Hvað, ef hraunið á eftir að verða tólf sinnum stærra en það er núna?

Upplýsingar Þorvaldar Þórðarsonar um hraunið sem kemur úr gosinu í Geldingadölum, eru mjög athyglisverðar og lýsandi fyrir þau flóknu  viðfangsefn sem blasa við varðandi það að veitt verði viðnám gegn framrás hraunsins, til dæmis í formi brúargerðar yfir Suðurstrandaveg sem fjallað er um í næsta bloggpistli á undan þessum. 

Á loftmynd í viðtengdri frétt á mbl. sést vel að hinn svarti flötur hraunsins er kominn langleiðina niður að Suðurstrandarvegi. 

En Þorvaldur telur sjást af öðrum gögnum, að hið mjög svo þunnfljótandi hraun sem er allt að 1000 til 1400 stiga heitt, liggi undir meirihluta hraunsins og finni sér ófyrirsjáanlega farvegi til framrásar. 

Erfiðasta matsatriðið er þó sennilega að áætla hve langt gosið verði. 

Í Kröflueldum sem líta má á sem eitt gos í níu goshrinum á níu ára tímabili kom upp hraun sem breiddi sig yfir 35 ferkílómetra alls, eða tólf sinnum meira flatarmál en hraunið úr Geldingadölum er orðið nú. 

Hvernig sem þetta fer nú verður ekki hjá því komist að gera ráð fyrir löngu gosi og útbúa skástu aðgerðir til þess að hafa áhrif á rennsli hraunsins og tjónið af því. 

Margar sviðsmyndir má gera með ýmsum útfærslum, svo sem leiðigörðum, varnargörðum, brú yir Suðurstrandarveg fyrir bíla eða jafnvel niðurgrafinn farveg fyrir hraunstrauminn, sem lægi undir brú.  

En á meðan gosið er enn í gangi verður ekki komist hjá því að gera áætlun varðandi áratuga gos og hafa í huga að hraunið sem kom upp í gosinu í Holuhrauni 2014-2015 er 85 ferkílómetrar eða um 30 sinnum stærra en hraunið við Fagradalsfjall er nú. 


mbl.is Aukin virkni í Geldingadölum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsagt að pæla, en óvissuþættirnir eru líklega allt of margir.

Ef reyna á að láta hraunflóðið, sem kemur meira þúsund stiga heitt upp í Geldingadölum lyfta sér upp til að renna á manngerðri brú þvert yfir veginn hrannast upp svo fjölmargar spurningar um það hvernig eigi að temja þessa ófreskju, sem hingað til hefur fundið sér nýja og nýja farvegi til að renna fram bæði undir hrauninu, utan þess og í í duttlungarfullum straumum í gegnum það. 8c.Ísólfsskáli(2)

Hin nýja útfærsla á því að stýra rennsli hraunsins yfir Suðurstrandaveg segir höfundurinn að geti miðast við að gosið og hraunrennslið endist í mörg ár. 

Ef gosið endist í áratugi, sem er ekki útilokað, eru margfalt meiri verðmæti en Suðurstrandarvegurinn í hættu, Grindavíkurkaupstaður, Svartsengi og Bláa lónið. 

Þegar það er haft í huga og sú sviðsmynd tekin inn í heildarmyndina, er hún bæði langstærst, dýrust og mikilvægust. Eyjagos í na.

Svo langur kafli Suðurstrandarvegarins liggur þvert í stefnu hraunsins til sjávar, að hætt er við að mikið þurfi að hafa fyrir því að leiða hraunið allt á tiltölulega stuttum kafla yfir veginn. 

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingu var að lýsa því áðan hvernig myndir teknar með sérstaki tækni beint ofan á hraunið sýndu miklu meiri og flóknari útbreiðslu hins ofurheita hrauns undir hraunbreiðunni en sést af landi. 

Eini árangurinn, sem náðst hefur að marki hér á landi var fólginn í því að safna saman öllum fáanlegum öflugustu vatnsdælum landsins og Varnarliðsins til að dæla köldu vatni á hraunið sem hrúgaðist upp á leið sinni út úr gíg Eldfells. 

Myndin er tekin á fyrsta gosdegi, en í fyrstu var eldvirknin á 1500 metra langri sprungu. 

Þetta hraun var miklu meira seigfljótandi en hraunið við Fagradalsfjall og því tókst að kæla hraunjaðarinn og það sjálft nógu mikið með vatnsaustrinum til þess að það stöðvaðist mun fyrr en ella.

Ofan á hrauninu flaut stærðar hraunhæð, sem fékk heitið Flakkarinn, og færðist um mörg hundruð metra á ógnandi ferð, en stöðvaðist líka nógu snemma. 

Heimaeyjargosið stóð aðeins í rúma fimm mánuði og óvíst er um endalokin ef það hefði staðið árum saman. 


mbl.is Vill hraunbrú yfir Suðurstrandarveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gáfu "Bæjarins bestu" tóninn um gildi hugkvæmi varðandi ferðamannastaði?

Fyrir nokkrum misserum var spurt um það í kynningarbæklingi í íslenskum þotum, hver væri fjölsóttasti veitingastaðurinn í Reykjavík. 

Ef rétt er munað var svarið: Pylsusöluskúrinn "Bæjarins bestu" við Tryggvagötu. 

Upphafið að því ævintýri var að réttur maður á réttum stað, Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseti fékk sér þar pylsu í heimsókn til Íslands. 

Fram að því vissu flestir Íslendingar af tilvist þessa litla skúrs en enginn sá möguleikana á þessu stóraukna gildi hans. 

Fyrir nokkrum sumrum varð flak Douglas DC-3 á Sólheimasandi einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins. 

Mörgum árum fyrr hafði verið sýnd mynd af flakinu í sjónvarpi án þess að nokkur hreyfing yrði á ferðum fólks þangað. 

Margsinnis og fyrir löngu var búið að sýna myndir af Reynisfjöru í sjónvarpi áður en hún varð að að eftirsóttum ferðamannastað. 

Fjaðraárgljúfur var sýnt stuttlega í sjónvarpi fyrir rúmum aldarfjórðungi og aftur rækilega í sjónvarpsþætti fyrir átta árum. 

Eitthvað glæddist áhuginn á gljúfrinu við þetta, en ekkert í líkingu við þá sprengingu sem Justin Bieber, réttur maður á réttum stað, olli tveimur árum síðar þegar varð að loka því á tímabili vegna ágangs. 

Á mbl.is í dag er viðtengd frétt þar sem er yfirlit yfir fjölda góðra hugmynda varðandi áningar- og ferðamannastaði á Suðausturlandi. 

Og í viðtengdri frétt um veitingastaðinn "Matarvagninn Hengifoss Food Truck" er greint frá skemmtilegum hugmyndum um matvörur á boðstólum á borð við sauðamjólkurís. 

Hengifoss er einn af allra hæstu og flottustu fossum landsins með stórkostlegt gljúfur og hamramyndanir umhverfis sig, en hefur hingað til ekki fengið þá athygli, sem hann á skilið. 

Nú er að skilja á fréttum að bæta eigi úr skorti á góðu aðgengi að fossinum og hefja gildi hans upp á hærra plan. 

Það er vel, og sauðamjólkurís í veitingavagni ætti ekki síður að geta orðið aðdráttarafl og tekjulind en pylsur með öllu í litlum skúr við Tryggvagötu. 


mbl.is Selur sauðamjólkurís við Hengifoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárhagsráð átti hlut í Evrópumeistaratitli Torfa 1950.

Á árunum 1945 til 1955 glímdu þjóðir Evrópu við djúpa efnahagskreppu af völdum nýlokinnar heimsstyrjaldar. 

Í flestum löndum svo sem Þýskalandi, voru heilu borgirnar í rúst og sár skortur á nauðsynjavörum. 

Stofnun Marshallhjálpar og Kola-og stálsamsbands Evrópu voru neyðarúrræði til að komast hjá algeru hruni. 

Í öllum löndum var grimm skömmtun með tilheyrandi biðröðum. Grundvallarhráefni eins og stál, var af skornum skemmti.  Trabant var afkvæmi þessa ástands, var framleiddur úr plasti, unnu úr afgangsbómull. 

Háir innflutningstollar afbökuðu framleiðsluna og bægðu burtu vörum, sem síðar urðu sjálfsagðar. 

Þegar síðuhafi dvaldi 14 ára gamall í sex vikur í Kaupmannahöfn sumarið 1955 var Coca-Cola óþekktur drykkur þar í landi og amerískir bílar sáust varla. Danir sötruðu danskt Jolly-Cola í staðinn og einu nýju bílarnir voru Citroen braggar og litlir breskir Austin og Morrisbílar með útliti fyrirstríðsáranna.

Danirnir trúðu því ekki að amerískir bílar væru í yfirgnæfandi meirihluta í bifreiðaflota Íslendinga og að Willys jeppar væru langvinsælustu bílar landsins. 

1950 var morgunkorn á borð við Corn-flakes og Cherious óþekkt á Íslandi. Um vorið kom ný gerð af stökkskóm á markað erlendis, en Íslendingar voru með flest slíkt á harðsnúnum skömmtunarlista hjá nefnd, sem var með einræðisvöld yfir innflutningsleyfum og nefndist Fjárhagsráð. 

Þótt KR væri stórveldi þá á flestum sviðum íþrótta fékk félagið aðeins úthlutað tvennum pörumm af hinum byltingarkenndu skóm, og vegna eftirspurnarinnar var haft hlutkesti um þá. 

Torfi Bryngeirsson var svo heppinn að vinna annað skóparið, og sagði síðar, að sú heppni og hlutdeild Fjárhagsráðs í góðu gengi hans og Evrópumeistaratitli í langstökki hefði ráðið úrslitum. 


mbl.is „Hefðu átt að grípa inn í“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftbelgur rakst á raflínu í Leirársveit fyrir 45 árum. Flugmaðurinn slapp vel.

Loftbelgsflug er ekki hættulaust frekar en annað flug eins og dæmin sanna. Hér á landi er óhætt að segja að mikill heppni hafi verið yfir slíku flugi, og má þakka fyrir það. 

Eftir um það bil tíu daga eru rétt 45 ár síðan flogið var í fyrsta sinn með farþega í loftbelg hér á landi. Farþegaflugið sjálft var að vísu mjög stutt, innan við tveir kílómetrar á Álftanesi, þar sem lagt var í hann. 

Farþeginn var með farangur, myndavélar, sem hann setti inn í körfu belgsins. 

Vindur var talsverður á suðsuðvestan og með byljóttum skúrum, og því gekk flugtakið illa, því að vindurinn feykti belgnum það hratt í láréttri stefnu, að hann náði ekki flugi heldur dró belgurinn körfuna eftir túnskákinni þar sem ferðin hófst. 

Síðuhafi átti að verða fyrsti loftbelgsfarþeginn hér á landi, en varð að byrja á því að hjálpa til í upphafi við að halda belgnum föstum á með loftbelgstjórinn og eigandi belgsins kynti gastæki hans eins og hann ætti lífið að leysa til að gefa honum lyftikraft og láta belginn rísa til himins. 

Flugtaksbrunið varð því á talsverðum hraða eftir allri túnskákinni í gegnum girðingu við enda hennar, yfir Álftanesveginn, gegnum girðingu hinum megin, þar sem belgurinn stóð fastur í nokkur augnablik en reif sig síðan lausan og tók loksins flugið. 

Alla þessa þeysireið hékk farþeginn utan á körfunni án þess að komast upp í hana, og hékk áfram utan á henni þegar hún hækkaði flugið, þá búinn að missa af sér stígvélin og orðinn blóðrisa á fótunum. 

Flugstjórinn heyrði ekki köll farþegans vegna hávaðans í gastækjunum, sem hann kynti ains og óður væri og sá heldur ekki hendur farþegans, sem héldu dauðahaldi í brún körfunnar. 

Nokkur skelfileg augnablik að horfa niður og sjá jörðina fjarlægast vitandi það að stutt væri í það að missa dauðahaldið í körfubrúnina. 

En til allrar hamingju kom smá niðurstreymi og karfan féll til jarðar, þar sem farþeginn kastaðist af henni og kútveltist í móanum. 

Við þessi endalok farþegaflugsins léttist belgurinn og náði aftur flugi en þó ekki betur en svo, að hann missti aftur hæð og lenti á ný, í þetta sinn í Lambhúsatjörn gegnt Bessastöðum  þar sem flugstjórinn stóð í sjó upp í mitti inni í körfunni og kynti áfram gastækin í gríð og erg til að losa sig úr festunni, svo að í hönd fór annað flugtakið í þessari ótrúlegu flugferð, sem þegar hafði innifaldar tvær lendingar, aðra á landi en hina á sjó og fyrsta loftbelgsflug með farþega hér á landi, en farþeginn þó útbyrðis á loftfarinu. 

Til stóð að taka kvikmyndir og ljósmyndir í fluginu, en myndavélarnar eyðilögðust þegar þær lentu í sjónum í Lambhúsatjörn. 

En áfram hélt þessi dæmalausa flugferð, og um hríð virtist loftbelgurinn stefna beint á húsin á forsetasetrinu á Bessastöðum, en náði að lyftast yfir þau og stefndi nú á Reykjavík og Akrafjall. 

Síðastnefnda hindrunin virtist sú glæfralegasta, svo að farþeginn hirti nú stígvél sín, fór til Reykjavíkur og flaug þaðan á flugvél upp á Narfastaðamela undir Hafnarfjalli til að sjá hvernig flugferðin myndi enda. 

Í ljós kom að belgurinn komst yfir Akrafjall en það var skammgóður vermir, því að framundan var tæplega tvöfalt hærri hindrun, Skarðsheiði. 

Þegar staðið var á Narfastaðamelum eftir lendingu sást mikill eldblossi í miðri sveit. 

Þegar þangað var komið kom í ljós að loftbelgurinn hafði lent á raflínu og kortslúttað sveitinni, en flugstjórinn slapp ótrúlega vel, lítillega sviðinn af blossanum og talsvert marinn. 

Belgurinn sjálfur hafði brunnið að hálfu.  

Þar lauk þessu tímamótaflugi í íslenskri flugsögu, en réttum tíu árum síðar fóru útlendingar í nokkrar afar vel heppnaðar ferðir með farþega í Reykjavík.  


mbl.is Fimm létust þegar loftbelgur hafnaði á raflínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skulu í gegn stefnan" hefur fyrir löngu beðið skipbrot.

Of lengi hefur sú tilhneiging verið í gangi hér á landi að þar sem þéttbýli myndaðist á sínum tíma við brýr eða krossgötur með verslunarkjörnum í miðjunni, skyldi framvegis forðast það að umferðin fengi fljótfarinn farveg framhjá miðju byggðarinnar þegar leiðin um miðjuna fór að líða fyrir umferðarteppur sem þar mynduðust. 

Þetta svona ástand varð til á sínum tíma við brúna yfir Ytri-Rangá og til stóð að gera nýja brú á nýjum stað, þar sem leiðin lægi stystu leið framhjá byggðinni fyrir sunnan hana, hófst mikil andspyrna gegn því og þess var krafist að leiðin lægi í gegnum miðju þorpsins, þar sem ný brú risi við hliðina á þeirri gömlu með þeim afleiðingu að afar seinfarið og þröngt yrði að fara þar um. 

En hörðustu andstæðingar nýrrar brúar og leiðar fyrir sunnan þorpið töldu í fúlli alvöru, að ef það yrði gert, myndi það þýða endalok þorpsins.  

Þess vegna snerist það um líf eða dauða að þvinga umferðina í gegnum gömlu miðjuna. 

Sem betur fer varð þessi stefna, sem kalla má "skulu í gegn stefnan", ekki ofaná, heldur hin nýja stefna bestu hagræðingar í skipulagi. 

Þær þúsundir, sem nú aka um nýju brúna, myndu undrast, ef þeir sæu, hvernig þetta hefði orðið ef hún hefði ekki verið tekin upp. 

Sú verslun og þjónusta, sem er á Hellu, hefur einfaldlega flutt sig nær nýjú brúnni. 

Lengi vel var uppi andstaða á Selfossi og víðar við það að færa Þjóðveg 1 norður fyrir Selfoss og yfir nýja brú. 

Andstæðingar þess töldu það höfuðnauðsyn, að allir þeir, sem ættu leið yfir Ölfusá, ættu ekki um neitt annað að velja en að fara krókaleiðina í gegnum miðbæinn með tilheyrandi umferðartöfum. 

Nú virðast menn hins vegar sem betur fer hafa séð, hve arfa óhagkvæm slík stefna er, enda er forsenda hennar kolröng, að allir vegfarendur á leið yfir Ölfusá eigi eða hafi átt erindi um hinn gamla miðbæjarkjarna. 

Hugsanleg hefur andóf gegn nýja brúarstæðinu og stæðinu fyrir Þjóðveg eitt tafið fyrir því að hafist hafi verið handa fyrr við þá þjóðþrifaframkvæmd. 

Sé svo, er það bagalegt, en þess meiri þörf á að sækja þetta mál þeim mun betur.  


mbl.is Umferðaröngþveiti á Selfossi: „Nýja brú strax!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Torfi Bryngeirsson var spurður að því af hverju hann væri aldrei nervös.

Torfi Bryngeirsson lét falla mörg athyglisverð tilsvör á litríkum ferli, en líklega er tilsvar hans þegar hann varð Evrópumeistari í langstökki þekktast. 

Torfi var annar besti stangarstökkvari Evrópu þegar hann fór á sitt fyrsta stórmót á EM 1950. 

En hann var líka skráður til keppni í langstökki þar sem hann var þó ekki á topp tíu listanum. 

Það er einstakt að stökkvari sé í fremstu röð í þessum tveimur greinum, og svo illa vildi til fyrir Torfa, að keppt var samtímis í þessum greinum. 

Honum tókst þó að komast í úrslit í báðum greinum, en varð því miður að velja á milli þeirra af því að úrslitakeppni í þeim var á sama tíma. 

Torfi íhugaði stöðu sína og tók þá furðulegu ákvörðun að flestra mati, að sleppa stangarstökkinu með tilheyrandi einvígi við Ragnar Lundbergog en fara í langstökkið, sem var miklu lakari grein fyrir hann. 

Torfi svaraði snöggt: Ég er búinn að skoða keppendurna og sjá að Ragnar Lundberg er í stuði en langstökkvararnir virðast bara vera kettlingar. 

"Þeir eru með miklu betri skráð afrek en þú" andmæltu menn. 

"Já, en þeir vinna keppnina hér á þeim afrekum" svaraði Torfi. 

Hófst nú keppnin voru aðstæður mjög erfiðar vegna misvindis sem gerði keppendum einstaklega erfitt fyrir. Þeir bestu fóru alveg á taugum en Torfi var hinn sperrtasti, geislaði af hugarstyrk, sjálfsöryggi og krafti, auk þess sem ekki vottaði fyrir neinum taugaóstyrk hjá honum þótt vindurinn blési sitt á hvað.

Þegar kom að honum í stðkkrðinni gekk hann sperrtur um og bar sig mannalega á tærri íslensku: "Sjáið þið, hér kem ég og skal sýna ykkur hvernig á að gera þetta; strákurinn frá Búastöðum, sem er sko enginn lopi!" 

Fór svo að Torfi stökk tvö bestu stökk sín á ferlinum á sama tíma og hinir voru allir langt frá sínu besta. 

Eftir keppnina þyrptust blaðamenn að hinum nýja og gersamlega óþekkta Evrópumeistara, sem hafði nákvæmlega enga reynslu að baki á stórmótum Evrópu og spurðu hann hvernig stæði á því að hann hefði náð þessum frábæra árangri. 

"Það var vegna þess að ég var sá eini sem var ekki vitund nervös," svaraði Torfi, "á sama tíma og hinir brotnuðu niður af taugaóstyrk." 

"En hvernig gast þú einn ráðið við þetta?" var spurt.

"Það er af því að ég er aldrei nervös," svaraði Torfi. 

"Af hverju ertu aldrei nervös?"

"Af því það er verra" svaraði Torfi.

 

Þetta svar er gullkorn, því að það lýsir alveg einstöku æðruleysi og hugarstyrk, sem getur orðið til bjargar þegar menn standa frammi fyrir því að láta ótta og panik ná tökum á sér. 

 


mbl.is „Til hvers þá að vera að þessu?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig voru Ólafur Thors og Bjarni Ben og Hermann og Eysteinn sem tvíeyki?

Íslensk og erlend stjórnmálasaga geyma fjölmörg dæmi um það, að tveir sterkir menn í forystu flokka, tvíeyki á borð við Ólaf Thors og Bjarna Benediktsson hjá Sjálfstæðisflokknum og Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson hjá Framsóknarflokknum, reyndust þessum tveimur stærstu stjórnmálaflokkum landsins svo vel, að þeir voru í stjórn, annar hvor eða báðir, í þrjá ártatugi frá miðjum fjórða áratugnum. 

Ólafur var formaður Sjalla og Bjarni varaformaður fram yfir 1960 og allan þann tíma hafði Bjarni svo mikil áhrif og var svo öflugur, að hann og Ólafur stóðu í stafni hjá flokknum og í ríkisstjórnum eins og tveir jafnstórir og samhentir foringjar, en þó nógu ólíkir til þess að sterkustu hliðar hvors um sig vógu upp veikustu hliðarnar hjá hinum. 

Þegar Ólafur dró sig í hlé og féll síðan frá, tók Bjarni við forystunni. 

Og hið sama gerðist þegar Hermann dró sig í hlé og Eysteinn tók við. 

Haraldur Benediktsson virtist í fyrstu ekki hafa skoðað vel þetta fordæmi úr sögu flokks síns og fleiri flokka þegar hann sýndist ætla að hverfa af þeim vettvangi, sem hafði valið sér fyrir nokkrum árum. 

Nú virðist hann hafa náð áttum og séð að Áslaug Arna verður með mikið í fanginu meðan hún er bæði varaformaður flokksins og ráðherra, og að fyrir bragðið verður margt annað eftir til að sýsla við fyrir hvern þann í því tvíeyki sem tveir efstu skipa. 


mbl.is Haraldur þiggur annað sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrifin um landráð í bólusetningum horfin en önnur tekin við.

Þegar bólusetningar hófust hér í fyrrahaust og tekin sú stefna að nýta samflot með Norðurlöndum og ESB ráku margir upp ramakvein og hömuðust gegn þessu á samfélagsmiðlum af fádæma hörku. 

Notuð voru orð eins og undirlægjuháttur og landráð og nefnd fjölmörg lönd utan Evrópu, sem frekar ætti að leita til og tryggja þannig forystu okkar í fjölda bólusetninga. 

Nú eru komnir nokkrir mánuðir síðan þessar raddir þögnuðu. 

En þá bregður svo við að aðrar og jafnvel enn illyrtari ásakanir fara nú sem eldur í sinu um samfélagsmiðla og fjölmiðla þess efnis að með bólusetningum sé í gangi harðsvírað samsæri á heimsvísu um að drepa sem flesta!

Þessu til sönnunar eru birtar daglega hrikalegar og hrollvekjandi tölur um fólk, sem bólusetningarnar drepi með afleiddum sjúkdómum, svo sem blóðtöppum og hjartaáföllum. 

A bak við þessi skrif virðist liggja mikil vinna, því að til þess að birta þessar tölur þarf að fylgjast dag frá degi með þeim sem fá þessa svonefndu afleiddu sjúkdóma og skoða jafnframt hvort þeir séu nýlega bólusettir. 

Síðan virðast þessir andstæðingar bólusetninganna gefa sér það, að allir sem deyja eftir að þeir hafi verið bólusettir, hafi dáið af völdum bólusetninganna, en hinir hins vegar dáið eðlilegum dauðdaga. 

Raunar er ekki erfitt að stunda svona vinnubrögð, því að enda þótt engar væru bólusetningarnar deyja þúsundir manna að jafnaði úr sjúkdómum á borð við blóðtappa og hjartaáfalla og hefur það ætíð verið svo.  


mbl.is Ísland í fremstu röð í bólusetningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumargleðin prófaði að vera með jólasvein (júlísvein) í fullum skrúða.

Þótt spurning sé nú sett fram um það hvort hægt sé að halda jólatónleika í júlí hefur hliðstæð tilraun verið gerð áður hér á landi, nánar tiltekið fyrir 40 árum. 

Það var þegar þeir Magnús Ólafsson og Þorgeir Ástvaldsson urðu liðsmenn skemmtanahópsins Sumargleðinnar sem þá fór skipulega um landið frá júní og langt fram á haust í lokin. 

Hlutverk Þorgeirs var aðallega á sérsviði hans, sem sneri að algerri uppstokkun á fjögurra til fimm klukkustunda samfelldu fjöri, tveggja klukkustunda skemmtidagskrá og dansleik á eftir þar sem innifalið yrði besta diskótek landsins. 

Allir Sumargleðimennirnir sungu frá upphafi til enda og Magnús var ekki aðeins öflugur söngvari, heldur góður gamanleikari. 

Nú þurfti að skapa hentuga gamanþætti þar sem hæfileikar hans nytu sín, og vorið 1980 var tíminn naumur. 

Síðuhafi fékk þá hugdettu, meðal annars, að Magnús færi í jólasveinabúning og færi um salinn gefandi sælgæti úr poka og kætti samkomugesti. 

Ragnar Bjarnason studdi þessa tillögu, en við tók mesta basl við að útfæra þetta atriði, þar sem jólasveinsafbrigðið júlísveinn yrði kynnt fyrir landsmönnum. 

Svo fór, að þrátt fyrir að atriðið gerði fyrir tilviljun stormandi lukku á einni skemmtun voru undirtektir annarsstaðar svo misjafnar, að júlísveinninn lifði sumarið ekki af. 

Það væri alveg efni í ítarlegri frásögn ef út í slikt er farið. 


mbl.is Landsmenn tísta: „Má halda jólatónleika í júlí?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband