Þegar "síldin lagðist frá."

Nokkrum árum eftir algert hrun norsk-íslenska síldarstofnsins heimsótti ég Raufarhöfn og gerði um það einn af þáttum sjónvarpsins sem báru heitið "Heimsókn". 

Athyglisvert var hvernig menn töluðu um þetta mikla hrun. Þeir sögðu "eftir að síldin lagðist" en ekki "eftir að síldinni var eytt."

Áratugir liðu og síldin hélt áfram að fela sig á þeim stað, sem hún hafði fundið, þegar hún lagðist frá. 

Hún hafði aldrei verið drepin, ónei. 

Menn horfðu út á hafið. Einhvers staðar þarna úti, liklegast í norðri, var hún ennþá öll. 

Því að þar gat hún falið sig undir hafísnum, svo að það var ekki hægt að finna hana á asdicinu. 


mbl.is Síldarstofninn minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullkomnar mótsagnir.

Skyndilega sprettur fram hugmynd um miklar framfarir í sjúkraflutningum sem byggist á litlum þyrlum. 

Ekkert er minnst á fjárhagslegt umhverfi þessarar nýju og nauðsynlegu þjónustu á sama tíma sem Landhelgisgæslan hefur verið svelt árum saman og er það enn. 

Fyrstu áratugir þyrlureksturs hjá Gæslunni voru erfiðir og óhöpp tíð.

Þyrlurnar voru of litlar og það tók sinn tíma að læra af reynslunni og byggja upp þekkingu og reynslu. 

Gæslan átti eina minni þyrlu en Super Púmurnar en varð að láta hana frá sér vegna skelfilegs niðurskurðar. 

Nú eiga allt í einu að vera til nógir peningar eða hvað?

Að sjálfsögðu á að stækka og breikka flugflota Gæslunnar og hafa allt sjúkraflugið, á sjó og á landi hjá þeim sem bestu reynsluna og yfirsýnina hafa. 

Annað er "galið."


mbl.is Segir galið að taka flugið frá Gæslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hús á stærð við Ólafshöllina í Þrándheimi hefði hentað vel.

Ólafshöllin í Þrándheimi var margfalt ódýrari en Harpa en þjónar samt því svæði erlendis sem er næstum alger samsvörun Reykjavíkur og Suðvesturlands, því að Þrándheimur og Þrændalög eru með svipaðan mannfjölda, veðurfar, breiddargráðu og menningu. 

Stóri salurinn í Ólafshöllinni er að vísu aðeins minni en Eldborgarsalurinn og það er aðeins einn smærri salur í byggingunni. En völ er á fleiri sölum í grenndinni og sambyggt við Ólafshöllina eru hótel og verslanir, og fleiri þjónustumiðstöðvar í grenndinni. 

Stóri salurinn í Ólafshöllinni hefur þann kost, að hann var hannaður í leiðinni sem óperuhús. 

Ólafshöllin er dæmi um mannvirki fyrir flutning listar og andlegra verka, sem er ekki svo dýr, að dýrmætir fjármunir fari að óþörfu í annað en listina sjálfa, svo sem rekstur, viðhald og fjármagnskostnaður.

Að þessu leyti voru Útvarpshúsið og Harpa líkast til of stór í upphafi.

En taka verður því að sjálfsögðu sem gerðum hlut og bæði húsin eru falleg, þótt verið sé að byrgja fyrir Útvarpshúsið á alla vegu um þessar mundir og gera það að bakhúsi. 

Hluti af stærð Hörpu fólst í því að um 40% af byggingarkostnaði var greiddur af útlendingum, sem voru hlunnfarnir í bankahruninu. 

Það er svo sem ekkert til að státa sig af fyrir okkur Íslendinga. 

 

 


mbl.is Harpa ekki lengur miðpunktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástandið á Reykjanesskaga áfram ömurlegt.

Þegar farið var í vettvangsferðir vegna frétta og þátta um Reykjanesskagann á níunda og tíunda áratug síðustu aldar kom það mörgum í opna skjöldu að sjá, hve hörmulega þessi landshluti var leikinn varðandi beit og uppblástur og herfilegar skemmdir á gróðri og umhverfi af völdum jeppa, vélhjóla og annarra samgöngutækja. 

Nú, meira en þrjátíu árum síðar, mætti ætla að ástandið hafi lagast, en enda þótt það hafi gert það á einstaka svæðum, hafa bara önnur svæði orðið verr úti, allt frá Mosfellsdal, Mosfellsheiði og Þingvallavatni í norðaustri og út eftir öllum skaganum.Eldvörp. Grindavík í fjarska. 

Ofan á þetta hefur það bæst, hvernig sæmilega varfærin sókn í nýtingu jarðvarma í upphafi, hefur færst hratt í aukana og birtist nú ekki aðeins í mikilli ágengni og beinni rányrkju, heldur áformum um að gera allt svæðið frá Svartsengi suður til sjávar fyrir vestan Grindavík að allsherjar virkjanasvæði í örvæntingarfullri baráttu við hið óhjákvæmilega hrun svæðisins. 

Á loftmyndinni sést hluti gígaraðarinnar og Grindavík og ströndin þar vestur af í fjarska. 

Í þessar herför verður vaðið yfir rúmlega tíu kílómetra löngu gígaröðina Eldvörp, eins og sjá má á heimasíðu þeirra, sem þarna eiga hlut að máli, en slíkar gígaraðir frá því eftir ísöld, er hvergi að sjá á þurrlendi jarðar nema á Íslandi. 

Og það þarf að fara alla leið norðaustur fyrir Friðland að Fjallabaki til að sjá annað eins. 


mbl.is Sárin í mosanum grædd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bóndinn barði konuna... ...kötturinn klóraði í hænuna.

Einhvern tíma heyrði maður sögu sagða af því að bóndi lamdi konu sína, konan lamdi vinnukonuna, vinnukonan lamdi strákinn, strákurinn sparkaði´í hundinn og hundurinn glefsaði í köttinn sem klóraði í hænuna. 

Allir aðilar þessara árekstra áttu það sameiginlegt að "hefna þess í héraði sem hallaði á Alþingi", þ. e. að nýta sér yfirburði gagnvart veikari aðila. 

Ég hef um ævina unnið undir stjórn ótal manna og verkstjóra og eitt sinni undir stjórn manns sem stundum var úrillur á morgnana og hreytti fúkyrðum í þá sem hann stjórnaði. 

Vitað var að þessi verkstjóri var giftur skapmikilli skörungskonu, og hvískruðu menn sín á milli þegar ólundarmorgnar runnu upp, að verkstjórinn hefði farið halloka á Njálsgötunni. (Götunafnið er valið af handahófi). 

Það tæpa ár sem ég hef að mestu ferðast um á rafreiðhjóli og léttu vespuvélhjóli sést það koma fyrir að einstaka bílstjórar ganga harkalega fram gegn vélhjóla- og hjólreiðamönnum. 

En síðan sést líka hvernig einstaka hjólreiðamenn eða vélhjólamenn sýna gangandi fólki ekki tillitssemi eða virðingu. 

Einna varasamastir eru örfáir hjólreiðamenn, sem freistast til þess að gera hjóla- og gangstíga að kappaksturbrautum og bruna á gríðarlegum hraða með höfuðið niður í bringu til að ná sem mestum hraða, en gera það á kostnað öryggis þeirra sem framundan kunna að vera. 

Á hjólreiðastígum þar sem sérstakar aðstæður eru þarf að koma fyrir glöggum merkingum til þess að auka öryggi og almennt þarf að efla tillitssemi, lipurð og árvekni í umferðinni. 


mbl.is „Þetta er ekki Miklabrautin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir og návígi skapa óyfirstíganlega viðkvæmni og sárindi.

Erfiðustu og stærstu deilumálin í samfélagi okkar líða fyrir ýmislegt, en þó einkum þrennt: 

Tvær orsakir og stóra afleiðingu: 1. Stóra peningalega hagsmuni. 2. Mikið návígi í litlu samfélagi. 3. Afeiðinguna, óyfirstíganlega viðkvæmni og sárindi. 

Helstu stórmálin líða fyrir þetta, svo sem fiskveiðistjórnarkerfið, stjórnarskráin og virkjanamálin. 

Í öllum málunum koma stór og öflug valdaöfl við sögu sem eru hafa yfirleitt yfirhöndina í krafti peninga, valdaaðstöðu og getunnar til að ráða atburðarásinni þannig að mótaðilinn er yfirleitt of seinn og lendir alltaf í því að vera að bregðast við. 

Ég er enn að jafna mig eftir merkilegt málþing, sem fram fór í Árneshreppi um helgina, litlu 50 manna samfélagi dásamlegs fólks á flesta lund, sem bætti við fyrri góð kynni af yndislegu umhverfi og ljúfum og heillandi áhrifum þess á samfélagið.

En viðfangsefni málþingsins minnti óþyrmilega á upplifun af samskonar uppákomum í mörgum sveitarfélögum víða um land í gegnum árin, þar sem deilur um eitt stórmál, sambúð manns og náttúru, klauf fólkið og samfélagið, ættir og fjölskyldur í herðar niður, svo að það gekk mjög nærri því. 

Mér er kunnugt um fólk á Austurlandi sem missti heilsuna á meðan á þessum harðvítugu átökum stóð.

Dagsrkáin á málþinginu í Árneshreppi leiddi í ljós mikinn vilja þar um slóðir til þess að láta ekki deilur og rökræður spilla fyrir þeirri vináttu sem svona fámennt samfélag við erfið skilyrði skapar.Vesturverk, Vestfirðir

En jafnframt kom í ljós hve langt þeir eru komnir sem ætla að sveigja Vestfirðinga frá hugmyndum um þjóðgarða og verndarnýtingu helstu náttúruverðmæta fjórðungsins.

Einnig kom í ljós að umræðan öll er á svipuðu plani og var í Bandaríkjunum fyrir hálfri öld og í Noregi fyrir 30 árum.

Til dæmis að hægt verði að gera virkjanasvæðin jafnframt að þjóðgarði. Slíkar hugmyndir voru uppi fyrir heilli öld í Bandaríkjunum, en eru óhugsandi á okkar tímum.

En um það er ákaflega lítil vitneskja hér á landi.hjarta-vestfjarda

Einnig kom vel í ljós á þessu málþingi hverjir það eru raunverulega sem ætla sér að græða á virkjanastefnunni og að þegar virkjanirnar verða komnar í gagnið, skapi þau engin störf á svæðinu sam hýsir virkjunina, gagnstætt því sem raunin hefur verið varðandi þjóðgarða.

Ég vísa til bloggpistils frá í gær um það efni. 

Fulltrúar Landverndar stóðu sig mjög vel í því að flytja af yfirvegun og rósemd fróðleik um eðli og gagnsemi þjóðgarða, en mikið verk er óunnið við að koma þekkingunni og umræðunni á það plan sem hún er erlendis.

Greinilegt er að "áunnin fáfræði" hefur skekkt mjög umræðuna hér á landi um þessi mál. 

Þess má geta að árið 2002 lýsti Kjell Magne Bondevik þáverandi forsætisáðherra Noregs því yfir, að tími stórra vatnsaflsvirkjana væri liðinn þar í landi, þrátt fyrir geysimikið óvirkjað vatnsafl.

Síðan eru liðin 15 ár, en hér á landi erum við með rúmlega 80 nýjar virkjanir í undirbúningi. 

Einn liðurinn í því er að fjársterkir aðilar hafa keppst við að kaupa upp "virkjanajarðir" hér og þar á landinu, líkt og gert hefur verið í Árneshreppi. Líka jarðir á virkjanasvæðum, sem hafa farið í verndarflokk. 

Virkjanirnar, sem Norðmenn eru hættir við, eru einkum svonefndar "þakrennuvirkjanir" í líkingu við Kárahnjúkavirkjun og virkjunina á Ófeigsfjarðarheiði, en miklar áætlanir um slíkt á hálendi Noregs voru uppi fyrir 50 árum.

Þessar virkjanir á svæðum bergvatnsáa eru að vísu tæknilega afturkræfar, en í raun er það viðfangsefni að rífa niður stíflur og mannvirki svo stórt, að komandi kynslóðir standa frammi fyrir gerðum hlut.  

Með því er unnið gegn sjálfbærri þróun og jafnrétti kynslóðanna. 

Þegar deilurnar um sjávarútveginn, virkjana- og stóriðjumálin og stjórnarskrána eru skoðaðar, er aðdáunarvert hvernig tókst að gera Þjóðarsáttina svonefndu árið 1990. 


mbl.is Ósætti innan veiðigjaldanefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líka fallegast vestanlands í kvöld?

Hafi verið hlýjast vestanlands í dag var líklege einnig fallegast í þeim landshluta. Borgarfj. Sólarlag

Á leiðinni frá Árneshreppi suður til Reykjavíkur varð að stansa hvað eftir annað til að taka myndir í hinu fallega veðri. 

Hef þá síðustu fyrst, sólin að síga á bak við Ljósufjöll, sem gnæfa í baksýn þegar horft er yfir Borgarfjörð og Mýrarnar. 

Leiðin norður í Árneshrepp liggur um lélegan veg, en landslagið er því fallegra og stórbrotnara. 

Set því inn mynd af veginum þar sem hann liggur undir Reykjarfjarðarfjalli inn í botninn, en Búrfell situr uppi á hálendinu þar inn af. 

Þetta gæti verið mynd í vegahandbók eða ferðariti.Reykjarfj. Árneshreppi 

Neðsta myndin að þessu sinni er síðan af einhverju fallegasta bæjarstæði á Íslandi að mínum dómi, Gjögri, þar sem brýnt væri að varðveita húsin óbreytt, því að þau eru svo vinaleg.  

Fegurð bæjarstæðisins helgast af fjöllunum hinum megin við Reykjarfjörðinn.Gjögur, Árneshreppi

Hvert öðru reisulegra, Byrgisvíkurfjall, Burstarfjall og innar, fyrir utan myndina eru Reykjarfjarðarkambur og fleiri tignarleg fjöll og tindar. Gjögur, útsýni


mbl.is Hlýjast vestanlands í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

244 km/klst í landi, þar sem fólk verður að venja sig við 50 km hámarkshraða!

Þegar ég fór í fyrstu löngu kvikmyndatökuferð mína um Noreg gerði ég áætlun um að verða 14 daga á svæði sem var allt frá syðsta hluta landsins norður til Alta-árinnar. 

En það leið ekki langur tími þar til það kom í ljós, að sé seinkeyrt um íslenska vegakerfið, má telja það eins og hraðbraut miðað við það norska. 

Á löngum, löngum köflum var leyfður hámarkshraði 50km/klst og fljótlega fauk ferðaáætlunin út í veður og vind.

Á tveimur stöðum milli tveggja stærstu borganna, Oslóar og Björgvinjar, með samtals meira en milljón íbúa, voru einbreiðar brýr, og á E6 til suðaustur frá Osló, var hægt að nota eina akrein.

Á þriðja degi var eins gott að segja við sjálfan sig: Slappaðu af, sættu þig við það sem þú getur ekki breytt, því að annars eyðileggurðu ferðina í stressi. 

Þegar komið var norður til Alta var útilokað að komast í tæka tíð til Oslóar, ekki einu sinni með því að aka fljótkeyrðustu leiðina, yfir til Finnlands, þaðan suður með Kirjálabotni Svíæþjððarmegin og loks þvert til vestur yfir Svíþjóð til Oslóar.

Bílnum var því skilað í Alta og flogið í staðinn. Ég frétti af Íslendingi sem ók frá Osló til Þrándheims en varaði sig ekki nógu vel á hraðamyndavélunum og fékk 11 sektir á leiðinni!

Hámarkshraðinn er talsvert meiri í Svíþjóð en í Noregi en samt er slysatíðnin lægri.

Vegna fjöllótts landslags lögðu Norðmenn mikla áherslu á það áratugum saman að grafa jarðgöng og malbika sem fyrst allt vegakerfið.  

Eftir þessi kynni af norska vegakerfinu undrast ég það hvað þeir hjá Top gear komust upp með. 

Það var þáttur um daginn með Jeremy Clarckson á Bugatti Veyron, en mig minnir að framleiðandinn gefi það upp að sá bíll geti farið úr kyrrstöðu upp í 200 kílómetra hraða á álíka löngum tíma og venjulegur bíll er að fara upp í 100. 

Hámarkshraði Veyron er 416 km/klst svoo að 244 km hraði þar ekki að vera ósennilegur ef tryllitækið er nógu öflugt. 


mbl.is Toppgírungar bannfærðir í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gildi áskorunarinnar í náttúrunni.

Nú er haldið málþing í Trékyllisvík um virkjun Hvalár og hefur verið innihaldsríkt.Árnes í Trékyllisvík

Sunnudagsmorguninn var dýrlegur þegar birti upp eins og sést á þessari mynd.  

Eitt af því sem haldið er fram er gamalkunnugt stef um að því stærri og meiri nýir vegir sem lagðir séu um verðmæt náttúrusvæði, því betra. 

Með virkjuninni komi vegur um víðerni Ófeigsfjarðarheiði sem geri fólki kleyft að fara á bílum sínum til að skoða stíflur og miðlunarlón og önnur virkjanamannvirki. 

Samkvæmt þessu væri bráðnauðsynlegt að leggja bílfæran veg um hina vinsælu gönguleið Laugaveginn. Árnes, - málþing

Í Ameríku væri talað um að leggja hraðbraut að frægasta náttúruvætti Utah ríkis, steinbogann "Viðkvæma boga" ("Delicate Arch") í Arches-þjóðgarði. 

Boginn er það mikils metinn, að hann prýðir skjaldarmerki Utah-ríkis. 

Og er einnig á framhlið bandaríska náttúrupassans, sem veitir aðgang að öllum þjóðgörðum Bandaríkjanna.  

En þar vestra er hins vegar talið mest um vert, að hver og einn fái að öðlast sem líkasta upplifun og fyrsti landneminn fékk. 

Þess vegna liggur sama gönguleiðin núna að Viðkvæma boga nákvæmlega eins og hún hefur legið frá öndverðu. 

Hún liggur að mestu á sléttum klöppum eða nógu föstu landi, að það veðst ekki upp. Náttúrupassi í heild

Hjólastólafólk hefur ekki amast við þessu, því að það er mögulegt að fara alla þessa leið á hjólastólum. 

Auðvitað er það áskorun fyrir hreyfihamlaðan að fara að Viðkvæma boga á þennan seinfarna hátt, en þess meiri er ánægjan. Hjarta landsins framhlið

Ánægjan og upplifunin við að ganga Laugaveginn er líka aðalatriðið varðandi hið stórbrotna landslag, sem leiðin liggur um, - upplifun sem ekki næst á annan hátt.  

Og þegar upp er staðið er niðurstaðan sú, - ef endilega þarf að reikna allt í peningum, - að orðspor landsins á heimsvísu vegna ósnortinnar, einstæðrar náttúru, að síðustu árin hefur þetta orðspor gefið þjóðinni mestu uppgangstíma í langan tíma.hjarta-vestfjarda

Í framhaldi af gerð 72ja laga hljómdiskaalbúmsins "Hjarta landsins - náttúran og þjóðin", - sem ætlað er að vekja athygli á hugmyndinni um stóran þjóðgarð á miðhálendi landsins, - bað ég Karl Örvarsson, hönnuð albúmsins, að útfæra á táknrænan hátt hugmynd um stóran þjóðgarð á Vestfjarðakjálkanum eftir lýsingu minni.  

Hann yrði beggja vegna Ísafjarðardjúps og teygði sig yfir innsta hluta Djúpsins°og næði norður á Hornstrandir.

Ljóst er að svona hugmynd yrði lemstruð með því að gera viðfeðma virkjun á Ófeigsfjarðarheiði, því að á okkar tímum er það klárt, að útilokað er að reisa slík virkjanamannvirki inni í þjóðgarði.

P.S.  Hinn nafnlausi Hábeinn sem stanslaust segir mig fara með rangfærslur, sem er annað orð yfir lygar, verður til þess að ég birti hérna nokkrar myndir.

Efst er mynd af heimasíðu Vesturverks þar sem upplýst er að H.S. orka eigi það stóran hlut í Vesturverki að það geti lagt í öll sín stóru verkefni á hálendi Vestfjarða, sem önnur mynd á heimasíðu fyrirtækisins sýnir.  70% hlutur er langt umfram það sem þarf til að eiga ráðandi hlut í fyrirtæki. HS orka-Vesturverk

Neðar er mynd er úr frétt af visir.is á sínum tíma um það hvernig kanadískt stórfyrirtæki stofnaði sænskt skúffufyrirtæki til að komast í gegnum EES í að eignast ráðandi HS orku.

Sænska skúffufyrirtækið var með enga aðra starfsemi en að vera leppur. 

Þar er talað um 98% hlut, og hafi sá hlutur minnkað síðan, hefur það ekki verið gert til að missa tangarhald á H.S. orku.

Ég á eftir að sýna Hábeini frekari gögn, svosem um Ross J.Beaty og um 500 megavatta virkjunina í Krýsuvík, sem ég hef ekki tök á að á taka mynd af fyrr en að fundi loknum. Krýsuvík virkjunKrýsuvík 


mbl.is Gekk einfættur á Hvannadalshnjúk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt af mörgum málum, sem sýnir af hverju þarf endurupptöku hér.

Mál John Floyds sem sat saklaus inni í 36 ár er aðeins dæmi um mörg hliðstæð mál, þar sem í ljós hefur komið að harðneskja lögreglu getur framkallað falska játningu. 

Fyrir liggur að sakborningarnir í Geirfinns- og Guðmundarmálum voru beittir yfirgengilegri harðneskju í formi svo óralangs gæsluvarðhalds og einangrunar að það fór margfalt yfir eðlileg og verjandi mörk. 

Öll málsmeðferðin var þannig, að hún snertir alla sakborninga, líka Erlu Bolladóttur, og ber því að harma að hennar mál skuli undanskilið og látið óhreyft. 

 


mbl.is Sat saklaus í fangelsi í 36 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband