Huawei og Dyun inni á gafli hjá mér.

Þar sem síðuhafi situr og párar þennan pistil horfir hann beint á tvö gripi, kínverska að uppruna, í litla skrifherbergi sínu. 

Við hliðina á tölvunni er svartur lykill merktur stórum stöfum með heitinu Huawei. Reyndist stórt framfarastökk þegar ég keypti hann í staðinn fyrir aðra minni af annarri gerð og hef síðan séð að Huawei ætlar sér forystu á sínu sviði á heimsvísu á næstu árum. 

Hins vegar er það rafreiðhjól af Dyun-gerð, sem er raunar framleitt á Ítalíu fyrir Bandaríkjamarkað en rataði til Akureyrar og síðan til mín í gegnum Bretland.

Tók hjólið upphaflega nýtt upp í illseljanlegan bíl, en féll fyrir kostum þess við frekari kynni og hef ekki einn séð öllu hentugri grip hér á landi.  

Hvorugt þessara ólíku tækja er áreiðanlega í náðinni hjá Donald Trump. 

Sem meðaljón átta ég mig ekki á því hvernig Huawei lykillinn getur verið hættulegur þjóðaröryggi Bandaríkjanna, Bretlands, Ástralíu og Íslands og hætti mér ekki út í neinar umræður um það. 

Kannski er það þannig.  

Hitt blasir við, að sumt af því, sem Trump úthýsir frá Bandaríkjunum, virðist gert á þeim forsendum, að þar sem óamerískar þjóðir á borð við Kanadamenn (Trump fellir aðeins BNA undir hugtakið Ameríka) hafa náð fótfestu í Guðs eigin landi með vörur, sem byggjast á hugviti, sem Bandaríkjamönnnum sást yfir, sér Trump þá leið eina til þess að "gera Ameríku mikla á ný" að koma í raun í veg fyrir innflutning slíkrar vöru. Er þjóðaröryggi Bandaríkjanna jafnvel nefnt í því sambandi. 

Hér blasir til dæmis við 209 prósenta nýr tollur á farþegaþotum í smærri kantinum, þar sem Kanadamenn nota aðra skrokkbreidd en Bandaríkjamenn til að fá fram fyllstu hagkvæmni og þægindi á þotum með ca 70-140 farþegasæti. 

Í stað þess að slá í bandaríska hugvitsmannaklárinn fer Trump þá leið að hygla úreltri bandarískri hönnun. Með því gerir hann ekki Bandaríkin mikil að nýju heldur stuðlar að stöðnun þeirra. 


mbl.is Íhuga að banna búnað frá Huawei
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundurinn Sesar og kettirnir Eisenhower og Stevenson í Hvammi.

ÞÞað hafa verið dæmi um það að dýr á Íslandi hafi verið nefnd nöfnum frægra erlendra manna, og hinn erlendi froskur Trump er ekkert einsdæmi um það fyrirbæri út af fyrir sig.

Þegar ég var í sumardvöl í sveit sem drengur 1950-1954 að Hvammi í Langadal, hét kötturinn á bænum Stevenson. 

Þó ekki Adlai Stevenson eins og frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum 1952 hét, en hann varð síðar fulltrú lands síns hjá Sameinuðu þjóðunum á tímum Kennedys, ef ég man rétt.

Síðar var þar kötturinn Eisenhower.  Sesar, hundurinn vitri

Hundurinn Sesar bar þó höfuð og herðar yfir önnur dýr á bænum, því að hann hafði næstum mannsvit. 

Að minnsta kosti var hægt að tala við hann eins og mann oft á tíðum. 

Mér er enn minnisstætt þegar ég var nýkominn í sveitina og við sátum í eldhúsinu, að ungur frændi minn gekk út að glugganum á stofunni, horfði niður að þjóðveginum og kallaði: "Sesar, Móbergskýrnar!"

Brá hundurinn þá skjótt við, hljóp undan borðiu og út og niður að veginum til þess stöðva kýrnar á næsta bæ, Móbergi, sem höfðu farið á flakk og voru að komast inn í Hvammstúnið. Manga með svartan vanga

Mér til mikillar undrunar þurfti ekki að aðhafast frekar. Sesar sá um að reka kýrnar til baka uns þær voru komnar út úr landareigninni og úr augsýn. 

Sagt var að Sesar hefði jafnvel meira en mannsvit. Sem dæmi um það var nefnt, að á refaveiðum hefði refurinn verið að sleppa upp í fjallið frá þeim sem eltu hann, en Sesar hefði tekið á rás á ská upp fjallið svo að hann kæmist upp fyrir refinn. 

Það tókst þessum magnaða hundi og nýtti sér það, að refir eiga erfiðara með að hlaupa undan brattri brekku en upp hana. 

Var Sesari þakkað það einum, að refurinn náðist. 

Sesar var orðinn gamall og hrumur þegar ég kynntist honum og farinn að hænast mjög að Margréti Sigurðardóttur, öldruðum niðursetningi á bænum, sem mátti kalla síðustu förukonuna á Íslandi, því að hún gekk um dalinn, oft dögum saman þótt komin væri á níræðisaldur og treindi með því þrek sitt í tíu ár í viðbót. 

Manga, eins og hún var kölluð, var afar barngóð og mikill dýravinur, og hafði í vösum í serk sínum ýmislegt góðgæti, sem hún sankaði að sér og gaukaði að börnum og dýrum á ferðum sínum. 

Fylgdu henni stundum dýr á göngunni, og Sesar varð æ meir langdvölum að heiman. 

Varð svo kært með henni og Sesari að líkja mátti við ástarsamband. 

Þetta líkaði bóndanum í Hvammi, Björgu Runólfsdóttur, illa og þegar fór í vöxt að Sesar væri langdvölum að heiman, sagði hún eitt sinn við Möngu að hundurinn væri henni sem dauður eins og komið væri málum. 

Manga var skapmikil kona, reiddist mikið að mér áheyrandi og varð úr heiftarlegt rifrildi, þar sem greinilegt var að Manga varð afar sár og bitur og gráti nær. 

Daginn eftir fór hún af stað í næstu dalarreisu og fylgdi Sesar henni að vanda. 

Þegar Manga kom til baka úr þessari ferð, var Sesar ekki með henni. 

Þegar hún var spurð um Sesar hreytti hún út úr sér að hún hefði látið bóndann á Móbergi skjóta hann úr því að Björg hefði sagt, að hann væri sér sem dauður.  

Björgu, börnum hennar tveimur, sem voru unglingar, og mér, varð við þetta næstum eins og um mannslát hefði verið að ræða. 

Í ljós kom, að bóndinn hafði staðið í þeirri trú, að Björg hefði beðið Möngu um að láta skjóta hundinn vegna aldurs. 

En miðað við þá hatrömmu deilu, sem orðið hafði með Björgu og Möngu, var undravert, af hve miklum skilningi hún tók þessu uppátæki hinnar öldruðu förukonu og bað okkur um að sýna Möngu skilning, því að hún ætti sér forsögu, sem útskýrði þessi viðbrögð hennar og hegðun. 

Þegar gestir, sem komu á bæinn, hallmæltu Möngu fyrir hundsdrápið, tók Björg svari hennar og endurtók, að fyrir viðbrögðum hennar væru ástæður úr fortíð hennar. 

Síðar laukst upp fyrir mér hvað Björg átti við.

Manga hafði átt illa barnæsku í fjölskyldu, sem tvístraðist í harðindunum í kringum 1880 og síðan verið vinnukona í vistarbandi, sem henni líkaði illa, því hún var skarpgáfuð og afar bókelsk og skáldhneigð. 

Draumur hennar var að eignast eiginmann, fjölskyldu og jörð, jafnvel þótt það væri kot frammi á heiðum eða uppi á Laxárdal. 

Hún varð barnshafandi af völdum myndarlegs vinnumanns, en missti barnið í fæðingu og kenndi vinnuhörku um. 

Þar með urðu slit með henni og vinnumanninum og draumur þessa kvenkyns Bjarts í Sumarhúsum að engu orðinn við þennan harmleik. 

Þetta útskýrði kannski hið einstaka samband hennar við hundinn með mannsvitið og það, hve mjög hún tók það nærri sér ef hún missti hann frá sér. 

Björg Runólfsdóttir, ömmusystir mín, skildi þrár og drauma Möngu, því að sjálf hafði hún næstum hlotið það hlutskipti líka, að verða vinnuhjú til æviloka. 

Hún var komin á fimmtugsaldur þegar hún kynntist vinnumanni, sem hún giftist og eignaðist tvö börn með. 

Þau keyptu jörðina Hvamm, hófu þar erfiðan búskap í kreppunni en skildu tíu árum síðar og hafði ríkið þá eignast jörðina. 

Sumarið 1954, síðasta sumarið mitt í Hvammi, náði Björg þeim þráða áfanga eftir mikið strit og baráttu að eignast jörðina á ný. 

Enginn skildi förukonuna Margréti Sigurðardóttur, Möngu með svartan vanga, betur en hún.  

 

 

 


mbl.is Blint froskdýr nefnt eftir Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm jólafrétt: því meiri hraði, því styttri viðbragðstími og gereyðingarhætta.

Síðastliðina hálfa öld hefur GAGA-kennisetningarinnar, skammstöfun fyrir "Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra") gilt um svonefnt ógnarjafnvægi risa kjarnorkuveldanna, Bandaríkjanna og Rússlands. 

GAGA er lausleg þýðing á MAD, "Mutual Assured Destruction". Forsenda GAGA felst í orðinu "assured", eða "altryggð" sem merkir það að hvor aðili um sig verður að gera ráð fyrir að hinum sé trúandi til þess að hefja kjarnorkuárás. 

Helsta ástæða þess, að annar aðilinn kynni að hefja fyrirvaralausa árás er sú að hún væri af hans hálfu hugsuð sem "fyrirbyggjandi árás", þ. e. með svo algera gereyðingu að ekkert andsvar yrði og árásaraðilinn stæði því uppi sem sigurvegari. 

Þessi kennisetning hefur verið í gildi og er enn, jafnvel þótt vitað sé, að slík árás, sem ekki yrði svarað, myndi hafa svo hroðalegar afleiðingar fyrir allt líf á jörðinni og valda slíku hruni á mannlífi, að það yrði í skásta falli aðeins leifar þess sem nú er. 

Og árásaraðilinn, "sigurvegarinn" myndi líklegast ganga frá sjálfum sér í leiðinni. 

Raunar á þessi hugsun, GAGA, sér fordæmi rúmlega öld aftur í tímann, hvað varðar heri stórveldanna, sem þá bárust á banaspjótum í Fyrri heimsstyrjöldinni.

Einn af hershöfðingjum Breta sagði þá, að jafnvel þótt að aðeins stæðu eftir á lífi 1000 hermenn Bandamanna eftir en allir þýsku hermennirnir hefðu verið drepnir, væru slíkar mannfórnir verjandi, "sigursins" vegna.

Það blasir við hvað GAGA-kennisetningin er mikil geggju, og síðustu hálfa öld hafa risaveldin reynt á veikburða hátt að draga úr ógn hennar með því að fækka vopnum, og gera ráðstafanir til þess að gereyðingarstríð hefjist fyrir slysni. 

Þegar stefndi í það að komið yrði upp skammdrægum kjarnorkueldflaugum í Evrópu blasti við, að viðbragðstíminn vegna notkunar slíkra vopna gæti orðið óviðráðanleg ógn í sjálfu sér. 

Þess vegna tókst að ná samkomulagi um að binda kjarnorkuheraflann við langdrægari eldflaugar. 

Hársbreidd munaði þó 1983 að gereyðingarstríð hæfist fyrir slysni vegna bilunar í tölvuvæddum viðbragðsbúnaði Rússa. 

Það var að þakka einum manni, sem sá hve viðbragðstíminn var skammur við þeirri árás allmargra flugskeyta frá Bandaríkjunum, sem bilað tölvukerfi sýndi, að hann tók strax af skarið og ákvað að láta þessa vitneskju sína fara lengra.

GAGA byggist líka á því að hvor aðilinn um sig geti svarað árás með gagnárás. 

Þegar Reagan tilkynnti um "Stjörnustríðsáætlun" sína sem átti að gera Bandaríkjamönnum kleyft að eyða hvaða árás Rússa sem væri með varnareldflaugum utan úr geimnum, setti það GAGA kennisetninguna í uppnám, því að það hefði þýtt, að Rússar gætu ekki ráðist á Bandaríkjamenn, heldur aðeins öfugt. 

"Ógnarjafnvæginu" hefði verið eytt. 

Samningar Gorbatsjofs við Reagan og Bush eldri miðuðust við það að minnka gereyðingarvopnabúr stórveldanna, ógnarjafnvægið héldist að vísu, en viðbragðstíma við árás yrði ekki of stuttur. 

Nú ógnar tvennt GAGA-kenningunni, annars vegar hugsanleg uppsetning skammdrægra eldflauga í Evrópu, og hins vegar fullkomnari og hraðfleygari langdræg flugskeyti, sem Pútin greinir frá á hátíð friðarins, jólunum, að Rússar séu að koma sér upp. 

Í svona pælingum má ekki gleyma fánýti GAGA-kenningarinnar og ógnarjafnvægisins hvað snertir það, að auðvitað er tilvist vopna, sem geta gereytt hugsanlegum stríðsaðlinum fimm sinnum eða oftar hreint brjálæði og að því lengur sem slíkt brjálæði er sagt hafa tryggt frið og eigi að tryggja frið, því meiri líkur eru á því að það, hvað friður hefur þó haldist lengi, skapi trú á það, að kenningin sé árangursrík. 

En það er hins vegar alger hundaheppni ef GAGA-kenningin hefur gert það og ekki spurning um hvort, heldur hvenær mistekst að láta hana gera það.  

Þvert á móti er tilvist vopna, sem geta eytt lífi á jörðinni mörgum sinnum, mesta ógnin, og eina leiðin til að tryggja varanlegan frið og tilvist mannkynsins er að eyða þessu tryllingslega og vitfirringslega vopnabúri.  

 

 

 


mbl.is Rússar með ný hljóðfrá kjarnorkuflugskeyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlilegir byrjunarörðugleikar.

Byrjunarörðugleikar hjá nýliðum í Akureyrarflugi eru eðlilegir.

 

Í öllu flugi er öryggið og tryggur undirbúningur undir að fást við bilanir og erfið flugskilyrði það sem allt snýst um.

Fyrir flugstjóra, sem hafa litla eða enga reynslu af því að nota Akureyrarflugvöll, sker umhverfi vallarins sig töluvert út úr umhverfinu við hina varaflugvellina í millilandafluginu vegna fjalllendis og hárra fjalla allt umhverfis völlinn. 

Flugstjórarnir verða að standa fyrirfram klárir á því að þurfa að fást við vélarbilun og að fljúga á öðrum hreyflinum af tveimur hvenær sem er og þá er gríðarlegur munur á Akureyrarflugvelli eða Keflavíkurflugvelli, þar sem engar hindranir eru nálægt vellinum. 

Egilsstaðaflugvöllur lítur líka mun betur út vegna miklu lægri hindrana nálægt vellinum og mun meiri fjarlægðar til hærri fjalla en á Akureyri. 

Sem dæmi um íslenskan flugvöll þar sem þarf að búa yfir mikilli reynslu má nefna Ísafjarðarflugvöll. 

Fyrir ókunnuga sem aldrei hafa lent þar áður eða hafið sig til flugs, er flugvöllurinn og umhverfi hans næsta ógnvekjandi. 

Auk einstaklega varasamra hindrana þarf að læra á áhrif gilja, hvilfta, dala og fjallshlíða á vindinn, sem getur verið einstaklega snúinn við að eiga. 

En þrátt fyrir þetta sker Ísafjarðarflugvöllur sig ekki úr hvað snertir slysatíðni við lendingar og flugtök eða í býsna löngu og snúnu aðflugi. 

Öllu skiptir að flugmenn hagi flugi sínu í samræmi við aðstæður og reynslu hverju sinni. 


mbl.is Lentu þrátt fyrir stormviðvaranir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegur "múslimskur glæpalýður", sem ógnar þjóðaröryggi BNA.

Forseti Bandaríkjanna var snöggur að afgreiða flóttafólkið sem hefur gengið hundruð og þúsundir kílómetra í átt til hins forðum fyrirheitna lands frelsisins. 

Hann kvaðst hafa pottþéttar heimildir fyrir því að lunginn af þessu fólki væru múslimskir hryðjuverkamenn frá Miðausturlöndum og gönguna ætti að skilgreina í samræmi við það. 

Sem yfirmaður öflugasta herafla heims gaf hann út yfirlýsingu að hann væri að senda herafla að landamærunum nog myndi ekki hika við það að gefa hernum skipun um að beita skotvopnum gegn þessum lýð, sem ógnaði þjóðaröryggi Bandaríkjanna. 

Líklega á þetta við börnin, sem hafa látið lífið við lok göngunnar og með því orðið til þess að forsetinn geti andað léttara hvað þau varðar á hátíð friðarins. 


mbl.is Átta ára strákur lést á jólanótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háþróuð vinna snillings: Sörli, Perla,Sleipnir o.fl.

Síðuhafi á því láni að fagna að hafa kynnst hugvitsmanni, sem af hógværð og lítillæti fæst við að smíða rafhjól og endurbæta rafbíla, ef sá er gállinn á honum. Fjalla-jeppahjólið Sleipnir er það nýjasta hjá honum og myndin er tekin í reynsluferð um Svínaskarð. Sleipnir í Svínaskarði

Náttfari við Engimýri

Kynnin hófust sumarið 2015. Þá kviknaði hugmynd um að fara á rafhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur fyrir rafafli hjólsins sjálfs eingöngu, setja nokkur met í leiðinni og sýna fram á hvað rafmagn er ódýr og sjálfsagður orkugjafi á Íslandi. 

Eigið hjól af gerðinni Dyun, kínverskt en framleitt á Ítalíu fyrir Ameríkumarkað, varð fyrir valinu.

Það er með handaflgjöf og því hægt að nota rafaflið eitt ef svo ber undir. 

Tilraunir hér syðra sýndu, að aðeins var hægt að komast á 250 vatta afli, sem var skilyrði, upp Bakkaselsbrekkuna og tvær aðrar brekkur á leiðinni, sem varð að liggja um Hvalfjörð með því að aka hjólinu zik-sak í svigbeygjum til að minnka hallann. Aðeins var hægt að fara upp hina löngu Bakkaselsbrekku á þennan hátt um miðja nótt í minnstu umferðinni, og því hlaut hjólið heitið Náttfari.

Til þess að útfæra þetta nánar var mér bent á rafeindasnillinginn Gísla Sigurgeirsson, sem gæti hannað stærri rafhlöður á hjólið. Hann gerði það og fimmfaldaði orkugeymdina úr 0,35 kwst upp í 1,75.  

Tilraunaferð frá Akureyri misheppnaðist hins vegar efst í Bakkaselsbrekkunni vegna hita í mótornum sem bræddi lóðningu. Sörli,Bakkasel

En Gísli fann ráð við þessu. Hann átti gamalt og frekar létt og lítið reiðhjól, fimm kílóum léttara en Náttfara, og setti á það 250 vatta miðjumótor, sem ekki hitnaði eins mikið og mótor í teinafelgunni sjálfri og var þar að auki með sex gíra í stað aðeins eins, eins og er á flestum rafhreyflum. 

Hjólið hlaut heitið Sörli og var með sjöfaldaða orkurýmd, alls ca 2,5 kílóvattsstundir. 

Til að öruggt væri að farið yrði á rafaflinu einu festi Gísli pedalana þannig að þeir voru samsíða í stighringnum í stað þess að vera andsætt hvor öðrum.Náttfari í smáherbergi. 

Skemmst er þess að geta að ferðin, sem bar heitið "Orkuskipti - koma svo!" heppnaðist fullkomlega þótt tæpt stæði tvívegis, efst í Bakkaselsbrekkunni og í illviðri í Hvalfirði. 

Sett voru þrjú met sem standa enn:

1. 189 km á einni hleðslu.

2. 207 km á sólarhring. 

3. Akureyri-Reykjavík á 38 klst brúttó (með stoppum og hvíld) en 25 klst nettó.

Á myndinni sést Náttfari inni í litlu skrifherbergi mínu. 

Bílar hafa þann kost fram yfir strætó að komast úr Bónusi með varninginn nánægt útidyrum. 

Rafhjól eins og Náttfari, með alls um 110 lítra farangursrými, kemst hins vegar með varninginn úr Bónusi alla leið að ískápssdyrum. 

Gísli hefur smíðað þrjú önnur hjól, Perlu, sem er svipað og Sörli, tveggja manna hjól og langflottasta hjólið, Sleipni, sem er magnað fjallahjól með aldrifi. 

Hann hefur farið á því um jeppaslóðir á höfuðborgarsvæðinu, um Svínaskarð upp í Kjós og um Kaldadal. 

Hjólið er fyllilega sambærilegt við það besta í bransanum, svo sem rafhjólið Rad-Mini, með öflug rafhreyflaafl og fjöðrun bæðí að framan og aftan og hæfilega stór dekk fyrir fjallaferðir og ferðir á venjulegum vegum.

Þetta er torfæruhjól, jafn öflugt á vegum sem jeppaslóðum. 

Gísli geymir gamlan norskan rafbíl, sem var fluttur til Íslands á sínum tíma og hann á tvo Mitsubishi I-MiEV rafbíla, sem hann hefur útbúið með stórbættu rafgeymakerfi sem gefur ca 50 prósent lengingu á drægni. 


mbl.is Hanna og framleiða sín eigin hjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómar kveðnir upp þegar í stað í "Lúkasarmálum."

Það vantaði ekki að dómstóll götunnar og síðar lögreglunnar þyrfti ekki mikinn tíma að kveða upp sektardóm í drónamálinu á Gatwickflugvelli. 

"Talið að umhverfisfólk sé að ræða", kom fyrst, - og í kjölfarið var handtekið par, birt nöfn beggja og farið um heimili þeirra með látum. 

Eitt af einkennum byltingarinnar í samfélagsmiðlum er hve undraskamman tíma tekur að finna sakborninga og sakfella þá helst endanlega í leiðinni. 

Gatwick-málið er ágætis dæmi um það þegar það meginatriði vestræns réttarfars er fótum troðið, að hver maður skuli talinn sýkn saka í sakamálum, nema sekt hans sé endanlega sönnuð.

Dæmum um að þetta sé ekki virt hefur fjölgað gríðarlega á síðustu árum vegna gríðarlegs vaxtar samfélagsmiðla þar sem dómstóll götunnar og síðar jafnvel lögreglan sjálf er á undraskömmum tíma búin að finna sökudólga og hafa jafnvel af þeim æruna.

Þetta á við um öll lönd, lika litla Ísland.

Sem dæmi má nefna að um daginn tók ekki langan tíma á samfélagsmiðlum að finna hinn raunverulega mest seka í Klausturmálinu, nafngreindan Pírata, sem væri vitorðsmaður og jafnvel aðalmaðurinn í því máli.

Enn er í fersku minni fárið vegna meintra svívirðilegra pyntinga og dráps á hundinum Lúkasi á Akureyri og jafnvel nafngreindir sökudólgar. Síðan kom Lúkas fram og allt málið varð jafndautt og hundurinn átti að hafa verið. 

Dómar af þessu tagi felast stundum í því að hinn ákærði þarf að afsanna það sem borið er á hann og með þeirri aðferð er oft hægt að saka hvern sem er um næstum hvað sem er.  

Á þessari bloggsíðu var til dæmis í upphafi fjallað talsvert um umhverfismál, og þegar sókn rafbíla hófst inn á markaðinn, var ákveðið að fjalla ekki aðeins um það mál úr fjarlægð, heldur skyldi síðuhafi kynna sér málin sem allra best persónulega niður í kjölinn. 

Þegar niðurstaða þriggja ára prófana varð sú, að síðuhafi hefði getað minnkað kolefnisfótspor sitt í persónulegum ferðum og snatti sínum á farartækjum sínum hér á landi um 80 prósent, birtist strax pistill í athugasemd óvildarmanns, þar sem fullyrt var að þarna væri um tuttuguogfimmfalda lygi að ræða, fótsporið hefði verið fimmfaldað frá því sem var í stað þess að minnka það niður í fimmtung þess, sem það var áður en rafknúin farartæki og létt vespuhjól voru tekin í notkun í stað bensín/dísilknúinna bíla eingöngu. 

Þegar spurt var á móti, hvaða gögn væru um þessa svakalegu lygi, setti hælbíturinn það sett fram þá fullyrðingu sem sönnun, að ég hefði flogið margsinnis á árinu milli Íslands og Evrópu og ekið tugþúsundir kílómetra um Evrópu í bílum, knúnum jarðefnaeldsneyti. 

Þegar spurt var áfram hvað hann hefði fyrir sér í þessum ásökununum var svar ófrægingarmannsins einfalt: Þetta væru staðreyndir, nema það yrði afsannað. 

Sem þýðir að allir geta verið sekir um næstum hvað sem er. 

Ákærandinn færðist í aukana og endurtók ávirðingarnar þegar reynt var að svara honum, jafnvel þótt svo vel vildi til að ég held einstætt bókhald um allar mínar ferðir, hvaða farartæki voru notuð og ekið hvert, með kílómetratölum og eldnsneytiskostnaði, og hef gert það í tugi ára í minnisbókum mínu, sem tugir fólks hafa séð allan þennan tíma og geta vitnað um. 

Á síðu minni birti ég ljósmynd af opnu sem sýnishorn og samkvæmt þessu samfellda bókhaldi hafði ég aldrei haft tíma til að liggja í ferðalögum yfir hafið og um Evrópu. 

En það var eins og að skvetta vatni á gæs á þennan launsátursmann sem í krafti dulnefnis síns hafði árum saman stöðugt haldið fast við það að allt, sem síðuhafi birti á þessari síðu væru lygar og rangfærslur. 

Þar með taldar margra áratuga færslur í minnisbókum mínum. 


mbl.is Í öngum sínum vegna handtökunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira að segja líka "stærsti jólasveinn í heimi."

Samar, í nyrstu héruðum Svíþjóðar, Noregs og Finnlands, þökkuðu kærlega fyrir sig þegar Íslendingar færðu þeim jólasveininn á silfurfati um miðja síðustu öld. 

Íslendingar færðu Löppum líka fjögur önnur dýrmætustu atriðin í að laða ferðamenn norður úr öllu valdi. 

Á þeim tíma trúðu evrópsk börn því að jólasveinninn ætti heima á Íslandi og skrifuðu honum bréf í tugþúsundatali. 

Utanáskriftin var einföld og eðlileg í huga barnanna: "Jólasveinninn. Íslandi."  

Að sjálfsögðu. 

En Íslendingar litu á þetta sem leiðinda vandamál. Blaðafulltrúi Ríkisstjórnarinnar reyndi að svara börnunum, en komst ekki yfir nema lítið brot af staflanum. 

Því var þessu vikið burtu, en þörfin var áfram fyrir hendi og nú fóru börnin að skrifa Lappland í staðinn fyrir Ísland. 

Og í nyrstu héruðum Evrópu er búið að stimpla Lappland sem heimkynni jólasveinsins með Rovianemi sem miðstöð, sem græðir á tá og fingri á þeim rauðklædda, allan tíma ársins, en þó helst á veturna. 

Íslendingar töldu, og telja margir líklega enn, að fernt væri það versta, sem þjóðin byggi við: Myrkur, kulda, þögn og ósnortna náttúru. 

Fyrir 15 árum voru ferðamenn að vetrarlagi orðnir miklu fleiri í Lapplandi en allt árið á Íslandi. 

Ástæðan var ferföld: "Myrkur, kuldi, þögn og ósnortin náttúra" og engin hætta á neinni samkeppni frá Íslendingum, sem hafa þrettán jólasveina, auk Lepps, Skrepps, Láps, Skráps, Grýlu, Leppalúða, jólakattarins, álfa, trölla, álfadrottningar og álfakóngs, og eldfjöll og mikilfenglegt landslag í viðbót við heiðar, frosin heiðavötn, hreindýr og skóga á austanverðu landinu. 

Jólasveinavinsældir í nyrðri hlutum Skandinavíu virðast eiga sér fá takmörk. 

Á landleið norður Noreg fyrir tveimur áratugum var ákveðið að fara styttri leið norður frá Tromsö með því að taka ferju yfir einn fjörðinn. 

Þetta var í júlílok og viti menn: Þegar í land var komið blasti við, - ja, hvað haldið þið, - nema milli 5 og 10 metra há risastytta af eldrauðum jólasveini í fullum skrúða með áletruninni: "Stærsti jólasveinn í heimi"!  

Nú erum við loks farnir að átta okkur á möguleikum til vetrarferðamennsku, en eitt er víst: 

Samarnir í Skandinavíu munu ekki afhenda okkur jólasveininn, sem þeir hirtu af okkur fyrir rúmri hálfri öld. 


mbl.is Á meira en 40.000 jólasveina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rómantíkin: Hvít og lognblíð jól. Tunglið til bjargar.

Vinsælasta jólalag allra tíma gæti verið lagið White Christmas með Bing Crosby. Að minnsta kosti seldist það langbest allra laga um miðja síðustu öld og sló öll met. 

Lagið bendir til þess að í norðausturríkjum Bandaríkjanna hafi verið stærsti markhópurinn fyrir texta af þessu tagi og þar verið ráðandi öfl í tónlistar- og skemmtanalífi.

Þetta átti líka við um norðanverða Evrópu. Krafan um hvít og lognblíð jól var og er enn sterk. 

Í dimmasta mánuði ársins munar mikið um birtuna, sem snjórinn gefur og þess vegna er sudda- og rigningartíð ekki í hávegum höfð. 

En jafnvel þótt það sé alauð jörð eins og í júníbyrjun getur heiðskírt veður með mánaskini bjargað miklu, ekki síst þegar máninn er óvenjulega stór og bjartur. 

Sú varð raunin í ferð síðuhafa til Akureyrar í fyrradag og afar gefandi, ekki aðeins sem ljúf og einkar rómantísk upplifun, heldur einnig vonandi í afrakstrinum, sem var nýtt lag, innblásið af jóla- og áramótastemningunni, sem við sækjumst svo mikið eftir. 

Reikna með að setja tignarlegt tónlistarmyndband á facebook-síðu mína nú á eftir og sendi öllum nær og fjær hinar bestu jóla- og nýjárskveðjur frá okkur Helgu. 


mbl.is Tunglið lýsti upp næturmyrkrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...eða, - aktu eins og kona."

Hinn mikli munur á tíðni alvarlegra bílslysa hjá körlum var stundum reynt að skýra með því, að karlar ækju miklu meira en konur. 

En sá munur hefur minnkað svo mikið, að hann einn er langt í frá að útskýra muninn á slysatíðninni og muninn á því hve miklu fleiri konur eru teknir ölvaðir eða fyrir umferðarlagabrot en karlar. 

Á leiðinni í gegnum Hvalfjarðargöng nýlega hafa tvívegis komið lúxusjeppar aftan að mér í gangamunnanum og pressað stíft á að ekið væri yfir 70 km/klst hámarkshraða. 

Öðrum jeppanum var gefið inn og farið fram úr mér yfir heila línu. 

Báðir þessir ökumenn óku á öðru hundraðinu og vel það, þannig að þeir hurfu fljótt sjónum. 

Þó mátti sjá snögga nauðhemlun skömmu áður en þeir komu að myndavélunum í göngunum, en síðan var allt gefið í botn á ný. 

Öðrum jeppanum var ekið svo hratt, að það sést ekkert meira til hans eftir fyrstu myndavél. 

Í báðum tilfellunum komu bílar á móti, og auðvelt að ímynda sér ástandið í göngunum, ef þeim er ekið á sömu lund. 

Það tekur aðeins fimm mínútur að aka í gegnum þessi göng á 70 km hraða og vandséð hvaðan einstaka ökumönnum kemur sú vissa og sú brýna nauðsyn til að álykta sem svo, að þau mörk séu sett að óþörfu. 

Fyrr í haust var stórum Landcruiser jeppa ekið á ofsahraða í þéttri umferð þannig að ökumaðurinn var að spila rússneska rúllettu í hraðakstri á minnst 120-140 km hraða eins og skíðamaður, sem sveiflar sér í gegnum hlið í stórsvigi.

Niðurstaðan er ekki sú, að þessir ökumenn séu svona lélegir í að stjórna bíl, heldur hitt, að það myndi stórauka öryggi í umferðinni ef þeir "ækju eins og konur."   


mbl.is Látið konuna um aksturinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband