LENGDARGJALDIÐ ENN OG AFTUR.

Síðustu misseri hef ég kynnt hugmyndir um svonefnt lengdargjald af farartækjum þar sem eigendur þeirra borguðu hlutfallslega fyrir afnot sín af gatna- og vegakerfinu. Íslandshreyfingin er eini flokkurinn sem hefur slíkt gjald á stefnuskrá sinni. Þetta er ekki skattur heldur það eitt að menn borgi fyrir afnot sín af vegakerfinu í hlutfalli við afnot. Ég tók sem dæmi umferðina um Miklubrautina.

100 þúsund bílar aka um Miklubraut á hverjum degi og væri helmingur þeirra tveimur metrum styttri myndi losna 100 kílómetra rými á þessari einu götu á hverjum degi, rými sem annars væri þakið bílum.

Fólk virðist hafa átt erfitt með að átta sig á þessu en um síðustu helgi blasti þetta ljóslega við þegar 80 kílómetra bílarröð myndaðist frá Hvalfjarðargöngum að Kambabrún.

Í þessari bílaröð voru ekki aðeins bílar í langferð heldur líka bílar sem á þessum vegaköflum eru nánast í innanbæjarumferð, því að nú orðið má skilgreina Mosfellsbæ og Hveragerði sem úthverfi á höfuðborgarsvæðinu.

Meginhluti bílanna var ekki með tjald- eða húsvagna í eftirdragi og sjá má á hverjum degi að stór hluti bíla sem ekið er í umferð innan höfuðborgarsvæðisins er alltof  stór miðað við not.

Í borgarumferð eru aðeins 1,1 manneskja um borð í hverjum bíl og augljóst að ekki þarf 5-6 metra 2ja til 3ja tonna dreka til þess að flytja 100 kíló af mannakjöti.

Það er sanngirnismál að menn borgi fyrir afnot af rándýrum samgöngumannvirkjum í samræmi við það hve mikið rými þeir taka í vegakerfinu.  

Í Japan hefur í bráðum hálfa öld verið notað skattakerfi sem miðast við ákveðna lengd og breidd bíla, - nú er þetta takmark 3,40m á lengd og 1,48 á breidd.

Íslenskt kerfi gæti verið mun sveigjanlegra og betra, aðeins yrði tekið gjald af hverjum sentimetra sem bíllinn er lengri en 3 metrar.

Það myndi þýða að Smart-bílarnir yrðu gjaldfrjálsir og minnstu bílarnir með tiltölulega mjög lágt gjald.

Þessir 4-5 sæta bílar, svo sem Toyota Aygo/Citroen C!/ Peugeot 107 og Fiat Seicento eru fullboðlegir til meira en 90 prósenta af erindagerðum nútímafólks.

Lengdargjaldið ætti ekki að verða viðbót við álögur á bíleigendur heldur þyrfti að endurskoða gjaldakerfið í heild sinni.

Lengdargjaldið myndi stuðla að minni mengun og eldsneytis- og rekstrarkostnaði bílaflotans.

Ég hef ekki enn heyrt rök fyrir því að hvaða leyti það gæti talist ósanngjarnt.


RÆTIN ÁRÁS Á STARFSHEIÐUR, BYGGÐ Á UPPSPUNA.

Í netgrein 19. júní fullyrðir Snorri Zophaníasson að ég hafi viljandi og hvað eftir annað laumað á sínum tíma inn í sjónvarpsfréttir röngum myndum af því svæði sem sökkva átti undir lón Norðlingaölduveitu í því skyni að koma inn hjá þjóðinni ranghugmyndum um það land sem ætti að sökkva. Þetta er óvenjulega rætin árás á starfsheiður minn og fréttastofu Sjónvarpsins, einkum vegna þess að myndskeiðin, sem Snorri talar um, voru þau einu réttu og þau einu sem voru til og birtust í fjölmiðlum á sama tíma og aðrir fjölmiðlar birtu rangar myndir. 

Ég fer þess á leit við Snorra að hann dragi ummæli sín til baka og biðjist afsökunar á þeim opinberlega vegna þess að hann birti þau opinberlega í vefmiðli sem er ígildi dagblaðs. Ef hann gerir það ekki verður hann eins og sannur vísindamaður að birta gögn sem sanna fullyrðingar hans og ásakanir um alvarlegt brot mitt í starfi. 

Ég vil trúa því að uppspuni hans byggist á misskilningi eða misminni og það ætti að vera auðvelt fyrir hann að nálgast rétt gögn til að leiðrétta ranghugmyndir sínar.

Þessi gögn eru mjög aðgengileg. Sumarið 2002 fjallaði ég "hvað eftir annað" eins og Snorri orðar það um úrskurð Skipulagsstofnunar um Norðlingaölduveitu og þær fréttir eru til í safni Sjónvarpsins. ´

Ég byrjaði að fjalla um úrskurðinn rétt áður en hann féll og gerði það síðan ítrekað næstu daga meðan málið var heitt og aðalfréttin í fjölmiðlum.

Þegar þessar fréttir Sjónvarpsins eru skoðaðar sést ótvírætt að eini fjölmiðillinn sem sýndi nokkrar myndir af lónstæðinu og einu réttu myndirnar var Sjónvarpið. Þessar myndir sýndu bæði gróðurlendið sem sökkva átti sem og þann hluta áreyra og farvegar Þjórsár sem fara myndi undir vatn.  

Einnig sýndi Sjónvarpið einu kvikmyndirnar sem til eru, svo vitað sé, af fossunum neðan við Norðlingaöldu sem veitan myndi hafa áhrif á.

Fyrr um sumarið hafði ég farið á eigin kostnað á landi upp í Eyvafen og þann hluta Tjarnarvers sem fara átti undir lónið, auk þess hluta Þjórsár sem Norðlingaölduveita myndi hafa áhrif á. Enginn fjölmiðlill hafði þá tök á eða nægan áhuga á að gera slíkt.

Við fórum akandi upp eftir á tveimur bílum, ég og Jóhann Ísberg ljósmyndari. Þar tók ég einu kvikmyndirnar sem til eru af þessu svæði og fór einnig fljúgandi yfir það á eigin kostnað og tók kvikmyndir af því, einu loftmyndirnar sem birtar hafa verið.

Engin stofnun eða fyrirtæki virðist hafa lagt í það að taka slíkar myndir og segir það sína sögu um ástand upplýsingamiðlunar í mörgum mikilsverðum umhverfis- og virkjanamálum á Íslandi.

Þegar aðrir fjölmiðlar birtu myndir með fréttum sínum notuðu þeir þær gamlar myndir sem þeir áttu af Þjórsárverum og voru teknar mun ofar í verunum og enginn annar miðill fjallaði um áhrifin á Þjórsá.

Ég efast ekki um að Snorra hafi eins og mér ekki líkað sú myndbirting en hún byggðist vafalaust á vanþekkingu viðkomandi blaða- og fréttamanna á staðháttum og hefur áreiðanlega ekki verið viljandi.

En í stað þess að gera við þetta athugasemdir opinberlega þá, kýs Snorri að bíða í fimm ár og snúa þessu öllu núna upp á eina fjölmiðlamanninn sem sýndi rétt gögn varðandi þetta mikilsverða mál og hnykkir á ummælum sínum með mjög rætinni ásökun um siðlausar rangfærslur mínar í fréttaflutningi þeirrar fréttastofu landsins, sem skoðanakannanir sýna að nýtur mests trausts.  

Landsvirkjun sendi fjölmiðlum aðeins loftmyndir af öllu virkjanasvæðinu teknar mjög hátt úr lofti sem gáfu enga mynd af því gróðurfari sem um ræddi í lónstæðinu.

Hér fyrir neðan fer orðréttur pistill Snorra um þetta með leturbreytingum mínum:

Það er ekki góður fréttaflutningur þegar fólk byggir hugmyndir sínar á misskilningi sem hefur viljandi verið laumað inn. Ómar Ragnarsson sýndi hvað eftir annað myndskeið af gróðurlendinu í Þjórsárverum á meðan hann fjallaði um Norðlingaölduveitu og lón hennar í sjónvarpsfréttum. Niðurstaðan er sú að stór hluti þjóðarinnar heldur að þar hafi verið sýnt land sem ætti að sökkva. Það er ekki rétt og stóð ekki til að spilla að neinu marki því sérstæða votlendi sem jafnan er vísað til í umræðunni." 

Fyrrnefndar fullyrðingar Snorra voru, eins og áður sagði, birtar á opinberum vettvangi fjölmiðils sem er ígildi dagblaðs. Þær eru því opinberar og ekkert einkamál okkar Snorra, enda hafði hann ekkert samband við mig áður en hann birti uppspuna sinn og ásakanir um siðlausar rangfærslur mínar sem vonandi eru byggðar á hans eigin misskilningi eða misminni.

Þess vegna er það sjálfsögð krafa að hann leiðrétti mistök sín og biðji mig og fréttastofu Sjónvarpsins opinberlega afsökunar á þeim.

Fram að þessu hef ég ekkert annað en gott að segja af kynnum mínum og samskiptum við Snorra og er reiðubúinn að sýna því skilning ef misminni hans hefur leitt hann á villigötur eins og komið getur fyrir hjá okkur öllum.

En vísindamaður eins og hann hlýtur að hafa það er sannara reynist og taka undir þá kröfu að rétt skuli vera rétt.


SVIPAÐUR VIÐSNÚNINGUR OG 2002 ?

Mér er minnisstætt hvernig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir veitti mér ítrekaðar ákúrur í umræðuþætti fyrir það að halda fram nauðsyn umhverfisframboðs sem veitti Samfylkingunni aðhald. Í dag segir hún í viðtali að stjórnvöld muni ekki skipta sér af virkjanaáformum en það er þvert á yfirlýsingar hennar fyrir kosningar um hið gagnstæða og það að ítarlegar rannsóknir á verðmæti náttúru Íslands þurfi á meðan margra ára hlé verði tekið í stóriðjuframkvæmdum.

Þetta minnir óþægilega á algeran viðsnúning meginþorra þingmanna Samfylkingarinnar 2002 varðandi Kárahnjúkavirkjun. Vonandi fer ekki eins á næstu árum og þá.

 Vísa til næsta bloggs míns á undan þessu bloggi, en það fjallar um fáfræðina, eina helstu forsendu stóriðjustefnunnar.  


STEFNAN SEM HEFUR FÁFRÆÐI AÐ FORSENDU.

Var að koma úr þriggja daga ferð um Kárahnjúkasvæðið og svæðið norðaustan Mývatns, - svæði sem stóriðjustefnan elskar að fólk viti sem minnst um, - helst ekki neitt. Töfrafoss, Hraukar og Gjástykki eru þar á meðal. Við Friðþjófur Helgason sigldum á Örkinni upp hinn nýja Kringilsárvog í Hálslóni, þar sem áður var Stuðlagátt, - að Töfrafossi og einnig sunnar að Hraukunum sem hvort tveggja er að sökkva.

Og hvað með það? Var ekki allt umtalið um Eyjabakka út af götu í Breiðholtinu, eins og Davíð orðaði það. Hraukar hvað?

Jú, í bátsferðum okkar undanfarið höfum við fylgst með þeim hluta Hraukanna, sem liggja niður vesturhlíð Hjalladals og sökkva hratt og örugglega. Hraukar eru fyrirbæri sem bara eru til við Eyjabakka og Kringilsárrana.

Sá hluti Hraukanna, sem nú er verið að sökkva, eru þeir einu í heiminum sem liggja svona í brekku. Afsakið, voru þeir einu í heiminum.

Í einni af greinargerðunum um Kárahnjúkavirkjun var sagt að hjallarnir og aðrar einstæðar jarðmyndanir í Hjalladal yrðu "varðveittir" í Hálslóni.

Hið sanna blasir við: Aldan í lóninu étur bæði hjallana og Hraukana í sundur á ótrúlega magnaðan hátt.

Í siglingunum upp að Töfrafossi hafa blasað við brekkur gilsins fyrir neðan fossinn, þaktar þykkum grænum og blómskrýddum gróðri að mestu.

Í blaðagreinum um virkjanamálin er reyndar tönnlast á því að verið sé að sökkva "eyðisöndum", - stóriðjustefnan nærist líka á því að endurtaka sömu lygina nógu oft.

Núna hefur verið einstætt tækifæri til að sjá stóra og kröftuga foss í síðasta sinn með sínu ósnortna umhverfi. Næsta vor verður hann að vísu sýnilegur snemmsumars áður en lónið kemst að honum og drekkir honum, en þá verða brekkurnar þaktar eðju úr Jöklu og leirfok úr þeim ef hreyfir vind.

Sem sagt, - sýn sem aðeins er hægt að sjá einu sinni og hvorki fyrr né síðar. Mikil umferð ferðamanna? Nei, ekki kjaftur enda er allt samgöngukerfið nú á þann veg á því svæði Brúardala sem liggur að vesturbakka Hálsóns í að kerfi vega og slóða er að mestu ónothæft.

Hálslón hefur drekkt slóðinni sem lá yfir Sauðá að Töfrafossi og engin verið gerð í staðinn. Að vísu er til slóð sem notuð var í nokkra áratugi á síðustu öld sem aðalleiðin um Brúardali og lá um svonefndan "flugvöll" sem svo var kallaður en varð að tilefni kærumáls nokkrum dögum fyrir síðustu kosningar.

Ég sá úr flugvél í dag stikur á þessari einu slóð sem hugsanlega er hægt að fara að vesturbakka Hálslóns en um hana ríkir fáfræðin ein. Enda langbest að sem minnst sé vitað um það sem þarna getur að líta, jafnvel þótt að aldrei verði aftur hægt að sjá þessi fyrirbæri.

Ég skoðaði virkjanasvæðið fyrir austan og norðaustan Mývatns í dag úr lofti og tók loftmyndir. Á þessu svæði urðu fjórtán hraungos á níu árum 1975 - 1984 og af þeim er til mikið af mögnuðum kvikmyndum.

Ef þetta svæði væri í Ameríku væri búið að nýta sér þetta til hins ítrasta fyrir ferðamenn, enda á svæðið, gosin, myndefnið og sagan sér enga hliðstæðu í heiminum. Þjóðina órar ekki fyrir því hvað virkjanafíknin á eftir að hafa í för með sér þarna og ég verð tímans vegna að geyma það að greina nánar frá því.

Því miður er þetta svo vita vonlaust hjá mér að ætla sér að reyna að miðla einhverri þekkingu um þetta í tíma, - hraði stóriðjulestarinnar er meiri en svo og virkjanasvæðin svo mörg.

Þegar er búið að veita rannsóknarleyfi í Gjástykki og reynslan af rannsóknarborholum frá Trölladyngju og Sogunum lofar ekki góðu.

En um þetta svæði gildir það sama og gilt hefur um virkjanframkvæmdir stóriðjustefnunnar að forsenda þess að hún hafi sinn framgang er að almenningur viti sem minnst um virkjanasvæðin og helst ekki neitt.

Nú er hádegi, 27. janúar, og ég hef fengið mjög athyglisverða athugasemd sem ég hvet lesendur þessa bloggs til að lesa, svo og andsvar mitt við henni. Það varpar kannski enn skýrara ljósi á það sem ég hef bloggað hér að ofan.

 

 

 

 

 

 


SÓMI AKUREYRAR OG SKÖMM REYKJAVÍKUR.

Fyrsta flug á Íslandi fór fram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Vagga flugsins varð þar aftur upp úr 1930 og síðan eftir stríð. En í Reykjavík er ekkert gert til að minna á þetta. Á flugvellinum stendur gamli flugturninn en úr honum var stjórnað stórum hluta orrustunnar um Atlantshafið, einnar mikilvægustu orrustu stríðsins. Það stefnir í að turninn verði rifinn og hann grotnar niður. Í hvaða nágrannalandi okkar sem væri hefði verið sett upp minjasafn í turninum þar sem hægt væri að sjá eftirlíkingu af starfseminni þar í stríðinu og þar væri krökkt af ferðamönnum á sumrin.

En hér er ekkert gert. Ekkert minnismerki er við nýju Hringbrautina þar sem stendur: "Hér fór fram fyrsta flug á Íslandi." Gamlir munir frá flugvellinum eru flestir týndir og tröllum gefnir.

Þó eru nokkrir þeirra varðveittir, en ekki í Reykjavík, - nei nánast eins langt úr alfararleið og hugsast getur, í minjasafninu á Hnjóti við Patreksfjörð!

Þar er líka varðveitt sjóskýlið úr Vatnagörðum, stórmerk bygging frá Reykjavík, full af flugsögu.

Flugminjasafn Íslands hefði átt að vera risið í Reykjavík fyrir langa löngu. En í staðinn er risið myndarlegt Flugsafn Íslands á Akureyri.

Sem bornum og barnfæddum höfuðborgarbúa rann mér til rifja hvernig hugsað er um flugsöguna í höfuðborginni þegar ég var fyrir norðan á flughelgi í dag, en fylltist jafnframt djúpri virðingu og þakklæti til byggðarlags, sem er tíu sinnum fámennara en höfuðborgarsvæðið og bjargar því sem bjargað verður á þessu sviði. 

Flugsafn Íslands á Akureyri er norðanmönnum til mikils sóma sem rétt er að halda á lofti. Og þeir sem standa að minjasafninu á Hnjóti geta líka verið stoltir af sínum hlut.  


ÞEGIÐU, BJARNI, ÞETTA ERU STELPURNAR!

Fyrir tæpum 40 árum var kallað upp í laginu um Jóa útherja: "KR-ingar, þið eigið leikinn!" Og strax var svarað: "Þegiðu, Egill, - þetta er landsliðið!" Egill þessi var rakari, hélt mikið með KR og var hávær í stúkunni. Bjarni Fel er sennilega þekktasti KR-ingurinn og þessa dagana gæti verið kallað: "KR-ingar, þið eigið leikinn!" Og strax yrði svarað: "Þegiðu, Bjarni, - þetta eru stelpurnar!" Og í kvöld hefði verið hægt að kalla upp eitthvað svipað á Laugardalsvellinum. Þetta voru stelpurnar og þær voru æðislegar.

Hugsa sér muninn að horfa upp á sömu markatölu, 5:0, og í síðasta karlalandsleik, bara öfugu megin!

Þetta er sérstaklega glæsilegt og ánægjulegt sem og metaðsókn að leiknum.

Ég uppgötvaði persónulega kvennaknattspyrnuna á eftirminnilegan hátt. Ég og bræður mínir stunduðum svonefndan fjölskyldufótbolta í Fram-heimilinu á laugardagsmorgnum og systkinabörnin tóku þátt með fullorðnu körlunum.

Ég var á tímabili lengi frá fótboltanum vegna tognunar í læri en kom síðan aftur til leiks. Þá vildi svo til, að eitt sinn er ég sótti að marki andstæðinganna, náði hún Magga, systurdóttir mín, boltanum af mér.

Og ekki bara það, stelpuskömmin lék laglega á mig og brunaði upp með boltann. Mér brá og hugsaði mér að láta krakkann ekki komast upp með þetta. En hún var furðu fljót og ég varð að teygja mig svo mikið á eftir henni að ég tognaði aftur í lærinu, féll við og stelpuskjátan skoraði.

Þetta var gríðarlegt áfall. Hafði mér förlast svona mikið? Hvað var eiginlega að gerast? 

Eftir sex vikna hlé kom ég aftur til leiks. En á því tímabili hafði komið í ljós að það var ekki bara að ég hefðí kannski ekki verið alveg eins frískur og fyrr, heldur var hún Magga byrjuð að blómstra í kvennaknattspyrnu með Breiðabliki þar sem hennar beið mikill frami, landsliðssæti og að vera valin efnilegasta knattspyrnukona landsins.

Já, Margrét Ólafsdóttir, frænka mín, kenndi mér góða lexíu og alltaf þegar stelpurnar brillera, gleðst ég yfir gengi þeirra og óska þeim hjartanlega til hamingju.  


NETÞJÓNABÚ FREKAR ER ÁLVER.

Nú kemur það æ betur í ljós sem ég hamraði á í allt vor, að það er glapræði að ætla að selja alla efnahagslega virkjanlega orku landsins til mengandi álvera þegar okkur býðst að selja orkuna á hærra verði til fyrirtækja sem menga ekki, skapa fleiri og betri störf á orkueiningu og eru af mun viðráðanlegri stærð en risaálverin.


mbl.is Kostnaður við orku til netþjónabús 20-30% lægri hér en í samkeppnislöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÁLVER HANDA ÖLLUM.

Atburðir síðasta sólarhring sýnir nauðsyn þess að sú draumsýn rætist að óslitin röð álvera blasi við erlendum ferðamönnum þegar þeir koma út úr Leifsstöð, - risaálver í Helguvík verði fyrsta mannvirkið sem blasi við þeim. Síðan er ótækt að jafn frumstætt sveitarfélag og Vogarnir taki við af Reykjanesbæ og nú hefur íbúafundur þar krafist álvers. Þótt Alcan reisi álver í sveitarfélaginu er fráleitt að álverið í Straumsvík verði lagt niður, þótt því hafi verið hótað til að hræða Hafnfirðinga til að knékrjúpa fyrir risaálveri þar.

Álverið í Straumsvík nýtur svo góðra kjara um orkuverð og er rekið með svo miklum hagnaði að auðvitað leggur eigandi þess það ekki niður. Og síðan væri upplagt að plata Hafnfirðinga, sem vildu ekki að álverið stækkaði til austurs, með því að stækka það til vesturs.

Hafnfirðingar neituðu því aldrei að álverið stækkaði í þá átt og því hefur verið lýst yfir að ekki verði rokið í atkvæðagreiðslu aftur, - í það minnsta ekki að frumkvæði bæjarstjórnarinnar.  

Af því að það hefur ekki fundist pláss fyrir álver í Reykjavík, því miður, verða erlendir gestir að þrauka ferðalagið í gegnum borgina með þá gulrót fyrir framan sig að tvær stórar og myndarlegar málmbræðslur blasi við þeim í staðinn þegar komið er inn í næsta sveitarfélag fyrir norðan höfuðborgina.

Þessar verksmiðjur þarf að hafa sem stærstar svo að tryggt sé að menn þurfi ekki að upplifa hinn mjög svo gamaldags Hvalfjörð með sínum krókótta vegi án þess að njóta nútíma tæknivædds útsýnis.   

Þótt röð háspennulína og virkjana eigi eftir að létt ferðamönnum lundina á leiðinni frá Leifsstöð alalt austur undir Landmannalaugar og láta þá sakna minna álveraleysisins í austurátt frá Reykjavík er ótækt að þeir stansi á útsýnisstað á Kambabrún án þess að sjá álver.

Sjá þarf til þess að risaálver sjáist sem víðast á Suðurlandi og kannski væri ráð að láta rætast gamla drauminn frá 1955 um hraðbraut um Þrengsli og Flóa þvert yfir Forirnar.

Þá væri tryggt að álverið sæist eins vel og unnt væri þegar komið væri niður í Þrengslunum og jafnframt von til að ná því takmarki síðustu aldar að ekkert votlendi verði eftir á Suðurlandi.

Draumavegurinn frá 1955 yfir Forirnar, þá slæmu vilpu, myndi þá rætast um síðir og Ísland komið í hóp iðnþróaðra ríkja.  


mbl.is Alcan óskar framlengingar á samkomulagi við Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NÝTT TILEFNI DAGLEGA TIL ÁFRAMHALDS.

Daglega gerast nú viðburðir sem gefa Íslandshreyfingunni og umhverfisverndarfólki yfirleitt tilefni til að halda áfram starfi sínu og efla það. Í gær var það Alcan-heimsókn til Þorlákshafnar,  -  í morgun var það hugmyndin um að sniðganga höfnun Hafnfirðinga á stækkun álversins í Straumsvík með því að stækka það til vesturs í staðinn fyrir að stækka það til austurs! Í kvöld var því lýst í Sjónvarpinu hvernig Álfurstarnir flögra um í sumarskapi eins og geitungar að finna nýja staði fyrir bú sín.

Fulltrúar þriggja álfyrirtækja keppast við að tryggja sér það sem eftir verður af efnahaglegri virkjanlegri orku landsins til álframleiðslu með ómældu tjóni á einstæðri náttúru landsins.

Í misvísandi yfirlýsingum ráðherra og loðnum stjórnarsáttmála er því miður ekki hægt að finna neina tryggingu fyrir því að hlé á stóriðjuundirbúningi verði nokkuð meira en þótt gamla stjórnin hefði haldið áfram.

Eina vonin er að umhverfisverndarfólk í stjórnarflokkunum standist þrýstinginn en til þess þarf það á öflugum stuðningi og aðhaldi að halda sjá fréttatilkynningu um að halda áfram og efla starf Íslandshreyfingarinnar.    


mbl.is Innra starf Íslandshreyfingarinnar verður eflt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

STÓRYRÐI ÁN INNIHALDS?

Úrskurður og þó sérstaklega orðaval siðanefndar Blaðamannafélags Íslands í dag vekur furðu margra því að með slíkri orðanotkun er hætt á því að hin stóru orð verði verðfelld og merkingarlítil. Ég vísa nánar til bloggs míns hér að neðan um þetta mál sem kallar á framhald og ítarlegri umræðu um þetta mál. 


mbl.is Kastljós mótmælir harðlega niðurstöðum og vinnubrögðum Siðanefndar BÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband