Meitluð negla.

Um það sem Freyja Haraldsdóttir segir um aðförina að henni eiga við upphrópunarorð Bubba Morthens, sem hann sagði ósjálfrátt þegar við horfðum saman á eitthvað það sem var var fullkominn snilld, - það sem kallað er að hitta naglann á höfuðið, - "algjör negla." 

Það verður ekki betur gert, verður ekki betur sagt, verður ekki betur skrifað. 

Á sínum tíma fann ég mig knúinn til að skrifa tvívegis bók með nafni og viðurnefni síðustu konunnar á Íslandi, sem fólk kallaði þá förukonur.  

Hún hét Margrét Sigurðardóttir og var vinnuhjú alla starfsævi sína og síðar það, sem þá var kallað "niðursetningur" á bænum, þar sem ég var í sveit á sumrin. 

Hún var kölluð Manga og fékk ófögur viðurnefni, Manga með svartan vanga, Bláa Manga og einnig ljótasta viðurnefnið, vegna þess að Freyja Haraldsdóttir lýsir bakgrunni slíks viðurnefnis vel. 

Manga lenti sem ungt barn á vergangi uppflosnaðrar fjölskyldu og lýsti fyrir mér löngum stundum þegar ég sat við bóklestur hve illa æsku hún átti á einhverjum köldustu árum Íslandssögunnar. 

Systir hennar týndist á göngu milli Vatnsdals og Víðidals og lá úti, - missti báða fæturna og var eftir það kölluð Steinunn fótalausa. 

"Hún þraukaði hallæri, hungur og fár." 

Í vist á prestsetrum drakk hún í sig fegurstu bókmenntir þess tíma, stórskáldin Hamsun, Björnsson, Einar Ben, Jónas og Steingrím Thorsteinsson og lærði þær utanbókar, svo að það entist út ævina þrátt fyrir hálfblindu og heyrnarleysi á elliárum. 

Hún var skarpgáfuð og gat verið skáldmælt, eins konar kvenkyns fagurbókmenntaheilluð Bjarturí Sumarhúsum í hugsun, dreymdi, eins og flesta af hennar stigum á þeim tíma,  um að eignast eigin bújörð, mann og fjölskyldu. 

Hún nálgaðist drauminn með vinnumanni einum, þegar hún varð barnshafandi, en missti barnið í fæðingu vegna vinnuþrælkunar. 

Eftir það var eitt af viðurnefnum hennar "Gelda Manga." 

Freyja Haraldsdóttir lýsir vel því hugarfari sem er að baki svo sárgrætilega miskunnarlausu heiti. 

Maður hélt að hugsunin að baki því tilheyrði liðinni tíð. En það er nú eitthvað annað.  


mbl.is „Ég er ekki bara fötluð. Ég er kona“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samskiptamiðlar og snjallsímar hafa búið til nýjan veruleika.

Stóra barbullsmálið hefur nú varpað ljósi á þann nýja veruleika sem nútíma tækni samskiptamiðla og upptökumöguleika snjallsíma hefur innleitt og er ekki sérdeilis hugnanlegur.  

Á blogginu hefur þess verið krafist að eigandi Klausturbarsins verði sóttur til saka fyrir að hafa staðið að þeirri aðför, sem átt hafi sér stað að einkasamtölum og persónuvernd þeirra, sem í hlut áttu. 

En þar er skautað framhjá þeim möguleikum, sem gefast til slíkrar persónuverndar. 

Til þess að eigendur veitingahúsa, vínveitingabara og annarra slíkra opinna staða geti farið að stunda eftirlit með snjallsímaeign og snjallsímanotkun gesta og gangandi á stað, sem fellur undir "almannafæri", þyrfti að framkvæma líkamsleit á hverri manneskju, sem þar væri á ferð. 

Augljóslega er slíkt með öllu óframkvæmanlegt. 

Þingmenn eru kosnir út á þær skoðanir, sem þeir hafa á mönnum og málefnum og birtast síðan í störfum þeirra í almannaþágu. 

Þessi þjónustua þeirra við kjósendur þeirra birtist ekki aðeins á vettvangi Alþingis, heldur líka í þátttöku þeirra í almennu lífi og viðfangsefnum úti í samfélaginu. 

Það á erindi við almenning hvaða viðhorf móta gerðir þeirra og störf á þingi. 

Af því leiðir sú útfærsla á orðum skáldsins í kveðskap í bloggpistli hér á síðunni í gær, að "aðgát skal höfð í nærveru skálar", þ. e. að víndrykkja sé engin afsökun fyrir ógætilegum ummælum á opinberum stöðum, "skammarlegum ummælum" eins og Gunnar Bragi Sveinsson hefur sjálfur orðað það. 


mbl.is Blöskraði það sem hann heyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein dapurlegustu ummæli síðari tíma. Einsdæmi á þjóðþingi?

Það sem virtist hafa verið lausmælgi og röfl á bar í morgun hefur á einum degi snúist upp í mál, sem á sér líklega enga hliðstæðu á nokkru þjóðþingi, svo miklu ömurlegri og eru ummæli þingmannanna á Klaustursbarnum, sem höfð hafa verið eftir þeim í dag en það sem fyrir lá í morgun. 

Freyja Haraldsdóttir var fulltrúi í stjórnlagaráði, sem við í ráðinu vorum öll afar stolt af. 

Hún stóð sig afburða vel, flutti eftirminnlega jómfrúarræðu og starfaði af alúð og dugnaði, sem vakti aðdáun okkar allra. 

Afrekskona á alla lund. 

Hún var einn þeirra fulltrúa í ráðinu sem var tákn þeirrar fjölbreytni meðal fulltrúa, sem auðgaði og styrkti störf ráðsins. 

Þess vegna er ekki aðeins sárara en tárum taki hvers konar lítilsvirðingu hún má þola af höndum manna, sem í raun að niðurlægja sjálfa sig ósegjanlega. 

Oft er það svo, að þeir, sem stunda það að níða aðra niður og lítillækka þá, virðast gera það í því skyni að hækka sig sjálfa í leiðinni. 

Það er kannski dapurlegast af öllu ef svo er. 

Og sennilega er leitun að þjóðþingi, sem hefur lent í hliðstæðum hremmingum og Alþingi Íslendinga hefur gert í dag.  

Því að hið sama á að gilda um orðfæri og hegðun þingmanna, sem eru á almannafæri, eins og þeir væru í þinghúsinu. 

 


mbl.is Segir ummælin vera hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát skal höfð...

P.S. í upphafi pistils. Í ellefu ára sögu þessarar bloggsíðu hefur það aldrei gerst fyrr, að á einum degi hafi málefni, sem tekið er fyrir í bloggpisti, tekið svo stórkostlegum breytingum til hins verra, að efni bloggpistilins er í raun orðið úrelt. Það er kannski dæmi um það hve þetta mál hefur komið landsmönnum í svo opna skjöldu, að fólk á varla til orð.  

Af þessum sökum verður að skoða kveðskapinn hér með tilliti til þess sem lá fyrir snemma í morgun og herma hann upp á almennari og illskárri hegðun en nú hefur verið upplýst að var á ferð á barnum Klaustri. 

Þetta eru almenn aðvörunarorð á tímum snjallsímanna.  

 

 HUGSANLEG LEIÐBEINING ÞINGFORSETA TIL HVERS ÞINGMANNS. 

 

Þú ekkert skalt segja ef ertu á börum, 

orðinu ei halla, jafnvel á förum. 

Ógát þú varist við aðstæður hálar, 

orðin, þau draga menn einatt á tálar.  

Aðgát skal höfð í nærveru skálar. 

 

Mundu að hugsa aldrei upphátt, 

og engum að svara né gera neitt uppskátt. 

Úr meinlausu fjasi magnast þrasið. 

Haltu þig vel frá hassi´eða grasi

að haltu kjafti frá fyrsta glasi. 

 

Á börunum eiga menn bara að sulla

en blaðra´ekki´á´meðan og vera að bulla. 

 

Taktu þig á ef þú ert á þingi

svo þingið ekki í breytingum springi 

og verði með þig sem smáttvirtan þingmann

með hæstvirtan ráðherra og háttvirtan þingmann

sem lægstvirtan ráðherra´og lágtvirtan þingmann.  


mbl.is „Maður bara varð sér til skammar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlar sem engar framfarir í meðferð talna í 68 ár. Sígilt trix.

Síðuhafi byrjaði að hlusta á útvarpsumræður frá Alþingi fyrir 68 árum. Fljótlega kom í ljós að fullyrðingar stjórnar og stjórnarandstöðu stönguðust á. 

Og í flestum tilfellum byggðist þessi mismunur á misjafnri meðferð talna. 

Stjórnarliðar tiltóku til dæmis hækkun fjárveitinga í beinum krónum í stað þess að taka verðbólguna með í reikninginn og miða við raungildi krónunnar á mismunandi tímum.

Og þetta hafa stjórnarliðar í öllum flokkum stundað meira og minna síðan, þessi ósiður hefur haldist, líklegast vegna þess að aðferðin virkar á nógu marga. 

Þetta er einfaldlega sígilt trix.  

Til dæmis má nefna að Bjarni Benediktsson hefur oft talað um auknar fjárveitingar til Landsspítalans eða heilbrigðismála sem dæmi um framfarir, en hefur þá ekki tekið með í reikninginn fjölgun sjúklinga vegna fjölgunar aldraðra. 

Nú talar forsætisráðherra um níu milljarða kjarabætur til öryrkja, en ekki fylgir sögunni hve mikinn lífeyri hver þeirra hefur fengið að meðaltali og því síður hvert raunvirði krónanna hefur verið. 

Sjálfir koma öryrkjar og raunar ellilífeyrisþegar líka af fjöllum, þegar telja á þeim trú um stórfelldar kjarabætur. 

Og þegar um er að ræða fólk, sem heldur áfram að vera neðan fátæktrarmarka, er áframhaldandi staða þess nokkuð, sem yfirskyggir allt.  


mbl.is Finna ekki milljarðana níu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúmsk hætta sjálfvirkninnar.

Áður hefur verið fjallað um það á þessari síðu hvernig síaukin sjálfvirkni, sem á að afstýra afleiðingum af mannlegum mistökum, getur sjálf búið til aðstæður þar sem ný tegund mannlegra mistaka verður möguleg. 

Þetta á sér langan aðdraganda, og í viðbót við dæmi, sem nefnd voru hér um daginn, má nefna flugslys fyrir mörgum áratugum, þar sem lítill límmiði kostaði hundruð flugfarþega lífið. 

Á nær öllum flugvélum, jafnvel þeim minnstu og einföldustum er lítið gat á skrokknum, þar sem loft getur farið inn í mælikerfið, sem stjórnar hæðar- og hraðamælum. 

Þetta litla gat og sömuleiðis lítið gat á túbu hraðamælis verða að vera opin til að þrýstingur í mælikerfunum geti jafnast. 

En í þessu tiltekna tilfelli þurfti að þvo vélina að utan, og límdi þvottakarlinn lítinn límmiða yfir litla gatið á meðan hann smúlaði skrokkinn, svo að ekki færi þar vatn inn. 

Hann gleymdi hins vegar að fjarlægja miðann eftir þvottinn, og þegar þotan hækkaði flugið og loftþrýstingur féll utan hennar, gat loftþrystingur innan og utan gatsins ekki jafnast, þannig að allt mælakerfið og þar með sjálfstýrikerfið fór úr skorðum og flugmennirnir áttuðu sig ekki á því og gátu því ekki brugðist rökrétt við. 

Oftast er það spurning um rétt viðbrögð og einnig að koma sér ekki upp hegðun, sem byggist á oftrú á sjálfvirkninni, sem er aðalatriðið til að sporna við slysum sem þessum. 


mbl.is Þotan var ekki flugfær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaðlegar ranghugmyndir og áunnin fáfræði.

Þegar Donald Trump talar um Bandaríkin eins og þau séu hreinust allra ríkja í heimi í umhverfismálum og öll önnur ríki "skítug" í samanburði við BNA, afhjúpar hann stórkostlegar ranghugmyndir sínar og fáfræði af því tagi,sem kalla má "áunna fráfræði." 

Þetta er enn eitt dæmi um þá sérstöðu Trumps alla hans tíð, hvernig hann býr sér til eigin heim einstæðrar óskhyggju. 

Hann fór inn á alveg nýja leið í árlegu ávarpi forseta BNA á þakkargjörðardaginn nú í haust, þegar hann, í stað þess að þakka almættinu, forsjóninni eða Drottni allsherjar fyrir það sem vel hefur gengið, þakkaði hann sjálfum sér persónulega fyrir nær allt sem telja mætti jákvætt, - það sem hingað til hefur verið talið "Guðs gjafir." 

Það vill svo til að við Íslendingar höfum átt mjög áhugasaman og fróðan mann um þessi mál, sem er Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Hann hefur farið á allar mikilvægustu og mest fræðandi alþjóðlegar ráðstefnur og fundi um umhverfismál erlendis um árabil og gerði meðal annars glögga grein fyrir ferð sinni á ráðstefnu, sem haldin var fyrir Parísarfundinn 2015. 

Þar kom glögglega fram að ESB er og hefur verið í því hlutverki sem Trump telur Bandaríkin vera í. 

Árni rakti mörg dæmi þess hvernig "skítugustu" ríkin, þau sem mest drógu lappirnar á þessum fundum og komu í veg fyrir árangur, voru Bandaríkin, Rússland, Kína og Indland.

Að þessu leyti hefur Trump rétt fyrir sér um Kína, Rússland og Indland, en kolrangt um Bandaríkin, sem hafa nú dregið sig út úr Parísarsamkomulaginu, sem hin skítugu ríkin dröttuðust þó til að að skrifa undir. 

Nú hefur Ástralía bæst í hóp viljugra skítugra ríkja og Brasilía virðist vera á leið inn í skítuga klúbbinn. 


mbl.is Trúir ekki loftslagsskýrslu stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En kona getur samt verið á Karli og karl á Konu.

Ef einhverjum dettur í hug að orðinu kona verði komið fyrir kattarnef, eins og gantast er með á tengdri frétt á mbl.is, sýnir hann fádæma óraunsæi, því að einn heitasti og nýjasti bíll bílastórveldisins Hyundai heitir einmitt Kona og Íslendingar, sem eru örþjóð, fá engu um það breytt, heldur flykkist fólk til að fá sér þennan nýja bíl ásamt keppinautum hans. Hyundai Kona (2)

Í boði verða venjuleg Kona, tvinntengil Kona og rafKona, sú síðastnefnda er með 64 kílóvatsstunda drægni. Og síðastnefnda orðið er meira að segja skylt sagnorðinu að draga og nafnorðinu dráttur. 

Til að bæta gráu ofan á svart hefur heitasta söluvara Opel verksmiðjanna síðustu misseri verið smábíllinn Karl, og ber ættarnafnið, sem réði heitinu á nýjasta bílnum þar á undan, sem heitir Adam. Opel-Karl_Rocks-2017-wallpaper

Það hefði toppað allt ef þeir bræður hefðu átt systur, sem hét Eva. 

Fljótlega eftir að Opel Karl var kynntur var kynnt ný gerð hans, Opel Karl Rocks, sem er með verjum að neðanverðu, eins og myndin sýnir. 

Þannig að nú er fullkomlega eðlilegt að í samræmi við fornar íslenskar málvenjur geti svona samtal átt sér stað, þegar frændinn talar við unglinginn, sem hann hittir einan heima rétt eftir hádegi á laugardagi: 

"Hvar er mamma þín?"

"Hún er á Karlinum að prófa nýja Karlinn."

"En pabbi þinn?"

"Hann er á Konunni að prófa nýju Konuna."

"Nú, það er bara svona."


mbl.is Afnám orðsins kona úr íslensku máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flutningsmátinn aftur í gráa forneskju.

Þessi jól mun innleiða nýja tíma í útgáfu bóka á Íslandi.

Frá og með 1. desember verða langflestir bókaútgefendur þannig staddir, að enda þótt sala á einstökum bókum kalli á aðra prentun eða jafnvel þá þriðju, verður það ekki tæknilega hægt. 

Bækurnar koma nefnilega svo langt að og eru fluttar með svo hægfara samgöngutækjum, að það mun taka minnst þrjár vikur að fá þær frá prentsmiðjunum sem sumar eru jafnvel í Suður-Evrópu. 

Flutningsmátanum hefur, vegna sparnaðar og samkeppnisumhverfisins í bókaútgáfunni, verið snúið aftur í gráa forneskju. 

Bækurnar fara fyrst landleið norður um þvert meginland Evrópu og síðan með skipi frá Álaborg til Íslands. 

Þetta hljómar eins og frá 19. öldinni. Hjarta landsins, bók

Ágætt dæmi er ljósmyndasöngvabók okkar Friðþjófs Helgasonar, "Hjarta landsins".

Hún var fullunnin síðastliðið sumar og tilbúin til prentunar í byrjun september, þremur og hálfum mánuði fyrir jól. 

Hún kom síðan til landsins snemma í október, en þá kom í ljós svo stór galli á einni örk bókarinnar, sem orðið hafði í prentun hennar, að það varð að fá annað upplag í staðinn. 

Það barst síðan ekki til landsins fyrr en um síðustu helgi. 

Þá voru liðnir meira en þrír mánuðir frá því að prentun hófst!   

Á Bókamessu í gær hitti ég útgefendur stórrar og veglegrar ljósmyndabókar, sem höfðu lent í þeim hremmingum, að hafa aðeins 80 eintök í höndunum og alls óvíst um framhaldið. 

"Já, svona er Íslandi í dag" sagði Jón Ársæll oft. 


mbl.is Bókaprentun hverfandi iðnaður á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sopið kálið þótt í ausuna sé komið.

Þótt olíuverð hafi lækkað í bili, hefur það tjón sem hátt verð olli á rekstrarafkomu flugfélaganna orðið varanlegt viðfangsefni. 

Vandinn er margþættur varðandi samruna Icelandair og WOW air, rétt eins og það var snúið á sínum tíma þegar Loftleiðir sameinuðust Flugfélagi Íslands. 

Sá samruni tókst að vísu á endanum, en margir Loftleiðamenn urðu sárir til langframa og töldu Loftleiðir hafa verið hlunnfarna í sammrunanum. 

Staða flugfélaganna tveggja var hins vegar gerólík og þess vegna var það snúið matsatriði hvernig staðið var að samrunanum. 

Hinn kosturinn, að hætta við samrunann, var hins vegar í raun ekki í boði og svipað er vafalítið uppi á tengingnum nú varðandi margfalt stærra viðfangsefni. 

Eina leiðin er að finna möguleika til að minnka rekstrarkostnaðinn án þess að það bitni of mikið á tekjunum. 

1980 var ekkert Samkeppniseftirlit, sem þurfti að taka tillit til. Þó var staða landsmanna þá allt önnur en nú, því að það voru aðeins Loftleiðir og Flugfélagið sem héldu uppi millilandasamgöngum Íslendinga og Icelandair varð því einokunarflugfélag sem hélt þeirri stöðu að mestu í 23 ár. 

Nú fljúga 28 flugfélög til og frá landinu og staðan er allt önnur. 

 


mbl.is Fullyrt að vélum WOW air fækki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband