Meiri von til að geta hróflað við kerfinu en oft áður.

Réttilega eru kjör sauðfjárbænda við vestanverðan Húnaflóa tekin sem dæmi um þann vanda sem steðjar að sauðfjárbændum og gætu reynst þeim og þeim landshlutum, sem eru háðastir sauðfjárrækt.  

Hvammstangi er nefndur sem gott dæmi og víst er að vegna afleiddra starfa í kringum sauðfjárbúskapinn myndi afhroð eða jafnvel hrun í honum hafa slíkar afleiðingar fyrir kjör fólks og byggðina í landshlutanum, að það yrði öllum til tjóns og að við það mætti ekki una. 

En skriftin er á veggnum: Stórfelldri umframframleiðsla á kindakjöti verður að linna og það verður að skoða loks af alvöru, hvort ekki eigi að hagræða þannig í greininni að sauðfjárbúskap verði ýmist hætt eða dregið stórlega úr honum á svæðum, þar sem bæði er uppgangur í öðrum greinum og þar að auki um ofbeit að ræða, einkum á hinum eldvirka hluta landsins. 

Á þessum svæðum yrðu bændir styrktir til að draga úr framleiðslu og hætta búskapnum, en bændur á þeim svæðum á landinu, þar sem sannanlega er gott og vel sjálfbært beitiland, fái nægan styrk og aðstöðu frá ríkinu til að halda áfram nógu góðum búrekstri. 

Nú er mikill uppgangur í þjóðfélaginu, ekki síst vegna aukinna möguleika í dreifbýlinu. 

Margir sauðfjárbændur á helstu ferðamannasvæðunum eru í búrekstrinum sem aukagrein, en það hlýtur að vera hagkvæmara út af fyrir sig að viðhalda stærri búum, þar sem sauðfjárræktin hefur mesta möguleika til að spjara sig. 

Þetta kallar á víðtækar aðgerðir sem ekki verða hristar fram úr erminni á augabragði. 

En stjórnmálamenn skulda bændum og fleirum að bæta upp það tjón sem vanhugsuð þátttaka í viðskiptaþvingunum NATO og ESB og fleiri ríkja hefur valdið hér á landi, enda eru Íslendingar látnir bera langmestan hlutfallslegan þunga af þessum aðgerðum.  


mbl.is Slæm staða blasir við bændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna kóngafólk?

Þótt lýðræðishefðin sé einna sterkust og hafi verið einna langvinnust í vestrænum ríkjum, þarf ekki endilega að vera samasemmerki á milli hennar og þess, hvort um lýðveldi eða konungdæmi sé að ræða. 

Þannig hefur lýðræði verið stöðugt bæði á Norðurlöndum, í Niðurlöndum og á Bretlandi, þótt um sex konungdæmi hafi verið að ræða. 

Konungar og drottningar í þessum löndum hafa lítil sem engin pólitísk völd en sinna eins konar starfi fullltrúa þjóðarinnar sem einnig komi fram inn á við til að uppörva þjóðina og hughreysta eftir þörfum. Svona eins konar sálgæsla fyrir alla. 

Þetta kom vel fram í heimildamynd um Díönu prinsessu af Wales í tilefni af því að í dag eru tuttugu ár síðan hún lést í bílslysi í París. 

Atburðarásin næstu vikuna eftir lát hennar virtist koma öllum á óvart, svo víðtæk voru áhrifin af láti hennar og mun almennari og dýpri en nokkurn óraði fyrir. 

Fyrsti votturinn um að sviptingasöm vika væri í vændum var þegar Tony Blair forsætisráðherra áræddi að kalla Díönu prinsessu fólksins. 

Með þessu var hrundið af stað atburðarás þar sem Elísabet drottning og konungsfjölskyldan neyddist til að víkja til hliðar ævagömlum hefðum og reglum, sem giltu um svona atburði.

Þótt Díana og Karl Bretaprins hefðu verið skilin að borði og sæng í fimm ár og lögskilin í tvö ár og Díana því ekki lengur inni á gafli í konungsfjölskyldunni sá Elisabet sig knúna til að láta draga fánann í hálfa stöng á konungshöllinni, nokkuð sem ekki hafði einu sinni verið gert þegar faðir hennar dó.

Tony Blair og fleiri óttuðust óróa og jafnvel afdrifaríka andúð almennings á konungdæminu en með því að stytta fjarveru konungsfjölskyldunnar, láta draga fána í hálfa stöng og halda í fyrsta sinn ræðu í beinni útsendingu þegar fjölskyldan tók beinan þátt í útiathöfn.

Segja má að afar vel flutt og samið ávarp drottningar hafi eitt það mikilvægasta á ferli hennar til að ná til þjóðarinnar og byggja upp samhug hennar og kóngafólksins.

Fyrir lýðveldissinna eins og mig hefur konungdæmi ævinlega virkað forneskjulegt, ekki síst hið mikla tilstand og kostnaður í kringum "slektið."

En Óskarsverðlaunamyndin um konunginn stamandi, Georg sjötta Bretakonung, og hlutverk hans í því að stappa stálinu í Breta á ögurstundum heimsstyrjaldarinnar, fékk mig til þess að líta hlutverk þjóðarleiðtoga af þessu tagi svolítið öðrum augum.

Það furðulega er, að fyrirkomulagið sjálft, æviráðning á grundvelli erfða og kynslóðaskipta, höfðar að því leyti til margra að þar er um að ræða svipað fjölskyldufyrirkomulag og hjá almenningi.

Almennir þjóðfélagsþegnar kjósa ekki um mæður sína, feður og systkini, og að því leyti standa gleði og sorgir kóngafólksins og samskipti þess innan fjölskyldunnar nær venjulegu fólki og verða skiljanlegri og líkari en ella, svo undarlega sem það hljómar í lýðræðisþjóðfélagi.  


mbl.is Síðustu orð Díönu prinsessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki lengur ártalið 1993.

Þegar Íslendingar samþykktu EES-samninginn 1993 heyrður aðvörunarraddir vegna jarðakaupa útlendinga hér á landi. 

Aðrir sögðu að réttur til jarðakaupa væri gagnkvæmur og að við gætum líka keypt jarðir í þeim löndum sem samningurinn nær til. 

Hér er ólíku saman að jafna, annars vegar réttur 500 milljóna manna til að kaupa jarðir hjá meira en þúsund sinnum fámennari þjóð gatnvart rétti örþjóðarinnar til að kaupa jarðir hjá þúsund sinnum stærri þjóðum.

Enn aðrir sögðu að Ísland væri svo langt úti í hafi og að hér væri svo kalt loftslag að engin hætta væri á að útlendingar sæktust eftir að eiga landareignir hér.

Sem betur fer brustu ekki á stórfelld jarðakaup útlendinga hér, - í bili.

En 24 árum síðar eru aðstæður aðrar.

Vegna margfaldrar ferðaþjónustu, frægðar íslenskrar náttúru og orkuauðlinda Íslands eru annmarkar núverandi fyrirkomulags að koma í ljós.

Einar Þveræingur sagði, þegar menn vildu gefa Noregskonungi Grímsey, að víst væri þálifandi Noregskonungur ágætis maður, en enginn vissi hvaða menn næstu konungar á eftir honum myndu hafa að geyma.  

Og þetta voru meðal þeirra raka sem urðu til þess að ekki varð af því að láta Grímsey af hendi.

Alveg hið sama er uppi á teningnum nú. Heyra mátti í viðtali á Stöð 2 í gærkvöldi sveitarstjórnarmann segja að þeir sem ásældust jarðir hér á landi ættu að njóta vafans og ekki verða tortryggðir fyrirfram.

Þetta eru jafn veik rök og rök þeirra sem vildu gefa Grímsey forðum tíð. Alltof miklir íslenskir hagsmunir eru í húfi, já raunar hagsmunir á heimsvísu hvað varðar nauðsyn þess að varðveita íslensk náttúruverðmæti, til þess að láta þessa hagsmuni ekki njóta vafans í stað fyrir að erlendir jarðakaupamenn geri það.

Auk þess er Kína alræðisríki og Kínverjar sjálfir leyfa engin jarðakaup útlendinga þar í landi.

Danir og fleiri þjóðir sem gengu alla leið inn í ESB fengu sett í samninga sína ákvæði um takmarkanir á erlendum fjárfestingum í kaupum jarða og sumarbústaða.

Það er kominn tími til að við gerum svipað og Danir, - það er ekki árið 1993, það er árið 2017.  


mbl.is Mjög miklir hagsmunir í húfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæfileg seinkun á áhorfi hefði getað gefið svipaðan árangur.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur beðist afsökunar á því að hafa óskað á netinu eftir slóð á ólöglegt streymi áhorfs fyrir bardaga Floyd Mayweather og Conor McGregor og er það gott Áslaugu Örnu að gera það. 

En ef hún hefði verið jafn heppin og ég, sem ætlaði ekki að reyna að sjá bardagann beint, af því að ég hef ekki keypt mér aðgang að slíkum sendingum, hefði hún getað upplifað bardagann líkt og hann væri sýndur beint. 

Ástæðan var sú, að ég var ekkert að hafa fyrir því að vakna vegna bardagans, en vaknaði engu að síður um sjöleytið um morguninn. 

Ráfaði þá inn á Youtube og datt niður á sýningu frá öllum bardaganum undir titli sem ver einhvern veginn svona: "The KO and the whole fight". 

Það, að vita fyrirfram, að bardaginn hefði verið stöðvaður, gerði áhorfið meira spennandi fyrir mig, því að fyrirfram hafði ég búist við og reyndar óttast það líka að Mayweather myndi nýta sér bestu varnartækni á byggðu bóli og dunda sér við að verja sig líkt og Ali gerði stundum án þess að taka neina áhættu og vinna síðan hundleiðinlegan bardaga naumlega á stigum. 

Fyrirsögnin gerði það líklegra að McGregor hefði unnið og það jafnvel óvænt af því að Mayweather hefur ekki unnið á raunverulegu rothöggi, fengnu á eðlilegan og venjubundinn hátt, í tíu ár. 

En fyrir bragðið fékk ég óvænt allt út úr þessu áhorfi sem hægt var að sækjast eftir. 

Ég tók að vísu eftir því að sjónarhornið á tökunni var full þröngt, en skellti mér bara síðan inn á betri upptöku á Youtube, sem meðal annars sýndi að McGregor býr yfir góðri fótafærni og sýndi gamla Jersey Joe Walcott stæla á meðan úthaldið var ekki farið að gefa sig hjá honum. 


mbl.is Áslaug Arna biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipuð saga víða: Sundrung í samfélaginu.

Stórsóknin í virkjanamálum á Íslandi hófst upp úr 1990 með stórri skýrslu Iðnaðarráðuneytisins, þar sem raktir voru helstu virkjanamöguleikar á landinu.  

Í kjölfarið fylgdi LSD, skammstöfun fyrir orðin Lang Stærsti Draumurinn, þar sem þremur af fjórum jökulám á norðurhálendinu yrði steypt niður í virkjun í Fljótsdal.

1995 var sent fyrir hönd íslensku þjóðarinnar bænarskjal til helstu stóriðjurisa heims þar sem boðið var "lægsta orkuverð heims og sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum."

Það var ekki fyrr en árið 2006 sem Andri Snær Magnason upplýsti um þetta tiltekna atriði en allir fjölmiðlarnir þögðu í raun.

Þá vissu hvorki ég né aðrir hér heima að Norðmenn höfðu gert svipaðar LSD-áætlanir fyrir norska hálendið en fallið frá þeim.   

1997 voru síðan kynnt áform Norsk Hydro um 1200 megavatta virkjun í Fljótsdal sem gæti knúið 700 megavatta álver á Reyðarfirði. 

Til samanburðar má nefna að fyrsta álverið í Straumsvík var 20 sinnum minna. 

Nóbelskáldið notaði heitið "Hernaaðurinn gegn landinu" um áform af þessu tagi 1970. 

En áformin 1997 og eftir það hafa verið ekkert minna en stórstyrjöld gegn landinu. 

Hún hefur síðan sundrað samfélögunum, þar sem innrásir hafa staðið fyrir dyrum og verið knúnar í gegn. 

Illindin hafa birst ýmist í sérlega harðvítugum átökum eða svakalegri þöggun. 

Allt fram til 2010 ríkti til dæmis mikil þöggun í Mývatnssveit og maður reyndi að sneyða hjá umræðu við heimamenn um stórfelld virkjanaáform Landsvirkjunar í sveitinni. 

En það lifði í gömlum glæðum og hundruð fólks komu saman þegar minnst var 40 ára afmælis Laxárdeilunnar.

En viljinn til hernaðar gegn Mývatni og náttúruundrum þess og næstu svæða við það er enn við lýði.  

Á Austurlandi var hitinn svo mikill vegna Eyjabakka og Kárahnjúka að fjölskyldubönd rofnuðu og menn misstu heilsuna.

Einn af helstu forgangsmönnum andófsins hringdi eitt sinn í mig að næturlagi og grét í símann yfir því hversu hart hann væri leikinn, sagðist vera að brotna algerlega niður sálarlega og líkamlega. 

Skömmu síðar hafði hann kúvent, gengið til liðs við virkjanamenn og vonaði líklega að ástandið myndi skána, en lifði ekki lengi eftir það. 

Á málþingi í Árneshreppi í sumar komu fram raddir með áhyggjum um að svona gæti farið þar í sveit og ákall um að reyna að komast hjá því eftir farsæla sambúð fólks í þessu litla samfélagi.

En sundrungin og illindin "hanga yfir samfélaginu eins og draugur" líkt og á virkjanasvæðunum í Neðri-Þjórsá, þar sem félagi í samtökum andófsfólks lýsir ástandinu þar með tilvitnuðum orðum. 

Birtingarmyndirnar eru ýmsar en ein er sýnu greinilegust: Náttúruverndarfólki, sem vill spyrna við fótum, er lýst sem óvinum samfélagsins og fólki, sem "berjist á móti lífskjarabótum og eigi sér þá ósk heitasta að tína fjallagrös við torfbæina sína og fá að moka kamra eftir útlendinga" eins og einn orðar það svo smekklega í athugasemd í öðrum bloggpistli mínum hér á síðunni. 

Þegar þetta er komið niður á svona plan leðjuslags er ekki við góðu að búast. 

 


mbl.is Hangir yfir samfélaginu eins og draugur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkur fólksins í oddaaðstöðu?

Ef fylgistölur skoðanakannannar í borginni gengju eftir, virðist Flokkur fólksins geta orðið í oddaaðstöðu ef fylgi Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins bættu smávegis við fylgi sitt eins og það er nú.

Fylgi Bjartrar framtíðar og Framsóknar myndu ekki skila þeim flokkum neinum manni. 

Má Björt framtíð, arftaki Besta flokksins að hluta, muna sinn fífil fegri og Samfylkingin tapar miklu, er komin í innan við helming fylgis síns við síðustu borgarstjórnarkosningar. 

Sjálfstæðisflokkurinn hressist heldur eftir langa þrautagöngu síðustu sjö ár, en vantar þó talsvert upp á að nálgast sitt gamla og langvarandi fylgi. 

Að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafi samanlagt innan við helming fylgis borgarbúa eru mikil umskipti frá öldinni fyrir 2010. 


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf Trump ekki að hraða því að skipta vísindamönnum út?

Samkvæmt fyrri yfirlýsingum Bandaríkjaforseta hlýtur að vera orðið brýnt að hraða því nauðsynjaverki, sem hann sagði vera stefnu sína, að skipta út vísindamönnum, sem hafa tekið þátt í samsæri um loftslagsbreytingar, þannig að þeir sem hafi með fölsuðum mælingum og niðurstöðum gengið erinda falsfréttamanna um hlýnun loftslags verði reknir, en ráðnir í staðinn "alvöru vísindamenn" sem komist að breyttum og betri niðurstöðum. 

Með leiðréttingu á fyrri fölsunum má líklega finna út að í stað þess að úrkomumet hafi verið sett og fellibylurinn Harvey, sé fordæmalaus að sögn vísindamanna, séu þetta bara miklu minni og eðlilegar sveiflur í veðurfari. 

Theódór Freyr Hervarsson veðurfræðingur RÚV upplýsti í gærkvöldi, að sjórinn við strönd Texas væri 4-5 stigum heitari en áður og að heiti sjórinn næði nú niður í á hundrað metra dýpi í stað margfalt minna dýpis áður og þetta væri talin líkleg orsök þess sem er að gerast. 

Nú ríður á að setja inn nýja mælingamenn og veðurfræðinga, "alvöru vísindamenn," sem leiðrétta þessar tölur og setja inn réttari og betri tölur. 

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur grúskað í málinu og upplýst á bloggsíðu sinni að á síðustu misserum hafi komið þrír fellibyljir af slíkri stærð, að áður var talið að slík býsn gerðust aðeins á 500 ára fresti og þeir því kallaðir "500 ára fellibyljir". 

Þetta gerir brýnt að ekki séu aðeins leiðrétt gögn síðustu ára um þessi efni, heldur einnig gögn eins langt aftur í tímann og unnt er til að hrekja kenninguna um "500 ára fellibyljina." 


mbl.is Úrkomumet fallið í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónuafslátturinn hefur ekki borið sitt barr síðan 1995.

Á því "uppsveifluári" 2007 fóru fram Alþingiskosningar og í umræðuþætti í Sjónvarpinu kom fram að mikið skorti á að persónuafsláttur skattgreiðenda hefði fengið að halda stöðu sinni síðustu tólf ár. 

Þáverandi forsætisráðherra upplýsti að ekki væri mögulegt að hækka persónuafsláttinn í það horf sem hann hafði verið 1995, um væri að ræða óviðráðanlegan kostnað upp á um 30-40 milljarða króna, en það samsvarar um 70-90 milljörðum króna á verðlagi ársins 2017. 

Ríkissjóðir gæti alls ekki ráðið við þetta. 

Forsætisráðherra var þá spurður, að úr því að ríkissjóður hefði haft efni á þessu 1995, þegar hagur þjóðarbúsins var mun lakari, hvers vegna það væri ekki hægt 2007 þegar gumað væri af mestu efnahagsuppsveiflu í sögu þjóðarinnar, fengust engin svör við því. 

Og enn fást engin svör við því hvers vegna mönnum sé enn "refsað í bótakerfinu" 22 árum eftir 1995. 

 


mbl.is „Mönnum er refsað í bótakerfinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofurtrúin á hinn veldishlaðna hagvöxt.

Helstu auðlindir jarðar eru takmörkaðar að magni. Það eyðist sem af er tekið. Ofurtrúin á hinn veldishlaðna hagvöxt eru sennilega hættulegustu trúarbrögð heims. 

Það er eitthvað mikið að í þjóðfélagi sem býr yfir nægum fjármunum en getur samt ekki þrifist án veldishlaðins hagvaxtar. 

Sé hagvöstur 5% aukast umsvifin svona á 10 árum: 100-105-110-116-122-128-134-141-148-156-164.

Með sama áframhaldi verður talan eftir 20 ár 269 og eftir 40 ár 724. 

Sem sagt, þótt hagvöxturinn sé "aðeins" 5% á ári verður hagkerfið orðið meira en sjöfalt stærra á 40 árum. 

Sé hagvöxturinn 7% líta tölurnar svona út:

Á tíu árum:   100-107-115-123-132-141-151-162-173-185-198.  Hagkerfið hefur tvöfaldast. 

Á 20 árum hefur hagkerfið fjórfaldast. 

Á 30 árum hefur kagkerfið áttfaldast. 

Á 40 árum hefur hagkerfið 16 faldast. 


mbl.is Drifkraftar gefa eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orsakir matareitrunar eru oft lúmskar.

Matareitrun getur verið lúmsk. Dæmi: Herranótt M.R. var gefið tækifæri til að forðast það að verða lögð niður 1958. Tap hafði verið á henni og þótti það ekki viðunandi. 

En með mikilli fórnfýsi og val á "kassastykkinu" Vængstýfðir englar tókst að græða á henni 1958 vegna góðrar aðsóknar og margra sýninga, meðal annars úti á landi. 

Leikhópnum var boðið í kvöldmat þegar sýnt var í Hveragerði. Ég hafði stundað það fráleita sport um nokkurra ára skeið að stunda kappát einstaka sinnum og var ákveðið að nú skyldi staðið við stór orð um þetta með því að efna til kappáts við borðið, sem snerist upp í einvígi mitt við Lúðvík B. Albertsson sem var heljarmenni og hafði sumarið áður meira að segja gegnt stöðu lögregluþjóns á Siglufirði. 

Leikar fóru svo eftir hrikalegt át okkar beggja að hann varð að játa sig gersigraðan. 

En leiknum lauk ekki þarna. 

Seinna um kvöldið urðu síðan matargestirnr að mér einum undanskildum fárveikir af matareitrun, varð að fara með suma undir læknishendur og ferð frestað til Reykjavíkur.

Frétt af þessu rataði meira segja í eitt af dagblöðunum, Tímann að mig minnir. 

Lúðvík varð einna veikastur og þótti það bæði afar ósanngjarnt og ótrúlegt að ég skyldi sleppa aleinn frá þessu snarpa eitrunaráhlaupi. 

En einmitt það atriði, að ég slapp einn, leysti gátuna um uppruna eitrunarinnar. 

Það kom í ljós að ég var sá eini við borðið sem ekki hafði borðað grænu baunirnar, sem voru á boðstólum, en Lúðvík hafði hámað þær í sig. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband