Krafan um einkafarartæki og dýrkun á stórum stöðutáknum eru sitt hvað.

Sverrir Agnarsson nefndir bíladýrkun Íslendinga sem höfuðástæðu fyrir góðu gengi Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins. 

Ekki þarf annað en að renna augum yfir bílaauglýsingar blaðanna til að sjá þar tákn dýrkunar Íslendinga á bílum sem stórum og voldugum stöðutáknum. 

Í 18 síðna bílablaði Moggans í voru svokallaðir jeppar aðalatriðið á 16 síðum af 18. 

Þegar nánar er að gætt er hér alls ekki verið að uppfylla raunveruleg not fyrir jeppa á torförnum leiðum, því að meirihluti þessara tískubíla eru svo lágir frá vegi þegar sest hefur verið upp í þá með farangri í ferðalög, að þeir komast ekkert frekar en venjulegir fólksbílar með fjórhjóladrifi. 

Í ofanálag er drjúgur hluti þessara svokölluðu jeppa ekki einu sinni fáanlegir með fjórhjóladrifi! 

Í mörgum öðrum löndum má sjá, að fólk áttar sig á því að það þarf ekki 1600 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti. En meðalfjöldi í hverjum bíl í borgarumferðinni er 1,1 maður. 

Í Japan væru umferðarvandamálin í borgunum löngu orðin óleysanlega ef ekki væri búið að vera þar kerfi í meira en hálfa öld, sem ívilnar bílum, sem eru ekki lengri en 3,40 metrar. 

Bílaflotinn ber þessa merki og þar eru til dæmis margir sex manna bílar, sem standast þessar kröfur, og bílar á borð við Daihatsu Cuore sem gefa sumum "meðalstórum" íslenskum bílum langt nef varðandi þægilegt set fyrir farþega. 

Nægt úrval er af bílum á markaði hér á landi, sem taka fimm í sæti með góðu móti, hafa nægan kraft og hraða, fá fimm stjörnur í árekstraprófum, eru með alveg þolanlegt farangurrými, en eru þó styttri en 3,70 metrar. 

Það er heilum metra styttra en meðallengdin sem íslenskir bíladýrkendur krefjast, en það er um 4,70 metrar. Léttir og Náttfari, Honda PCX og Dyun.

Þótt aðeins helmingur bílanna sem bruna með 1,1 mann um Ártúnsbrekkuna á hverjum degi væri metra styttri en núverandi meðalbíll, myndu 50 kílómetrar af malbiki verða auð samtals á hverjum degi, sem nú eru þakin bílum.

Ef fjölga mun um 70 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu fram til 2040 þýðir það að óbreyttri bíladýrkun fjölgun um 50 þúsund bíla. 

Augljóst er að þetta dæmi gengur ekki upp, vegna þess óheyrilega kostnaðar, sem fullnægjandi gatnakerfi kostar, auk þess sem það er einfaldlega ekki rými fyrir alla þessa bíla í umferðinni. Náttfari í smáherbergi.

Ég er eindreginn fylgismaður þess að hver íbúi á þessu svæði eigi sitt einkafarartæki. 

En þá verður að verða hugarfarsbreyting varðanda kröfu hvers manns á að eiga helst fimm metra langt tveggja tonna flykki fyrir hvern einasta mann. 

Með ívilnunum fyrir smærri bíla í japönskum stíl og með því að gefa fólki kost á að hafa innsiglaða vegalengdarmæla í bílum sínum og fá lækkun gjalda á þeim í samræmi við lítinn akstur er hægt að ná miklum árangri. Tazzari og Honda PCX

Ég hef undanfarin tvö ár verið með tilraun til þess að koma því þannig fyrir, að minnka vistsporið hvað snertir persónulegar ferðir á þann hátt að gerbreyta samgöngutækjunum, sem notuð eru og gera það þannig að láglaunafólk geti gert slíkt án þess að hagga í neinu við frelsinu, sem fylgir því að vera þó á eigin farartæki. 

Hef áður greint frá því og ætla ekki að endurtaka það að öðru leyti en því sem sést á tveimur myndum á síðunni, 700 þúsund króna fjárfesting í tveimur nýjum hjólum og 20 þúsunda króna mánaðargreiðslur til þess að eignast minnsta rafbíl landsins sem þó tekur tvo í sæti með fullum þægindum, nær 90 km hraða og hefur 100 km drægni. 

Kosturinn við að gera þetta svona er augljós: Vistsporið og umferðarvandinn fá tafarlausa lausn, sem hvorki borgarlína né kolefnisjöfnunartrjárækt leysa svona tafarlaust. 

 


mbl.is Óttast að Eyþór og Sigmundur nái völdum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pawel er laginn í samstarfi.

Nú, þegar Viðreisn er í afar sterkri oddaaðstöðu í borgarstjórn, verður forvitnilegt að sjá hvernig borgarfulltrúar flokksins spila úr sínum spilum. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hefur reynslu af ýmiskonar vettvangi, sem kann að koma sér vel í borgarstjórn, og Pawel Bartoszek hefur getið sér gott orð hvað varðar samningslipurð og lagni í stjórnmálastörfum. 

Um það get ég borið varðandi formennsku hans í C-nefnd stjórnlagaráðs, þar sem fyrirfram virtist vonlaust að komast að niðurstöðu vegna flækjustigsins varðandi kosningar og kjördæmi og ekki síður vegna þess hve gríðarlegur skoðanamunur var á milli nefndarmanna í upphafi. 

Meira að segja hafði í erindisbréfi stjórnlagaráðs verið lögð blessun yfir að engu yrði breytt í þeim málum. 

En fyrir sakir eindregins vilja nefndarmanna til þess að vinna sig fram til niðurstöðu, sem drægi fram sem flesta kosti mismunandi sjónarmiða, heits áhuga nokkurra nefndarmanna á þessu snúna sviði og ekki síst vegna þess að í nefndinni voru tveir stærðfræðingar, sem telja mátti mestu sérfræðinga á þessu sviði hér á landi, Pawel og Þorkel Helgason.

Farið var í víðtæka könnun á skipan þessara mála í öðrum löndum, en útkoman varð séríslensk lausn, sem byggði þó að sumu leyti á þeirri hollensku.  

Fyrirfram vissi ég að Pawel var í mörgu hægra megin í pólitíska litrófinu, en í vandasömum störfum sínum sem formaður, stóð hann sig að mínu mati afburða vel og sýndi mikla lipurð og sanngirni. 

Afraksturinn af góðu starfi kom bæði nefndarmönnum og öðrum stjórnlagaráðsfulltrúum þægilega á óvart. 

Það tókst að koma fram afnámi misvægis atkvæða og upptöku persónukjörs auk möguleika á því að kjósandi gæti skipt atkvæði sínu á þann hátt að það stæðist "álagspróf" þeirra Þorkels og Pawels.   

Ég hygg að þegar tímar líði fram muni kosningakaflinn verða talinn einn sá merkasti meðal lýðræðisþjóða.  


mbl.is Kominn í draumastarfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgi Sósíalistaflokksins vekur athygli. Refsing til handa Vg.

Í vetur hefur Sósíalistaflokkurinn verið eins konar athlægi margra sem hafa velt sér upp úr fylgisleysi flokksins. 

Annað er uppi á teningnum nú. Hann er risi miðað við Vinstri græn, sem bíða afhroð. 

Þetta slæma gengi Vg hefur lítið með frambjóðendur Vg að gera, heldur er þetta augljóslega landspólitíkin, sem spilar inn í, flokkurinn er klofinn að þessu leyti um landsmálin, og hin óánægðu í honum finnst borgarstjórnarkosningarnar ágætt tækifæri til að gefa honum risastórt gult spjald og refsa honum fyrir ríkisstjórnarsamstarfið. 

Í minni er lágt ris á Alþýðuflokknum í kosningum til bæjarstjórnar Reykjavíkur 1958 þegar flokkurinn var í vinstri stjórn, sem átti í erfiðleikum. 

Kratar guldu fáheyrt afhroð í þeim kosningum, en í tvennum kosningum 1959 réttu þeir heldur betur úr kútnum og sigldu inn í breytt stjórnarsamstarf sem entist í 13 ár. 

Núna liggja línurnar talsvert öðruvísi en 1958 til 1959 og orsakir atburðarásarinnar eru flóknari. 

Megin atriðið er þó óánægja með árangur í landspólitík. 

1958 var Sósíalistaflokkurinn gamli, sem hét raunar Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn, ekki með sérstakt framboð, það síðasta var 1954, fyrir 65 árum, árið eftir að Stalín dó. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rætist spáin um oddaaðstöðu Viðreisnar?

Fyrr í vor var því kastað fram hér á bloggsíðunni að Viðreisn kynni að verða í oddaaðstöðu í borgarstjórnarkosningunum ef núverandi meirihluti félli. 

Fyrstu tölur í kvöld benda til þess. 

Nóttin er hinsvegar ung og þetta verður spennandi.  


mbl.is Meirihlutinn fallinn í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáheyrður leikur.

Úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu er ekkert venjulegur leikur, svona álíka langt frá leik í fjölskyldumóti í útilegu og hugsast getur. 

Samt ráðast úrslit þessa stórleiks á tvennum mistökum markvarðar, sem jafnvel óreyndur markvörður í fjölskylduleik í útilegu, myndi varla gera. 

Tugir milljóna, jafnvel hundruð verða vitni að mannlegum harmleik markvarðarins, sem þarf að horfast í augu við heiminn með óbærilega skömm á bakinu. 

Síðan er það hitt atriðið í dramanu, að varamaður kemur af bekk Real Madrid, skorar glæsilegasta mark í sögu Meistaradeildarinnar og á síðan skot langt utan af velli, sem stefnir þráðbeint í hendur markvarðarins ólánsama, en skrúfast af þeim í markið. 

Mistök markvarðar Liverpool eru að því leyti verri en ella, að þau setja blett á annars einstæðan sigur og glæsilegan sigur Real Madrid þriðja árið í röð, því að þau ráða úrslitum um leikinn, sem annars hefði staðið jafn að loknum venjulegum leiktíma.  


mbl.is Gareth Bale stal stenunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er "vont veður" gott kosningaveður?

Frá upphafi Íslandsbyggðar hafa úrkoma og vindur haft á sér óorð. Á sumrin er slíkt veður illa séð fyrir útisamkomur og ferðalög og hefðin er nokkuð samfelld hvað það varðar að um aldir hefur votviðri um heyannatímann verið martröð bænda. 

Með breyttum þjóðháttum er þetta ekki lengur einhlítt. Þegar vel viðrar eru margir á faraldsfæti, en vvið það fækkar hins vegar þeim sem eru á ferli nálægt heimilum sínum og þar með nálægt kjörstöðum. 

Þegar talað er um gott kosningaveður í þeirri hugsun að sól og bliða felist í því, er því hugsanlega um úrelta hugsun að ræða sem miðist við allt aðra þjóðhætti og samgöngur en nú er, - best sé að veðrið sé nógu leiðinlegt til þess að það freisti ekki fólks til að fara í ferðalög í burtu frá lögheimilum sínum. 

Spurningunni um það hvort "vont" veður sé gott kosningaveður má kannski svara þannig, að hæfilegt votviðri með súld og litlu skyggni sé kannski skásta kosningaveðrið. 

 


mbl.is Úrkoman mest í Bláfjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leynileg kosning. Enginn kjósandi getur sannað, hvað hann hefur kosið.

Enginn kjósandi getur sannað hvað hann hefur kosið, ekki heldur með yfirlýsingum þar um.

Þegar talningafólk skoðar kjörseðilinn, telst hann ógildur ef eitthvað annað er ritað á hann en kross við listabókstaf eða útstrikanir eða breytt númeraröð við listann, sem krossað er við.

Raunar er bannað að hafa uppi áróður á kjörstað og ef af hlýst einhver rekistefna, en ansi margt sem flokkast gæti sem áróður. 

Kosningarnar í Reykjavík í dag eru spennandi vegna óvíssunnar um það hvað kemur upp úr kjörkössunum.

Tvær síðustu skoðanakannanirnar voru voru misvísindi og það eykur á óvissuna, en eyðir henni ekki.  


mbl.is Sanna Magdalena segist bjartsýn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný sýn á mataræði og umhverfismál, líka fyrir Íslendinga?

Tveir einstaklingar í nánustu fjölskyldu minni hafa verið eða eru það sem kallað er grænmetisætur. 

Sá eldri var þetta langt fram eftir aldri og einföldustu rök hans voru þau að það væri áttfalt betri nýting fólgin í þvi að nærast á fæðu, unninni úr maís og öðru dýrafóðri heldur en að nærast á dýrum, sem fóðruð væru með þessum jarðargróða. 

Ég leitaði að gagnrökum á þessum tíma og þau helstu voru þau, að á Íslandi væri vegna kalds loftslags ekki um sömu möguleika að ræða til að nýta jarðargróða til beinnar neyslu og í hlýrri löndum. 

Það væri því kannski ekki um annað að ræða en að nýta graslendið hér til að fóðra kvikfénað til slátrunar eða mjólkurframleiðslu. 

Í útskriftarboði Hinriks Arnar Þorfinnssonarar átti ég áhugaverð samtöl við þá bræður, og er sá yngri, Rúrik Andri, grænmetisæta. Hann taldi, að málið væri ekki svo einfalt að þessi íslenska röksemd um grasið ætti við, heldur yrði að skoða málið frá miklu víðara sjónarhorni á alheimsvísu. 

Og núna er ég ekki fyrr kominn heim en að sagt er á mbl.is frá nýrri og stórri úttekt á umfangi lífs á jörðinni, sem fær mann til að staldra við og skoða málið nánar upp á nýtt og í nýju ljósi. 

Það er ekki vanþörf á því, svo augljóslega hefur mannkynið vanrækt það. 


mbl.is Áhrif agnarsmáa mannsins á jörðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæstiréttur Íslands 2011 og 2018.

Í ársbyrjun 2011 úrskurðaði Hæstiréttur að ekki hefði að öllu leyti verið rétt staðið að framkvæmd kosninga til Stjórnlagaþings. 

Í úrskurðinum var hins vegar ekkert nefnt sem benti til þess að þetta hafði haft áhrif á úrslit kosninganna, enda voru þessar nefndu misfellur þannig, að þær vógu hvor aðra upp. 

Önnur var sú að hægt hefði verið að lesa af löngu færi yfir öxl kjósanda flókin talnaruna á kjörseðli hans, en hin misfellan átti að hafa verið sú að fulltrúar frambjóðenda hefðu ekki verið viðstaddir talninguna. 

Víða erlendis eru miklu meiri líkur á því að einhver geti gjóað augum að kjósanda, eins og sést á mynd af Trump og konu hans að kjósa í Bandaríkjunum, þar sem maður stendur fyrir aftan þau hjón. 

Sá úrskurður Hæstaréttar að stjórnlagaþingkosningin væri ógild var alveg á skjön við úrskurð Stjórnlagadómstóls Þýskalands, þar sem fundið var að framkvæmd kosninga en gefinn frestur til úrbóta í tvö ár og kosningarnar látnar standa. 

Ekki er vitað um neitt annað land í okkar heimshluta þar sem úrskurður á borð við úrskurð Hæstaréttar Íslands 2011 hefur verið kveðinn upp. 

Nú virðist Hæstiréttur hins vegar hafa tekið svipaðan pól í hæðina og Stjórnlagadómstóll Þýskalands gerði og úrskurðar að skipan dómara í Landsrétt skuli vera gildur. 

Það leiðir hugann að þeim endemum, sem fólust í úrskurði Hæstaréttar varðandi stjórnlagaþingkosningarnarTrump að kjósa 2011. 


mbl.is Segir rök Vilhjálms ekki sannfærandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytist mikið úr þessu?

Skoðanakannanir eru eitt en raunveruleg úrslit eru annað. Þetta hefur margoft verið sagt og stundum reynst rétt, en stundum ekki. 

Vitað er úr fyrri kosningum, að Píratar koma betur út úr skoðanakönnunum heldur en í kosningum. 

Stór hluti fylgis þeirra felst í fólki, sem hefur tileinkað sér netið öðrum fremur, og skilar sér því betur í gegnum það en með því að hafa fyrir því að fara á kjörstað. 

Það hefur margsinnis gerst í bæjarstjórnarkosningum og síðar borgarstjórnarkosningum í Reykjavík, að ekki hefur þurft meirihluta atkvæða til þess að mynda meirihluta borgarfulltrúa. 

Nú virðast mörg smá framboð eiga það á hættu að koma engum fulltrúa að, og fellur fylgi þessara litlu framboða þá "dautt" niður eins og það fyrirbrigði er stundum orðað að atkvæði dugi ekki til að skila af sér fulltrúa. 

En nú er aðeins einn dagur til kosninganna og niðurstöður skoðanakannana hafa verið nokkuð svipaðar um langa hríð, hvað sem kemur upp úr kössunum aðra nótt. 


mbl.is Sjö flokkar fengju fulltrúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband