Það var margt ansi gott í skaupinu.

Það var gott tempó og flæði í skaupinu í kvöld, og mörg atriðin beitt og skemmtileg, en auðvitað eru skoðanir ætíð skiptar um einstök atriði, enda spurning um smekk þess sem horfir og hlustar. 

Það hefur verið sagt að Klausturmálið hafi komið á síðustu stundu ansi flatt upp á aðstandendur skaupsins en þeir unnu vel úr því, enda var það eins og rökrétt framhald í meginstefi Metoo-byltingarinnar og því eins og hvalreki upp í fangið á skaupfólkinu. 

Síðuhafi þakkar fyrir sig og hefur á tilfinningunni að þetta hafi verið gott skaup.  

 


mbl.is Tíst um Áramótaskaupið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð láti gott á vita. Þarf að hreinsa fleira.

Sigurður Ingi Jóhannsson sagði á Byggðaráðstefnu í Stykkishólmi í haust að tími risavirkjana og mengandi stóriðju væri liðinn. En bætti því við að leggja út í miklar háspennulínuframkvæmdir. 

Frá þessu var greint hér á síðunni, en yfirlýsing hans nú er afdráttarlausari og ber að fagna henni. 

"Guð láti gott á vita" sagði gamla fólkið stundum í ungdæmi síðuhafa. 

Sigurður Ingi líkir verkefninu í þessum málum við það þegar byrjað er að moka ofan í skurði sem grafnir voru áratugum saman um allt land á síðari hluta aldarinnar sem leið.

Athygli vekur að hér talar formaður Framsóknarflokksins, en hins vegar sést ekkert samsvarandi koma úr herbúðum Miðflokksins, sem fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og forsætisráðherra stýrir. 

Að því leyti til hefur ekkert verið dregið til baka varðandi áherslu hans og beina þátttöku í byggingu álvers milli Blönduóss og Skagastranda.

Það sést vel hvað yfirlýsing Sigurðar Inga er stór, að fyrir áratug voru sex af helstu ráðamönnum landsins nýbúnir að taka fyrstu skóflustunguna að 120 þúsund tonna álveri í Helguvík, sem átti að verða alls 360 þúsund tonn. 

Hafin var bygging kerskála, og standa uppistöður þess mannvirkis áfram sem tákn um það offors og brjálæði, sem menn vildu þá ana út í með því að reisa alls sex (síðar líka það sjöunda) risaálver, sem myndu kosta eyðileggingu allra helstu náttúruverðmæta landsins, sem eru það lang dýrmætasta, sem þessari þjóð hefur verið falið að varðveita fyrir komandi kynslóðir og mannkyn allt. 

En enda þótt nú sé verið að hreinsa upp eftir stóriðju- og stórvirkjanaæðið, má ekki gleyma því að næstu áratugi er framundan gríðarleg hreinsun varðandi margar af þeim stórvirkjanir sem þegar eru komnar. 

Það á einkum við gufuaflsvirkjanirnar á Reykjanesskaganum, allt frá Þingvöllum til Reykjanestáar, sem fela í sér stófelldustu rányrkju í sögu þjóðarinnar, og þarf að bregðast við. 

Því að þegar meira en 600 megavatta afl þessara virkjana fer dvínandi og klárast að mestu mun það kosta mikið átak að vinda ofan af þessu brjálæði, sem lýsir sér meðal annars í því að HS orka seilist alla leið vestur á hálendið á Ströndum til þess að kreista út raforku í staðinn fyrir þá, sem fer dvínandi á Svartsengis- Reykjanessvæðinu. 

Um þetta gildir nýyrðið skómigustefna, líkingin við það að pissa í skó sinn til þess að hita hann aðeins upp örskamma stund en gera vandamálið verra til frambúða, ekki síst þá fyrirætlan og einbeittan vilja að virkja í Eldvörpum til þess að seinka aðeins hinu óhjákvæmilega endanlegu hruni orkunnar. 

Ef af þessu verður, mun tjónið af völdum rányrkjunnar verða ennþá verra en ella.  

 

Í 


mbl.is Tími risavirkjana liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afi sýndi fermingardrengnum raunveruleikann á gamlárskvöld.

Fram yfir miðja síðustu öld var gamlárskvöld gerólíkt því sem nú er. Yngra fólkið fór á áramótadansleiki þetta kvöld, sem stóðu langt fram á nótt. 

Afi og amma höfðu barnabörnin hjá sér yfir nýársnóttina og síðan komu mamma og pabbi til að sækja þau eftir hádegi á nýársdag. 

Stór hluti unglinga og einhleypra ungra manna stóðu fyrir hálfgerðu óeirðaástandi, einkum í miðbænum. 

Síðuhafi var hjá ömmu Ólöfu og afa Finni á gamlárskvöld, og um fermingaraldur leyfði afi mér að fara með sér niður í bæ til að upplifa þetta furðulega ástand og fá nasasjón af raunveruleikanum. 

Þegar litið er til baka var þetta fáránlegt ástand, hrein villimennska, en lögregla og yfirvöld stóðu ráðþrota þrátt fyrir að allt tiltækt lið væri kallað út. 

Fermingardrengnum þótti magnað að sjá ráðist á lögreglustöðina í Pósthússtræti og rúðurnar brotnar í henni með grjótkasti. 

Sem betur fór fundu menn ráð. 

Á sjötta áratugnum duttu menn niður á það snjallræði að leyfa stórar áramótabrennur, sem fjölgaði hratt með árunum, og þá var eins og botninn færi að detta úr óeirðastemningunni. 

Þetta gerðist undra hratt og óeirðaástandið hvarf að mestu á nokkrum árum. 

Smiðshöggið rak íslenska sjónvarpið með tilkomu sinni 1966 og gerð sérstaks Áramótaskaups strax fyrsta gamlárskvöld sjónkans. 

Með tilkomu þess hurfu áramótadansleikirnir jafn hratt og óeirðirnar rúmum áratug fyrr og í staðinn fór margt fólk að fara út á nýárskvöld í vandaðar áramótaveislur. 

Þetta var alveg mögnuð breyting í heild sinni og sýndi, að það var alveg eins hægt að svala þörf fjöldans á fleiri ein einn veg fyrir því að gera sér dagamun á áramótum.  

 


mbl.is Ein verstu áramótin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútíma öryggi í flugi byggist á lærdómi af flugslysum.

Flugsagan geymir mörg dæmi um það að flugvélar, sem féllu undir þá skilgreiningu sem Boeing-verksmiðjurnar færa fram, að Boeing 737 max sé "eins örugg og nokkur flugvél af svipuð tagi geti verið," hafi búið yfir hönnun sem í ljós kom að gat villt um fyrir flugmönnum. 

Í rannsókn á nauðlendingu Sullenbergs flugstjóra á Hudson-fljóti var líkt eftir atvikinu í hermi til þess að "sanna" að ef hann hefði tafarlaust snúið við hefði hann náð inn til lendingar á flugvelli á landi. 

Þessari útskýringu var hrundið, því að hún gerði ráð fyrir að flugstjórinn gæti gert þetta án þess að hafa hinn minnsta umhugsunartíma. 

En þannig er það einfaldlega ekki í raun, - og Sullenberger var hreinsaður í þessu máli. 

Aðvörunar og sjálfvirknikerfi Airbus A380 er svo "fullkomið og háþróað", en jafnframt svo flókið, að þegar lúmsk bilun í leiðslu í einum hreyfli kom af stað keðjuverkun blikkuðu svo mörg aðvörunarljós að það eitt gat valdið sérstakri hættu á mistökum flugstjóranna. 

Aðeins yfirburða færni og yfirvegun þeirra kom í veg fyrir að þarna gerðist eitthvert stærsta flugslys síðari tíma og það á stærstu farþegaþotu heims.  

Nefna mætti ótal fleiri mál, þar sem flugmálayfirvöld og rannsakendur hafa hrundið af stað endurbótum í aðferðum og verklagi í flugi og einnig í bættri þjálfun. 

Til dæmis hefur stundum komið i ljós að í gátlistum var aðgerðum ekki raðað í heppilegustu forgangsröð. 

Einnig að það að ef flugmenn treysta sjálfstýringu og öðrum sjálfvirkum búnaði of lengi samfellt, geti það leitt til aukinnar hættu á mistökum og óhöppum eða slysum. 

Svona atriði ná út fyrir flugið. Þegar síðuhafi hóf að nota rafreiðhjól 2015 eftir margra áratuga fjarveru frá hjólreiðum, skildi hann ekkert í því, að fyrstu mánuðina datt hann á hjólinu við aðstæður, þar sem hann hafði aldrei klúðrað málum á yngri árum.

Þegar bylturnar voru orðnar fimm, kom hins vegar í ljós ákveðin samsvörun í þeim. Þær gerðust allar við það, að bregðast þurfti við óvæntum uppákomum, þar sem hægja þurfti á hjólinu, en í öll skiptin hafði það klúðrast. 

Eitthvað annað hlaut að hafa breyst en bara það að vera orðinn eldri og hafa verið lengi frá samfelldum hjólreiðum. 

Og skyndilega blasti orsökin við: Það var hand-aflinngjöf á vélknúnu hjóli, en ekki á mótorlausu reiðhjólinu í gamla daga. 

Og í öll skiptin, þegar klúðrið átti sér stað á rafknúna hjólinu, hafði síðuhafi gefið mótornum ósjálfrátt inn afl í stað þess að draga af aflinu. 

Skýringin lá í því að hafa áunnið sér það í meira en sjö þúsund flugtímum, að taka aflgjöfina til baka til þess að minnka hraða og afl, en ýta henni fram til að auka hraða og afl.  

Í huga flugmanns, og einnig þegar hann horfir á hönd sína, fer hreyfingin fram í gegnum hnúana. Hnúarnir áfram=gefið inn.  Hnúarnir til baka=dregið af.  

En á vélhjóli er hreyfingin öfug í gegnum hnúana. Ef hnúunum er snúið aftur á bak, er vélaraflið aukið, þveröfugt við það sem er á flugvélum. Hnúarnir áfram=aflið dregið af.  Hnúarnir til baka=aflið aukið.  

Og hreyfingin á flugvélinum var fyrir áratugum orðin að ósjálfráðum vana. 

Niðurstaða: Flugmenn eru í sérstökum áhættuhópi ef þeir byrja að aka vélhjóli eftir margra ára flug. Og það tekur tíma að venja sig á þveröfug viðbrögð á vélhjóli miðað við flug á flugvél. 

Sem betur fer var síðuhafi búinn að vera á rafreiðhjólinu í meira en ár þegar hann hóf akstur á fjórfalt hraðskreiðara og þyngra vélhjóli og þá hafði myndast ávani fyrir vélknúið hjól, sem er öfugur við ávanann við stjórn flugvéla. 

Og ávaninn fyrir flugvélarnar hefur sem betur fer ekki haggast. 

Breytingin varðandi hjólin sést á því, að síðan á útmánuðum 2016 hafa bylturnar alveg horfið (7-9-13).

Út af fyrir sig er ekkert tæknilega rangt við það hvernig aflgjafir flugvéla og vélhjóla eru hannaðar, en það þarf samt að varast ákveðin atriði og gera þau mönnum ljós þegar flugmenn eru líka vélhjólamenn. 

Þegar ég byrjaði að fljúga átti ég Bronco, sem var með bæði fótgjöf og handgjöf. 

Handgjöfina hafði ég gaman af að nota við ákveðnar aðstæður, en hún virkaði öfugt við fótgjöfina eins og handgjöfin á gamla Fordseon traktornum í sveitinni hafði gert: Dregið til baka=gefið inn, ýtt áfram=dregið af. 

Í fyrstu flugtímunum virkaði þetta dálítið truflandi en síðan hvarf það. 

Auðvitað væri betra ef samræming væri á þessum hreyfingum þannig að hreyfing áfram væri ævinlega til þess að auka afl hreyfils til að hreyfa farartækið áfram. 

En út af fyrir sig er ekkert tæknilega rangt við það að handgjafir á dráttarvélum og vélhjóli hafi öfuga hreyfingu miðað við fótgjafir á bílum og handgjafir á flugvélum. 


mbl.is Fjölskylda flugmannsins kærir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur Hekla sprungið?

Þegar Hekla tók upp á því að gjósa, öllum á óvörum 1991, veltu menn vöngum yfir því, hvers vegna fjallið virtist komið í annan fasa, ef svo mátti að orði komast, heldur en það hafði verið öldum saman fram til 1980. Hekla, Bárðarbunga 1.6.18

1947 kom stórgos eftir 102ja ára hlé, en 1970 allt í einu gos eftir 23ja ára hlé og svo annað 1880-81 eftir aðeins tíu ára hlé. 

Síðuhafi minnist kenningar, sem sett var fram um það 1991, eftir þrjú gos með tiltölulega stuttu millibili, hvort fjallið sem stór eldstöð væri að breyta um eðli, sem gæti endað með hrikalegu sprengigosi við það að það splundraðist eða rifnaði. 

Páll Benediktsson, þáverandi fréttamaður Sjónvarps, fjallaði um þetta ef ég man rétt. 

Gos sem yrði í líkingu við gosið stóra í Krakatá 1883, sem var ógurlegt á sína vísu, og kom fyrir tilviljun nákvæmlega öld eftir hina miklu Skaftárelda 1783, sem höfðu árhrif og ollu harðindum sem kostuðu milljónir manna lífið í þremur heimsálfum. Hekla,Þórisvatn, Krókslón, Bárðarbunga, Vatnajökull 1.6.18

Önnur tvö íslensk eldfjöll, sem búa yfir möguleikum á sprengigosi, eru Öræfajökull og Snæfellsjökull. 

Á myndunum hér sést Bárðarbunga í fjarska, en hún er ein af þeim fjórum eldfjöllum hér á landi, sem gætu gosið á nýju ári. 

Það síðarnefnda hefur að vísu verið kyrrlátt lengi, enda er mesta eldvirknisvæðið á Íslandi á örhægri leið til austurs. 

En eldfjallasaga jarðarinnar sýnir, að firnakraftar iðraelds hennar eru til alls vísir.  


mbl.is „Sprelllifandi eldfjall“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjar kröfur í árekstraprófum breyta miklu.

Það er ekki nýtt að bíll, sem fékk fjórar stjörnur fyrir áratug hjá EuroNCAP, hrapi niður í eina stjórnu við notkun nýrra krafna í öryggisprófun. Jeep Wrangler

Þannig hröpuðu nokkrir bílar, sem voru á Indlandsmarkaði án þess að hafa loftpúða/líknarbelgi, niður í enga eða eina stjörnu í prófun, sem gerð var í fyrra. 

Stærð bíla og útlit getur verið blekkjandi. Þúsundir manna keyptu til dæmis stóra bandaríska pallbíla eða jepplinga og fjölnotabíla (SUV) árum saman vegna þess, að útlitið benti til þess að þeir væru afar öruggir. 

En við árekstraprófun komu þeir margir herfilega út.Renault Twizy 

Ný afbrigði af árekstraprófunum felast meðal annars í því að bílarnir standist árekstur beint framan frá annað framhorn bílsins, svo sem líkt og ekið sé á vegghorn eða á framhorn bíls, og þá kemur í ljós eins og vænta má að vegghornið fer mun lengra inn í bílinn og veldur meira tjóni en ef ekið væri á breiðan og sléttan vegg. 

Til þess að átta sig betur á forsendunum fyrir stjörnugjöfinni, allt upp í fimm stjörnur, er nauðsynlegt að fara nánar yfir útlistun á forsendunum og skoða vel myndbönd af prófununum. Tazzari og Nissan Leaf

Þar er meðal annars hægt að sjá á skýringarmyndum í mismunandi litum hvernig einstakir líkamshlutar koma út, svo sem fætur, búkur, háls og höfuð og mat NCAP á því, hvaða áhrif meiðsl á mismunandi stöðum hefur á líkur á minni háttar meiðslum, alvarlegum meiðslum og banvænum meiðslum. 

Um sum farartæki, svo sem hjól eða fjórhjól verður að skoða einfaldari tölur, svo sem líkur á alvarlegum slysum almennt. 

Áður hefur verið greint frá slíku hér á síðunni, meðal annars því að tvöföld tíðni alvarlegra slysa og banaslysa á vélhjólum, miðað við bíla, stafar fyrst og fremst af tveimur atriðum, sem vélhjólamenn kunna að vanrækja en skiptir langmestu máli fyrir þá: Að vera edrú og vera án lokaðs hlífðarhjálms. 

Ef þessi tvö atriði eru í lagi, minnkar hætta á alvarlegum slysum og banaslysum um helming.  

Litlir og léttir bílar, oftast rafbílar, í tveimur þyngdarflokkum, sem fjalla undir skilgreininguna "yfirbyggð fjórhjól", hafa komið til sögu á síðustu árum, ætlað að geta komið í staðinn fyrir vélhjól ef svo ber undir, einkum sú gerð þeirra sem falla undir léttari flokkinn, má aðeins vera með sjö kw eða 10 hestafla afl og 45 km/klst hámarkshraða.

Og ökumenn þurfa minni réttindi og mega vera yngri.  

Hinn franski örbíll, Renault Twizy, sá svarti hér fyrir ofan, og hinn ítalski Tazzari hafa selst einna best, en einnig kannast Íslendingar, sem hafa farið til Kanaríeyja, líklega við hinn smáa Ligier, sem á sér lengri sögu. 

Til þess að gera þessa nettu bíla hættuminni en venjulega bíla,  eru þyngd, afl og hraði takmörkuð, allt atriði, sem auka líkur á alvarlegum slysum. Þyngri flokkurinn, L7e flokkurinn, "þungt fjórhjól", mega ekki vera þyngri en 450 kíló án rafhlaðna, ekki komast hraðar en 90km/klst og ekki vera aflmeiri en 15 kw eða 20 hestöfl. 

Renault Twizy er með loftpúða fyrir framan ökumann, sem situr fyrir framan farþegann, en er auk þess með fjögurra punkta bílbelti, en það eitt er mikilsvert atriði. 

Þrátt fyrir þetta er hætta allmikil á háls- og fótameiðslum í árekstraprófi NCAP, sem var framkvæmt 2014. 

Í prófuninni slitnaði öryggisbeltið í Tazzari, og skekkti það niðurstöðuna að sjálfsögðu mikið. Hann fékk aðeins eina stjörnu, en af kvikmynd má ætla, að hann hefði fengið tvær ef beltið hefði verið sterkara, sem það var gert eftir prófunina. 

Ligier kom verst út af þessum bílum, enda grunnhönnunin komin til ára sinna.

Fróðlegt verður að sjá gengi rafbílsins Microlino, sem nýbyrjað er að smíða í Tazzari-verksmiðjunni. 

Honum má leggja þversum í stæði, því að hann er aðeins 2,44 metra langur, og gengið er inn og út úr honum beint framan frá. 

Hann er tveggja sæta, nær 90 km hraða með 20 hestafla vél, með raundrægni upp á 100 kílómetra og 300 lítra farangursrými! 

Afar spennandi kostur í þrengslunum í borgarumferð. 

Ekki er að sjá að Microlino hafi farið í árekstrapróf, en það, að setið er bókstaflega í nefi bílsins er augljóslega helsti ókostur hans hvað öryggi varðar, þótt það sé mikill kostur varðandi það að bíllinn taki sem allra minnst pláss í umferðinni og að auðvelt sé að fara inn og út úr honum.    

 

 


mbl.is Fengu slæma útkomu hjá EuroNCAP
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný jarðgöng á höfuðborgarsvæðinu? Já. Veggjöld? Já.

Nú eru rúmir tveir áratugir síðan Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun, en þau tengja norðvesturmörk borgarlands Reykjavíkur við Vesturland. 

Síðan þá hefa bráðnauðsynleg göng verið boruð úti á landi, en engin inni á höfuðborgarsvæðinu sjálfu. 

Fyrir löngu er kominn tími til að gera það, og fjármagna það með veggjöldum líkt og gert hefur verið víða erlendis. 

Og var raunar gert beggja vegna Reykjavíkur á sínum tima, fyrst með lagningu Reykjanesbrautar eða Keflavíkurvegarins eins og hann var kallaður þá. 

Í slíkum tilfellum þarf að vera sú forsenda, að hægt sé að aka aðra leið, ef menn vilji. 

Þeir borga, sem nota. 

Nú er mikið rætt um það óréttlæti að tugmilljarða skattheimta af bílum og samgöngutækjum, sem átti upphaflega að renna beint í að borga samgöngumannvirki skuli renna að stórum hluta til annarra þarfa í ríkisrekstrinum. 

Veifa menn því að lausnin á fjármögnunarvanda samgöngumannvirkja náist auðveldlega og einfalt með því láta allt skattfé af samgöngutækjum renna beint til samgöngumála. 

Gott og vel, en þetta er aðeins önnur hlið málsins og hálfsögð saga, því að með þessu yrðu bráðnauðsynleg verkefni ríkisins eins og heilbrigðismál, velferðarmál, mennta- og menningarmál o. s. frv. svipt tugum milljarða króna. 

Þeir, sem setja fram ofangreindar tillögur, verða að upplýsa, hvaðan eigi að fá þá miklu peninga, - tilgreina, hvaða nýja skattheimtu eigi þá að taka upp. 


mbl.is Jarðgöng í Hafnarfirði á listanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipbrot stefnubreytingar um síðustu aldamót og græðgi elítunnar.

Frá því um 1930 og út öldina voru brýnustu húsnæðisvandamál láglaunastétta og lægri millistéttar leyst með nokkrum átaksverkefnum. Má þar nefna verkamannabústaðina, sem enn standa í vesturbænum og á Rauðárárholti. 

Á fyrri hluta sjötta áratugarins reis Smáíbúðahverfið milli Bústaðavegar og Hringbrautar, og í tvennum kjarasamningum 1964 og 1965 var gert félagslegt stórátak þegar Breiðholtshverfið var byggt. 

Um og upp úr síðustu aldamótum barst hins vegar einn angi Reagan-Thathcer-ismans hingað til lands í formi þeirrar trúar, að félagsleg stórátök væru úrelt og að markaðurinn myndi sjá um eðlilega og nauðsynlega uppbyggingu íbúða, sem láglaunafólk og fólk í lægri millistétt gæti eignast. 

Í Bandaríkjunum voru það öfgar í markaðs- og lánamálum á húsnæðissviðinu, sem skópu jarðveginn fyrir efnahagskreppuna 2008.

Afleiðingar hennar hér á landi voru meðal annars hrun bankakerfisins og þess, að um tíu þúsund heimili urðu gjaldþrota.  

Þessi húsnæðisstefna hefur brugðist illa hér á landi hin síðustu ár, og framundan eru kjarasamningar með afar dökku útliti, því að á sama tíma sem markaðurinn virðist einkum anna þörfum hinna hærra launuðu í húsnæðismálum, hefur efsti hluti tekju- og aðstöðustigans, stundum nefnd elíta, skammtað sjálfri sér launahækkanir og ívilnanir, meðal annars afturvirkt, (forseti Íslands eina undantekningin) í þeim mæli, að mikil undiralda reiði grefur undan stöðugleika og friði í þjóðfélaginu. 

Valdaskipti í stóru láglaunafélögunum eru bein afleiðing ábyrgðarlausrar hegðunar efstu stéttanna. 

Þetta síðastnefnda uppreisnarfyrirbæri má sjá víðar í Evrópu og Ameríku í formi uppgangs róttækra stjórnmálaafla, sem nærast á hvers kyns óánægju og óróa. 

Hér á landi verður það fyrst og fremst á ábyrgð blindrar elítu ef það ástand skapast, að menn þiggja ekki frið ef ófriður er í boði.  


mbl.is Voru byggð á ódýru landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningum í bloggpistli svarað. Brúin ótæk. Allsherjar úttektar er þörf.

Spurningarnar í færslunni á undan þessari eru ekki lengur spurningar. Ástand þessarar stóru brúar er afar slæmt. 

En því miður er þetta ekki eina brúin á landinu eða vegarkefli, þar sem svipaðar spurningar vakna, heldur skipta þessir staðir jafnvel hundruðum. 

Það myndi gera málin skýrari ef fram færi sérstök úttekt á öllum brúm og vegriðum á Íslandi í upphafi sérstaks átaks stil úrbóta. 

Sú var tíð fyrir aldarfjórðungi að fullyrt var að engin leið væri að gera vegrið á hættulegum vegaköflum á Hvalfjarðarveginum sem þá var ekinn, og útafkeyrsla endaði í sjónum, vegna þess að þau yrðu alltof dýr, yrðu jafnvel meira en tugur kílómetra á lengd. 

Síðuhafi stökk þá upp í TF-GIN og tók loftmyndir, sem sýndu, að aðeins 1300 metrar af vegriðum myndu nægja. 

Vegagerðin brást við þessu með því að gera þessi rið, sem var þó var því miður gert of seint til að bjarga lífi hjóna sem drukknuðu yst við Brynudalsvog þegar bíll þeirra fór útaf og lenti í sjónum. 

Ég kom á þann slysstað og það var ömurleg lífsreynsla að sjá helblágrá líkin.  


mbl.is Brúin „langt frá því“ ásættanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Í gegnum vegriðið"? Á slíkt að vera hægt?

Þúsundir, ef ekki tugþúsundir bíla í íslenska bílaflotanum eru milli tvö og þrjú tonn á þyngd. Ætla mætti að vegrið séu hönnuð þannig, að ekki sé hægt að aka slíkum bílum "í gegnum vegriðið" eins og það er orðað í frétt af hörmulegu stórslysi á brúnni yfir Núpsvötn. 

Vegriðum er ætlað að koma í veg fyrir að hægt sé að aka bílum út af brúm. 

Einföld spurning: Ef hægt er að aka fólksbílum "í gegnum vegrið" á tiltölulega mjórri brú þar sem engin breidd gefst sem getur fengið bílinn til að stefna á fullri ferð þvert útaf, stenst umrætt vegriði ekki þá kröfu sem nefnd var í upphafi þessa pistils. 

Ef hægt er að velta fólksbíl, þótt í hærra lagi sé, yfir riðið, stenst það heldur ekki þá kröfu, sem nefnd var. 

Er það annars krafan? 

Eða þarf að endurskoða vegrið af þessu tagi?

Eða er eitthvað missagt í fréttinni?

Ef bíllinn fór útaf við enda riðsins, nær það þá nógu langt út frá brúnni til að hamla því að hann velti ofan í ána.  


mbl.is Breskir fjölmiðlar fjalla um slysið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband