Við upptökin skal ána stemma.

Í fornsögunum orðaði ásinn Þór þessa hugsun með orðunum "á skal að ósi stemma." Orðið ós á þar við upphaf vatnsflaums. 

Á okkar dögum er hins vegar afar algengt að reynt sé að gera þetta öfugt, að skipta sér ekki af upptökunum og orsökunum, heldur beina öllum kröftunum að afleiðingunum. 

Dæmi eru til dæmis þau ríkjandi viðhorf í Bandaríkjunum, að alls ekki eigi að takmarka byssueign, heldur þvert á móti að fjölga byssueigendum og stórvirkum vopnum þeirra. 

Augljóst virðist til dæmis að öryggisvörður vopnaður einni byssu hefði ekki átt möguleika á móti árásarmanni með hríðskotabyssu og þrjár aðrar byssur að auki í Pittsburgh, en þessu heldur Donald Trump ákveðið fram. 

Á síðustu misserum hafa samtök nýnasista og svertingahatara fengið að valsa um í vaxandi mæli og fá með því vissa viðurkenningu á sér og stefnumálunum, sem þessi samtök berjast fyrir. 

Þegar einstakir félagar í þessum samtökum geta keypt sér hernaðarvopn að vild er ástæðuna fyrir fjöldamorðum þeirra augljóslega hve auðvelt þeim er gert þetta. 

Það, að hvarvetna sé hægt að mæta þessu með fjölgun þungvopnaðra öryggisvarða og jafnvel öryggissveita er aðeins ávísun á fleiri og stærri manndráp. 

Annað dæmi og stærra umfangs er það, að reyna ekki að minnka bruðl og græðgislega eftirspurn og rányrkju á auðlindum jarðar sem er uppspretta og ástæða enn meiri sóunar og rányrkju, heldur beinist orkan nær öll í það að auka eftirspurnina, bruðlið og sóunina í stað þess að nýta auðlindirnar betur. 


mbl.is Vill taka byssur af fólki fullu af hatri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri ástæða til að hafa áhyggjur af 500 megavatta gufuaflsvirkjun.

Í Krýsuvík er helsta óvirkjaða hverasvæði Reykjanesskagans. Meðal erlendra ferðamanna er stór markhópur fólks, sem kemur í stutta tveggja til þriggja daga ferð til landsins, til dæmis á ráðstefnur, en hefur ekki tíma til að fara Gullna hringinn. 

Með slíkt fólk fer ég stundum leið, sem ég kalla Silfurhringinn. Ómissandi þáttur í slíkri ferð er að stansa í Krýsuvík. 

Mér til fróðleiks gúgglaði ég virkjanaáform í Krýsuvík og sá, mér til mikillar undrunar, að þar sé á blaði hvorki meira né minna en næstum tvöfalt stærri virkjun en á Hellisheiði, hvorki meira né minna en 500 megavött. 

Þetta hefði svosem ekki átt að koma á óvart þegar þess er gætt að í upphafi var talan 28 megavött sett á Reykjanesvirkjun og gert ráð fyrir 50 ára endingartíma. 

Slíkur endingartími er að sjálfsögðu ekkert annað en rányrkja, svipað og 50 ára endingatími olíulindar eða kolanámu. 

En, viti menn, fljótlega var komin fram fimm sinnum stærri virkjun, 150 megavött!  

Á endanum var dregið aðeins úr skammtímagræðginni og farið niður í hundrað, sem augljóslega felur í sér grimma rányrkju. 

Og komið hefur í ljós að svæðið í heild sígur stöðugt, svo að sjór gengur á land í Staðarhverfi fyrir vestan Grindavík og nýjar borholur skila ekki afli. 

Í örvæntingu ætlar HS Orka að tappa af Eldvörpum og stytta með því endingartímann og á sama tíma að fara í Hvalárvirkjun, sem mun senda rafmagn inn á landskerfið og ekki gagnast Vestfirðingum eins og gumað er af heldur verða notað til að bæta upp orkutapið hér fyrir sunnan. 

Örvæntingarfullir menn eru vísir til örþrifaráða, og talan 500 megavött í Krýsuvík sýnir, að þessir menn hafa verið og eru enn gersamlega firrtir. 

En fá gæðastimpil frá Landsvirkjun í flenniauglýsingu í Leifsstöð þar sem því er haldið fram upp í opið geðið á öllum, að öll íslensk orka, "100%" sé endurnýjanleg.  


mbl.is „Ekk­ert sem maður hef­ur áhyggj­ur af“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Assad getur ekki leyft lýðræði.

Það virkar barnalegt að halda að Assad Sýrlandsforseti muni líða það að haldnar verði frjálsar kosningar í landinu.

Hann er af kynþætti, sem er í mjög miklum minnihluta í landinu, og hefur verið staðinn að því að svífast einskis til að halda völdum, til dæmis með því að beita efnavopnum á landa sína líkt og Saddam Hussein gerði í Írak á sínum tíma. 

Saddam Hussein var fulltrúi Súnní-múslima í Írak, sem voru í minnihluta í landinu, en þó ekki í nærri því eins miklum minnihluta og kynþáttur Assads er. 

George Bush eldri lagði ekki í það að halda áfram herför alþjóðaheraflans til Bagdad þegar sigrast hafði verið á her Saddams vegna þess, að ráðgjafar hans ráðlögðu honum frá svo tvísýnu hættuspili. 

Sonur hans hafði því miður ekki vit á að fylgja stefnu föður síns. 


mbl.is Vilja binda enda á átökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leið íslenska sumarið fyrir köldu hæðina í vestri?

Trausti Jónsson birtir á Hungurdiskum þá niðurstöðu, að hið íslenska sumar, frá fyrsta sumardegi til fyrsta vetrardags, hafi verið með það kaldasta síðan 1995. Sumarhiti ´18

Svona lítur línurit Trausta út, en það spannar sumrin frá því um 1870 til 2018.  

Samt er svo að sjá, að loftslag haldi áfram að hlýna á jörðinni allri. 

Í mestallt sumar var afar hlýtt á meginlandi Evrópu eins og sést hefur á veðurkortunum, sem birt eru í sjónvarpinu. 

En þetta hlýja loft hefur ekki komist nema að takmörkuðu leyti að fullu til skila hjá okkur. 

Þrálátur svali í vesturátt, oftast í slagtogi með háþrýstingi, hefur sótt á móti hlýjum loftmassanum úr austri og valdið svalara veðri þessa sex sumarmánuði en verið hefur í aldarfjórðung.Loftslagskort, jörðin 

Á línuriti hjá Trausta sést, að sé dregin bein lína frá ca 1870 til 2017, hefur loftslag hlýnað í heildina og það sést líka að þetta lýsir sér í því að sveiflubotnarnir hafa smám samam hækkað og sömuleiðis sveiflutopparnir.  

Á öllum þeim fjölmörgu línuritum í tölvuspám, sem maður hefur séð síðasta aldarfjórðung, eru áberandi tveir til þrír ljósleitir eða blámalitaðir kuldapollar á jörðinni, og er einn þeirra suðvestur af Íslandi. 

Ísland er svo agnarlítill hluti af jörðinni, að hitinn hér segir auðvitað sáralítið um hitann á jörðinni í heild. 

Hér á landi eru sumir skriðjöklar þegar horfnir eða við það að hverfa, og sjá má á myndum og frásögnum Ástu Þorleifsdóttur jarðfræðings á facebook frá ferð hennar til háfjalla Asíu, að þar er svipaða sögu að segja. 

Það leiðir hugann að því, að í þessu hálendi Karakórum og Himalajafjalla eiga fimm af helstu fljótum Asíu upptök sín og aurframburður úr vorflóðum þessara fljóta stjórnar lífi tveggja milljarða jarðarbúa, allt frá Pakistan til suðaustur Kína. 

Ef jöklarnir hverfa eða veiklast mjög munu breytingar á þessu vatnafari hafa gríðarleg áhrif. 

Rétt er að minna á að Andri Snær Magnason hefur verið með mjög fræðandi og grípandi dagskrár í Hannesarholti um áhrif loftslagsbreytinga. 


mbl.is Met fyrir „veðurnördin“ féll í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á sama tíma er áfram leyfð stór auglýsing með röngum tölum.

Bönnuð hefur verið birting auglýsoingar um laxeldi á Íslandi í flugstöð Leifs Eiríkssonar, á þeim forsendum að hún kunni að vera umdeilanleg.Auglýsing Landsvirkjun

Á sama tíma er fyrsta flennistóra auglýsinginí Leifsstöð, sem tekur við farþegum til landsins og kveður þá við brottför auglýsing Landsvirkjunar, þar sem fullyrt er ranglega að öll orka sem Íslendingar framleiði, 100%, hrein og endurnýjanleg. 

Rétta talan gæti með góðum vilja nálgast 75%.

Allar gufuaflsvirkjanir frá Reykjanestá norðaustur til Þingvallavatns fela í sér hreina rányrkju.  

Af hverju er þessi auglýsing leyfð? Auglýsing LV (2)


mbl.is „Þetta getur varla staðist“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1954 horfði líka ófriðlega við Kínastrendur.

Þegar Shangkai Sék flúði með herlið sitt frá meginlandi Kína 1949 og flutti hann til Tævan, þar sem hann og arftakar hans hafa ráðið síðan í skjóli Bandaríkjanna, var það ekki alger flutningur frá meginlandinu, því að eyjarnar Quemoy og Matsu skammt undan meginlandinu, urðu áfram á valdi þjóðernissinnanna með stuðningi Bandaríkjamanna. 

Kóreustríðið var vart afstaðið 1953 þegar kommúnistastjórnin í Peking fór að gera sig líklega til að hertaka smáeyjarnar, en Kanar og Tævastjórn lýstu yfir því að það yrði ekki liðið. 

1954 féll vígi Frakka í Dienbienfú og þar með urðu kaflaskil í baráttu Víetnama fyrir sjálfstæði landsins. 

Það var sem sé nokkuð ófriðlegt í næsta nágrenni Kína. 

Aldrei kom til stríðs út af Quemoy og Matsu og 15 árum síðar friðmæltust Nixon og Kissinger við kommúnistastjórnina í Kína. 

En það segir svo sem lítið um horfurnar framundan í sambúð Kínverja og Bandaríkjamanna.

 

 


mbl.is Stríð á milli Bandaríkja og Kína líklegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni framleiddi Lamborghini mesta ofurjeppa heims.

Urus er ekki fyrsti fjórhjóladrifni ofurbíllinn, sem Lamborghini framleiðir. Lamborghini LM-002, framan á

Á níunda áratug síðustu aldar framleiddi verksmiðjan Lamborghini LM-002, tæplega þriggja tonna bíll á 33ja tommu breiðdekkjum, sem var raunverulegur ofurjeppi, sá öflugasti í heiminum þá, með 450 hestafla 12 strokka 5,2 lítra vél og náði 200 kílómetra hraða. 

Æðisleg torfærugræja, var 8,5 sekúndur upp í 100 km /klst. 

Minnti að sumu leyti hvað stærð og útlit snerti á Hummer-jeppana, sem komu fram aðeins síðar.Lamborghini LM-002

Þetta voru víst fá eintök og helst ríkustu Arabaolíuauðmenn sem keyptu hann til að þeysa á í eyðimörkinni. 

Fróðlegt hefði verið að sjá hvað hann hefði getað gert í íslenskum torfærum, en hann var það hreinræktaður raunverulegur jeppi, að Urus hefði ekki á átt möguleika gegn honum á illfærum íslenskum hálendisslóðum. 

Veghæðin yfirdrifin, drifin með óhemju deilingarsvið og læsingar. 

En á þessum árum var gaman að láta sig dreyma um svona bíl, sem hægt væri að taka til kostanna hér á landi, og erfitt að sjá neitt syndsamlegt við svona draum, því að það kostar ekkert að láta sig dreyma dýrindis munaðardrauma sem aldrei rætast. 


mbl.is Kappakstur ekki í DNA Lamborghini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er allt galopið.

Dæmin um það að skoðanakannanir fari fjarri úrslitum í kosningum eru mörg, enda eru skoðanakannanir aðeins mæling á fylgi á því augnabliki sem þær eru teknar og vika er mjög langur tími í pólitík. 

Trump er byrjaður að spila út sínum spilum og á vafalaust fleiri uppi í erminni, sem geta snúið hlutum við á skammri stundu líkt og gerðist í blálok kosningabaráttu hans. 

Frægasta dæmið um fallvaltleika skoðanakannana er frá forsetakosningunum 1948, þegar einstaka blöð voru þegar búin að birta þá stórfrétt að Dewey hefði sigrað og Truman forseti tapað. 

Rúmri viku fyrir kosningar benti flest til þess að stóraukið fylgi Huberts Humpreys varaforseta Johnsons myndi duga honum til sigurs. 

Það var mest að þakka því að búið var að fá fjóra deiluaðila Vietnamdeilunnar til þess að setjast að samningaborði í París. 

En Richard Nixon lumaði á mótleik sem fólst í því að hafa símasamband við stjórnarherrana í Saigon og fá þá með gylliboðum til þess að draga sig út úr viðræðunum. 

Johnson lét hlera símana á þessum tímum og vissi hvað Nixon var að bralla og hafði samband við hann til að fá hann til að segja hið sanna. 

En Nixon átti þá, ekki síður en nokkrum árum síðar í Watergatemálinu auðvelt með að ljúga blákalt að Johnson, og Johnson vissi að hann myndi ekki getað vitnað í hleruð símtöl. 

Svo fór að bragð Nixons heppnaðist og hann vann einn naumasta sigur í sögu Bandaríkjanna. 

Flóttamannagangan mikla getur haft áhrif í báðar áttir núna, en sennilega á Trump meiri möguleika á að nýta sér hana sem forseti landsins fyrir repúblikana en demókratar fyrir sig. 


mbl.is Líkurnar á sigri demókrata minnka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hún enn í dag fórna sér endalaust má...".

Það kann að vera rétt hjá dómsmálaráðherra að tölur um launamun kynjanna segi ekki nákvæmlega til um mismun á kjörum kvenna og karla.

En þegar Sigríður Andersen fer að reikna það út að munurinn sé konum í hag, yfirsést henni eitt mikilvægt atriði, en það eru hin launalausu heimilis- og uppeldisstörf sem unnin eru í landinu og hafa ætið verið unnin, án þess að þau séu reiknuð krónu virði út af fyrir sig. 

Það er ansi há skekkja sem þarna myndast og fæst síður en svo leiðrétt gagnvart þúsundum kvenna, sem komið hafa heilu kynslóðum Íslendinga á legg að mestu einar, stundum stórum barnahópi, og uppskera enn, margar hverjar hrakleg eftirlaun, langt fyrir neðan framfærslumörk, sem þakkirnar frá svonefndu allsnægtaþjóðfélagi. 

Að vísu hafa svonefndar barnabætur verið lengi við lýði, sem og barnameðlög feðra en í langflestum tilfellum hafa barnabæturnar verið greiddar báðum foreldrum, og greiðsla meðlaganna  verið svona og svona. 

Eftir stendur stærsta atvinnulega misréttið, að hið mikla verklega og andlega framlag kvenna í formi heimilis- og uppeldisstarfa og hefur í gegnum tíðina að mestu lent á þeim, sést ekki í þjóðarbókhaldinu. 

Það er ekki einu sinni til sérstök krónutala varðandi þetta, sem hægt er að takast á um í kjarsamningum, enda ekki um neina launþega eða atvinnurekendur að ræða.Íslenska konan. 

Þess vegna varð til dæmið um ráðskonuna, sem giftist atvinnurekandanum, bóndanum, og að við það lækkuðu þjóðartekjurnar sem nam launagreiðslunum, sem hún fékk áður. 

Í ljóðinu "Íslenska konan", sem er eitt af 75 ljóðum í "Hjarta landsins", komandi ljósmyndaljóðabók okkar Friðþjófs Helgasonar, og er einnig á samnefndum safndiski, sem gefinn var út í fyrra, er hlutskipti kvenna í gegnum aldirnar allt til okkar daga, meðal annars orðað svona: Hjarta landsins, bók

 

"Hún þraukaði hallæri hungur og fár. 

Hún hjúkraði´og stritaði gleðisnauð ár. 

Hún enn í dag fórna sér endalaust má. 

Hún er íslenska konan, sem gefur þér allt sem hún há."

 

Að vísu hefur orðið mikil breyting til batnaðar varðandi heimilis- og uppeldisstörf, en miklu betur má ef duga skal. 

Þó ekki væri nema að rétta hlut þeirra kvenna, sem komnar eru á lífeyrisaldur og upplifa mesta misrétti ævi sinnar. 

Nokkuð sem virðist alveg hafa farið framhjá dómsmálaráðherra í nýjum útreikningi. 


mbl.is Segir dómsmálaráðherra á hálum ís
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrífan hennar Jóhönnu.

Nafna Jóhönnu Sigurðardóttur, sem flutti ávarp á kvennafrídeginum í dag, Jóhanna Lúðvíksdóttir á Guðmundarstöðum í Vopnafirði, hlaut örlög, sem eru lýsandi fyrir það hve lengi eimdi eftir af ömurlegri stöðu kvenna langt fram eftir síðustu öld.Jóhanna Lúðvíksdóttir.

Þetta varð ljóst í heimsókn sjónvarpsmanna á bæinn síðsumars 1975 og að áliðnum vetri 1976 og er varðveitt í þætti, sem tekinn var upp þá, auk stuttrar frásagnar í bókinni "Fólk og firnindi" af íbúunum á bænum, henni og bræðrunum Stefáni og Sighvati Ásbjörnssyni. 

Jóhanna var af fátækum komin og amma Stefáns tók hana í fóstur. 

Hún var falleg, góð og vel gefin stúlka og hefði á okkar tímum átt möguleika á að hljóta ekki þau örlög sem fátækt, skortur og basl skópu oft fólki fyrir einni öld.  Guðmundarstaðir,íbúar 75

Framhaldsmenntun var óhugsandi fyrir hana, allir af hennar stigum urðu að erfiða og sætta sig við strit og langan vinnudag.

Á banabeði fósturmóður hennar lofaði hún velgjörðarkonu sinni að verða við hennar hinstu ósk, að hún annaðist heimilishaldið fyrir bræðurna Stefán og Sighvat Ásbjörnssyni, sem voru einhleypir alla sína tíð.

Stefáni sagðist svo frá:

"Jóhanna tók síðar að sér ellefu börn og kom þeim á legg auk þess sem hún tók til sín börn úr héraðinu og kenndi þeim. Hjá okkur hefur hún verið til að launa ömmu minni fóstrið." 

Vopnafjarðarhreppur styrkti á þessum árum efnilega fátæka unglinga árlega til framhaldsnáms og hafði Stefán orðið fyrir valinu eitt árið. 

En hann bilaðist í M.A. meðal annars í ástarsorg, klúðraði náminu og skammaðist sín svo mikið, að hann lokaði sig, bróður sinn og Jóhönnu í raun inni á Guðmundarstöðum, stöðvaði klukkuna við árið 1910, tók meia að segja upp gamla íslenska ljáinn og hreyfði ekki við neinu á bænum, sem var að hluta til úr torfi. 

Þarna lifðu þau þrjú í rafmagnsleysi án þess að hreyft væri við þúfu í ósléttu og bröttu túninu og heyjuðu upp á gamla mátinn, með því að slá með ljá og orfi, raka með hrífum, binda í bagga og reiða heyið á 23ja ára gamalli og lúinni meri upp í hlöðuna. 

Eina rafmagnið á bænum voru rafhlöður í útvarpstæki og litlu sjónvarpstæki. Í eldhúsinu var ekki einu sinni svo mikið sem uppþvottagrind. 

Merin var svo afkastalítil að þeir settu stóran hluta af heyinu í stæður úti á túni og roguðust með það heim á bakinu smátt og smátt fram á næsta vor. 

Kýrin var við aldur og mjólkaði sáralítið. Það var lifað frá hendinni til munnsins og þeir skulduðu aldrei krónu alla ævi, hvernig sem áraði. 

Jóhanna þurfti að vinna öll húsverkin í hrörlegum bænum án minnstu nútímaþæginda, við sömu kjör og höfðu verið löngu fyrr. Kveikja eld á daufum lömpunum og kveikja upp í kolaeldavélinni og elda og síðan að "fela eldinn", leggja á borð og vaska upp, þrífa og skúra og nota bala til að þvo allan fatnað og rúmfatnað.  

Hún var orðin mjög lúin, bogin og þreytt, hreyfingarnar orðnar hægar og máttlitlar, en sagðist aðspurð enn geta klárað verkin "svona smátot og smátt." 

Sjónin var orðin döpur, svo að hún gat ekki lesið neitt að gagni og átti erfitt með að sauma. Þegar rignir er breitt plast yfir rúmið hennar því að húsið lekur mest þar sem hún sefur. 

Með því að bera saman tvær ljósmyndir af henni á mismunandi aldri sést vel hvernig lífið hafði leikið hana. 

Spurð að því hvort hún færi aldrei neitt af bænum sagðist hún aldrei fara neitt. 

Hún var spurð hvað henni hefði fundist leiðinlegast um ævina. 

"Mér hefur alltaf fundist eldhúsverk heldur leiðinleg" svaraði hún með hægð. 

Jahá, einmitt það sem hafði samt hlutskipti hennar sem ævistarf.

En hvað fannst henni skemmtilegast, úr því að hún fór aldrei neitt af bæ? 

"Mér finnst skemmtilegast að fara út á tún í heyskap í góðu veðri á góðri stundu" svaraði hún.

Þegar við komum á bæinn veturinn eftir og spurðum hana hvort hún hefði ekki tekið sér frí á kvennafrídaginn nokkrum mánuðum fyrr, svaraði hún neitandi. Það var óhugsandi. 

Hún gat ekki komist yfir skyldustörf sín nema "smátt og smátt", þrotin að kröftum. 

Í þessari heimsókn tók ég eftir þvi að upp við horn á torfvegg skammt frá útidyrunum stóð hrífa, sem hafði líka staðið þar sumarið áður. 

Ég spurði Stefán hver ætti þessa hrífu. 

"Jóhanna á þessa hrífu." 

"Af hverju stendur hún þarna, alveg eins og hún stóð í fyrrasumar." 

"Það er af því að Jóhanna á hana og við snertum aldrei neitt, sem Jóhanna á." 

"En af hverju fer Jóhanna þá ekki með hana inn?"

"Af því að hún fer aldrei út úr bænum og hefur ekki notað hrífuna í mörg ár." 

Hringnum lokað. Þannig var komið fyrir henni, að hún komst ekki yfir öll skylduverk sín nema vinna við þau "smátt og smátt" frá morgni til kvölds eftir því sem þrekið leyfði.

Hún hafði ekki í mörg ár haft tök á að gera það sem henni fannst skemmtilegast, "að fara"út á tún í góðu veðri í heyskap á góðri stundu." 

Svona var ævi Jóhönnu Lúðvíksdóttur þar til skammt lifði af liðinni öld.

Nafn hennar, persónan sjálf og örlög hennar, eru eitt af því ógleymanlegasta sem á fjörur mínar hefur rekið. 

Eitthvað, sem hitti svo sterkt í hjartastað og gerir það enn.  

Það er ekki lengra síðan.  


mbl.is Samstöðufundur á Arnarhóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband