Því miður líkindi á að of mörgu sé pakkað niður.

Því miður er of margar undankomuleiðir að finna í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar til þess að draga brýn mál á langinn eða drepa þau. 

Afar víða eru málin afgreidd með því að skipa nefndir og starfshópa til að búa til skýrslur hér og hvítbók þar. 

Þetta er að sumu leyti skiljanlegt þegar um er að ræða flokka sem standa yst til hægri og vinstri í stjórnmálum. 

Þá er eina leiðin til að "brúa bilið" lausn, sem felur í raun í sér óbreytt ástand.

Varðandi sum þessara mála getur orðið um glötuð tækifæri að ræða til að koma málum í skaplegt framtíðarhorf, og er Landsspítaladæmið gott dæmi um það. Í því máli felst algert ósamræmi við það slagorð Katrínar og Bjarna að horft sé meira fram á veginn hjá þessari stjórn en hjá fyrri stjórnum. 

Rétt eins og það var fyrirsjáanlegt vorið 2013, að með því að fresta stjórnarskrármálinu myndi ekkert gerast næsta kjörtímabil í því máli, og þetta gekk eftir, er náttúrulega alveg jafnvonlaust núna að endurtaka þetta, - og ekki aðeins að endurtaka vonlausa og misheppnaða stjórnarskrárefnd í fyrsta sinn, heldur í fimmta eða sjötta sinn án árangurs allt frá árinu 1946. 

Og þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 og frumvarp stjórnlagaráðs virðast ekki nefnd einu orði. 

Sjallar og Framsókn fá auðvitað atvinnuvegaráðuneytin í sinn hlut til þess að tryggja eins óbreytt kerfi og unnt er í málefnum þeirra, og eins og ævinlega í öllum ríkisstjórnum, sem Sjallar hafa setið í í 75 ár, fá þeir dómsmálaráðuneytið í sinn hlut. 

Fögur orð um vandaðri og yfirvegaðri vinnubrögð og aukinna samræðustjórnmála hljóma vel og líta vel út á pappír, en þar er ekki á vísan að róa. 

Umhverfisráðherrann er afbragðs maður, með gríðarlega þekkingu á umhverfismálum og íslenskum aðstæðum og og hefur víðtæka reynslu af málarekstri á því sviði, en jafnframt vaknar spurningin um það, að stóriðju- og virkjanasinnar muni reyna að bola honum frá því að kveða upp úrskurði, vegna vanhæfis af völdum fyrri tengsla við hinar ýmsu framkvæmdir. 

 


mbl.is „Mistök fortíðar fest í sessi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla skúffubókhaldið er lífseigt.

Það er gömul saga sem var lýst í þjóðsögunni "hesturinn ber ekki það sem ég ber", þegar þetta svar var haft eftir manni sem sat á hesti og hafði stóran og þungan boka á baki sér í upphafi ferðar. 

Stundum hefur þetta verið kallað "skúffubókhald" og að peningar séu ýmist teknir úr eða settir í aðrar skúffur en eðlilegt gæti talist. 

Þannig er það talið vera sparnaður fyrir útgjöld þjóðarinnar að sjúklingar greiði beint ýmsan kostnað við lækningar í stað þess að ríkissjóður greiði hann. Já, "hesturinn ber ekki það sem ég ber." 

Þegar ég hóf störf fyrstu árin sem íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu gat komið fyrir, að yfirmanni mínum, sem forstöðumaður Frétta- og fræðsludeildar, gat fundist það hentugt í samkeppninni við "hina deildina," Lista- og skemmtideild, að borga kostnað vegna dagskrárgerðar minnar úr skúffu íþróttanna, sem ég var aðeins einn í. 

Þegar kvikmyndin Lénharður fógeti var sett á dagskrá af hálfu Lista- og skemmtideildar og þótti óhemju dýr, enda tekin í lit, (en var samt aldrei sýnd í lit, enda var þá aðeins sýnt í svart-hvítu!) ákvað dagskrárstjórinn minn að láta sýna sama kvöldið heimildamynd á vegum fræðsludeildarinnar, sem ég gerði, og myndi ekki kosta krónu!  Tilkynnti hann þetta stoltur á fundi útvarpsráðs. 

Sú leið fannst til að koma þessu í kring, að ég fyndi einhverja íþróttaiðkun á Ísafirði til að fjalla um og að kostnaður við flug mitt þangað og til baka yrði færður sem kostnaður við íþróttaefni, síðan myndi varðskip flytja mig og þrjá leiðangursmenn ókeypis til og frá Hornbjargsvita, þar sem ókeypis fæði og húsnæði yrði fyrir hendi við gerð heimildarmyndar um vitavörðinn. 

Sem sagt: Ekki króna vegna ferðakostnaðar eða fæðis! 

Í kringum þetta gerðist raunar miklu lengri og ótrúlegri saga, sem vonandi verður hægt að segja síðar.

En eftir að hafa upplifað hana kemur mér fátt á óvart í þessum efnum, og þess má geta, að á núvirði kostaði umsókn um að Ísland ætti fulltrúa í Öryggisráði Sþ um tvo milljarða króna, án þess að þess sæi nokkurs staðar merki í bókhaldinu!    

 

 

 


mbl.is Kostnaðinum við umsóknina var leynt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjall og óvæntur leikur Katrínar.

Það var óvæntur en snjall leikur hjá Katrínu Jakobsdóttur að velja Guðmund Inga Guðbrandsson framkvæmdastjóra Landverndar og utanþingsmann í embætti umhverfisráðherra.

Nokkrar flugur eru slegnar í einu höggi: 

1. Búið er að velta vöngum yfir valinu á milli Lilju Rafneyjar og Ara Trausta sem kandidötum, meðal annars vegna þess að þau eru oddvitar flokksins, hvort í sínu landsbyggðarkjördæmi. Ég þekki Ara Trausta úr samstarfi frá fornu fari og hefði vel treyst honum fyrir ráðuneytinu. Miður hefur mér þótt stuðningur Lilju Rafneyjar við græðgisssprengju í sjókvíaeldi, og ég á líklega skoðanasystkin í því efni meðal fylgismanna Vinstri grænna. Með því að velja annað hvort Ara eða Lilju Rafney hefði Katrín hugsanlega skapað óróa inni í flokknum, sem er bæði með heitt náttúruverndarfólk innan sinna raða og einnig furðu margt ansi "framsóknarlegt" fólk úti á landsbyggðinni, samanber stuðning margra þar við stóriðju og eldri tegundir af "atvinnuuppbyggingu" eins og skoðanakannanir hafa leitt í ljós.  

2. Mörgum hefði hins vegar þótt óþægilegt fyrir Vg að ganga fram hjá landsbyggðarþingmönnum varðandi ráðherraembætti. En Guðmundur Ingi Guðbrandsson býr í Borgarfirði og telst því fyllilega vera landsbyggðarmaður. 

3. Fyrir flokk, sem kennir sig við umhverfismál, er það ótvírætt mikils virði að í fyrsta sinn í sögunni er maður, sem kemur beint úr forystu öflugra náttúruverndarsamtaka, skipaður umhverfisráðherra. Ég hef átt mikið og einstaklega gefandi og ljúft samstarf við Guðmund Inga Guðbrandsson um árabil og er sérstaklega ánægður með það mikla og kröftuga starf, sem hann hefur unnið á vettvangi náttúruvernarhreyfingarinnar í sjálfri grasrótinni af dugnaði en jafnframt lagni og útsjónarsemi ungs hæfileikaríks manns. Þess má geta að danskir sjónvarpsmenn gerðu þátt um íslenska náttúru og náttúruverndarmál fyrir þremur árum, þar sem Guðmundur Ingi var lykilmaður.  


mbl.is Ráðherrakapallinn opinberaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keppinautur Grímsvatna og Kverkfjalla.

Hinn 1. september síðastliðinn náðust í fyrsta sinn svo góðar myndir af tveimur opnum sigkötlum á suðausturbrún öskju Bárðarbungu, að það sást niður í vatn. RAX, Bárðarbunga, sigketill

Vitandi um reginafl þessarar megineldstöðvar Íslands fannst mér eins og ég sæi niður til vítis. 

Nú hefur myndin skýrst enn betur í ferð Ragnars Axelssonar og báðir sigkatlarnir eru meira opnir en þeir voru í septemberbyrjun, einkum sá vestari. 

Að því leyti til eru þessir katlar öðruvísi en Skaftárkatlar og svipuð fyrirbæri í Grímsvötnum,, að Skaftárkatlar og Grímsvötn fyllast fljótt af snjó þar til hleypur úr þeim á ný, en þessir katlar Bárðarbungu virðast ætla að þrauka veturinn af líkt og gerist í Kverkfjöllum. 

Er þar með komið upp það ástand, að Bárðarbunga hefur bæst í hóp þeirra eldstöðva, sem opna sig á þennan hátt í gegnum jökulinn og að sjálfsögðu á afgerani hátt. 

Í septemberbyrjun hrósaði ég happi yfir því að hafa náð myndum í gegnum jökulinn, vegna þess að ég hélt að jökullinn myndi í snjókomu vetrararins hafa betur og hylja op sigketilsins til næsta sumars. 

En þar vanmat ég afl og mikilleik "eldstöðvar Íslands." 


mbl.is Hundrað metrar niður á vatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun skárri stuðningur en var við myndun Nýsköpunarstjórnarinna.

Stjórnarmyndunin núna er hliðstæð myndun Nýsköpunarstjórnarinnar að tveir stórir flokkar af ystu vængjum pólitíska litrófsins mynduðu stjórn með miðjuflokk sem þríðja aðila. 

Fjórðungur þingmanna Sjálfstæðisflokksins var á móti þeirri stjórnarmyndun, en nú er það fimmtungur þingmanna og sjöttungur flokksráðs Vg sem er á móti. 

Þar að auki skiptust flokksráðsmenn Alþýðuflokksins í tvær álíka stórar fylkingar með og á móti, og úrslitum réði um það á hvorn veginn málið færi, að formaðurinn sat hjá. 

Þess má geta að 1944 voru "kommarnir" aðdáendur Stalíns og Sovétríkjanna og mjög fyrirlitnir af hægri sinnuðustu Sjálfstæðismönnunum. 

Á sama hátt völdu hörðustu kommarnir valaöflum í Sjálfstæðisflokknum hin verstu orð og áttu ekki auðvelt með að sætta sig við stjórnarforystu Ólafs Thors.  

Auk mesta peningalega góðæris, sem gengið hafði yfir Ísland, var það var líklega samvinna Sovétmanna og Bandaríkjamanna og Breta í stríðinu við Hitler sem lagði grundvöllinn að því að hægt var að réttlæta stjórnarmyndunina. 

Enda fór það svo, að um leið og slettist upp á vinskapinn hjá Bandamönnum og Kalda stríðið hófst, olli það stjórnarslitum. 

P. S.  Óskylt þessu en þó jákvætt og sætt: Var að setja tónlistarmyndbandið "Eins og rós", eitt af lögunum á nýrri plötu Gunnars Þórðarsonar inn á Youtube með mun meiri gæðum en eru á facebook.  Slóðin er:  https://youtu.be/ffLoDxXHlxg


mbl.is „Betra en ég átti von á“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklabraut hættulegust. Óskiljanleg framkvæmd við Klambratún.

Það má vera að Esjan hafi tekið allra fjalla flest mannslíf, en hún var skuggalega há, tala alvarlegra slysa á Miklubraut, sem kom fram í frétt á RUV í kvöld um fáránlega gerð veggja við þessa hættulegasta kafla í vegakerfi Íslands.

Skjóta fyrst, spyrja svo. Þetta virtist vera inntak svars þess manns, sem stjórnað hefur gerð þessara veggja meðfram Miklubraut við Klambratún þegar hann var inntur hvort þessir veggir væru ekki hættulegir fyrir alla aðila, gangandi, hjólandi og akandi á bílum og vélhjólum.  

"Við ætlum að árekstrarprófa þá síðar" var eftirminnilegt svar. 

Sem sagt: Fyrst eru veggirnir reistir með fé og fyrirhöfn, en síðan á á árekstraprófa þá í þeirri von að þá komi í ljós hvort það, sem fróðasti maður á Íslandi um vegaöryggismál sagði í viðtali í sömu frétt, að þeir væru stórhættulegir og ættu sér enga hliðstæðu í evrópsku vegakerfi. 

Hluti svarsins til að réttlæta þessa vitleysu var á þá leið að það stæði til að lækka hámarkshraðann úr 60 í 50 á þessum kafla. 

Eins og það skipti einhverju höfuðmáli hvort vélhjólamaður lendi á 50 kílómetra hraða eða 60 kílómetra hraða á þessu hrófatildri öðru megin og skaðræðishrjúfum brúnunum hinum megin. 

Eða hvort veggur, sem sundrast eða hrynur yfir gangandi eða hjólandi fólk innan við vegginn Klambraúni, hrynji eða sundrist mikið skár eftir árekstur stórs bíls á 50 kílómetra hraða frekar en á 60 kílómetra hraða.  


mbl.is Esjan tekið flest mannslíf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerir Trump nú?

"Gerum Ameríku mikla á ný!" "Let´s make America great again" var og er kjörorð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Þetta virðist í raun vera ákall um gagngert afturhald og afturhvarf til liðins tíma takamarkalausrar neysluhyggju, þar sem ekkert tillit var tekið til umhverfismála og sýnt algert ábyrgðarleysi og tillitsleysi gagnvart öðrum þjóðum. 

Nú er þetta kjörorð að taka á sig hlálegar myndir. 

Áður hefur verið greint frá því að Trump sér ofsjónum yfir því að aðrar þjóðir framleiði á mörgum sviðum betri vörur og tæki en Bandaríkjamenn, svo sem þýska bíla og nú síðast kanadískar farþegaþotur. 

Trump bregst til dæmis við kanadísku þotunum með því að reisa 219 prósenta tollmúr til að koma í veg fyrir að þær verði seldar í Bandaríkjunum. 

Þetta eru Bombardier þotur með markhópinn 100-150 manns um borð, og í krafti bestu þotuhreyfla heims og algerlega nýrri hugsun í hönnun þotnanna, verða þær rúmbetri og þægilegri á alla lund en þotur í þessum stærðarflokki hafa verið og raunar með meira rými fyrir hvern farþega og farangur hans og lægri eldsneytiseyðslu á hvern farþega, en boðið er uppá í þotum með mjórri skrokkum en breiðþotur. 

Það hlálega við þetta er að Kanada er í Ameríku, nánar tiltekið við norðurlandamæri Bandaríkjanna og að Trump er svo þröngsýnn, að í hans huga er hans þjóð sú eina, sem er verð þess að kalla sig Ameríkumenn. 

Frændi minn, Einar Björn Bjarnason, greinir frá því á bloggsíðu sinni, að viðleitni Trumps til að flæma Mexíkóska landbúnaðarverkamenn úr landi muni að öllum líkindum flýta fyrir innleiðingu á róbótum og annarri sjálfvirkni í landbúnaðinum vestra, rétt eins og á flestum öðrum sviðum. 

Líkja má Trump við nátttröll sem hefur dagað uppi og orðið að steini.

Stefna hans nú má líkja við það að ef hann hefði orðið forseti á efri árum fyrir tæpri hálfri öld hefði hann sennilega barist gegn því af alefli að ný prentunartækni leysti setjarana af hólmi. 

 


mbl.is 800 milljónir gætu misst vinnuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumur Halldórs Jónssonar: Stórflokkastjórn fyrir minnihluta kjósenda.

Sumir heitir stuðningsmenn sjálfstæðistefnunnar og lýðræðis í orði setja fram skoðanir, sem eru allt aðrar á borði.

Þannig virðist Halldór Jónsson, einn hörðustu talsmanna hina bláustu í Sjálfstæðisflokknum mestan áhuga á því að atkvæði greidd Sjálfstæðisflokknum vegi ekki aðeins miklu þyngra en nemur kjósendafylgi, heldur geti það beinlínis stuðlað að því að allt að þriðjungur kjósenda fái engan mann kjörinn. 

Það lýsir sérkennilegri umhyggju fyrir frelsi kjósenda og lý8ræði. 

Tvívegis á skömmum tíma eftir kosningarnar hefur Halldór sett fram kröfu um að svonefndur "þröskuldur" atkvæða verði minnst 8%, eða sá lang hæsti í Evrópu, ef ekki heiminum öllum. 

Með 8 prósent þröskuldi telur Halldór að því göfuga markmiði verði náð að enginn þingflokkur verði minni en fimm menn. 

Þá gleymir hann því að oft hefur það komið fyrir að þingflokkar hafa klofnað og oft í raun skiptst í tvo hluta. 

Nú liggur til dæmis ekki fyrir hvort 33 eða 35 muni styðja nýja þriggja flokka ríkisstjórn, vegna þess að tveir þingmenn Vg skárust úr leik strax þegar hugmyndin kom upp. 

Ef setja á fyrir svona leka þyrfti að gera það, sem stungið var upp á á fundi með áhugafólki um nýjan flokk fyrir kosningarnar 2009, að þingmenn komandi flokks fengju ekki að vera í framboði nema að sverja fyrst hollustueið varðandi það að fylgja ávallt flokkslínunni. 

Þótt ég væri ekki aðili af þessu framboði, var ég staddur þarna þegar þessi tillaga var reifuð, og benti fundarmönnum á, að með þessu yrði verið að setja komandi þingmenn í ómögulega stöðu, því að þeir væru einmitt skyldir til þess að sverja eið að stjórnarskránni og þar með því að fara aðeins að sannfæringu sinni en engum fyrirmælum flokka eða utanaðkomandi afla. 

Þar að auki hefði reynslan af því þegar öflugasta þjóð Evrópu valdi sér svonefndan einvaldan foringja á fjórða áratug síðustu aldar hefðu flokksmenn og hermenn allir orðið að sverja honum hollustueið. 

Vel væri kunnugt hverjar afleiðingarnar af þessu hefðu orðið. 

Í kosningunum 2013 og 2016 munaði litlu að allt að 13 prósent atkvæða hefðu fallið dauð niður vegna þess að 5% þröskuldur væri sá hæsti í Evrópu. 

Ef svona hefði farið, hefði hvert atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum fengið 13% meira vægi en ella og flokkurinn tveimur til þremur fleiri þingmenn en sem svaraði hlutfallslegu fylgi hans. 

Vel er hugsanlegt að upp kæmi sú staða, að fimm flokkar fengju 4 til 7,5 prósent hver, eða alls um 30 prósent, sem öll féllu dauð niður. 

Með því yrðu ekki aðeins eyðilögð atkvæði sem svaraði öllum kjósendum í Reykjavík, heldur myndu atkvæði greitt flokkunum, sem kæmust yfir þröskuldinn, fá 30% meira vægi en ella, og til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn fá fimm til sex þingmönnum fleiri en ella. 

Og ef slíkt hefði gerst í síðustu kosningum hefði ekki þurft að hafa Framsókn með í þeirri stjórn sem nú er stefnt í að mynda. Sjallar og Vg með um 40% fylgi hefðu getað myndað stjórn þótt um 60% kjósenda hefðu aðra flokka. 

Og flokkseigendum í Sjálfstæðisflokknum hefði orðið að þeirri ósk sinni að kjósendur "undanvillinganna" í Viðreisn hefðu verið í raun sviptir atkvæðum sínum. 

Það er sérkennilegt að menn, sem eru eldheitir fylgjendur sjálfstæðisstefnunnar með einstaklingsfrelsi og lýðræði að leiðarljósi falla fyrir þeirri freistingu að predika stefnumál, sem miðar eingöngu að því að mismuna kjósendum til þess að þjóna þrengstu flokkpólitískum hagsmunum stærstu flokkanna en svipta kjósendum minni flokka lýðræðislegum réttindum.  

Það er engin bót í máli þótt lagt bent sé á að kjósendur geti nú orðið fylgst svo vel með skoðanakönnunum, að þeir geti vinsað úr þá flokka sem séu öruggir með að fá vel yfir átta prósent atkvæða. 

Þar með yrðu skoðanakannanir gerðar að aðalatriðinu en kosningarnar sjálfar bjagaðar eem allra mest stóru flokkunum í hag. 

 

 


mbl.is Töluverð uppstokkun á skattkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur verið í gangi í áratug.

Fyrir tíu árum hófst að sumarlagi talsverð skjálftavirkni við Upptyppinga, sem eru fyrir austan Öskju. Skjálftakort 28.11.17

Virknin færði sig síðan til norðausturs í svonefnda Álftadalsbungu, en færði sig síðan veturinn og vorið eftir norður Krepputungu og síðar í Herðbreiðartögl sem er fyrir sunnan Herðubreið. 

Bárðarbunga hafði sýnt af sér ýmislegt síðan rúmum tíu árum fyrr og var skrifuð fyrir gosinu í Gjálp fyrir sunnan hana 1996 auk hugsanlegs kvikuinnskots við Hamarinn þar áður. Askja.Herðubreið.Wattsfell

Þegar Bárðarbunga fór síðan að skjálfa hressilega í miðjum ágúst 2014 höfðu jarðfræðingar talið að skjálftar norðan Dyngjujökuls væru á áhrifasvæði Öskju og Þorvaldshraun og Holuhraun milli Dyngjujökuls og Öskju mætti skrifa á Öskju. 

En Holurhraunsgosið leiddi annað í ljós, og það kann jafnvel að vera spurning, hvort Bárðarbunga eigi meiri hlut í öllum gosum norður úr til Herðubreiðar og jafnvel Sveinagjár en hingað til hefur verið haldið. 

Á korti veður.is sést vel kunnugleg lína, sem nær frá Bárðarbungu allt norður fyrir Herðubreið með skjálftum. 

Á neðri myndinni er horft að haustlagi til norðaustur yfir nyrðri enda þess skjálftasvæðis, sem sést á kortinu fyrir ofan, Öskjuvatns og Öskju til Herðubreiðar. 

Það viðist undirbúningur í gangi fyrir eitthvað, en um það gildir hluti úr þekktu jólalagi: 

"Hvað það verður, veit nú enginn, 

vandi er um slíkt að spá..."


mbl.is Jarðskjálftahrina í Öskju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúin á hin algeru átakastjórnmál skín í gegn.

Þegar Sigurður Ingi Jóhannsson tók við embætti forsætisráðherra í fyrra, blasti við að taka þyrfti upp nýja stjórnarhætti samræðustjórnmála til þess að geta haldið kosningar farsællega á tilsettum tíma í október. 

Hinn algeri skotgrafahernaður á kostnað viðleitni til samvinnu, samræðna og samráðs var látinn víkja. 

Þessi vinnubrögð gáfu þjóðinni von um að ný tegund stjórnmála, lík því sem gerist á öðrun Norðurlöndum, væru að sjá dagsins ljós í þeim farsa karphússtjórnmála, sem hefur helst dregið úr trausti almennings á Alþingi. 

Þetta virðist sá, sem var forsætisráðherra á undan Sigurði Inga vera fyrirmunað um að skilja, úr því að hann fordæmir svipuð samræðustjórnmál eru viðhöfð þessa dagana við samsvarandi verkefni og fyrir ári, að samþykkja fjárlög og brýnustu aðgerðir í tæka tíð fyrir áramót.

Auðvitað er það eðli stjórnmála að tekist sé á um helstu prinsipp í þeim, en trúin á svo gegnumgangandi ósætti, að aldrei megi leita að málamiðlunum í einu eða neinu áður en neyðst er til að láta sverfa til stáls, er bæði óskynsamleg og til tjóns.  


mbl.is „Met í pólitískri óákveðni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband