Fleira en skallaboltar valda skaða? Íþróttamaður ársins 1971?

Þegar knattspyrnumenn skalla boltann af næstum jafnmiklu afli og þeir spyrna með fótunum vaknar spurningin um áhrif margra slíkra höfuðhögga á heila þessara manna. 

En það eru fleira en jafn augljóst högg og það er að skalla bolta, sem getur valdið heilahristingi.

Í handbolta er það litið alvarlegum augum ef leikmaður skýtur þrumuskoti í höfuð markvarðar. 

Þetta gerist þó alltof oft, en markverðir eru misjafnlega heppnir eða óheppnir. 

Í hugann kemur Hjalti Einarsson, landsliðsmarkvörður og markvörður FH á árunum í kringum 1970 og fékk nafnbótina Íþróttamaður ársins 1971. 

Hjalti fékk það mörg hörð höfuðhögg á þennan hátt, að hann kenndi þeim síðar um slæm veikindi sín, síðar,  

Á þeim tíma og lengi síðan var þó lítið um að kafa ofan í svona mál. 

Hnefaleikarar fá mörg höfuðhögg, og vitað er að þeir þola þau mjög misjafnlega. 

Þannig fengu þeir Floyd Patterson heimsmeistari 1956-59 og 60-62 og Jerry Quarry mörg rothögg á ferlinum og hlutu af því sannanlegan heilaskaða. 

Patterson var kjörinn í stjórn hnefaleikasamtaka, en sagði af sér þegar hann var kominn á það stig að hann mundi ekki lengur, hvern hann hafði sigrað þegar hann vann heimsmeistaratitilinn. 

Stundum þar ekki nema ein dómaramistök til að valda sliku, og það er eitt af dapurlegustu atvikunum í sögu hnefaleikanna þegar dómarinn stöðvar ekki bardaga Patterson og Ingemars Johannson 1959 fyrr en Ingemar er búinn að slá Patterson sjö sinnum í gólfið. 

Strax eftir annað skiptið þegar Patterson fór niður, var hann greinilega nær meðvitundarlaus og hafði ekki minnstu hugmynd um það hvar hann var, þótt hann hengi á fótnum. 

Hann ráfaði út úr heiminum í átt frá Ingimari þannig að Svíinn varð að elta hann og slá hann með hálfhringshöggi aftan frá. 

Það var hræðilegt að horfa upp á þetta. 

Allir þekkja hvernig fór fyrir þeim besta, Muhammad Ali. Hann var þegar farinn að missa rödd og mál áður en hann barðist síðustu bardaga sína, og hlaut hörmulega barsmíð hjá Frazier 1975, Earnie Shavers 1977 og Larry Holmes 1980. 

Þá hafði læknir hans farið frá honum og neitað að eiga þátt í þessu. 

Ekki var hægt að sanna beint að Parkinsonveikin stafaði af barsmíðunum, en líkurnar á því hvernig fór fyrir Ali af völdum þess hve vel hann þoldi högg eru yfirgnæfandi. 

Það á nefnilega svipað við um það tilfelli og um marga drykkjumenn, að það er misskilningur að þeir sem þola vínið best séu best settir. 

Þetta er oftast alveg öfugt, þeir sem þola mest og drekka mest fara verst út úr drykkjunni. 

Síðan eru það svo margar íþróttir sem valda slæmum höfuðhöggum.  

Það hefur komið í ljós í atvikum hjá boltaíþróttakonum og ég minnist þess, að í það skiptið sem sýnt var beint frá heimsmeistarkeppni í ólympískum hnefaleikum áhugamanna, var enginn rotaður í þeirri keppni, enda notaðir hlífðarhjálmar, en í tveimur handboltaleikjum kvenna hér heima sömu helgi steinrotuðust tvær handboltakonur og voru bornar af velli. 

Svo virðist sem það sé ansi persónubundið hve vel menn þola höfuðhögg. Fjölmargir þeirra sem hlutu mestu barsmíðarnar virtust ekki hafa skaðast neitt og lifðu jafnvel til hárrar elli. 

Sem dæmi má nefna Max Schmeling. Hann hlaut fjölda höfuðhögga á aldarfjórðungs löngum ferli þar til hann varð 43ja ára, til dæmis hroðaleg högg hjá Joe Louis 1938, og mikla barsmíð hjá Max Bear náði 99 ára aldri. 

Schmeling varð á endanum 99 ára. 

Og Archie Moore, "Old Mongoose", náði háum aldri þótt hann berðist alls 219 atvinnumannabardaga og hlyti tuga höfuðhögga, sem sendu hann í gólfið í þeim 23 bardögum sem hann tapaði, alls sjö bardögum á KO. 

 


mbl.is Hringleikahús nútímans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnaðar mótsagnir.

Mótsagnirnrar í sögu Gyðinga geta verið magnaðar. Það kemur á óvart að Gyðingar skuli sæta ofsóknum í Eþíóópiu þegar litið er til þess þjóðin tók ekki aðeins kristni sjö hundruð árum á undan Íslendingum, heldur er Koptatrúin, helgisiðir hennar og djásn, svo sterk í landinu, að engin ríkisstjórn, hvorki keisara, kommúnista Mengistus né núverandi alræðisstjórnar, hefur þorað að hrófla við því. 

Dýrkuð er og dáð helgisögnin um samband drottningarinnar af Saba og Salómons. 

Hvað snertir Bond-sögur kemur upp í hugann hin magnaða aðgerð þegar Mussolini var sóttur upp á hótelstaðinn El Sasso þar sem hann var hafður í haldi eftir að honum var steypt af stóli sumarið 1943.  

Bond Þjóðverja, Skorceny að nafni, fór á mögnuðum Stork-flugvélum með flokk manna, sem lenti við hótelið, tók völdin á staðnum nægilega lengi til að koma Il Duce um borð í Stork-vél, sem fór síðan í loftið fram af fjallsbrúninni og kom Mussolini í hendur Þjóðverja sem settu hann sem leppstjórnanda yfir þeim hluta Ítalíu, sem Þjóðverjar réðu yfir. 

Einnig kemur upp í hugann skemmtifrásögn Lúðvíks Karlssonar af því þegar hann fór í brúðkaupsferð til Tenerife og lærði köfun hjá Þjóðverja einum. 

Sá hafði verið í góðu embætti í Þýskalandi á stríðsárunum, en flutti til Tenerife í febrúar 1945 "af því að þá var veðrið svo leiðinlegt í Þýskalandi" sagði Lúðvík og hló. 

Meðal þess sem Þjóðverjinn kenndi nemendum sínum var að hafa ávallt meðferðis sérstaka tegund lítils skelfisks þegar þeir væru að kafa, því að ef þeir lentu í hættu vegna nálægðar við gráðugra hákarla, sem kæmu syndandi að þeim opinn kjaftinn til að gleypa þá, ættu þeir á síðustu stundu að henda skelfiskinum inn í kjaftinn á hákarlinum, því að þessi tegund skelfisks væri uppáhaldsmatur þeirra. 

Hann kenndi okkur, sem vorum hreinir Aríar, þetta, en sagði Gyðingunum aldrei frá því" sagði Lúðvík og hló aftur. 


mbl.is Eins og Bond-saga „síonista“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um 125cc hjólin?

Að meðaltali er 1,1 maður um borð í hverjum bíl í borgarumferðinni. Það þýðir, gróflega áætlað, að 90 prósent bílanna séu með aðeins einn mann um borð. Vespuhjól 125cc

Hér á síðunni hefur áður verið bent á, að vélhjól í svokölluðum 125 cc flokki, oftast með vespulagi, sem eru með allt að 15 hestafla eins strokks bensínvél, ná auðveldlega 90 km/klst þjóðvegahraða með aðeins rétt rúmlega tvo lítra í eyðslu á hundraðið. 

Eftir rúmlega tveggja ára reynslu af notkun slíks hjóls er niðurstaðan sú, að með því að negla dekkin á veturna er hægt að nota slík hjól vegna veðurs vel yfir 80 prósent,og engin vika hefur liðið þannig, að hjólið hafi ekki verið notað eða verið nothæft. 

Slíkt hjól er 10 til 15 sinnum léttara en rafbíll og sjö til tíu sinnum ódýrara. 

Kolefnisfótspor af því að vinna fyrir hjólinu, viðahalda því, kostnaður af afskriftum, smíði og förgun, er því augljóslega miklu minni, og vegna hinnar hlægilega litlu eyðslu er fótsporið vegna orkueyðslunnar ekki mikið stærra og fótsporið samanlagt jafnvel minna. 

Ótalið er hve lítið rými hjólin taka í gatnakerfinu, en í því liggja gríðarlegar fjárhæðir í margs kyns sparnaði.Niu N-GTX rafhjól

Nú eru að koma á markaðinn rafknúin hjól af þessari stærð með byltingarkenndum endurbótum, meðal annars útskiptanlegum rafhlöðum, sem skipa þeim framar rafbílum á þessu sviði og gera mögulegar skiptistöðvar fyrir rafhlöður í stað hraðhleðslustöðva. 

Þar eru kínversk hjól af gerðinni Niu-N GTX fremst í augnablikinu. 

Af því að fyrir mistök birtist myndin af tveimur 125 cc íslenskum hjólum tvisvar á síðunni, má geta þess að Honda er að vinna að bæði hreinu rafhjóli á grunni Honda PCX, hjólinu til hægri og einnig tvinnhjóli af þeirri gerð.

Gogoro. Skiptistöð 

Á slíku hjóli þarf ekki endilega að hafa samskonar hleðslutengi og á tengiltvinnbíl, því að líklega verða rafhlöðurnar færanlegar og hægt að taka þær úr hjólinu og hlaða heima eða á vinnustað, eða að skipta á þeim og hlöðnum rafhlöðum í skiptistöðvakerfi á borð við Gogoro kerið á Taían. .  Vespuhjól 125cc


mbl.is Kolefnisfótspor rafbíla 5 sinnum minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðhengilsháttur, feluleikur og mótsagnir.

"Sethjallarnir verða varðveittir í Hálslóni" sagði umhverfisráðherrann, sem ákvað að sökkva öllum dalnum, sem hjallarnir voru í, í meira en hundrað metra þykka blöndu af leir, aur og sandi, sem er úr svipuðu efni og hjallarnir voru. Víkurgarður

Svipað er nú haft uppi um Víkurgarð, sem náði fyrrum yfir á það svæði, sem lóðareigandum og hótelbygginafíklum þykir nú henta að kalla Landssímareit. 

Með því skipta um nafn er samt mótsögn í þessum málflutningi þegar talað er um að bein úr garðinum verði varðveitt. 

Svo blindir eru fylgjendur þeirra framkvæmda, sem sjást svo vel á mynd Morgunblaðsins, að þeir geta ekki skilið að málið snýst ekki eingöngu um að varðveita stað, sem hefur verið ginnheilagur, fyrst sem blótstaður við landnám og síðar sem kirkjugarður, heldur ekki síður um að eyðileggja allt andrými, friðsæld og yfirbragð nánasta nágrenni Alþingishússins og Austurvallar. 

Þegar skoðaðar eru myndir af garðinum áður en malbik og byggingar fóru að ógna honum, sést vel hverju á að fórna fyrir þá ginnheilögu hótelkassa, sem spretta upp svo tugum skiptir, jafnvel í klösum og skekkja heillandi og aðlaðandi svip gömlu miðborgarinnar. 


mbl.is Engar framkvæmdir í Víkurgarði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Exelskjölin um ruslflokkinn.

´"Ég er bara atvinnulaus." "Ég verð að setjast í helgan stein."

Setningar sem eru tákn um nokkur exel-skjöl sem ganga í gegnum þjóðfélagið hjá okkur og miða að því að úrelda og afskrá fólk, sem fer á endanum í svokallaðan "hrakvirðisflokk" samkvæmt skilgreiningu 75 ára aldurs exel-skjalsins í tryggingamálum. 

Það byrjar við fimmtugt. Þá fer enskumælandi fólk yfir á aldursskeið sem er orðað þannin að það sé "in the fifties."

En ekki hér. Hér fer fimmtugt fólk yfir á sextugsaldur. Tíu ára munur á hugsun.

Síðan verður fólk sextugt. Þá er það sett í flokk "eldri borgara." Á ferðum í Ameríku fylgdi slíku virðing við búðarborðið. "Are you senior?" er spurt með virðingu og veittur afsláttur. 

Aldrei spurt svona hér á landi. Afgreiðslufólk hefur tjáð mér að of margir þeirra sem spurðir eru, móðgist og hreyti út úr sér: "Sýnist ég vera svona ellileg / ellilegur eða hvað?" 

Sem þýðir að það sé niðurlægjandi að eldast, enda nota Íslendingar orðalag, sem hækkar aldurinn um áratug, - sextugur maður er kominn á sjötugsaldur. 

Næsta exelskjal er 65 ára aldur hjá atvinnuflugmönnum. Sumir þeirra fljúga engu loftfari eftir það,- þetta er svo mikið áfall. 

Svo kemur 67 ára aldurinn og þú ert "löggilt gamalmenni". 

Aðal exelskjalið er 75 ára aldur. Þegar ég þurfti að sækja slysabætur, var það aðal óheppnin að vera nýorðinn 75 ára. "Þetta verður erfitt sagði tryggingalögfræðingurinn, þú ert kominn i svonefndan hrakvirðisflokk." 

"Meinarðu ruslflokk?"

"Já í rauninni, en hitt orðið hljómar skár ef eitthvað er. 

Um svipað leyti var greint frá því í fréttum með stolti að Ísland væri í fremstu röð þjóða, varðandi það að koma í veg fyrir "ótímabær dauðsföll." 

Svo sem að detta dauður fram á matarborðið vegna heilsugalla, sem hægt hefði verið að komast hjá með fyrirbyggjandi aðgerðum. Það telst ótímabært dauðsfall. 

Ég varð forvitinn og fór að glugga í smáa letrið varðandi þetta atriði. 

Þá kom í ljós að hjá okkur er miðað við 75 ára aldur, "ruslflokkinn." 

Dæmi: Maður er fæddur 1. janúar og verður 75 ára á nýársdag. 

Ef hann dettur dauður fram á matarborðið á gamlárskvöld er það ótímabært dauðfall. 

Ef hann dettur fram á matarborðið á nýárskvöld er það tímabært dauðsfall. 

Já, og miðað við hugsunarháttinn hjá okkur jafnvel bara vel tímabært dauðsfall.  

 


mbl.is „Ég er bara atvinnulaus“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi um fáránleika málsins: Fjórir ómögulegir möguleikar.

Vitanlega var tímamótadómur Hæstaréttar í gær gríðarlegur sigur fyrir réttlætið. Hitt er umhugsunarefni af hverju þessi sigur var svona mikill. 

Það var þvi miður vegna þess hve ranglætið var mikið og langvarandi. 

Já, það var vegna þess að hið óskaplega ranglæti hafði viðgengist í næstum 43 ár, allt frá þvi að rannsókn hófst á Geirfinnsmálinu með svo mörgum lögbrotum af hálfu hins íslenska "réttarríkis", að úr varð býsna löng upptalning á lagabrotunum hjá Ragnari Aðalsteinssyni í sjónvarpi í gærkvöldi. 

Þessi 43 ár hjá þjóð okkar verða einn svartasti bletturinn í Íslandssögu síðustu aldar, skapaður af smæð þjóðar návígis, kunningsskapar og vensla. 

Persónulegt dæmi um fáránleika málsins er eftirfarandi úr ranni fjölmiðlunar, sem var fífluð þessi ár. 

 

1976 var ég nýráðinn fastur fréttamaður og kominn í þularhlutverk. 

Þetta var á árum Walters Cronkite, sem sagði gjarnan: "That´s the way it is."

Sem þýddi, að viðkomandi fréttamaður þurfti að vera handviss um að segja satt og rétt frá,  beint í augun á þjóðinni, með svip og augnaráði ítrasta trúverðugleika. 

Þetta þýddi að ég og aðrir fréttaþulir vorum ítrekað í þessari stöðu í aðal æsifréttum þessara tíma. 

Eftir heilmikinn blaðamannafund um árangur rannsóknarinnar var sest í fréttasettið, horft beint í augu þjóðarinnar og lesin með ítrasta trúverðugleika í augnaráði og svip nákvæm lýsing á morðinu á Geirfinni í Dráttarbrautinni í Keflavík og horft beint í augu þjóðarinnar á meðan. 

Eftir nokkrar vikur þurfti síðan að setjast aftur í fréttasettið til að endurtaka leikinn og "halda andlitinu" með Walter Cronkite í huga. 

En þá brá svo við að hin "endanlega" lýsing á atburðunum í Dráttarbrautinni var allt önnur og algerlega ný svo að varla stóð steinn yfir steini í fyrri lýsingunni. Og þetta varð að lesa án þess að depla auga, horfa beint í augu allrar þjóðarinnar með ítrasta trúverðugleika í augnaráði og svip. Halda andlitinu.  

Svipaður leikur var að vísu leikinn mörgum sinnum í umfjöllun um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, en þessi tvö nefndu atvik eru eftirminnilegust, því að þegar kafað var ofan í "trúverðugleikann" komu upp fjórir möguleikar: 

1. Fyrri atburðarásin var lygi en síðari atburðarásin sannleikur. 

2. Síðari atburðarásin var lygi en fyrri atburðarásin sannleikur. 

3. Báðar atburðarásirnar voru blanda af lygi og sannleika. 

4. Þetta var allt saman tóm steypa og bull. 

Fjórir ómögulegir möguleikar?  Nei, sá síðasti var kannski sá eini sem gekk upp, - strax fyrir 40 árum. Hvers vegna tók 40 ár að viðurkenna það? 

Nefna má mörg fleiri atriði, þar sem fréttamenn urðu að taka á öllu sínu til að halda andlitinu við frásagnir, eins og þegar Toyota fólksbíll var við hús við Hamarsbraut með vélina að framan og farangursgeymslu að aftan og bílstjóra sitjandi í framsæti á meðan borinn var poki með líki Guðmundar Einarssonar að afturenda bílsins til að setja það þar ofaní, næstum án þess að bílstjórinn yrði þess var, - þessi bíll varð allt í einu eins gerbreyttur og hugsast gat,  varð allt einu orðinn að Volkswagen Bjöllu með vélina afturí og enga farangursgeymslu þar, og ekki heldur brúklega farangursgeymslu frammi í, og þess vegna urðu líkburðarmennirnir að leggja framsætisbakið fram og troðast framhjá bílstjóranum til að drösla líkinu í aftursæti Bjöllunar. 

Hvort tveggja, Toyotan og Bjallan, talið heilagur sannleikur þegar frá því var sagt. 

Bæði Magnús Leopoldsson og Einar Bollason, saklausir menn, sögðu eftir á, að eftir 100 daga gæsluvarðhald hefðu þeir verið komnir á fremsta hlunn með að játa, af því að það var búið að brjóta þá svo mikið niður, að allt var tilvinnandi til að komast út úr víti fangelsisins og ná vopnum sínum. Þá hlytu allir að sjá að þær gætu ekki annað en verið saklausir. 

Báðum flaug líka í hug að það gæti ekki verið mögulegt að þeir hefðu verið fangelsaðir nema þeir hefðu gert eitthvað, sem þeir myndu ekki eftir. 

Og reyndu að finna út hvað það hefði getað verið. 

Þeir voru svo bjargarlausir, að það kom til greina að játa til þess að komast út og fá þar tækifæri til að sýna fram á að þeir gætu ekki verið sekir. 

Lýsing Guðjóns Skarphéðinssonar á svipuðu fyrirbæri hjá honum er sláandi. 

Tíu fangelsaðir einstaklingar, sem mannréttindi voru brotin á, náðu sér aldrei eftir þessar hremmingar. 

Og enn stendur útaf rán á veski og penna Geirfinns og rangar sakargiftir þriggja einstaklinga, sem voru augljóslega af nákvæmlega sama toga og annað í því, sem haft var eftir þeim eftir harðræðis yfirheyrslur. 


mbl.is Óþarfi að búa til tap úr sigrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar óttinn nær að magnast eða er beislaður.

Ótti er tilfinning sem auðveldlega getur leitt fólk mjög langt, jafnvel svo langt að það sé kveikjan að þjóðarmorði eins og það, sem hefur verið í gangi gegn Rohingjum í Mianmar. 

Með umfangsmikilli notkun facebook var því sáð, að Rohingjar væri skipulagður hópur múslima, að stórum hlutum komnir frá Bangladesh, sem ætlaði að taka völdin í landinu og það leiddi síðan til þess að hafin var ofsóknarherferð gegn þeim af her, lögreglu og fleirum, sem hefur leitt til stórfelldra morða og ofbeldis gegn þeim. 

Speglar á bíl, sem rekast utan í tvö börn í Svíþjóð verður að stórfelldu hryðjuverki, þar sem bíl er vísvitandi ekið af múslima inn í hóp hundrað barna.

Í framhaldinu er blásin upp þögn og þöggun fjölmiðla og meint yfirhylming þeirra yfir hinni svívirðilegu árás hmúslimska hryðjuverkamanns. 

Ótti, sem greip um sig í þjóðfélögum vesturlanda á áttunda áratugnum var ein af undirrótum Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, sem verið var að afgreiða seint og um síðir í gær. 

Fréttir af hryðjuverkum og starfsemi hryðjuverkahópa á borð við Bader-Meinhoff í Vestur-Þýskalandi gerði unga hippa og jafnvel smákrimma að stórhættulegu glæpahyski, sem ógnaði samfélaginu. 

Daginn, sem fréttist um hryðjuverkaárás Anders Behring Breivik í Osló, skrifaði einn bloggskrifari ítrekað fram á kvöld um það, hvers kyns hætta stafaði af þeim stórvirka múslimska morðingja, sem væri þar að verki, og að þetta sýndi, hver ógn væri nú almennt í uppsiglingu af völdum múslima. 

Enn í dag segir sami skrifari, að alls staðar í öllum löndum, þar sem múslimar séu, séu þeir uppspretta hryðjuverka. 

Það er líka þekkt fyrirbæri að til þess að ná undir sig miklum völdum, leita "sterkir" valdamenn að sameiginlegum óvini þjóðar sinnar sem ógnun, sem verði að standa gegn undir sterkri forystu. 

Óttinn við utanaðkomandi ógn hefur oft verið nýttur til þess að ná fram atriðum eins og hervæðingu. 

Slíkur gagnkvæmur ótti fer nú vaxandi í sambúð Rússa við Vesturlönd.  


mbl.is Óhapp breytist í hryðjuverkaárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir Elon Musk inn í svipað og Preston Tucker?

Elon Musk og Preston Tucker eiga það sameiginlegt að hafa átt þá hugsjón að koma tímamótabíl á markaðinn. 

Elon á undanförnum árum, en Tucker á árinu 1948. Tucker ´48 á ská aftan frá

Stóru bílaframleiðendurnir bandarísku höfðu gríðarleg ítök hjá þingi og stjórn og efndu til herferðar gegn Tucker á mörgum vígstöðvum l948.  

Ástæðan var einföld, þegar litið er á bílinn, sem bar nafn Tuckers.

Tucker fékk snilldarhönnuð, Tremulis að nafni til að hanna bíl, sem var hlaðinn nýjungum, sem langflestar voru langt á undan samtíðinni.Tucker 48 á hlið

Má þar nefna svo sem undralága loftmótstöðu, öryggisbúnað, sjálfstæða fjöðrun á öllum hjólum, mikið rými og hámarkshraða og einstaklega góðir aksturseiginleikar sakir lágs þyngdarpunkts, sem gerðu aðra bíla næstum hlægilega. 

Bíllinn var að vísu með vélina afturí sem ekki reyndist verða að framtíðarmúsík, en þetta var flöt "boxer"vél með loftkælinu.

En 51 eintak, sem tókst að framleiða, var hvert um sig gullmoli. Tucker 48 (2)

Með því að kæra Tucker fyrir svik, sem kostaði hann nokkurra ára málaferli og stöðvaði framleiðslu bíla hans, tókst stóru bílaframleiðendunum að kæfa framleiðsluna á Tucker í fæðingu. 

Tucker vann að lokum sigur í málaferlunum og var sýknaður, en skaðinn var skeður fyrir hann. 

Hann sagði við lok réttarhaldanna, að ef Bandaríkjamenn ætluðu að halda áfram á braut svona afturhalds og spillingar myndu hinar sigruðu þjóðir í stríðinu, Þjóðverjar og Japanir, bruna fram úr þeim á sviði bílaframleiðslu. 

Þegar þessi orð voru sögð, höfðu Bandaríkjamenn yfirburðastöðu í bílaframleiðslu heimsins með meira en tiu sinnum stærri bílaflota en nokkur önnur þjóð og framleiddu einir fleiri bíla en allar aðrar þjóðir heims samanlagt. 

Tucker uppskar dúndurhlátur í réttarsalnum fyrir spádóminn um væntanlega sigurgöngu Þjóðverja, Japana og annarra "aumra" þjóða",  þvílík fjarstæða þótti þetta tal hans. 

Það fór hins vegar svo að Þjóðverjar og Japanir fór fram úr Bandaríkjamönnum á þessu sviði og á síðustuu árum framleiða Kínverjar meira en tvöfalt fleiri bíla en Kanarnir.  


mbl.is Musk kærður fyrir svik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vélhjólaúrvalið er rosalega fjölbreytt.

Ef farið er að leggjast yfir upplýsingar og umfjöllun um vélhjól af svipuðum nördaskap og áður, varðandi bíla, blasir við að úrvalið er alveg rosalega fjölbreytt og hægt fyrir alla að fá sér hentugan fararskjóta. Suzuki Address

Á Evrópumarkaði er hægt að fá vélknúin hjól fyrir allt niður í 250 þús kall og síðan á hvaða verði sem er upp í meira en tíu milljónir. 

Allt frá 3ja hestafla skellinöðru upp í 445 hestafla Boss-Hoss.

"Vespuhjólin" Honda Vision, Suzuki Address og Yamaha Deligt, sem eyða innan við 2 lítrum á hundraði og ná 90 km hraða, eru aðeins um 100 kíló og kosta um 400-500 þús. krónur.

Síðan er hægt að fara allt upp í lúxus (sófa)vespuhjól á borð við BMW 650, Kawasaki J300, Honda Forza 300 eða Suzuki Burgman 400 og 650. Suzuki Burgman 650

Þessi hjól eru lúxus ferðahjól með miklu farangursrými, þægindum og getu í stíl við Honda Gold Wing lúxushjólið.  

Royal Enfield Himalayan

Hjól eins og Kawasaki H2 sem eru með 316 hestöfl til að knýja aðeins 216 kílóa þung hjól! 

Hægt að fá hjól fyrir eina og hálfa milljón sem geta stungið tíu sinnum dýrari bíla af í spyrnu frá 0-100 km/klst. (Ætti að vera 0-90 hér á landi). 

 

Hægt að fá sér ódýrt og létt hjól, sem eyða rúmlega þremur lítrum á hundrað en þurfa aðeins 5 sek í hundraðið ef með þarf. 

Líka hjól á borð við Royal Enfield Himalayan, sem er athyglisvert alhliða ferða- og torfæruhjól, hugsað fyrir ferðalög af öllu tagi, eyðir aðeins 3 á hundraðið en nær 135 km hraða og kostar rúma milljón. 

Með 21 tommu hjól að framan, 20 sentimetral fjöðrunarvegalengd og hægt að þekja það með mótórhjólafarangurstöskum.Honda Integra 

Eða KTM 690 gæðahjól með svipaða eiginleika. 

 

Gríðarlegar framfarir og breytingar eru í gangi. Þannig gafst hið þekkta Motorrad vélhjólablað í Þýskalandi upp á því i ár eftir margra áratuga feril, að flokka hjól eftir byggingarlagi, annars vegar í "roller"- eða "scooter"-hjól (hér á landi ranglega kallaðar vespur) og hins vegar í hjól með hefðbundna byggingu. 

Ástæðan felst meðal annars í tveimur Honda hjólum, þar sem hjólið Honda Integra er og hefur með venjulegri byggingu og mótor fyrir framan ökumann.Honda X-ADV

Það er með stigbrettum og vindhlíf eins og vespuvélhjólin og því hingað til verið flokkað til "scooter" hjól. 

Spánnýja hjólið Honda X-ADV er hins vegar með byggingu "vespu"vélhjóla með mótorinn næst fyrir framan afturhjólið og því ekki með samfellda grind milli afturhluta og framhluta undir ökumanninum, heldur með lágri stigbrettabyggingu, þar sem auðvelt er að fara með fæturna þvert í gegnum hjólið, og með vandaðri hlífðarkápu. 

Bæði hjólin eru með sömu 55 hestafla 750cc vélinni og eru bæði 238 kíló að þyngd. Yamaha Niken

Skammstöfunin X-ADV í heiti hins hreinræktaða vespuvélhjóls á að tákna "cross-country adventure, þ.e. að henta jafnvel á grófum vegum og slóðum eins og í borginni. 

Þess vegna er fjöðrunin óvenju löng á þessu tímamótahjóli, sem sendir alla keppinauta Honda að teikniborðunum. En verðið er nokkuð hátt. 

Yamaha Niken er líka tímamótahjól, því að enda þótt til hafi verið hjól af gerðunum Piaggio, Peugeot og Quadro, með tveimur samhliða framhjólum, er alveg ný "geómetria" á Niken, sem gerir hjólið stöðugra en nokkuð annað í beygjum og auðvelt að læsa því í kyrrstöðu, þannig að það stendur óstutt af ökumanni líkt og um þriggja hjóla bíl sé að ræða. 

Quadro 4 er reyndar með fjórum hjólum! 

Niken er líka ansi dýrt, en þess eftirsóknarverðara fyrir marga. Honda vélhjólam.

Ég þurfti að fara með gamla Range Rover fornbílinn (Kötlubílinn) minn í skoðun niður í Sundahöfn í dag og sá eftir því að vera að gera það í umferðarteppunni löngu á Sæbrautinni um fimmleytið, var búinn að gleyma þeim miklu þægindu og yfirburðum, sem létt og meðfærilegt vespuvélhjól hafa í þéttri borgarumferð með skorti á bílastæðum. 

Því gleður það mig ef þeim fjölgar sem sjá sér hag í því að nota hjóla-ferðamátann.  


mbl.is 150% aukning í sölu Suzuki-mótorhjóla í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómetanlega mikilvægur áfangi og tímamóta dómur, en ekki endanleg málalok.

Sýknudómarnir, sem kveðnir voru upp í Hæstarétti í dag yfir þeim, sem voru sakfelldir í Guðundar- og Geirfinnsmálinu, eru ómetanlega stór áfangi í því að hreinsa til í þessu hræðilega stóra máli, stærsta sakamáli í sögu landsins. Alger tímamótadómur sem mun lifa á spjöldum sögunnar. 

En því miður eru málalokin ekki alveg endanleg, því veldur að endurupptökunefnd vildi ekki taka upp mál Erlu Bolladóttur. 

Varð hún þó fyrir ekki minna harðræði í raun við yfirheyrslur en aðrir sakborningar og sakfelldir. 

Samkvæmt því virðist ekki haggað við þeim hluta yfirheyrslnanna, sem laut að því að handtaka fjóra saklausa menn á grundvelli rangra sakargiftna, en þessar röngu sakargifir voru laðaðar fram á engu minna óhæfan hátt en aðrar sakargiftir. 

Málinu er, þrátt fyrir að í meginatriðum sé dóminum frá 1980 hnekkt, ekki lokið að þessu leyti. 

Meðal annars vegna þeirrar spurningar, hvort þeir sakborgningar, sem stóðu með Erlu Bolladóttur að hinum röngu sakargiftum, voru í raun sýknaðir algerlega í dag, að því er virðist vegna þess að endurupptökunefnd lagði það ekki til. 

Í dómsorðunum er aðeins minnst á þá sakfellingu, að þeir hafi orðið Guðmundi og Geirfinni að bana. 

Hvað segja lögfróðustu menn um þetta? 


mbl.is Mannorð Tryggva loksins verið hreinsað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband