexta að þetta væri vítaspyrnukeppni hefðu flestir áhorfendur myndarinnar verið engu nær. 

Þetta minnti mig á mynd, sem áhugamaður tók á leik í Neskaupstað í upphafi Sjónvarpsins, þar sem annað liðið skoraði 13 mörk. 

Af því að þetta var frægt, voru gerð þau mistök að kynna fyrirfram að við yrðum með mynd af leiknum og náðst hefði mynd af öllum mörkunum. 

En þegar til kom hafði myndin verið tekin á tvær fastar linsur, aðra mjög þrönga og hina mjög víða. 

Á víðu myndinni stóð kvikmyndatökumaðurinn uppi í brekku það langt frá vellinum, að hann var eins og krækiber í helvíti, bara smá blettur með einhverju á iði sem líktist tilsýndar eins og pöddur í moldarreit. 

Ef einhver mörk voru skoruð á þessu tímabili, var engin leið að sjá það. 

Síðan var setið uppi með mynd, þar sem tökumaðurinn áhugasami hafði farið alveg niður að hliðarlínu og allan tímann notað svo þrönga linsu, að það var bara boltinn, sem sást fara í milli fóta á mönnum, en þó hverfa langtímum saman meðan kvikmyndatökumaðurinn var að leita að honum fram og til baka með myndavélinni! 

Þegar mörkin voru skoruð sáust að vísu fætur spyrna boltanum út úr mynd og síðan tók við leit að boltanjum með þröngu linsunni, þar til hann kom loks inn í myndrammann, en þá á leið út úr markinu!  

Mikið var um háloftaknattspyrnu í þessum leik og elti myndavélin þrönga þá boltann af fótum manna hátt í loft upp og niður aftur, boing, boing, boing, svo að fjöllin við Norðfjörð gengu upp og niður úr myndfletinum! 


Sótt að stolti Vestmannaeyinga og Hornfirðinga.

Sú var tíð að ef einhver hefði spáð því, sem gerst hefur varðandi lundann og humarinn hér við land, hefði hann verið talinn eitthvað bilaður. 

"Þar sem lundinn er ljúfastur fugla..." söng Ási í Bæ og ef maður kom í heimsókn austur á Hornafjörð var hægt að ganga að því vísu að snæða humar sem hátíðarmat. 

Þegar norsk-íslenski síldarstofninn hrundi eftir 1965 sögðu menn við mig á Raufarhöfn: "Síldin lagðist frá." 

Það var óhugsandi að hún hefði verið drepin. 

"Lengi tekur sjórinn við" sögðu menn og óraði ekki fyrir því þeirri ógn sem nær takmarkalaus notkun plasts veldur. 

Þótt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi upplýst á landsfundi Miðflokksins að tvö stórfljót flytji 90 prósent af öllu því plasti, sem fer í sjóinn í heiminum, segir plastruslið á fjörum landsins og plastagnirnar, sem þegar eru komnar í umhverfið hjá okkur sögu, sem við getum ekki afgreitt með setningunni "svo skal böl bæta að benda á annað verra."  


mbl.is Veiðibann í sjónmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband