Ástæðurnar fimm fyrir því að búa á Íslandi.

Þegar síðuhafi verið spurður að því af hverju hann eigi heima á Íslandi hefur hann stundum svarað í hálfkæringi:  

Það eru fimm ástæður fyrir því: 

1. Ég er fæddur og uppalinn hér og lífsviðfangsefni og vettvangur bundinn þessu landi og þjóð. 

2. Það er lítið af skordýrum, meindýrum og svipuðum plágum.  

3, 4 og 5:   Ýsa, smjör og kartöflur. 

 

Varðandi ástæðu númer 2 hefur smám saman slegið fölva á hana. 

Þegar ég var ungur voru hér ekki ýmis skordýr sem síðan hafa sótt í sig veðrið. 

Starrinn var til dæmis ekki kominn til þess að sækja stíft í að gera hreiður í FRÚnni.

Kerfill var ekki nefndur.  

Ef satt er, að hægt verði að vinna bug á lúsmýinu láti Guð gott á vita. 


mbl.is Lausnin við lúsmý fundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjallsíminn er alls staðar.

Lengi vel var hægt að álykta sem svo að það væru aðeins ökumenn, sem yllu árekstrum, slysum, meiðslum og jafnvel dauðsföllum, vegna þess að þeir væru á kafi í snjallsímum sínum undir stýri. 

En með fjölgandi hjólreiðamönnum kemur í ljós að þeir eru líka að lesa undir stýri, og þar með er ljóst að gangandi vegfarendur eru líka uppteknir í símanum eða heyra ekki neitt, vegna þess að þeir eru að hlusta á hljóðgræjur.  

Samkvæmd dómi bresks dómara átti síðuhafi því hugsanlega mikla sök á því þegar hjólreiðamaður að lesa, sem ekkert fylgdist með umferðinni á móti á hjólastíg,  hljólaði skyndilega í veg fyrir hann í vetur.

Sök þess, sem varð fyrir barðinu á hinu óvenjlega háttalagi birtist þá því, af því að ævinlega megi gera ráð fyrir því að hver sem er geti hvar sem er verið vís til þess að vera í snjallsímanum eða með alla 100% athygli sína við eitthvað annað en akstur, hjólreiðar eða göngu sína. 

Athyglisvert að lesa um þetta. 

Fyrir síðuhafa hefði þetta geta þýtt það, að ævinlega þegar hann er á ferð á mjóum hjólastíg og fær annan hjólandi mann á móti sér, verði hann að fara út af stígnum og stansa þar, á meðan hinn hugsanlega lesandi maður (hann var að reyna að lesa á ógreinlegan mæli á hjóliinu með því að rýna lengi niður fyrir sig og sá því aldrei umferðina á móti)

Ef umferðin um hjólastíginn er mikill, gæti þetta kostað það að öllum beri að halda kyrru fyrir á þeim forsendum, að ef einhver er á ferð, sé hann á kafi í því að lesa í stað þess að horfa fram fyrir hjólið. 


mbl.is Sér fram á gjaldþrot eftir árekstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin raunverulega miðja höfuðborgarsvæðisins loks viðurkennd.

Frá upphafi þéttbýlis á bæjarstæði Reykjavíkurkaupstaðar var svæðið í kringum Tjörnina miðja þess. 

Þá lágu allar samgöngur af hafi inn til Reykjavíkurhafnar þar sem mættust sjóleið og landleið þaðan út um allt land. 

Þegar byggð óx, breyttust aðstæður mikið, og það mynduðust tvær meginlínur á landi, annars vegar frá Suðurland vestur um Seltjarnarnesið, sem Reykjavík stóð upphaflega alfarið á, en hins vegar sívaxandi umferð um leiðina að vestan og norðan og suður á Suðurnes í gegnum Mosfellsbæ, Ártúnshöfða, Mjódd, Smiðjuhverfi og Smárann í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfjörð. 

Þessar línur skerast í svæði sem er í raun stærstu krossgötur landsins og hafa verið það í nokkra áratugi. 

Engu að síður hefur hin gamla sýn um miðjuna við Tjörnina í Reykjavík haldið velli og bjagað raunhæfa sýn á það, að miðjan hefur færst þaðan austur í hverfið á Ártúnshöfða og svæðið þar í kring. 

Nú heyrist í fyrsta sinn svo síðuhafi muni úr munni borgarstjóra, að Ártúnshöfði liggi í miðju Reykjavíkursvæðisins og hefði það mátt gerast löngu fyrr. 


mbl.is Öðruvísi, betra og áhugaverðara hverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvelt að hefja stríð og skeyta ekkert um afleiðingarnar.

Það er því miður auðvelt að hefja stríð og skeyta ekkert um afleiðingarnar. Hernaðarsagan geymir mörg dæmi um þetta. 

Þjóðverjar dulbjuggu menn sem póska hermenn og settu á svið þegar þeir réðust yfir á þýskt landssvæði 1. september 1939.  

Hitler hélt að Bretar og Frakkar myndu ekki segja Þjóðverjum stríð á hendur þótt þýskur her réðist inn í Pólland, en misreiknaði sig herfilega í þeim efnum. 

Heimsstyrjöldin endaði réttum sex árum síðar. 

Það að senda dróna á loft yfir á svæði, sem erfitt er að sanna hvort sé í lofthelgi óvinaþjóðar, er auðveld aðferð til að hefja stríð, ef dróninn er skotinn niður. 

Trump hefur markvisst unnið að því að rífa niður og ógilda samninga, sem búið var að gera við Írani, og nánast allt sem hann segir veldur vaxandi óvissu og spennu, eykur ófriðarhættuna, hækkar olíuverð á heimsmarkaði og býr til nýjar ástæður fyrir því að stigmagna stríðshættuna. 

 


mbl.is Olíuverð hækkar í kjölfar tísts Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýraverndarákvæði í stjórnarskrá!

Stjórnarskrá stjórnlagaráðs er með einu stuttu en ákveðnu ákvæði um dýravernd. Miðað við það hvernig jarðarbúar leika margir hverjir dýrin, sem eru uppistaða fæðu þeirra meira en sjö milljarða manna, sem búa á jörðinni.  

Fréttir frá Noregi koma ekki á óvart, og hér á landi var það réttlætt fyrir nokkrum misserum að gelda grísi ódeyfða. 

Slæm fóðrun skýtur líka oft upp kollinum, og rétt eins og að í nýrri stjórnarskrá sé ákvæði um meðferð lands og landsgæða er ekki síðri ástæða fyrir ákvæði um dýravernd. 


mbl.is Vill þessi stétt vakna á morgun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7 sekúndurnar voru samkvæmt Evrópustaðli fyrir 40 árum.

Sérstök ljós fyrir beygjur komu fyrst til sögunnar hér á landi fyrir rúmum 40 árum og þá strax byrjuðu hin séríslensku vandræði með sjö sekúndurnar, þannig að það þýðir ekkert að kenna Degi B, Ingibjörgu Sólrúnu, Davíð Oddssyni eða öðrum borgarstjórum síðari áratuga um þessi vandræði.  

Erlendur sérfræðingur var hafður með í ráðum, þegar beygjuljósin voru stillt og lagði hann til í ljósi reynslunnar erlendis, að láta slík ljós loga allt niður í sjö sekúndur í einu, en í Evrópu átti sá tími yfirleitt að nægja til þess að 5-7 bílar kæmust yfir á grænu ljósi. 

Sérfræðingnum yfirsást hins vegar hegðunarmynstur íslenskra bílstjóra, sem afrekuðu það oft á tíðum að sjaldan komust fleiri en tveir bílar yfir á ljósinu og í sumum tilfellum einn eða jafnvel enginn bíll. 

Og í ofanálag var það algengt að menn héldu áfram að dratthalast í beygjunni eftir að komið var rautt ljós og valda með því öryggisleysi og hættu í umferðinni. 

Ástæðurnar fyrir þessu rammíslenska rugli okkar eru margar, en lýsa sér yfirleitt þannig, að engu er líkara en að bílstjórar séu sofandi eða á kafi í símunum sínum. Nefnum tvennt:  

1. Þeir sem eru fremstir við ljósin eru hálfsofandi eða að fást við snjallsímann og hafa enga tilfinningu fyrir því að sofandaháttur þeirra og sérgæska skaði þá sem eru fyrir aftan þá. Stundum eru margir tugir metra á milli bílanna þegar þeir drattast yfir. 

2. Á mörgum gatnamótum halda ökumenn áfram að aka yfir eftir að rautt ljós er komið fyrir framan þá og koma með því í veg fyrir að þeir, sem þá eru búnir að fá grænt ljós í öðrum akstursstefnum, geti nýtt sér það. 

Á mörgum gatnamótum er því meira og minna umferðarstopp þegar bílar, sem drullast hafa inn á gatnamótin, hafa lent þar í kös sem lokar fyrir allt flæðí. 

Víða í landi frelsisins, Bandaríkjunum, er bannað að fara inn á gatnamót ef bílstjóranum má vera það ljóst að hann muni festast þar og valda umferðaröngþveiti.  Liggja viðurlög við. 

Enda líta menn þar í landi svo á, að enginn hafi rétt á að skerða frelsi annarra af geðþótta sínum. 

Ekki er kunnugt um að nokkurn tíma hafi neitt verið gert hér á landi til að stemma stigu við svona háttalagi. 

Á sínum tíma var kvartað við erlenda sérfræðinginn, en hann hristi hausinn og sagðist aldrei hafa séð annan eins vitleysisgang. 

Eftir að hann var farinn var byrjað á að lengja tímann fyrir græna ljósið, en eftir bráðum hálfrar aldar afmæli beygjuljósanna, hefur ekkert breyst. 

Allir bölva öllum fyrir ástandið en enginn gerir neitt til að breyta því. 

Enda þarf ekki nema einn eða tvo drulluhala til þess að valda usla með sauðshætti sínum. 

Stundum hefur verið sagt að sauðkindin sé hin heilaga kýr Íslands. 

En almennt má alveg eins segja að sauðshátturinn sé hin heilaga kýr okkar. 

 

 


mbl.is 7 sekúndna grænt ljós „algjörlega ólíðandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bólusetningar lögðu grunn að langlífi núlifandi jarðarbúa.

Það er svo margt sinnið sem skinnið segir máltækið, en samt er merkilegt að það skuli vera 4% fólks sem hefur enga trú á því fyrirbrigði sem framar flestu skilaði mannkyninu mun lengra lífi að meðaltali en áður var. 

Átakanlegt var í vetur að hlusta á upplestur á þeim, sem hvíla í Víkurkirkjugarði og heyra nöfn alls þess fjölda kornungra barna og unglinga í æskublóma sem þar hvíla. 

Fyrir meira en 20 árum ákvað síðuhafi að láta það vera að fara í bólusetningu við flensu. 

Og viti menn, næstu rúmum 20 árum fékk ég aldrei neina kvefpest né flensu, og síðara tímabilið sem ég var í föstu starfi hjá Sjónvarpinu var ég með engan, - endurtek, - engan veikindadag. 

En þetta var auðvitað of gott til að vera satt, því að í vor fékk ég heiftarlega flensu sem endaði með lyfjagjöfum gegn lungnabólgu, sem komin var til skjalanna í fyrsta sinn á ævinni. 

Og nú er runnin upp ný tíð bólusetninga og aukinnar varkárni. 

Eins og svo oft voru bæði slæmar og góðar fréttir varðandi hinn nýja veruleika. 

Slæmu fréttirnar fólust í því að einstöku tímabili í lífi mínu væri lokið hvað varðaði flensu, umgangspestir og jafnvel lungnabólgu. 

Góðu fréttirnar voru hins vegar þær að á rúmlega 20 ára tímabili hafði ég grætt margar vikur samtals, já, jafnvel mánuði þar sem ég var vinnufær í stað þess að kvefpestir, umgangspestir flensa og lungnabólga væru að skerða þrek til vinnu og bærilegs lífs. 

Ofangreint á að vísu aðeins við pestirnar frá 2007. Ekki var ég fyrr hættur föstum störfum en líkamleg áföll af öðru tagi en "pestir" bönkuðu á dyr eins og gengur. 


mbl.is 40% efast um öryggi bóluefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikar æsast í keppni Airbus og Boeing.

Eftir að Boeing sýndist hafa farið illa út í því viðskiptastríði, sem háð er á tveggja ára fresti á flugsýningunni í París, og þurft að sætta sig við auglýsingu á pöntun 100 Airbus 321 XLR þotum á sýningunni, kemur nú tilkynning um tvöfalt stærri pöntun hjá British Airways á Boeing 737 MAX, og ekki bara það, heldur fráhvarf eiganda BA, IAG, frá því að kaupa Airbus þotur. 

Þetta þýðir að leikar æsast og verða spennandi, því að eftir langvarandi undanbrögð Boeing varðandi vandræðin með MAX þoturnar hefur efi vaxið um það að hægt verði að leysa þau mál. 


mbl.is Kaupa 200 nýjar Boeing 737 MAX vélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnug eftirsókn í að sækja að öryrkjum.

Nú eru að birtast tillögur um breytingar á fjárhagsáætlun næstu ára í ljósi breyttra aðstæðna. 

Gamalkunnugt stef birtist umsvifalaust: Að ná í peninga með því að hafa það af öryrkjum, sem til stóð að þeir fengju og verði um að ræða að ná milljörðum af þeim.  

Og nú heyrist ekki betur en að lagt sé til á Alþingi að hækka beri laun þingmanna og þá sérstaklega þeirra sem stofna nýja stjórnmálaflokka!  

Alveg upplagt að nota peningana, sem á að ná af öryrkjunum til að hækka laun þingmannanna, sem verið er að ræða um núna á Alþingi. 

Og samt er nýbúið að stórhækka framlög til þingmanna og veita stórauknu fé til kostnaðar vegna aðstoðarmanna þeirra. 


mbl.is Milljarðalækkun framlags til öryrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refurinn, umdeildur og illa séður alla tíð.

Íslenski refurinn hefur veri[ umdeildur og notið ills umtals frá landnámi. 

Illt umtal helgast af því að hann getur verið það sem kallað er dýrbítur, en sá eiginleiki hans er hins vegar ekki áunninn heldur áskapaður, því að dýrið flokkast sem rándýr. 

En ef refurinn værir svo vinsamlegur að undanskilja sauðkindur og æðarfugla frá þeim dýrum, sem hann vill lifa á, væri umtalið um hann væntanlega allt annað en það er. 

Á Norðurlöndum er úlfurinn í sama flokki og refurinn varðandi megna andúð manna á honum, og er það af svipaðri ástæðu; úlfurinn er svo óheppinn að vera skapaður sem rándýr af þeim sama Guði og kristnir menn tilbiðja sem algóðan. 

Ótal tilbúnar eða sannar sögur af illu eðli úlfa og refa eru óendanlega margar orðnar í gegnum aldirnar. 

Og eru allar á þá lund að þetta séu alveg sérstaklega illa innrættar óvættir. 

Orð eins og refskapur og úlfur í sauðargæru, að ekki sé nú minnst á úlfinn, sem vildi éta ömmu Rauðhettu, eru dæmi um þetta. 

Eftir að refir urðu friðaðir á Hornströndum var sett í gang mikil herferð gegn þessari friðun með þeim rökum, að refum myndi fjölga svo mikið að hann myndi útrýma öllu fuglalífi á þeim slóðum, og raunar helfur betur en það, því að þaðan myndu streyma refir út um allt land til þess að eyða öllu eðlilegu og góðu dýralífi. 

Nú eru komnir nógu margir áratugir síðan friðunin hófst, að refurinn ætti að vera búinn að klára þessa útrýmingarherferð, en svo er hins vegar ekki. 

Enda voru engir menn til að halda refnum í skefjum fyrir landnám Íslands, og því merkilegt að honum skyldi ekki takast á þeim 11 þúsund árum, sem hann hafði frið til eyðingarstarfs síns að eyða öllu lífi. 

Því er ekki að neita að refurinn taki sinn toll í veiðum sínum, en hins vegar er til það lögmál í náttúrunni, að hún leiti sem betur fer oft jafnvægis sjálf á þessu sviði. 

Áður en hvalveiðar hófust fyrir alvöru hér við land höfðu hvalir frítt spil til að eyða öllum fiski í tugi og hundruð þúsundir ára. 

En tókst það ekki.   


mbl.is Æ algengari sjón í Heiðmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband