Hvað næst? Að jólin byrji um versló með jólaklósetti?

"Við erum að reyna að ná forskoti á keppinautana" segir talsmaður Costco þegar hann er spurður um ástæðu þess að jólin séu hafin þar með tilheyrandi skreytingum og hverju eina í ágúst, fjórum mánuðum fyrir aðfangadag. 

"Jólaskuldir endast fram í mars" var ein setningin í laginu "Þá eru að koma jól", og var þá átt við sérstök jólagjafalán á kreditkortum. 

Úr því að ágúst er á leið að verða jólamánuði virðast aðeins vera eftir rúmir fjórir mánuðir af árinu meeð sæmilegum friði fyrir jólasamkeppninni eða jólakapphlaupinu. 

"Er ekki tími til kominn að tengja?" og brúa bilið yfir sumarið, til dæmis með því að láta "júlísveina" koma til byggða í júlí til að auka jólaverslunina svo um muni og auglýsa "jóla þetta" og "jóla hitt" stanslaust allt árið?

P.S.  Í athugasemd, sem nú er komin við þennan pistil, er greint frá því að fyrir löngu sé komin jólaklósettskreyting á Amazon. Og í svari við þessari athugasemd er því þessi vísa: 

Jólaklósett komið er

að kæta mannabólin.

Hve gleðilegt og gott er hér

að gefa skít í jólin! 

 

 


mbl.is Jólin eru komin í verslun Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útsendari Grænlandsjökuls í heimsókn.

Nokkuð hefur verið um tilkynningar um borgarísjaka við landið í vor og sumar. Einhverjir kunna að álykta, að þetta tákni kólnandi loftslag á jörðinni, en stórir borgarísjakar eru einfaldlaga til komnir vegna þess, að risastór stykki hafa brotnað framan af skriðjöklum úr Grænlandsjökli, sem falla í sjó fram á austurströnd Grænlands fyrir norðan Ísland. 

Borgarísjakarnir segja því út af fyrir sig ekkert um útbreiðslu hafíss í Íshafinu. 

90 prósent af rúmmáli íss á floti er fyrir neðan sjávarmál, svo að það þarf að margfalda með tíu til að giska á heildarstærð svona flykkis. 

Þess ber að gæta að austasti hluti Grænlands nær austar en Ísland, og að þetta risastóra eyland fyrir vestan okkur nær allt í senn, sunnar, vestar, norðar og austar en Ísland. 


mbl.is „Þetta er náttúrulega ógurlega stórt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Horfið fólk á fullu við "talningar."

Skrá embættis ríkislögreglustjóra hefur verið á fullu við að "telja" þá 120 einstaklinga, sem horfið hafa sporlaust hér á landi síðan 1945, og ekki er nú með að skráin sé sjálf búin að vera iðin við þessa talningu, heldur hafa einstaklingarnir verið á fullu við að telja sjálfa sig. 

Sagt er í tengdri frétt um þetta á mbl.is um þá einstaklinga, sem hafa horfið á sjó  að þeir "telji 64 einstaklinga."

Það er málleysa og rökleysa að nota sögnina að telja á þennan hátt, en þetta er plagsiður í fjölmiðlum, til dæmis um að ákveðinn dýrastofn "telji" svo og svo mörg dýr. 

Dýrastofnar telja ekki neitt, heldur eru það menn sem telja dýrin. 


mbl.is 120 einstaklingar hafa horfið á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrifamikill en mistækur.

John McCain var áhrifamikill stjórnmálamaður, en mistækur. Aðal aðdráttarafl hans gagnvart kjósendum var, að hann gegndi herþjónustu án undanbragða, algerlega gagnstætt því sem Donald Trump gerði. 

Í ofanálag var McCain árum saman í fangelsi í Víetnam og enginn efaðist um vilja hans til að fórna sér fyrir málstað lands síns. 

Ég var í Bandaríkjunum 2008 þegar kosningabarátta McCain við Barack Obama var að bresta á af fullum þunga. 

Hár aldur McCain var honum erfiður ljár í þúfu gagnvart hinu unga og fríska forsetaefni Demókrata og það hefur líklega verið aðal ástæðan til þess að hann valdi tiltölulega unga og flotta konu, Söru Pahlin,sem varaforsetaefni.

Þetta átti einnig að gulltryggja fylgi hægri arms Repúblikana. 

Þetta misókst hrapallega og það var bókstaflega ömurlegt að horfa upp á endemis lélega frammistöðu Pahlin. 

Dan Quayle hér um árið fölnaði í samanburðinum. 

Það eina sem McCain virtist læra á þessu var eindregin andstaða hans við Donald Trump, ekki aðeins varðandi ólíkrar sýnar þeirra á utanríkismál, heldur ekki síður, að fáfræði, aulaháttur og eindæma sjálfumgleði Donalds Trumps hefur farið fram úr kjánaskap Pahlin, sem varð McCain svo dýrkeyptur. 

Ef nokkur þekkti þetta fyrirbæri vel, var það John McCain. 


mbl.is John McCain látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilgreiningar skipta miklu.

Í bílaflota jarðarbúa eru meira en 800 milljón bílar. 

Flugvélar jarðarbúa eru 800 sinnumm færri, eða ein milljón. 

Eðli samgangnanna samkvæmt er enn ekki tæknilega mögulegt að skipta um orkugjafa í fluginu en það er hægt í samgöngum á landi og sjó.

Þar að auki er umfang bílaumferðarinnar það mikið að á því sviði er hægt að ná mestum heildarárangri ef menn vilja komast sem best út úr óhjákvæmilegum orkuskiptum. 

Þessar tvær höfuðstaðreyndir, stærð bílaflotans og tæknilegar aðstæður, eru aldrei nefndar af andstæðingum orkuskipta eða bættrar orkunýtingar. 

Þeir gæta þess vandlega að berjast gegn orkuskiptum og betri orkunýtingu með því að alhæfa um að aðeins sé verið að færa notkun jarðefniseldneytis til, úr bílunum sjálfum yfir í kolaorkuver og olíukynt orkuver. 

Hér á landi eiga þessi rök ekki við, því að við getum, ef við viljum, notað að mestu hreina orkugjafa í landsamgöngum, sem við framleiðum sjálfir. 

Og menn væru ekki að færa orkunotkunina til erlendis hvað snertir orkugjafa nema vegna þess, að rafmagn sem orkuberi, einkum rafmótorinn sjálfur, felur í sér svo miklu meiri nýtni en bílhreyflar knúnir jarðefnaeldsneyti.

Þegar hinn gríðarlegi fjöldi bílanna er tekinn með í reikninginn, hefur rafvæðingin í bílunum mikinn orkusparnað og mikla minnkun á útblæstri. 

Bensín- og olíknúnar vélar missa allt að helming orkunnar, sem til verður, í viðnámið sem er í hinni flóknu afl- og drifrás. Rafhreyfill hefur þarna algera yfirburði. 

Svipað er að segja um svonefnda tvinnbíla, sem nota bæði jarðefnaeldsneyti og raforku, einkum tengiltvinnbíla, þar sem eigendur bíla geta skipulagt þannig notkun bíla sína, að tengiltvinnbíllinn nýtist í yfirgnæfandi mæli eins og hreinn rafbíll.

Það getur hann hins vegar ekki gert á einföldum tvinnbíl, þar sem ekki er hægt að hlaða rafmagni utan frá í orkugeyma bílsins.  

Hins vegar er nýyrðið hreinorkubílar hæpið, því að bíll, sem getur gengið fyrir bensíni eða dísilolíu, fellur að meðaltali aðeins að meðaltali 80 prósent undir það að vera hreinorkubíll. 

Meðal uppgefnar eyðslutölur falla úr átta lítrum á hundraðið niður í tvo lítra. 

Á einföldum hybridbíl sýna þessar tölur aðeins um fall um einn til tvo lítra í mesta lagi. 


mbl.is 100 þúsund hreinorkubílar 2030
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bær á blússandi uppleið.

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með vexti og viðgangi Mosfellsbæjar á þessari öld. Fyrir innfædddan Reykvíking, sem hefur þrátt fyrir að hafa haft landið allt sem starfsvettvang, alltaf búið í Reykjavík, hafa 14 afkomendur af 31 alist að mestu upp í Mosfellsbæ, og vegna nálægðar eystri hluta Grafarvogshverfis við Mosfellsbæ, má hækka töluna úr 14  í 19 af 31.

Hátíðahöldin 17. júní og "Í túninu heima" hafa þróast og aukist að umfangi ár frá ári, og í ákaflega góðu veðri í dag voru þau einkar fjölsótt og fjölbreytt og Mosfellingum til mikils sóma.       

 


mbl.is Glampandi sól í túninu heima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeytti tíu hjóla trukki mörg hundruð metra. Húdd upp eins og tappi.

Já, það er víst ekki ofsögum sagt að krafti hvirfilvinda, ekki bara erlendis heldur líka hér á landi. 

Í minni mér er tvö dæmi. 

Á tíunda áratug síðustu aldar fór hvirfilviindur um Eyjafjallasveit í fárviðri, og gerðist þá það ótrúlega atvik, að snarpur hvirfilbylur eða hnútur lyfti upp tíu hjóla trukki eins og fisi og feykti honum mörg hundruð metra án þess að hann snerti jörðina. 

Bíllinn skall siðan, að því er virtist lóðrétt niður en kom samt flatur niður á hjólin, og hafði samkvæmt því flogið flatur alla þessa leið, upp og síðan niður. 

Hitt atvikið gerðist við Tíðaskarð við vesturenda Esjunnar 1962. 

Bálhvasst var og svo mikil ókyrrð, að þegar við Tómas Grétar Ólason, komum þangað á allstórri Internatioanal smárútu Tómasar Grétars, var óhjákvæmilegt að stansa, því að Tómas réði ekkert við bílinn. 

Þarna sátum við dauðskelkaðir og skyndilega byrjaði bíllinn að hoppa upp og lenda aftur á hjólunum, en þó með smá tilfærslu og snúningi á veginum í hverju hoppi. 

En áður en bíllinn hoppaði út af veginum, kom gríðarlegur hvellur, og við horfðum á eftir "húddinu" á honum skrúfast beint upp eins og tappa væri skotið úr flösku. 

Húddið fór í hringsnúningi einhverja tugi metra, en skall síðan niður með miklum hvelli á miðjum veginum fyrir framan bílinn. 

Þegar að var gætt höfðu báðar festingarnar á því upp við framgluggann hrokkið í sundur og sömuleiðis festingin að framanverðu. 


mbl.is Kraftur skýstrókanna „með ólíkindum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Við vitum ekki enn að við eigum í raun / auðlind..."

Tregða Íslendinga við að viðurkenna gildi náttúruverðmæta lands, sem eru einstæð á heimsvísu, virðist ótrúlega útbreidd hér á landi.

Í athugasemd við pistil hér á síðunni í gær trúir sá, sem þessa athugasemd ritar, að Hvalárvirkjun muni skapa þúsundir starfa.

Samt viðurkennir hann að virkjunin muni, eftir að hún tekur til starfa, ekki skapa eitt einasta starf í Árneshreppi 

Samt liggur fyrir að þrettán sinnum stærri virkjun á Austurlandi skapar um 400 störf og að raforka Hvalárvirkjunar gæti því aldrei skapað meira en 30 störf í mörg hundruð kílómetra fjarlægð frá Árneshreppi.

Því raforkan frá Hvalárvirkjun fer inn í kerfi Landsnets í meira en hundrað kílómetra fjarlægð frá aflegggjaranum, sem eftir sem áður liggur í sama horfi til Ísafjarðar. 

Fyrir liggur að fjárfesting í ferðaþjónustu og sjávarútvegi skilar næstum þrefalt meiri virðisauka inn í efnahagslíf okkar heldur en stóriðjan. 

Mestu auðæfi Íslands eru mannauðurinn og einstæð náttúra, sem á engan sinn líka í veröldinni, samanber þetta erindi úr ljóðinu "Kóróna landsins": 

 

Allvíða leynast á Fróni þau firn, 

sem finnast ekki´í öðrum löndum: 

Einstæðar dyngjur og gígar og gjár

með glampandi eldanna bröndum. 

Við vitum ekki´enn að við eigum í raun

auðlind í hraunum og söndum, 

sléttum og vinjum og urðum og ám

og afskekktum, sæbröttum ströndum."

 

 


mbl.is Dýrara en þú hélst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samt eins gott að hlaupa ekki of hratt.

Kapp er best með forsjá er stundum sagt, og víst er það rétt. 

Það getur komið sér vel að geta sprett duglega úr spori til að skila fréttum á sem skemmstum tíma eins og sjá má á mynd af sprettharðri bandarískri blaðakonu sem fer eins og eldur í sinu um netið. 

Þó getur verið ástæða til þess að fara ekki fram úr sjálfum sér. 

Þetta mátti ég reyna á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn á 100 ára afmæli íslenskrar heimastjórnar 2004. 

Þar voru atburðir að gerast sem kröfðust þess að vera fljótir í förum út úr húsinu þar sem var hátíðarsamkoma og ná í skottið á danska forsætisráðherranum á fundi annars staðar. 

Ég tók á rás út um það, sem sýndist vera opnar dyr en reyndist því miður vera svo hreinn guggi, að hann sást ekki.

Áreksturinn varð svo harður að ég hálfrotaðist og fékk stóran skurð á ennið, sem fossblæddi úr.

Ekki varð hjá því komist að fara á slysavarðstofu og láta sauma sjö spor í skurðinn, en mig minnir að fyrst hafi ég farið á vit danska forsætisráðherrans með bráðabirgðaumbúnað á hausnum.

Að minnsta kosti reddaðist að ná viðtali við hann. 

Þetta var ekkert gaman en samt hefði verið gaman að eiga af því mynd ef marka má frásagnir vitna af því hvað þetta var víst fyndið að sjá.  

´þ

 

 

´þ


mbl.is Sprettharður fréttamaður vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjun bjargar ekki, en þjóðgarður gæti það.

Hvalárvirkjun skapar ekkert starf eftir að hún er komin í gagnið.

Reynslan hér á landi og erlendis sýnir hins vegar að þjóðgarðar skapa störf og tekjur, og bara hinn litli Snæfellsjökulsþjóðgarður skilar 3,8 milljörðum króna í peningum árlega, þar af 1,9 milljörðum, sem verða eftir á svæðinu. 

Þjóðgarðar skapa það, sem er lífsskilyrði fyrir byggðir, konur á barneignaaldri og afkomendur. 

Nú er enginn skóli í Árneshreppi, aðeins einn nemandi og aðeins fjórar konur á barneignaaldri. Virkjanaframkvæmdir skapa umsvif í tvö til þrjú ár en við lok þeirra missa allir atvinnuna, sem var aðeins sköpuð til stutts tíma.

Lofað var að 80 prósent vinnuafls við Kárahnjúkavirkjun yrði Íslendingar, en útlendingar 20 prósent. 

Þetta varð öfugt. Í óðagotinu og æðibunuganginum við útboðin og verkin fóru flest fyrirtækin, sem lægst buðu og mest verkefni fengu, á hausinn. 

Lofað var á sínum tíma að Blönduvirkjun myndi skapa stórfjölgun fólks á Norðurlandi vestra en í staðinn kom mesta fólksfækkkunartímabil í sögu svæðisins. 

Hugarfarið, sem skín í gegn hjá fylgjendum virkjunarinnar er svipað og skapaði fólksfækkunina í kjölfar Blönduvirkjunar, sem skapaði aðeins tvö störf: "Take the money and run!":   

Tímabundin þensla skapaði tækifæri, sem margir nýttu sér til að flytja í burtu meðan á hinni skammvinnu þenslu stóð.   


mbl.is Bregða búi eftir fjörutíu ára búskap
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband