"Þá fæ ég mér snabba ef karlarnir kvabba..."

Þegar tölur og rannsóknir sýna hið mikla böl óhæfilegrar áfengisneyslu á okkar tímum vekur það oft upp viðhorfið "heimur versnandi fer."  

En þannig er það alveg örugglega ekki. Munurinn er aðeins sá að áður fyrr var meðvirknin margfalt meiri en nú. "Meðferð" var ekki til og því björguðust ekki tugþúsundir fólks frá Bakkusi, sem nú bjargast. 

Eða er hægt að hugsa sér meiri meðvirkni en í orðafarinu og söngtextunum.  Það þarf ekki annað en að hlusta á textana, sem sungnir voru, til dæmis "Skipstjóravalsinn": 

 

"Oft er vandi að verjast grandi  / 

ef viðsjál reynist dröfn. / 

Þá fæ ég mér snabba ef karlarnir kvabba /  

og keyri sem hraðast í höfn."  

 

Sem sagt: Eðlileg viðbrögð að detta í það þegar sjólagið versnar.

Og ekki batnar það þegar komið er í höfn: 

Og athugið orðalagið sem maður notar enn um þetta fyrirbæri:  "Að detta í það." Alveg óvart.

Og ekki minnkar það þegar komið er í höfn: 

 

Þar fæst dans og glens og gaman,  / 

gleðin hýr úr augum skín. / 

Við duflum og dönsum þar saman  /

við dýrindis meyjar og vín. 

 

Svo held ég aftur á hafið /  (vel slompaður eða timbraður) 

í hættunni búinn til alls.  /

Við rattið þá í rokinu stend ég  / 

og raula minn Skipstjóravals...." 

 

Sem sagt, raular valsinn um það þegar óveður skellur á og hann fær sér snabba ef karlarnir kvabba og keyrir sse hraðast í höfn. 

Og hver man ekki eftir textanum um Gústa í Hruna:  

 

"Það var karl, sem að kunni að  / 

kyssa, drekka og slást..."

 

"...Enda sagði´hann það oft: Það er ánægjan mín, /

ástir, slagmál og vín!" 


mbl.is Ölvaður skipstjóri sigldi í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flug er hátækni.

Í árdaga flugsins og reyndar miklu lengur, jefnvel enn í dag, hefur loðað við þá, sem leggja stund á hine ýmau greinar flugsins, það álit og ímynd, sem aðrir hafa búið til, að flugið sé eins konar lágmenning þar sem táknmyndirnar eru skítugir flugvirkjar, dellubólngir flugmenn og glanspíuljóskur í flugfreyjubúningum.

En það er liðin tíð að aðeins sjúkarhús eigi skilið hátæknistimpil. Varla er hægt að hugsa sér starfsemi, sem byggist á viðlíka hátækni og flugið.

Og um gagnsemi háþróaðrar tækni í fluginu bera tvær milljónir erlendra ferðamanna á Íslandi árlega glöggt vitni.  


mbl.is Metfjöldi flugmanna útskrifaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitin endalausa.

Eitthvað nýtt!  Eitthvað nýtt! Hvað þetta hefur hljómað dátt síðan 2010 þegar Besti flokkurinn hafði á tímabili meirihluta atkvæða í skoðanakönnunum fyrir byggðakosningarnar 2010. 

Þetta var sannkallað Costco í stjórnmálunum, fullt út úr dyrum dag eftir dag, hjarðheagðun í hæstu hæðum. 

Nú berjast leifar samruna Besta flokksins og hluta úr Samfylkingu við að ná 5% atkvæða í skoðanakönnnunum. 

Fundirnir í Iðnó vikum saman veturinn 2008-2009. Liðin tíð. Og þó, Sósíalistaflokkur 1. maí, Framfarafélag í dag, - Costco alla daga, - hvað um næstu helgi. 

SDG reynir að finna farveg fyrir gamla góða fjórflokkinn, með því að grafa nýja braut fyrir hann, svo gerbreyttan, að hann falli að "breyttum stjórnmálum." 

+Aður hefur verið fjallað um alls átta tilraunir á síðustu 70 árum til þess að búa til farveg fyrir alla vinstri menn í einum flokki. 

Allan tímann var talað um "breytt stjórnmál" og "þörfina til að laga flokkakerfið að breyttum aðstæðum. 

Ævinlega forvitnilegt og stundum gekk þetta í nokkur ár. En síðan urðu stjórnmálin aftur "breytt". 

Já, sagan endurtekur sig. 


mbl.is Breytt stjórnmál kalla á viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþarft rugl og vandræði allt í kring.

Enga umferðarstjórnun hefur verið að sjá á svæðinu í kringum umferðarteppuna við Klambratún undanfarna daga. 

Bílstjórar hafa tekið upp á hinu og þessu til þess að minnka vandræði sín, en vegna skorts á upplýsingum og stjórnun, hafa aðgerðir þeirra oft gert illt verra. 

Fyrst í stað voru áhrifin hrein og bein: Það varð umferðarteppa á Miklubrautinni sjálfri.

Síðastliðinn þriðjudag, tveimur dögum eftir að þetta nýja ástand myndaðist var greinilegt, að margir bílstjórar ákváðu að finna sér "hjáleiðir" framhjá teppunni. 

En þá tók ekki betra við. Svo margir völdu sér samtímis "hjáleiðirnar", svo sem Sæbraut og Kringlumýrarbraut, að þar mynduðust ferlegar umferðarteppur, en hins vegar varö umferðin um Miklubrautina jafnvel of lítil og gat verið meiri! 

Á tímum samskiptatækni er þetta ótækt, því að ekki hefði þurft nema tvo til fjóra lögregluþjóna með talsstöðva- eða farsimasamand sín á milli til þess að skiptast á upplýsingum um umferðarþungann og veita bílstjórum upplýsingar með því að veifa skiltum eða stýra flæðinu. 

Einu vegfarendurnir sem þetta bitnaði ekki á, voru ég og aðrir sem voru á hjólum. En við vorum og erum aðeins lítill hluti af vegfarendum. 


mbl.is Mengun við Miklubrautina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af vanhæfisheilkennunum, að vera verstur þeim, sem er unnað mest.

Hér á landi hefur lengi ríkt skilningsleysi á hugtakinu vanhæfi. Það er sérstaklega bagalegt vegna þess hve þjóðfélagið er smátt og nálægðin mikil á milli fólks. 

Og hagsmunirnir af því að mistúlka eðli vanhæfis eru líka óvenju algengir. 

Fjármála- og efnahagsráðherra lýsti þessu einkar vel í ræðu, sem hann fluti, sem formaður Hollvinafélags M.R. við útskrift úr M.R. í dag. 

Skólinn hefur verið sveltur langtímum saman á síðustu áratugum og ein orsökin gæti verið sú, að fjármála- og menntamálaráðherrarnir hafa verið of tengdir skólanum frá fyrri tíð og þess vegna talið sig knúna til að láta skólann frekar gjalda tengslanna en njóta, svo að ekki væri hægt að saka þá um hlutdrægni. 

Það nægir til að vanhæfni teljist ríkja, að tengslin séu nógu sterk. En þetta hefur skort mjög á að sé viðurkennt hér á landi, heldur haldið á lofti þeim skilningi, að því aðeins hafi vanhæfi verið við lýði, ef greinilega hefur verið misfarið með völd. 

Af því leiðir til dæmis að í málum svonefndra "hrægamma", kröfuhafanna í þrotabú föllnu bankanna, var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vanhæfur sem eiginmaður eins af kröfuhöfunum til að hafa afskipti af málum kröfuhafanna. 

Fylgismenn hans bentu á að SDG hefði einmitt sótt allra manna harðast að kröfuhöfunum í orði og á borði, en samkvæmt eðlis máls í löggjöf í vanhæfi, skiptir það ekki máli, heldur jafnvel þvert á móti eins og Benedikt Jóhannesson bendir á. 

Lög um vanhæfi eiga einmitt að koma í veg fyrir að slíkt ástand myndist og það var líklega ekki að ástæðulausu sem SDG streittist við það lengur en stætt var á þvi, að leyna tengslum sínum og þræta fyrir þau. 


mbl.is Benedikt hættir sem formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundaskelfirinn mikli.

Orðið "fundaskelfir" var á sínum tíma notað um mann einn sem sótti alls konar fundi af miklum móði og lét þar svo mikið til sín taka, að hann fékk þetta viðurnefni. 

Nú er að ryðjast inn á svipaðan vettvang en öllu hátimbraði sannkallaður fundaskelfir, Donald Trump. 

Hann setur allt á hliðina hjá NATO með því að líta það bandalag allt öðrum augum en samræmist lögum og reglum þess,  

Hikar ekki við að rukka aðrar bandalagsþjóðir en Bandaríkin um þúsundir milljarða vegna ofgreiddra framlaga Kana til bandalagsins en vangreiddra framlaga annarra þjóða. 

Fyrir þessu er ekki minnsta lagastoð. 

Síðan bætir hann í þegar hann sakar Þjóðverja um að vera "slæmir, mjög slæmir" varðandi það að þeir selji "milljónir bíla" til Bandaríkjanna. 

Aftur er engin lagastoð fyrir þessu, því að Þjóðverjar gera ekki viðskiptasamninga sína sjálfir, heldur gerir ESB það fyrir hönd allra aðildarríkjanna. 

Ekki getur Trump heldur alhæft um ódýrt vinnuafl á bak við Benz og BMW, því að laun eru góð í Þýskalandi. 

Trump vill gera "America great again" á þann hátt að í stað þess að efla bandarískan bílaiðnað svo að hann geri betri bíla en bílaiðnaður annarra þjóða, eigi að koma í veg fyrir frjálsa verslun með bíla landa í millum svo að Kanarnir fái ekki að kaupa þá bíla sem bestir eru á boðstólum. 

Ef "mikilleiki Bandaríkjanna" á að felast í slíku, er land yfirburða hins frjálsa framtaks og þess að menn njóti góðra verka og framleiðslu komið dálítið langt í öfuga átt. 

Nú er nýr og enn stærri fundur í dag og þar fær fundaskelfirinn mikli stærsta tækifærið til að hrella fundarfólk, því að hvorki meira né minna en alheimssamvinna gagnvart stærsta viðfangsefni jarðarbúa á þessari öld, verður þar meðal umræðuefna. 

En þar er fundaskelfirinn einmitt hvað harðskeyttastur við að vera upp á kant við alla aðra. 


mbl.is Von á „hressilegum“ umræðum við Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bretar hernema íslenska tungu án þess að lyfta litla fingri.

Nú er svo komið, að fólk verður að vera viðbúið því að geta ekki haft samband við sum af dýrustu hótelum í Reykjavík nema tala ensku.

Sjá menn það fyrir sér að ekki sé töluð franska og ekki þýska í móttökum hótela í Frakklandi og Þýskalandi?

Íslenskan er ekki aðeins íslenska. Þetta er grunntungumál skandinavísku málanna. Hið norræna mál hefur lagt enskunni og fleiri tungumálum til mörg orð og heiti, sem þekkt eru um allan heim.

Saga, geysir, Hekla, Eyjafjallajökull. Ekki "The Glacier of the Islands." 

Bretar hernámu Ísland 1940 gegn mótmælum íslensku ríkisstjórnarinnar.

Nú eru það Íslendingar sjálfir sem standa að aðför þjóðtungu Breta að þjóðtungu okkar og hernáminu nýja, sem blasir við og glymur í eyrum.

10. maí hernámu Bretar litla flugvöllinn sem þá var kominn í Vatnsmýri og einnig flugvallarstæðið í Kaldaðarnesi. 

Nú blasir nýtt breskt hernám við skýrum stöfum á Reykjavíkurflugvelli.

Svo algert er þetta hernám, að Íslendingar hernema líka erlend heiti og orð á öðrumm þjóðtungum en ensku.

Þulur í útvarpi kallaði efsta liðið í spænsku knattspyrnunni nýlega "Ríl Madrid".

Já, meira að sagja Spánverjar eru ekki óhultir fyrir hinni barnalegu dýrkun okkar á enskri tungu, sem þó er ekki betur heppnuð en svo að útvarpsþulir segja "Svansí" og "Norrvidds", rétt eins og að "Aggureri" sé ekki nóg. 

Eða "Turin" í staðinn fyrir Torino og "Súrig" í staðinn "Zurich" með réttum framburði. (Það vantar tvöfaldu kommuna á tölvunni minni)

Á tímum einveldis Danakonungs á Íslandi fengu íslenskar stofnanir og flest fyrirtæki þó að heita íslenskum nöfnum.

Höfuðrit þess tíma, Biblían, var á íslensku.

En nú eru biblíurnar í mörgum fræðigreinum og handbókum orðnar enskar og það þarf að ganga langar vegalengdir til að finna íslensk heiti við götur eins og Laugaveg.

Í Noregi fékk innanlandsflugfélag að heita Viderö, í stað þess að síðari hluta nafnsins væri breytt í "island."  

Loftleiðir héldu sínu íslenska nafni við þótt það flugfélag héti líka Icelandic Airlines á erlendum vettvangi, og það var enginn feiminn við að hótel félagsins héti Hótel Loftleiðir. 

Ég skora á eigendur Flugfélags Íslands og sýna viðleitni, þótt ekki væri nema aðeins þá að lofa nafninu Flugfélag Íslands að vera með, samhliða hinu nýja nafni á erlendum vettvangi, svipað og nafnið Loftleiðir fékk á sínum tíma. 

Í hinum fræga bardaga Muhammads Ali og George Foreman í Kinshasha hrópuðu innfæddir: "Ali, boma je!"

Ali var þeirra maður og krafan var að hann gengi frá Foreman og sú krafa hljómaði á tungu Kongóbúa.

"Nú er nóg komið!" mætti verið herópið núna. Ekki: "Enough is enough!"

Það grátlega við samtíma okkar er, að við sjálfir Íslendingar reynumst vera einfærir um að ráðast að íslenskri náttúru og tungu. 

Og það er ekki nýtt. Fjölnismenn voru ekki einir í að verja þjóðtunguna. 

Danskur maður, Rasmus Kristján Rask, átti stóran þátt í að verjast því að danska gengi að íslenskunni dauðri. Breskir menn, Watson og Scott, gengust fyrir því að bjarga íslenska hundinum og bjarga Þjórsárverum. 

Enskur maður forðaði Jóni Sigurðssyni frá gjaldþroti. 

Grát, ástkæra fósturmold! 


mbl.is Mímir mótmælir nafninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gögn, sem vikið var til hliðar, eru enn til í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.

Athyglisvert er að lesa hvernig farið var að því að dæma ungan blökkumann í Bandaríkjunum í fangelsi fyrir morð sem hann framdi ekki. 

Nú er niðurstaðan sú að hann sat saklaus í fangelsi í 24 ár.

Með því að lykilgögn "týndust" vantaði hann sönnun þess að hann gat ekki hafa framið meintan stórglæp.

Í öðrum svipuðum málum hefur síðbúin DNA rannsókn leitt sakleysi dæmdra í ljós. 

En lykilgögn getur vantað á ýmsan hátt. Miðað við vitneskju, sem nokkur vitni, sem enn eru á lífi, búa yfir varðandi Guðmundar- og Geirfinnsmálin, var atriðum, sem gátu verið sakborningum í hag, einfaldlega vikið til hliðar með því að rannsaka þessi atriði ekki, - eða - sem var jafnvel ennþá verra, - að yfirheyra ekki lykilvitni.

Ef það uppgötvast ekki fyrr en slík vitni eru látin, að þau voru ekki yfirheyrð, verður það of seint. Vitnin eru nú orðin það öldruð, að það má ekki dragast lengur að fara rækilega ofan í saumana á því, hverjir voru ekki yfirheyrðir, sem undir öllum eðlilegum kringumstæðum hefði átt að yfirheyra.  


mbl.is Sat saklaus í fangelsi í 24 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað og tilkoma Iceland Express 2003? Eða annað Bauhaus?

Ísland er eyland langt norður í höfum og samgöngur til landsins því lífsnauðsyn fyrir Íslendinga.

Lélegar samgöngur til landsins voru meðal þátta í afsali valds til Noregskonungs 1262.

Árið 2002 ríkti einokun í flugsamgöngum til landsins. Eitt íslenskt flugfélag naut hennar.

Þá kom flugfélagið Iceland Express til sögunnar og margir gera sér kannski ekki grein fyrir því hve miklu skipti að einokunin var rofin, þannig að hún hefur ekki átt afturkvæmt.

Nú er öldin svo sannarlega önnur að þessu leyti með tugum flugferða á hverjum degi.

Verslun á Íslandi er líka mikils virði vegna fjarlægðar frá öðrum löndum og samgöngurnar, - og einokunarverslun Dana var þungbær.

Afnám hennar og síðar fullt verslunarfrelsi 1854 voru því framfaraspor.

En einokun getur líka verið af fleiri toga.

Á veldistíma Kolkrabbans svonnefnda var viss einokun fólgin í ofurveldi hans á innlendum smásölumarkaði.

Tilkoma lágvöruverslana á borð við Bónus og Hagkaup voru jafnvel meiri kjarabót en fékkst með launabaráttu verkalýðshreyfingarinnar.

En vegna smæðar þjóðfélagsins er ævinlega hætta á fákeppni sem er ákveðið afbrigði af einokun.

Tilkoma Costco veltir upp spennandi spurningum um áhrif hennar og eðli, sem á eftir að svara.

Gríðarlegt kaupæði í versluninni í Kauptúni segir ekki alla söguna, því að svipað kaupæði greip landann þegar stórverslun Bauhaus var opnuð fyrir nokkrum árum, án þess að hægt sé að segja að hún hafi markað mikil tímamót. 

Það liðu mörg ár frá opnun Bauhaus þangað til ég kom þangað fyrst inn, og þá vegna þess að mér hafði verið sagt frá ákveðinni verslunarvöru, sem aðeins fengist þar, mjóum plaströrum af ákveðinni þykkt.

Þetta var fyrir vorferð mína á Sauðárflugvöll fyrir rúmu ári. Ég var þá enn að jafna mig eftir slysfarir og kveið fyrir þvi að þurfa að fara um þetta langa hús.

En þá uppgötvaði ég, mér til mikils léttis, að fyrir fatlaða, eins og ég var þá, var til reiðu rafknúinn hjólastóll til að leita að mjóu rörunum, sem mig vantaði í þessu gríðarstóra húsi.

Kannski var hjólastóllinn þarna til reiðu, aðeins vegna þess, að það var samkeppni um að fá fatlað og aldrað fólk til að versla þar. Ja, hver veit? 


mbl.is Mikil örtröð í Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bændaflokkurinn og Ófeigur á sinni tíð.

Í hundrað ára sögu flokks eins og Framsóknarflokkins gerist ýmislegt aftur og aftur, svo sem ósætti á milli forystufólks.

1933 sagði Tryggvi Þórhallsson, sem verið hafði forsætisráðherra á vegum flokksins, sig úr flokknum og stofnaði Bændaflokkinn.

Í Wikipediu stendur réttilega að eitt stærsta ágreiningsmál þessara ára hafi verið kjördæmamálið og að "þingmönnum Reykjavíkur var fjölgað á kostnað landsbyggðarinnar".

Af því mætti ráða að landsbyggðarþingmönnum hafi verið fækkað, en það er ekki rétt, því að þeim var ekki fækkað, heldur fjölgað, - Siglufjörður fékk þingmann.

Og fáranlegt öfugmæli væri að gefa í skyn að fjölgun þingmanna í Reykjavík hefði falið í sér eitthvert óréttlæti á kostnað landsbyggðarinnar, því að Framsókn fékk meirihluta þingmanna í kosningunum 1931 út á aðeins 35% fylgisins og það eingöngu vegna hins litla vægis atkvæða í þéttbýli.  

Nóg um það, Bændaflokkurinn fékk þrjá þingmenn en Hermann Jónason felldi Tryggva í Strandasýslu í kosninunum 1934 og Tryggvi dró sig út úr stjórnmálum, enda heilsuveill.

Þá varð Jónas Jónsson frá Hriflu formaður, og ekki vantaði hann það að hafa mikinn og oft sérkennilegan áhuga á mörgum málum, svo sem menntamálum og utanríkismálum.

Helsta pólitíska vopn Jónasar var að vera ritstjóri Tímans, því að hann var sérstaklega ritfær maður og öflugur og skæður á þeim vettvangi.

En líka oft ófyrirleitinn og stóryrtur að við myndun ríkisstjórnar með Alþýðuflokknum 1934 settu Kratar það skilyrði að Jónas yrði ekki ráðherra.

En það hefðu þeir ekki getað gert ef ekki hefði verið ósamkomulag um Jónas innan hans eigin flokks. Rétt eins og var í fyrra um Sigmund Davíð. 

Og Jónas settist aldrei í ráðherrastól eftir það, þótt hann væri formaður og áhrifamaður allt til ársins 1944.

Þá var hann felldur úr formannsstóli en hélt þingsæti sínu í Suður-Þingeyjarsýslu til 1949.

Hann gaf út blaðið Ófeig sem margir lásu, en lenti upp á kant við flesta aðra 1945 þegar Bandaríkjamenn vildu fá herstöðvar í á Keflavíkurflugvelli, Skerjafirði og Hvalfirði til 99 ára.

Sú tala ára var talin jafngilda því að herstöðvarnar yrðu til allrar framtíðar.

Jónas hafði þá sérstöðu meðal íslenskra stjórnmálamanna lengst af valdatíma sínum að fara í ferðalög árlega austur og vestur um haf og fylgjast grannt með alþjóðastjórnmálum.

Hann áttaði sig á því fyrstur íslenskra valdamanna að þjóðirnar, sem hann kallaði "Engilsaxa", Bandaríkjamenn og Bretar, myndu hafa slíka hernaðarlega yfirburði á Norður-Atlantshafi um ókomna framtíð, að Íslendingar yrðu að laga stöðu sína að því og nýta sér þetta með því að semja um herstöðvarnar gegn því að fá fríverslunarsamninga við Bandaríkin.

Að gera þetta beint ofan í stofnun lýðveldis 1944 var þó of stór biti fyrir alla stjórnmálaflokkana á þingi.

Föðurafi minn, Edvard Bjarnason, var á lista Framsóknarmanna í bæjarstjórnarkosningunum 1934, en móðurafi minn, Þorfinnur Guðbrandsson, fylgdi Sósíalistaflokknum að málum.

Ég man eftir því þegar Íslendingar gengu í NATO 1949, að þegar afi Ebbi deildi við afa Finn um tillögu Bandaríkjamannna, taldi hann Hriflu-Jónas hafa sýnt framsýni með því að vilja semja við Bandaríkjamenn, því að í slíkum samningum hefðu Íslendingar getað fengið fram þá málamiðlun að hersetan yrði aðeins til 50 ára og að Skerjafjörður, sem væri að verða úreltur hernaðarlega, félli út.

Og 1951 var  kom síðan varnarliðið og sat í Keflavík og Hvalfirði,  einmitt í hálfa öld, og var grátbeðið um að vera lengur, þegar það fór.  

Sigmundur Davíð hefur haft ýmis áhugamál sín á oddinum líkt og Tryggvi Þórhallsson og Jónas Jónsson á sinni tíð og verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr Framfarafélaginu, hliðstæðu Bændaflokksins og Ófeigs sem pólistískt baráttutæki.  


mbl.is Fyrrverandi formenn stjórna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband