Sparakstursrall á rafbílum kallar á allt öðruvisi rall en HM í ralli.

Það er gott og gaman þegar Íslendingum gengur vel í bílaíþróttum erlendis og ástæða er að óska þeim til hamingju með það. 

Á okkar tímum, tímum umhverfismála, nýtni og sparneytni, skipar keppni í sparakstri vaxandi mikilvægi og athygli sem betur fer, og er það vel. 

En helst þyrfti að forðast það að gefa til kynna að e-rally sé sams konar og það rall, sem keppt er í í HM í rallaksri. 

Heitið Consumption Cup er fyrst og fremst sparakstur, því að orðið consumption þýðir eyðsla á íslensku og hvað bíla varðar þýðir orðið eldnsneytiseyðsla á bílum, sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, en sameiginlegt heiti fyrir alla bíla gæti verið orkueyðsla. 

Fyrstu sparaksturskeppnirnar hér á landi byggðust á því að eyða sem minnstri orku á tiltekinni vegalengd, og var hægt að ná ansi langt á dropanum ef engin hraðatakmörk voru sett. 

Síðasta sparaksturskeppni FÍB fór fram í ágúst 2016 og var reynt að líkja eftir venjulegum þjóðvegaakstri á leiðinni Reykjavík-Akureyri.

Þar voru settar þær reglur, að ekki væri eytt meiri tíma í aksturinn en sex klukkustundum, og gert að skyldu að stoppa í hálftíma miðja vegu, á Gauksmýri, Sem sagt: Akstur í 5 klst 30 mín og stans í 30 mín. 

Ef of löngum tíma var eytt, var gerð refsing fyrir það, þannig að það borgaði sig ekki að fara óeðlilega hægt. 

Bíllinn, sem eyddi minnstu, eyddi 4,03 lítrum á hverja hundrað kílómetra. 

Af því að vélhjól voru ekki hlutgeng í þessum sparakstri tók síðuhafi óbeinan þátt í honum með því að fara á léttbifhjóli af gerðinni Honda PCX 125 cc sömu leið á 5 klukkustundum og 30 mínútum brúttó, og var eyðslan 2,5 lítrar á hundrað kílómetra. 

Síðuhafi keppti á sínum tíma hérlendis og erlendis bæði i rallakstri í þeim hluta HM, sem fór fram i Svíþjóð 1981 og í alþjóðlegri sparaksturskeppni í Yveskila í Finnlandi. 

Þetta voru gerólíkar keppnir, eins og útlit og eiginleikar keppnisbílanna báru gott vitni um, báðar fóru að vísu fram á sérleiðum og ferjuleiðum, en grunnatriðin í því sem keppt var að, voru svo ólík, að engum datt þá í hug að nota heitið rall um sparaksturinn, enda ólík heimssambönd, sem að þeim stóðu. 

Við heimsmeistarakeppnina ERRC Consumption Cup er stigagjöf fyrir atriði sem byggjast á hraða blandað saman við sparaksturinn, en aðferðin varðandi aðstæður og keppnisleiðir gerir það að verkum, að keppnin HM í ralli er allt annars eðlis en HM í rafralli. 

Ekki þarf annað en að skoða smíði og styrkingar rallbílanna til þess að sjá, hve krafan um hámarkshraða í vondum vegum vegur þungt í rallaksturskeppni. 


mbl.is Unnu rafbílarallið á Opel Corsa-e
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjátíu ára harmkvælasaga.

Það eru komnir um þrir áratugir síðan farið var að ræða um Sundabraut sem stórkostlega samgöngubót á ótal vegu, sjö kílómetra styttingu þjóðleiðarinnar frá Kjalarnesi til syðri hluta höfuðborgarsvæðisins og þar með í raun styttingu leiðarinnar frá Vesturlandi og Norðurlandi til Suðurnesja.

Og þar að auki mikil samgöngubót á milli hverfa í Reykjavík og einnig milli einstakra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þegar grannt það er grannt skoðað, hvernig brautin virkar í því heildarkerfi, sem flest í veganetinu á þessu svæði.  

Í 30 ár hefur í raun ekki nokkur skapaður hlutur gerst, hefur hefur þvert á móti verið þrengt að þeim möguleikum, sem gefst við að útfæra þessa góðu hugmynd.  


mbl.is Ámælisvert að Sundabraut skuli ekki hafa verið byggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg breyting hjá forseta miðað við fyrri yfirlýsingar hans.

Engum hefði átt að koma á óvart að Bandaríkjaforseti gripi tækifærið og breytti tilmælum helsta sóttvarnasérfræðings landsins. 

Þessi sami forseti lýsti því yfir í upphafi ferils síns á valdastóli að brýn þörf væri á því að reka alla þá úr störfum í vísindasamfélaginu, sem kæmust vísvitandi að röngum niðurstöðum, fölsuðu mælingar og héldu fram niðurstöðum og falsfréttum, sem samræmdust ekki skoðunum forsetans. 

Í staðinn þyrfi að ráða "alvöru" vísindamenn, sem kæmust að "réttum",  les: þóknanlegum niðurstöðum. 

Forseetinn hefur að vísu hikað við að reka Fauci þótt hann hafi ekki komist að "réttum" niðurstöðum, en notar í staðinn hvert tækifæri sem gefst til að setja ofan í við hann eða nýta sér fjarveru hans ef svo ber undir.  

Dánartíðnin í Bandaríkjunum samsvarar því að miðað við fólksfjölda væru 150 manns dánir úr COVID-19 hér á landi í stað 10. 

Hún er minnst 15 sinnum hærri en hér, og engin leið er að kenna fjölda smitana um svo háu tölu, sem þar að auki er talin vantalin að hluta. 

En það er þó alltaf veik von til þess að ef tekst að fækka skimunum sem mest, finnist færri smit og einhverjir deyi án þess að vitað sé hvort það hafi verið vegna COVID-19. 

Eða hvað? 


mbl.is Tilmælum breytt á meðan Fauci var í aðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðskjálfti við Keili er ekki "á Reykjanesi." Höndin hvarf ekki fyrir ofan olnboga.

Villuráf hefur verið ansi mikið í fréttum dagsins, svo sem um jarðskjálfta á Reykjanes eða við Þorbjörn, að ekki sé nú talað um fréttina af þeim afleiðingum flugeldaslyss, að "höndin var horfin fyrir ofan olnboga.DSC00648

Slysafréttir eru ætíð dapurlegar og því mikilvægt að vera ekki að skreyta þær með fleipri eins og því að "handleggurinn var horfinn fyrir ofan olnboga." 

Sú einfalda staðreynd virðist endalaust flækjast fyrir mörgum, að Reykjanes er lítið nes sem stendur yst á Reykjanesskaga. Punktur.

Nei, ekki punktur hjá mörgum, því miður, því að í kvöld var ýmist talað um að skjálftanir væru við Þorbjarnarfell, sem er næstum 20 kílómetra frá aðal skjálftasvæðinu eða talað um Reykjanes, sem er næstum 30 kílómetra í burtu. 

Stærstu skjálftarnir urðu í norðaustanverðu Fagradalsfjalli, um það bil fimm kílómetra frá fjallinu Keili, en þessi fjöll eru hluti af Reykjanesfjallgarðinum, sem gengur frá norðaustri til suðvestur eftir endilöngum Reykjanesskaga.  

Sömu endaleysurnar ganga aftur og aftur í fjölmiðlum, svo sem að Sandskeið sé á Hellisheiði. 

Og að Sandskeið sé kvenkynsorð, hún, Sandskeiðin;  bíllinn valt á Sandskeiðinni!    


mbl.is Ekki spurning um hvort heldur hvenær gos verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningin snýst um frelsi frá smitun.

Smitanirnar, sem barist er gegn um alla heim, gerast þannig, að smitið berst frá einum eða fleiri smituðum til eins eða fleiri smitaðra. 

Þótt það sýnist mikilvægt að hafa frelsi til að taka áhættu á því fyrir sjálfan sig, hvort maður verði smitaður, felst ekki í því frelsi til að smita aðra, því að þeir eiga að búa við frelsi frá smitun. 

Því fleiri smit, því fleiri erlend lönd setja Ísland á rauðan lista, ´þannig að smitgát, smitmælingar og sóttkví eru nauðsynlegar fyrir samfélagið í heild. 

Sóttvarnarráðstafanir eru svipaðs eðlis og að skyldustopp á rauðu ljósi, eða skylda til að hafa öryggisbelti spennt, þegar tölurnar um afleiðingar algers geðþóttafrelsis lýsa þörf á nauðsynlegum reglum.  


mbl.is Safna undirskriftum gegn sóttkví
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti Bondinn?

Kannski var það nýjabrumið í fyrstu Bond-myndunum, sem olli því, að Sean Connery varð besti Bondinn í huganum þegar fleiri fóru að fást við að leika þennan litríka agent hennar hátignar.  Connery sýndi meiri breidd í persónuleikanum, allt frá sjarma og húmor, yfir í hæðni og hörku, en Roger Moore var ekki eins töff, heldur of sætur og settlegur. 

Og karlmennskulegt útlit Connerys gerði leikkonurnar, sem léku á móti honum, að mestu kynbombum allra Bondmynda. 

Sumir, sem léku Bond síðar, svo sem David Niven, áttu litið erindi í hlutverkin.  


mbl.is Hinn upprunalegi Bond níræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni."

Ævinlega þegar síðuhafi sér Ásdísi Hjálmsdóttur eða heyrir fréttir af henni minnist hann föður hennar heitins, sem var einstakur afreksmaður. 

Á æsku- og unglingsárum var faðir minn tíður gestur og tók son sinn með sér á nær öll glímumót.

Á þeim árum skipti stærð og styrkleiki miklu máli og gögnuðust mest þeim glímumönnum, sem notuðu helst hábrögð eins og klofbragð eða sniðglímu á loftif og gátu notað kraftana til að lyfta mótherjunum sem hæst og fella þá að sama skapi sem harkalegast í jörðina. 

Það lýtti glímuna oft að til varnar notuðu menn of oft þá aðferð að "bola", það er, að standa gleiðir og halla efri hluta búksins fram, en mjöðmum aftur. 

Það var til bóta þegar mönnum var bannað að leggjast í svona vörn. 

Hinir smærri og máttarminni urðu helst að treysta á lævísleg lágbrögð eins og hælkróka og leggjabragð, tekin á hárnækvæmum augnablikum þegar mótherjinn var ekki í nógu góðu jafnvægi eða gaf á annan hátt færi á því. 

Þótt rumarnir hylltust að vonum helst til þess að nota hábrögðin svo oft, að það var reynt að klína á þá að þá að þeir væru um of takmarkaðir í því sem er aðall góðrar glímu, fjölbreytileg og vel tekin brögð og varnir við þeim. 

Sigtryggur Sigurðsson tók sig eitt sinn til og afsannaði þetta hvað hann snerti, því að í á einu glímumótinu lagði hann ekki aðeins að venju alla keppinauta sína, heldur notaði jafn mörg mismunandi brögð og þeir voru margir; lagði enga tvo þeirra með sama bragðinu. 

En því kemur glíman í hug þegar Ásdís Jónsdóttir er í fréttunum, því að faðir hennar, Hjálmur Sigurðsson, var einhver snjallasti glímumaður í sögu þeirrar íþróttar fyrir sakir einstæðrar fimi, leikni, hraða og mýktar sem vann það upp að hann var alls ekki það stór, að ætla mætti að hann gæti náð að verða sá besti á hátindi ferils hans. 

Í vörninni minnti hann á hnefaleikameistarann Floyd Mayweather, því að þegar stærstu og sterkustu andstæðingarnir hófu hann hátt á loft til að fella hann, gerði hann sig svo slappan og og mjúkan, að það var stundum eins og þeir væru með blautt handklæði í höndunum, sem ómögulegt var að hagga á þann hátt sem þeir vildu. 

Og þegar Hjálmur kom öllum á óvart standandi niður, gerðist það iðulega, að sá stóri steinlá allt í einu fyrir eldsnörpum og snöggum hælkrók, sem enginn átti von á.   

Ef Ásdís er nú að hætta keppni, verður svipaður söknuður í brjósti síðuhafa og þegar faðir hennar hvarf af glímuvellinum á sínum tíma. 

Og um hugann líður svipuð þökk og aðdáun nú og greip svo marga hér um árið. 

 


mbl.is Síðasta keppni Ásdísar á ferlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Falsfréttirnar" COVID-19, hlýnun lofthjúps jarðar og allar hinar.

Nú eru liðin fjögur ár síðan ný öld rann upp í sögu lýðræðisins með framrás hugtaka á borð við "falsfréttir." Heil kosningabarátta um forystuna í öflugasta lýðræðisríki heims snerist um það, að svonefnt vísindasamfélag væri risastórt samsæri falsfrétta á borð við hlýnun lofthjúps jarðar. 

Gefin voru kosningaloforð um að knésetja þá vísindamenn, sem við þessi vísindi störfuðu, reka þá helst alla og ráða í staðinn "alvöru" vísindamenn, sem kæmust að "réttum" niðurstöðum í stað hinna upplognu niðurstaðna, sem hefðu náð hámarki árinu áður í ráðstefnu "40 þúsund fífla í París." 

Sjá má áfram á netmiðlum sönginn um falsfréttina miklu sem gerði 40 þúsund fíflin að athlægi +i París og nýjasta "falsfréttin" um mestu minnkun Grænlandsjökuls í sögu mælinga og aðrar órækar vísbendingar um það, sem er að gerast, er léttvæg fundin; það var jú alveg sérstaklega kalt í Reykjavík í júlí síðastliðnum, einum af þremur svölustu júlímánuðunum á rúmlega 20 ára tímabili hlýjustu ára frá upphafi mælinga. 

Snemma á fjórða ári tímabils hinna meintu falsfrétta voru fréttir um COVID-19 afgreiddar fyrstu vikurnar, sem falsfréttir, því að í raun væri þetta ekki neitt, neitt, bara venjuleg og lítilfjörleg flensa, sem myndi aldrei ná neinni fótfestu eða áhrifum á hið mikilfenglega forysturíki. 

Auðvelt væri til dæmis að hrista þessa smávægilegu kvefpest af sér og drepa hana með með því að innbyrða ákveðna ræstivökva og töframeðul. 

Þegar í ljós kom að COVID-19 var þess eðlis, að síðan í vor hafa Bandaríkin búið við versta ástandið að jafnaði, var það afgreitt á þann veg, að Kínverjar hefðu búið veiruna sérstakllega til á tilraunastofu í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir endurkjör Donalds Trumps. 

 


mbl.is Héldu að kórónuveiran væri falsfrétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr veruleiki að birtast við uppvakningu gamals draugs?

Eitt merkilegasta atriðið, sem kom fram í bókinni Draumalandinu eftir Andra Snæ Magnason, var nokkurs konar ákall íslenskra stjórnvalda 1995 til helstu stóriðjufyrirtækja heims undir kjörorðinu "lowest energie prizes" þ. e. að á Íslandi fengi stóriðjan að njóta lægsta orkuverðs í heimi, þar sem fátækustu og vanmegnugustu þjóðirnar höfðu fram að því boðið bestu kjörin og lægstu launin og orkuverðið. 

Því var bætt við í þessu tímamótaplaggi, að "mat á umhverfisáhrifum yrði sveigjanlegt" sem undirstrikaði enn frekar hinn staðfasta vilja íslenskra stjórnvalda að fórna helstu náttúruverðmætum landsins fyrir ölmusupeninga. 

Fordæmalaus veldisvöxtur stóriðjuframkvæmda fylgdi í kjölfarið, og náði þessi stefna hámarki 2007-2008 þegar hafnar voru framkvæmdir og gerðir samningar um risaálver í Helguvík, sem á endanum hefði krafist stórvirkjana allt frá Reykjanestá upp á hálendið og austur í Skaftárhrepp, 

Fjöldaskóflustunga í upphafi byggingar kerskála var tákn þessa staðfasta vilja þáverandi ráðamanna. 

Hrunið batt enda á áformin um Helguvíkurálver, og atkvæðagreiðsla í Hafnarfirði stöðvaði áform um stækkun álvers Isals í Straumsík, en Norðurál og eigandur álversins í Straumsvík sóttu þó áfram eftir föngum við að auka framleiðslu sína hér á landi. 

Hin síðustu misseri hefur gamall draugur varðandi friðindi stóriðjunnar vaknað að nýju, nú í formi harðrar aðfarar að kjarasamningum í anda skjalsins forðum um lægsta orkuverð í heimi. 

Lægsta orkuverð í heimi fyrir aldarfjórðungi byggðist á því að í samkeppni stóriðjufyrirtækjanna og viðskiptaumhverfi töldu þau sig knúin til að krefjast sem allra bestra kjara í hvívetna á hverjum stað, annars myndu þau neyðast til að leita annað. 

Nú blasir við að svipaður söngur er sunginn bæði í Straumsvík og á Grundartanga og starfsmönnum stillt upp við vegg, bæði beint og óbeint; annað hvort verður að lækka kaupið á skjön við aðra kjarasamninga í landinu, eða að verksmiðjurnar verða lagðar niður. 

Nýr veruleiki að birtast í anda gamals uppvaknings?


mbl.is Reiði ríkir meðal félagsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

80 ár síðan Þjóðverjar gerðu arfamistök í Orrustunni um Bretland.

Daginn áður en Trotsky var drepinn, en það gerðist 21. ágúst 1940, var orrustan um Bretland í fullum gangi og Winston Churchill hélt eina af sínum frægustu ræðum, oft kölluð "The Few", um bresku orrustuflugmennina, aðeins um 7-800 manns, sem höfðu í fullu tré við Luftwaffe, þótt við ofurefli væri að etja.  Setningin, sem skóp nafn ræðunnar var þessi: "Never in the field og human conflict have so many owed so much to so few." DSC00641 

"Aldrei í ófriðarsögu mannkyns hafa svo margir átt jafn mikið að þakka jafn fáum."

Churchill vissi nákvæmlega hvað hann var að segja í ljósi þess að þegar Þjóðverjar völtuðu yfir Frakka fyrr um sumarið stóðu nýjustu og bestu orrustuflugvélar Frakka, Dewoitine, ónotaðar hundruðum saman og engir flugmenn voru til að fljúga þeim. 

En hugsanlega var 24. ágúst 1940 örlagaríkasti dagurinn þegar þýskar sprengjuflugvélar, sem áttu að varpa sprengjum á flugvélaverksmiðju í Rochester í Kent og á olíustöð í Thameshaven, villtust vegna þess að Bretar beittu þá radartruflunum og vörpuðu í staðinn sprenjum á miðborg Lundúna og East End. DSC00642

Þetta gaf Churchill tilefni til að svara beint og hefna fyrir þetta með því að senda 81 sprengjuflugvél í næturárás á Berlín, sem að vísu heppnaðist aðeins að hluta, en markaði þau þáttaskil, að þetta var fyrsta árás RAF á Berlín, og Göring hafði lofað því að Bretar myndu ekki ráðast á Berlín.  

Þetta freistaði Görings til að breyta um stefnu í loftárásunum með því að hefja stórárásir á London 7. september eftir að Hitler hafði hótað árásum á breskar borgir. 

Þessi stefnubreyting fól í sér einhver örlagaríkustu mistök Görings, því að fram að þessu hafði gengið nokkuð vel að ráðast beint á flugvelli, birgðastöðvar og aðra mikilvægasta staði fyrir breska flugherinn og eini möguleikinn til að sigra breska flugherinn var að eyða honum sjálfum og það sem hann þurfti. 

Í staðinn var farið út í það að reyna að brjóta þrek bresks almennings niður með því að "gereyða" breskum borgum. 

Hvorugt tókst; almenningur með konung og ríkisstjórn í forystu, efldist í stað þess að bogna og 17. september frestaði Hitler innrásinni "Sæljón" um óákveðinn tíma, og hún varð aldrei að veruleika.  

Alls misstu Þjóðverjar minnst 1800 flugvélar, en jafnvel allt að 2400 í orrustunni um Bretland; flugvélar, sem hefðu komið sér vel fyrir þá í herförinni gegn Sovétríkjunum árið eftir. Í ljós kom að þessi orrusta hefði tapast hvort eð var og að skynsamlegra hefði verið fyrir Þjóðverja, að hóta innrás í Bretland til málamynda strax í lok júní til að breiða yfir betri möguleika:  Innrás í Sovétríkin. 

Það má nefnilega færa að því rök, að hefði Hitler hafið í febrúar 1940 undirbúning fyrir innrás í Sovétríkin, sem gerð yrði í ágúst 1940, og verið með einfalda og rökrétta áætlun; að setja forgang í að bruna alla leið til Moskvu og taka hana, jafn mikilvæg og hún var fyrir miðstýrt ríki eins og Sovétríkin voru, hefði það verið eini möguleikinn fyrir Hitler til þess að vinna sigur í styrjöld við margfalt fjölmennari þjóð með margfalt meiri framleiðslumátt. 

1940 var Rauði herinn í tætlum eftir að Stalín hafði strádrepið lungann af herforingjum hans í ofsóknum, og lykilvopn Rússa á borð við T-34 skriðdrekana og Il-2 Sturmovik flugvélarnar voru ekki til fyrr en seint á árinu 1941, sennilega allt of seint ári eftir innrás. 

Í innrásinni Barbarossa 1941 gerði Hitler þau reginmistök, að stöðva framrásina til Moskvu þegar skriðdrekaher Guderians var kominn meira en hálfa leiðina þangað í ágústbyrjun, og lét Hitler þennan beittasta hluta hersins fara í sex vikna herferð suður til Úkraínu, að vísu til að framkvæma mestu umkringingu allrar hernaðarsögunnar, en þessi mikla töf varð til þess að of seint var farið að nýju af stað í átt við Moskvu þegar vetur gekk í garð, fyrst með haustrigninum og föstum skriðdrekum og flutningatækjum á drulluvegum, og síðar í fimbulfrosti sem stöðvaði herinn aðeins 18 kílómetra frá Kreml. 

Það munaði um það fyrir Rússa, að þá voru komnar þangað hersveitir sem þeir höfðu haft á austurlandamærunum og frægustu skriðdrekar stríðsins, spánnýir af færiböndunum fyrir austan Úralfjöll skutu Guderian skelk í bringu og færðu Rússum sigur í Orrustunni um Moskvu.   

 


mbl.is 80 ár síðan Trotskí var myrtur með ísexi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband