Þórdís Lóa eða jafnvel Þorgerður Katrín?

Vangavelturnar yfir því hver verði næsti borgarstjóri í Reykjavík tekur á sig ýmsar myndir.

Vigdís Hauksdóttir spáir til dæmi því að borgarstjórinn verði kona, og að verði niðurstaðan mið-vinstri stjórn eins og nú er verið að ræða um, geti niðurstaðan orðið sú, til þessa að gefa þess samstarfi yfirbragð breytinga, verði það Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. 

Í gamla daga kom það fyrir að borgarstjórinn sat líka á Alþingi, jafnvel þótt flokkur hans væri í ríkisstjórn. 

Það hefur stundum verið sagt að það sé aumleg staða að vera stjórnarandstöðuþingmaður með þeim skorti á áhrifum við ákvarðanir og stefnumótum, sem það kosti. 

Sé svo, er kannski ekkert fráleitt að nafn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sé nefnt varðandi embætti borgarstjóra, eða hvað? 


mbl.is Spáir konu sem borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútíma skylmingaþrælahald?

Útskýringar Zinidine Zidane á því, af hverju hann vill láta af störfum sem knattspyrnustjóri stórliðsins Real Madrid, vekja hugleiðingar um hlutskipti bestu knattspyrnumanna heims. 

Krafan "brauð og leikar" frá tímum Rómverja og Colosseum er ekki ný. Hún snýst um það að kreista fram úr tiltölulega fámennum hópi afburða íþróttamanna eins mikla skemmtun fyrir lýðinn og mögulegt er. 

Þeir verða að vera reiðubúnir til ítrustu fórna til þess að viðhalda hinu mikla sjónarspili. 

Á okkar tímum bætist við hið gífurlega fjármagn sem þetta skapar í gegnum fjölmiðla. 

Kröfurnar til leikmanna eru á marga lund ómannlegar. Ef þeir eru í sterkustu landsdeildum knattspyrnunnar þurfa þeir að sýna toppleik og vera í toppformi í fáránlega mörgum krefjandi leikjum, annars vegar í bikarkeppni og hins vegar í mörgum tugum leikja í úrvalsdeildunum. 

Þegar álagið er mest neyðast þjálfararnir til að taka áhættu með því að hvíla þá leikmenn, sem mest eru píndir, en það getur bitnað illilega á leikjum og gengi liðanna. 

Þar að auki geta ofþjálfun og leikþreyta valdið því að mönnum aukist hætta á meiðslum eða hnignun getu, 

Þegar ótrúlegt gengi Real Madrid í keppni við þau allra bestu í Evrópukeppni er borið saman við gengi liðsins í innanlandskeppni á Spáni, læðist sá grunur að, að Zidane hafi forgangsraðað verkefnunum til þess að ná sem bestri útkomu í baráttunni um eftirsóttustu bikarana. 

Síðan er á það að líta að ofan á framangreint bætast allir landsleikirnir vegna þátttöku í HM og EM auk vináttulandsleikja. 

Sé svo að kröfurnar til leikmanna jaðri við þrælahald, er skiljanlegt að Zidane ói við að halda áfram á þessari braut, sem rænir stundum vallargesti á Spáni ánægjunni af því að sjá sín bestu lið keppa í hámarksgetu. 

Þótt Real Madrid hrósaði sjáldgæfum sigri í Kiev, sló það aðeins á ánægjuna að meginástæðan var hvernig markvörður Liverpool gaf Real hreinlega sigurinn með einstæðum mistökum. 

Án þeirra var staðan 1:1 eftir venjulegan leiktíma. 

Og kannski er undirliggjandi ástæða uppsagnar Zidane sú, að hann vilji hætta á toppnum, vegna þess að varla er héðan af um annað að ræða en að leiðin gæti legið niður á við.  


mbl.is Leikmennirnir þurfa á breytingum að halda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfaldara en með Eyþóri.

"Stjórnmál eru list hins mögulega" var einhvern tíma sagt, og einnig hefur verið sagt að árangur í stjórnmálum snúist um traust. 

Enda þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið einum borgarfulltrúum meira en Samfylkingin hjálpar það til við að mynda meirihluta út frá Samfylkingunni að hún fær þrjá fulltrúa Pírata og Vg í eins konar forgjöf, varðandi innbyrðis reynslu og traust frá fyrri meirihluta. 

Það lítur í fljóti bragði út eins og að sá tíu manna hópur, sem myndaði fyrri meirihluta þurfi eingöngu að semja við Viðreisn eina, í stað þess að þurfa að semja frá grunni við þrjá flokka alveg frá núllpunkti eins og Sjálfstæðismenn þyrftu að gera.  


mbl.is Mynda frjálslynda stjórn jafnréttis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var metfjöldi ferðamanna í fyrra og hitteðfyrra svona agalega lágur?

Nú má heyra ramakvein yfir því að allt of hröð fjölgun ferðamanna skuli ekki halda áfram. 

Það getur orðið "sársaukafull" að þeir verði færri en í fyrra. 

En um hvaða tölur er að ræða?

Jú, það verður agalegt ef hingað koma jafnmargir eða fleiri ferðamenn en komu hingað á metárunum 2016 og 2017, þegar fjöldinn var langt yfir því sem hafði verið nokkurn tíma áður og aðrar eins moktekjur og uppgrip höfðu aldrei sést fyrr. 

"Illa umtalið" er ekki fjölda ferðamanna að kenna, heldur því hve seint við tókum við okkur við að skapa ekki aðstæðurnar fyrir umtalinu, fádæma græðgi og verðhækkanir og hirðuleysi gagnvart því að nota tekjurnar og uppganginn til þess að skapa betri umgjörð, innviði og verndun gagnvart náttúruverðmætunum, sem verið er að selja aðgang að. 


mbl.is „Þetta getur orðið sársaukafullt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pútínspillingin blasir alls staðar við og meirihluti Rússa í raun meðvirkur.

Það, að Pútín skuli hafa þá stöðu sem hann hefur í Rússlandi segir mikið um það hvílíkt tak hann hefur á meirihluta þjóðarinnar. 

Gögnin blasa við, "Rússland Pútíns" eftir Önnu Politskovskaja, sem hún var drepin fyrir, íslenskur vinkill í frásögn Ingimars Ingimarssonar í bókinni "Sagan, sem varð að segja" og nú síðast fróðlegir þættir í sjónvarpi. 

Ekkert í fyrsta þættinum kom á óvart varðandi mafíósann Pútín og meira að segja í fyrrakvöld datt ég í eina mínútu inn í sýningu, þar sem við blasti hvernig Pútín hyglir vinum sínum úr ólíkustu áttum og felur meira að segja gömlu júdófélaga sínum að standa fyrir brúnni miklu milli Rússlands og Krímskaga. 

Spillingin og kúgunarástand blasa hvarvetna við en í risastóru landi þar sem "sterkir" og "miklir" leiðtogar hafa litað þjóðarsöguna öldum saman og verið æ síðan í hávegum hafðir, er eins og að þessu sé tekið sem eins konar samfélagslegu náttúrulögmáli. 

Andstæðingar keisarans slæga og skarpa með sína miklu persónutöfra og íðilsnjalla framkomu eru kúgaðir, fjarlægðir og drepnir með hæfilega löngu millibili til að ekki sé um hreina Stalíniska ógnaröld að ræða en þó nægilega sterk skilaboð um það, hvers sé máttúrinn og dýrðin. 

Og þetta virðist nægja,  auk þess sem Pútín og aðrir þjóðarleiðtogar eru iðnir við kolann að búa til ástand, þar sem auðvelt er að gefa Pútín til að sameina þjóðina getn utanaðkomandi ógn. 


mbl.is Rússneskur blaðamaður myrtur í Kiev
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sama hver á í hlut.

Það er ekki sama hver á í hlut þegar um skráningu fólks á lögheimili er að ræða og meðferð Þjóðskrár á slikum málum. 

Árum saman hefur það viðgengist að ráðherrar og þingmenn flytji lögheimili sín á staði, sem þeir koma varla á. Þjóðskrá lætur óátalið. 

Einn komst til dæmis á þing og í ríkisstjórn í gegnum pólítíkina í einu af nágannabæjarfélagi Reykjavíkur, innvígður og gróinn þar, en flutti síðan lögheimili sitt óátalið austur fyrir fjall til þess að geta hirt á aðra milljón króna í styrk vegna langrar vegalengdar á milli þings og heimilis. 

Annar var forsætisráðherra og búsettur í Reykjavík, en flutti skyndilega yfir á eyðibýli austur á landi, nokkurn veginn eins langt frá þinginu og hægt var. Allt í góðu með það og ráðherranum tryggður árlegur búsetustyrkur upp á ca níu mánaða ellilaun láglaunamanneskju. 

Söngur Bubba:  "Þingmaður og svarið er: Jaaaaáá" kemur upp í hugann.  

Ofbeldismenn flytja lögheimili sín léttilega inn á gafl hjá ofsóttum konum og börnum. Þjóðskrá hafnar því að blanda sér í málin. 

Síðan blasir við að þegar nokkrir einstaklingar flytja lögheimili sín norður í Árneshrepp, þá er allt í einu brugðist skjótt við og send lögregla inn á viðkomandi heimili til þess að kveða meintan ósóma niður varðandi lögheimilaflutninginn.  


mbl.is Ofbeldismenn flytja lögheimili án afleiðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smábarnamál í fjölmiðlum hjá háskólamenntuðu fólki?

Það færist í vöxt hjá íslenskum blaðamönnum að tala eins og lítil börn, sem eru að læra móðurmál sitt en eru komin skammt á veg. 

Þetta málfar er oft ekki aðeins frumstætt, heldur beinlínis órökrétt svo að úr getur orðið tómt rugl. 

Ágætt dæmi um þetta er tengd frétt á mbl.is um það að óður maður, vopnaður hnífi, réðst á tvo lögreglumenn í borginni Liege í Belgíu, náði af þeim skotvopnum þeirra og skaut þá síðan. 

Í upphafi er raunar talað um lögreglukonur sem samt talað um þær í karlkyni. 

Hingað til hafa aðeins börn notað eftirfarandi orðbragð, sem lesa má í þessari frétt: 

"...réðst á lögreglu vopnaður hnífi, náði af þeim byssunum og skaut þá með þeirra eigin vopni."

Hér er í það minnsta þrefalt rugl á ferðinni. 

Orðið lögregla er aðeins til í kvenkyni eintölu, en samt er talað í fréttinni um lögreglu í fleirtölu og karlkyni í orðunum "þeim" og "þá", en ekki er samt fyrr búið að slá því föstu að fleirtala skuli notuð en að talað er um þeirra eigið vopn í eintölu. 

Jafnvel þótt notaður hefði verið greinir í orðinu lögreglu og sagt: "...réðst á lögreglurnar.." gengur dæmið ekki upp þegar búið er að tala um "lögreglurnar" í fleirtölu, því að sagt er að óði maðurinn hafi náð af þeim þeirra eigin "vopni", sem er eintala. 

Um aldir hafa heiti fyrirbæra iðulega verið í öðru hvoru kyninu á Íslandi, þótt bæði hafi verið um kvenkyn eða karlkyn að ræða.

Þannig er heitið kennari í karlkyni, þótt 80 prósent kennara séu konur.

Konur eru nefnilega líka menn. 

Heitið lögregla er samheiti í kvenkyni eintölu, enda segir enginn: "Hann er lögregla", eða "hún er lögregla" eða þaðan af síður "..þau / þeir / þær eru lögreglur." 

En kornung börn eiga það til að tala svona. 

Nú eru tímar háskólamenntaðs fólks og því skyldi maður ætla að háskólamenntað fólk skrifi fréttir, þar sem eina verkfærið er íslensk tunga. 

En kannski er skammt þangað til sjá megi svona frétt í fjölmiðli: 

"Fimm vopnaðar lögreglur voru sendar til að fást við hinn óða mann,  en þegar lögreglurnar komu á vettvang, hræddi maðurinn þá með hnífi og náði vopninu af þeim."    


mbl.is Skaut lögreglu með þeirra eigin vopni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þung og vaxandi undiralda, sem von er.

Hröð fylgisaukning Sósíalistaflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar og það, að samanlagt fylgi hans og Flokks fólksins meira en tvöalt meira en fylgi Vinstri grænna eru merki um vaxandi undiröldu, sem ætti ekki síður að beinast gegn ónýtum stjórnmálamönnum en núverandi verkalýðsforystu. 

Stjórnmálastéttin ber nefnilega alla ábyrgð á ofurlaunahækkunum sínum og helstu forstjóranna, bæði í opinbera geiranum og einkageirunum. 

Stjórnmálastéttin bjó til Kjaradóm og þegar hann setti hér allt á hvolf, hafði hún auðvitað vald til að snúa því til baka, rétt eins og hún hafði nýtt sér vald sitt til að skapa ófreskjuna. 

En það hefur hún ekki gert og undravert er að sjá, hve andvaralaust stjórnmálastéttin er, sem horfir, fljótandi sofandi að feigðarósi, á óánægjuölduna rísa og vaxa, án þess að aðhafast neitt nema að hirða hinar stórfelldu launahækkanir.  


mbl.is Vantrauststillaga samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kafli, sem skar sig úr í 2000 km tvöföldum hringakstri.

Allir landshlutar eru með malbikaða flugvelli, sem geta verið alþjóðaflugvellir og opnir allan sólarhringinn, - nema Vestfirðir. Léttir, Hrafnseyrar heiði

Þegar litið er snöggt á kort af Íslandi, blasir við að landið er nokkurn veginn tvær eyjar, þar sem aðeins munar 7,5 kílómetra breiðu hafti milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar, að þessir tveir hlutar landsins séu aðskildir. 

Um háveturinn er aðeins hægt að fljúga til Ísafjarðar í örfáar klukkustundir um hádegisbil. 

Þótt prýðis veðurskilyrði séu hinar 20 stundirnar, hamlar myrkur því að flugfært sé.

Þetta er ömurlegt og í raun ótrúlegt þegar komið er bráðum 20 ár fram á 21. öldina.  Léttir við Barðaströnd

Þetta er ekki það eina ótrúlega varðandi stöðu landshlutans í samgöngum, heldur er hringvegurinn um þennan hluta landsins lokaður mánuðum saman á veturna. 

Myndin hér að ofan er tekin á Hrafnseyrarheiði. 

Í ferð í fyrrasumar á léttu vespuvélhjóli (Honda PCX) með hljómflutningstæki í tónleika- kynningar- og söluferð á safndiskinum "Hjarta landsins" kom hörmulegt ástandið i landssamgönum óþyrmilega í ljós. 

Í þessari ferð (sjá meðfylgjandi kort) var fyrst var farinn stóri hringurinn, Reykjavík-Egilsstaðir-Akureyri-Borgarfjörður og síðan í beinu framhaldi Vestfjarðahringurinn, Borgarfjörður-Hólmavík-Ísafjörður-Flókalundur-Borgarfjörður-Reykjavík, alls rúmlega 2000 kílómetrar á tæpum fjórum sólarhringum, skar einn vegarkafli sig algerlega úr, já vakti forundran.Á hjóli. Leiðarkort 

Þetta var kaflinn frá Þingeyri til Flókalundar, sem tæki 50 mínútur að fara ef hann líktist öðrum hlutum vegakerfisins, en tók meira en tvær klukkustundir að komast, - vil illan leik.

Þetta voru ekki bara hola við holu, heldur var á hverri einbreiðu brúnni eftir aðra hvassar bríkur við djúpar holur þar sem brúargólfin mættu malarveginum. 

Hvergi var að sjá aðvörunarskilti um þetta og bílar og tengivagnar skemmdust við að skrönglast yfir þessi ósköp.  Léttir, holur á vegi nr.60

Sú afsökun er ekki gild, að vegna þess að ekki hafi verið komin Dýrafjarðargöng, hafi ekki verið hægt að gera almennilegan veg milli Mjólkárvirkjunar og Flókalundar. 

Vel hefði verið hægt að gera nýjan og boðlegan veg á þessari leið fyrir löngu síðan í stað þess að bjóða upp á þá viðundurs hörmung sem hún hefur verið. 

Einnig hefði fyrir löngu verið hægt að fara með nýjan veg yfir Þorskafjörð við Kinnarstaði og stytta leiðina þar um 10 kílómetra, burtséð frá því hver lausnin yrði milli Þorskafjarðar og Melaness. 

Í raun hafa Vestfirðir í ofangreindum meginatriðum, - skorti á heilsárs hringleið og lokun fyrir flug mestallan sólarhringinn að vetrarlagi,- verið á svipuðu stigi og var fyrir rúmlega hálfri öld.    


mbl.is „Lokahnykkur“ vegna heilsárshringvegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga "breytingarnar" að byrja á kröfu um hefð, - sem þó er ekki hefð?

Þegar einn listi hefur fengið meirihluta í borgarstjórn hefur það sagt sig sjálft, að oddviti þess flokks yrði borgarstjóri. 

Sú hefð var rofin 1978 þegar maður utan borgarstjórnar, Egill Skúli Ingibergsson, var ráðinn borgarstjóri fyrir nýmyndaðan meirihluta Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks. 

Samt var Birgir Ísleifur Gunnarsson efstur á lista langstærsta framboðsins, sem fékk meira en tvöfalt meira fylgi en næststærsti flokkurinn í borgarstjórn, Alþýðubandalagið. 

Þegar Davíð Oddsson hætti sem borgarstjóri 1991 var farið út fyrir borgarstjórn að nýju og Markús Örn Antonsson ráðinn borgarstjóri. 

Það var í boði Sjálfstæðisflokksins sem "hefð" hans sjálfs var rofin. 

Það var líka í boði Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn að Ólafur F. Magnússon varð borgarstjóri 2008.

Þessi "hefð" hefur verið rofin fjórum sinnum og þar af tvisvar af sjálfum Sjálfstæðisflokknum, því að 2008 varð Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þótt hann væri ekki oddviti stærsta flokksins í borgarstjórn. 

Það er auðvitað skiljanlegt að Eyþór Arnalds fýsi að verða borgarstjóri. 

En maður hélt að málefnin og samkomulag á grundvelli þeirra og möguleika á samstarfi flokka skipti meira máli. 

Þegar er samkomulag um að það verði breytingar í málefnum borgarsjórnar, þótt ekki væri nema vegna stórkostlegrar uppstokkunar í henni. 

Að setja það fram sem "hefð" að aðalatriðið sé að efsti maður á þeim lista sem fær flest atkvæði verði borgarstjóri og að slíkur óumbreytanleiki sé forsenda fyrir því hverjar breytingarnar verða, er hins vegar hæpið. 


mbl.is „Hefð að stærsti flokkurinn leiði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband