Þarf frekar að skoða meginorsakir sigurs Trumps.

Jafnvel þótt upp komist um eitthvert leynimakk við Rússa í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra og að fyrir liggi að gölluð kosningalöggjöf skilaði manni upp í forsetastól sem  ekki var með meirihluta atkvæða Bandaríkjamanna og raunar næstum þremur milljónum frá því, eru þetta ekki aðalorsakir sigurs Trumps heldur hitt, hvernig svona maður gat yfirleitt komist í gegnum allar forkosningarnar hjá öðrum aðalflokki BNA. 

Hann hefur í engu breytt hegðun sinni í embætti, heldur sakar hvern og einn, sem heldur fram staðreyndum, sem ekki henta honum, um lygar. 

Svo langt hefur þetta gengið að hann og fylgismenn hans, sem eru ekki aðeins ótrúlega margir vestra, heldur líka ótrúlega margir hér á landi, halda því blákalt fram að allir veðurfræðingar og vísindamenn sem fást við rannsóknir á veðurfari og náttúrufari á jörðinni, falsi allar tölur sínar og stundi eitthvert ótrúlegasta lygasamsæri sögunnar. 

Reka þurfi allt þetta fólk og fá í staðinn "alvöru"vísindamenn sem komist að "réttum niðurstöðum." 

Trump leitaði uppi óánægjuhópa í Bandaríkjunum, sem er farið hefur halloka vegna breytinga á atvinnuháttum af völdum tækniframfaranna sem bylting í fjarskiptum og alþjóðasamskiptum byggist á, og gaf einnig færi á því að þeir sem eru óánægðir með spillinguna í stjórnsýslunni í Washington hefðu hann sem eina frambjóðandann, sem ætlaði að berjat gegn þeirri spillingu. 

 


mbl.is „Lygari“, segir Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta eina atkvæði, sem myndar meirihluta, getur verið í hvaða flokki sem er.

Með hliðsjón af "handsprengju"tali er vafasamt að tala um sjö manna þingflokk sem "sigurvegara" kosninganna. 16 manna, 11 manna eða 8 manna þingflokkar hljóta frekar að vera það þótt þingflokkur Sjalla hafi minnkað um fimm þingmenn í kosningunum. 

"Handsprengja" Sigmundar Davíðs var lúaleg í garð Lilju Alfreðsdóttur og félaga hennar í Framsóknarflokknum, því að með því var gefið í skyn, að óheildindi hefðu leigið að baki öflugri áherslu á það að koma henni á þing. 

Hvað snertir meirihluta á þingi, er auðvitað betra að hafa hann stærri en einn þingmann. 

Þó sat Viðreisnarstjórnin sem fastast heilt kjörtímabil 1967-1971 með aðeins eins manns meirihluta, og svipað átti við þegar Steingrímur Hermannsson myndaði ríkisstjórn 1988 með jafnvel enn tæpari stöðu, pattstöðu í annarri þingdeildinni ef ég man rétt, og möguleika á að vinna ekkert hlutkesti í vali í nefndir, alls níu. 

En hann vann öll hlutkestin. 

Það er mest undir dýpra stöðumati komið hvort minnsti mögulegi meirihluti verður ofan á. 

Benedikt Gröndal hafnaði möguleika um myndun tæprar ríkisstjórnar krata og Sjalla 1979, og sagði Jón Balvin Hannibalsson síðar að það hefði verið "pólitískt umferðarslys".

Davíð 0ddsson lagði ekki í að halda áfram í tæpu sambandi við krata 1995 eftir mikið fylgistap krata, og Framsóknarflokkurinn lemstraðist það mikið í kosningunum 2007 þótt tæpur meirihluti héldi, að Geir Haarde sneri sér frekrar að Samfylkingunni. 


mbl.is „Handsprengjan“ dregur úr líkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning hvort Sigurður Ingi ætlar "að taka Óla Jó á þetta".

Sigurður Ingi Jóhannsson getur í raun verið í firna góðri aðstöðu til þess að verða forsætisráðherra. Það mátti meðal annars ráða af orðum hans eftir fund með forseta Íslands þar sem hann minnti á möguleikana á því að mynda stjórn frá miðju nógu langt yfir til vinstri og hægri, þ. e. miðjustjórn. 

Rétt er að minna á það í því samhengi að það hefur aldrei gerst í fullveldissögu Íslands í 99 ár að formaður flokks yst á vinstri hafi orðið forsætisráðherra. 

1947 varð Stefán Jóhann Stefánsson formaður minnsta þingflokksins forsætisráðherra. 

Enn óvæntari varð útkoman 1978 þegar Framsóknarflokkurinn beið mesta ósigur sinn fram að því ásamt Sjálfstæðisflokknum, en þessir flokkar höfðu verið saman í stjórn. 

Ljóst varð því að samstjórn þessara flokka kom ekki til greina, þótt hún hefði áfram meirilhluta, vegna þess að Ólafur Jóhanesson, formaður Framsóknarflokksins ákvað frekar að nýta sér oddaaðstöðu flokksins og fara frekar í vinstri stjórn. 

Hann leyfði Benedikt Gröndal og Lúðvíki Jósepssyni að sprikla við stjórnarmyndunartilraunir, og kom síðan eins og svartur hestur inn á sviðið og myndaði stjórn. 

Spurningin er hvort Sigurður Ingi ætlar "að taka Óla Jó á þetta". 


mbl.is Sigurður vill líka fá umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gölluð kosningalöggjöf skemmir fyrir.

Gallar kosningalöggjafarinnar sýnast ekki stórir þegar um er að ræða einn þingmann til eða frá eins og hjá Framsókn og Samfylkingu þar sem sá flokkurinn, sem fær meira fylgi fær færri þingmenn. 

En einn plús einn eru samt tveir og það hefur sitt að segja þegar þingmennirnir eru ekki margir. 

Svipað er að segja um fimm þingmanna hrun hjá Sjálfstæðisflokknum frá því í fyrra. Þetta hefur sitt að segja, og fylgishrunið var ekki svona mikið, heldur einfaldlega vegna gallaðrar kosningalöggjafar. 

Sjálfstæðisflokkkurinn fékk einum til tveimur þingmönnum fleiri í fyrra en samsvaraði atkvæðatölunni, -  en núna fær hann nokkurn veginn rétta tölu.   

Og enn einu sinni sést eitt af meira en hundrað atriðum í stjórnarskrá stjórnlagaráðs þar sem bætt hefði verið úr þessum galla.  


mbl.is Tveir valkostir fyrir forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnug "lím"staða Framsóknar?

Á árunum 1971-1991, eða í 20 ár, varð niðurstaðan sú í kosningum, að engu skipti hvað kjósendur kusu, þeir kusu í raun alltaf Framsóknarflokkinn, sem var samfellt í ríkisstjórn þessi 20 ár, nema þá fjóra mánuði haustið 1979, sem minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sat með atbeina Sjálfstæðisflokksins. 

Frá 1995-2007, eða í tólf ár, gerðist þetta aftur, þannig að í 45 ár samtals, var Framsókn í stjórn í 37 ár. 

Sigurður Ingi Jóhannsson orðar þetta þannig nú, að "Framsókn sé límið í íslenskum stjórnmáljum."

Í stjórnarmyndun fyrir ári var Björt framtíð með þessa lykilstöðu og með því að líma sig við Viðlreisn réði hún því í raun að akki var mynduð miðju-vinstristjórn heldur miðju-hægri stjórn. 

Þá var Framsókn með SDG innanborðs hálfgert eitrað peð í stjórnarmyndunarviðræðum, en núna gæti Framsókn með SDG utanborðs verið "lím" og Sjálfstæðisflokkurinn eitrað peð, að vísu ansi stórt pað - en fimm þingmönnum minna peð en síðast.  


mbl.is Útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pawel vann mjög gott starf í C-nefnd stjórnlagaráðs.

Stjórnlagaráð skiptist í þrjár nefndir, og var Pawel Bartoszek formaður C-nefndarinnar. 

Hennar beið svo vandasamt verkefni varðandi kosningaákvæðin í stjórnarskrá, að fyrirfram var það gefið upp í 900 blaðsíðna gögnum undirbúningsnefndarinnar að vel kæmi til greina að fresta því að breyta kosningalögunum og kjördæmaskipaninni á þeim fjórum mánuðum sem til þess fengjust. 

Í c-nefndinni áttu sæti fulltrúar með svo gerólík sjónarmið að fyrirfram virtist um vonlaust verkefni að ræða. 

Einn nefndarmanna hallaðist til dæmis að því að landið yrði eitt kjördæmi með vali kjósenda til að skipta atkvæði sínu og dreifa því að milli frambjóðenda og lista. 

Annar vildi fjölga kjördæmum og viðhalda misvægi atkvæða vegna aðstöðumunar af landfræðilegumm veðurfræðilegum ástæðum. 

Einn fulltrúi hallaðist að því að velja Alþingismenn með slembiúrtaki úr þjóðskrá. 

Í byrjun settu menn fram mismunandi hugmyndir, og ég lagði mig fram um að ná fram sameiginlergri lausn, - stillti upp ýmsum möguleikum, til dæmis að hafa 25 einmenningskjördæmi og að 40 þingmenn yrðu landskjörnir til að ná jöfnuði á milli atkvæða á bak við hvern mann hjá öllum flokkum.  

Ari Teitsson stillti líka upp mismunandi hugmyndum. Pawel reyndist afar laginn við að samræma hugmyndirnar og leita lausna, og það var ekki ónýtt í því sambandi, að hann og Þorkell Helgason voru í allra fremstu röð íslenskra sérfræðinga og reiknimeistara á þessu sviði. 

Útkoman varð að mínu mati einstaklega vel heppnuð, þar sem beint persónukjör var aðalatriðið sem og jafnt vægi atkvæða. 

Skylt fyrirkomulag er að finna í Hollandi, en ég er ekki frá því að þessi íslenska lausn hafi verið á heimsmælikvarða. 

Þegar hugað var að því að álagsprófa módelið þurfti ekki að fara langt; Þorkell og Pawel gátu gert það manna best. 

Það er eftirsjá að mönnum eins og Pawel á þingi, mönnum sem hafa lag á að sætta og samræma ólík sjónarmið og laða fram hæsta samnefnarann frekar en þann lægsta. 

 


mbl.is Eins og að aftengja sprengjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5 flokka stjórn sat til enda kjörtímabils 1991. Mesti sigur nýs flokks var 1942.

Þrennt hefur vantað í umræðuna á þessari kosninganótt eða hefur þurft nánari skýringar. 

1.

Þrástagast hefur verið á því að aldrei hafi áður setið fimm flokka stjórn í landinu. Það er ekki rétt. Hér hefur einu sinni verið fimm flokka ríkisstjórn. 1989 var flokkum í ríkisstjórn fjölgað úr fjórum upp í fimm og stjórnin sat til enda kjörtímabilsins 1991. Þótt aðeins einn þingmaður sæti í meirihlutanum fyrir stjórnmálaflokkinn Samtök um jafnrétti og félagshyggju, var það viðurkenndur stjórnmálaflokkur, sem Stefán Valgeirsson stofnaði og bauð fram fullgildan framboðslista fyrir í Norðurlandskjördæmi eystra í kosningunum 1987. Hinir fjórir flokkarnir í stjórn voru Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og þingmenn úr Borgaraflokknum, sem stofnaður var 1987. Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra sagði síðar, að það hefði tekið jafn mikinn tíma hjá sér að hafa Stefán góðan og alla hina aðilana að stjórninni til samans.  

2. 

Talað hefur verið um "stærsta sigur nýs flokks í stjórnamálasögu landsins ef Miðflokkurinn fær 11% fylgi. Það er ekki rétt. Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn, var stofnaður 1938 og bauð fyrst fram í næstu Alþingiskosningum í júlí 1942 og fékk þá 16,2% fylgi ef ég man rétt. Nútíma stjórnmálasaga Íslands hófst ekki við lýðveldisstofnun, heldur eftir að Ísland varð fullvalda 1918. Hið rétta er að gengi Miðflokksins verður það mesta hjá nýjum flokki í lýðveldissögunni ef fylgið verður meira en 10,9%. Það verður ekki af flokknum skafið og ekki heldur hitt, að það er hreint ævintýri og jaðrar við kraftaverk að koma svona framboði á koppinn með jafn góðum árangri með aðeins þriggja vikna fyrirvara. 

3. 

Rætt var um að hér á landi væri ekki nein hefð til fyrir því í stjórnmálum að mynda meirihluta með einum fleiri flokkum en þyrfti, eins og gert hefur verið í Finnlandi. En í borgarstjórn Reykjavíkur var myndaður meirihluti fjögurra flokka 2014, þótt aðeins þrjá flokka þyrfti til. Það var snjall leikur hjá Samfylkingu og Bjartri framtíð að láta ekki nægja að kippa annað hvort Vinstri grænum eða Pírötum inn til þess að mynda átta manna meirihluta, heldur kippa þeim báðum inn svo að meirihlutinn varð níu menn. Þetta þýddi einfaldlega að hvorki Píratar né Vinstri grænir gátu fellt meirihlutann einir og sér, og auk þess var komið í veg fyrir að einn borgarfulltrúi í meirihlutanum gæti fellt hann með því að ganga úr skaftinu. 


mbl.is Verður erfitt að mynda ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rödd 21. aldarinnar.

Miðað við mannfjöldaspár er mikill meirihluti jarðarbúa á 21. öld enn ófæddur. Enginn málaflokkur mun eiga eftir að skipta þennan manngrúa meira máli en umhverfismál, og þau eiga eftir að verða æ mikilvægari eftir því sem líður á öldina. 

Þetta skynjar Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir, sem fær kosningarétt í dag, greinilega í viðtali við hana á mbl.is. 

Hún skynjar líka það ástand sem íslenska orðtakið að fljóta sofandi að feigðarósi túlkar og á því miður að miklu leyti við um þann hugsunarhátt skammsýni og skammtímagræðgi sem enn hefur allt of mikil völd. 

Í rökræðu um þetta efni í fyrra á þessari bloggsíðu notaði einn andmælandi réttinda komandi kynslóða þau orð, að núlifandi fólki kæmi óbornar kynslóðir ekkert vil, af því að þær væru ekki til!  

Eitthvað hefði þessi maður sagt um forföður sinn, ef hann hefði á sínum tíma í einu og öllu hagað sér í samræmi við þetta hugarfar gagnvart þá ófæddum afkomendum sínum. 


mbl.is Vill ekki skammsýni í umhverfismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilfinningar skipta líka máli. Við erum ekkert án tilfinninga og minninga.

Í löngum umræðum í sjónvarpssal í gærkvöldi byrjaði umræðan og stóð nánast allan tímann um peninga og aftur peninga, milljarða og milljarðatugi. 

Fróðlegt væri að vita hve margar upphæðir voru nefndar, sumar aftur og aftur. 

Víst er það rétt, að sagt er að peningar séu afl þeirra hluta sem gera skal, og í neyslusamfélagi nútímans vill það verða að upphafi og endi alls. 

Hin hliðin á þessari umræðu og hugsunarhætti er að líta niður á tilfinningar og allt að því fyrirlíta þær og telja þær ekki krónu virði. 

Eða þá að meta allt til peninga og tilfinningar sem tengjast þeim, þeirra á meðal græðgi, til hins eina sanna mælikvarða, peninga. 

Það var því kærkomin tilbreyting í sjónvarpskappræðunum í gærkvöldi að einn þátttakandinn skyldi sýna djúpar tilfinningar sem fylgja því að vera settur út í horn í þjóðfélaginu eins og annars eða þriðja flokks þegnar, sem eigi engan rétt eða möguleika á því að taka þátt þjóðlífinu eins og aðrir. 

Erlendir ferðamenn, sem nú halda uppi mikilli peningalegri auðsæld koma fyrst og fremst til landsins til að upplifa, til að fyllast mikilsverðum tilfinningum. 

En þegar langstærstu óafturkræfu umhverfisspjöll Íslansssögunnar voru framkvæmd, var því slegið föstu að öll hin stórkostlegu og einstæðu náttúruverðmæti sem eyðilögðu voru um alla framtíð væru ekki krónu virði. 

Á sama tíma er útsýni yfir ósköp venjulegan fjörð, Kollafjörð, metin til milljarða króna ef um er að ræða háar íbúðablokkir við Skúlagötu. 


mbl.is Beygði af í beinni útsendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástandið 2009 ósambærilegt við það sem nú er.

Vinstri stjórnin 2009 tók við mörg hundruð milljarða króna hruni ríkissjóðs Íslands og enn stærra bankahruni og hruni fyrirtækja. 

Það er því fráleitt að bera saman neyðaraðgerðirnar þá, sem óhjákvæmilega hlutu að felast í hækkun skattprósentu, við ástandið nú eða undanfarin ár, en það var reynt í sjónvarpsumræðum í kvöld. 

Þessi brunarústaríkisstjórn 2009 skerti að vísu kjör aldraðra og öryrkja og hefði átt að láta það ógert. 

Í öllu fimbulfambinu í umræðunum í kvöld um tuga og hundruð milljarða fjárhæða loforð stjórnmálaflokkanna var aðeins einu sinni minnst á það atriði sem hefur búið til öll þessi verðmæti, þrefalda fjölgun erlendra ferðamanna á örfáum árum. 

Ekki hafði þetta verið nefnt í þetta eina sinn í kvöld fyrr en Sigmundur Davíð reyndi að gera lítið úr því með einhverri mestu talnakúnstaleikfimi sem heyrst hefur. 

Umræðurnar voru annars ágætis sjónvarpsefni, fjörugar og stundum allt að því dramatískar eins og þegar tilfinningarnar báru Ingu Sæland ofurliði. 

Bjarni Benediktsson naut þess kannski frekar en hitt að langflestum spurningum þátttakendanna var beint til hans og hann gat nýtt sér yfirveguð svör aukinn tíma á skjánum.  

Björt framtíð er nú í slæmri stöðu og góð ráð dýr. Björt Ólafsdóttir, sem hefur staðið sig vel sem umhverfisráðherra, reyndi að höfða til náttúruverndar- og umhverfisverndarfólks með því að leggja höfuðáherslu á græna framtíð, stöðvun virkjanaæðis og þjóðgarð á miðhálendinu, en ákvæðið um 5% þröskuld atkvæða á landsvísu er ósanngjarnt. 

Það er ekki sanngirni í því að 4,9% atkvæða gefi engan þingmann á sama tíma og 1,5% atkvæða eru að jafnaði á bak við hvern þingmann þeirra flokka, sem komast yfir þennan þröskuld. 

Miðað við síðustu skoðanakannanir er Björt framtíð alveg á mörkum þess að fá einn þingmann og Flokkur fólksins á mörkum þess að fá þrjá. 


mbl.is „Geturðu aðeins haldið þér rólegum?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband