Notkun stefnuljósa stórlega ábótavant. Furðulegt.

Sérkennilegt er það hátterni íslenskra bílstjóra að gefa ekki stefnuljós eða að gera það rangt í stórum stíl eins og kom fram í nýlegri könnun. 

Þetta hlýtur að liggja að einhverju leyti í þjóðarsálinni og hefur kannski verið lýst best í ljóðlínunum  

"Á Íslandi við getum verið kóngar, allir hreint 

og látum engan yfir okkur ráða..."

Það er eins og þessi ótrúlega stóri hluti ökumanna telji það árás á persónufrelsi að láta aðra vita hvert sé ætlunin að aka. 

Og ef það er gert, er það með semingi og tregðu, sem veldur því að stefnuljósið birtist alltof seint til þess að það gagnist öðrum ökumönnum. 

Hluti orsakarinnar getur verið að ökumenn séu í stórum stíl uppteknir í farsímum sínum og hafi af þeim sökum ekki tæknilega möguleika á að gefa stefnuljós. 

Eða að kæruleysið, sofandahátturinn og tillitsleysið séu í svo miklum mæli að leitun sé að öðru eins í nágrannalöndum okkar. 

Fyrir heildina skapar þetta ekki aðeins óþarfa hættu og öryggisleysi í umferðinni, heldur bitnar þetta bitnar á öllum, líka þeim sem finnst einhver ávinningur fólginn í því að vanrækja jafn bráðnauðsynlegs og einfalds atriðis og það er, að auðvelda og greiða fyrir umferð með því að gefa stefnuljós.  


mbl.is Brot 430 ökumanna mynduð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það einfaldasta er oft best.

Sterkustu minningarnar um tónlistarflutning snúast oft um svo einfalda tjáningu, að undrum sætir. Dæmi frá langri ævi:  Nina Simone að syngja ein við eigin píanóleik "I love you Porgie."

Chet Baker, - eða Páll Óskar, að túlka lagið "My funny Valentine." 

Kornung skólastúlka, Sara Pétursdóttir, að syngja til sigurs í keppni framhaldsskólanna "To make you feel my love", grafkyrr horfandi beint framan í myndavélina,  Brenda Lee að syngja "I´m sorry", Frank Sinatra og Nancy Sinatra, "Strangers in the night", "Nat King Cole og Natalie Cole, "Unforgettable", Elly Vilhjálms, orðalaust, "Sveitin milli sanda." 

Dæmin eru miklu fleiri en öll snerta einfalda og beintengda túlkun á góðum lögum og ljóðum. 

Tónlistin er hugsanlega magnaðasta listformið. Hjá fólki með elliglöp lifir hún afar oft lengst í minni. 

"Ars longa, vita brevis" sögðu Rómverjar, "listin er langlif, lífið er stutt." 

Og einmitt núna spretta fram hendingar í hugsanlegu millispili í textanum "Góðar og glaðar stundir." 

"Listin er löng - 

lífið er stutt. 

Seiðandi söng 

sæl getum flutt 

frá unaðsstundum okkar,

sem áttum forðum tíð."


mbl.is Eftirminnilegasta atriðið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löng sería sem segir heilmikla þróunarsögu.

Í vetur hafa James Bond myndir verið sýndar á rás Simans, og síðuhafi hefur haft gaman af því að horfa á þær flestar hverjar með konu sinni, bæði til að hverfa til fortíðarinnar sem birtist fyrstu árin í Tónabíói sáluga á þeim myndum og myndunum um Bleika pardusinn og í forvitni skyni, til að sjá hve vel þær hafa elst. 

Þróun kvikmyndagerðar síðustu hálfa öld hefur sést vel í þessum myndum. 

Sumt hefur staðist tímans tönn nokkuð vel, en annað síður. 

Þannig hefur síðuhafi alltaf haldið upp á Sean Connery meira en aðra, og frekar en Roger Moore, þótt Moore skilaði kannski kaldhæðnum húmornum ágætlega. 

Connery var hins vegar betri blanda en Moore af gróflegri karlmennsku í bland við útgeislun, sjarma og humor, auk þess sem Moore skorti á nægilega "muscular" líkamsbyggingu. 

Brellurnar í sumum myndunum hafa enst illa í samanburði við nútíma tækni. 

En eftir því sem þær urðu æ stórbrotnari fóru þær sumar hverjar að verða of ótrúlegar og villtar, svo sem í sumum atriðunum í myndatökunum við Jökulsárlón. 

Hraðamunurinn í gegnum seríuna er sláandi mikill, og í sumum nýrri myndanna er hraðinn orðinn of mikill og öfgarnar of ótrúlegar. 

Það fæst ekki allt með atburðarás á æsihraða, sem er oft yfirkeyrð í látum, sem ganga jafnvell fram af manni.

Vel skrifað handririt með gömlu góðu undirliggjandi spennunni klikkar ekki.

Gott dæmi um það var óralöng og hæg atburðarás í í lestarferð í lok myndarinnar From Russia with love sem myndi sennilega seint verða fyrir valinu í nútíma Bond-mynd. 

En þessi lestarsena bauð að mörgu leyti upp á meiri spennu og óvissu en fá má út úr mörgum æsihröðum senum nútíma Bond. 

Þetta var að vísu mögulegt vegna þeirra möguleika sem það gefur, að aðilar njósnanna eru þrír en ekki einn, en það gefur að sjálfsögðu kvaðratíska möguleika varðandi æsilegar flækjur og óvissu. 

Sem sýnir, að handrit kvikmynda vega oft þyngra en efnislegur búnaður. 

Mörg lögin í myndunum eru þegar orðin klassísk, svo sem Godfinger, From Russia with love, Live and let die verðlaunalag Paul McCartney og A Wiew to a kill", - og hljómagangurinn í meginstefinu er ómissandi er negla. 

Langlífi Bondmyndanna er orðinn það mikið, að það sjálft er að verða vandamál út af fyrir sig og spurning hve lengi þessar myndir geta enst og verið samkeppnishæfar. 


mbl.is Vinnuheiti komið á nýju Bond-myndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tala þingmanna blífur, - ekki skoðanakannanir eða fyrra ástand.

Hér á landi ríkir svokallað fulltrúalýðræði og skortur er á beinu lýðræði. Þetta gæti verið ein af undirliggjandi ástæðunum fyrir þeirri tregðu þingsins að taka upp beinna lýðræði og fara eftir úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrána 2012. 

Þótt Miðflokkurinn hafi beðið talsvert fylgishrun í skoðanakönnunum, ráða þær ekki fjölda þingmanna eða hlutföllum flokkanna á þingi. 

Þar er Flokkur fólksins nú með afar lítinn mannafla, en Miðflokkurinn þeim mun meiri. 

Það veikir til dæmis stöðu Vg í ríkisstjórnarsamstarfinu mikið, að nú getur Miðflokkurinn, að minnsta kosti tæknilega, stokkið inn í það samstarf í stjórn, sem hefði 34 þingmenn á móti 29. 

Og einnig getur Miðflokkurinn orðið fyrstu í þeirri goggunarröð, sem staða stærsta þingflokks stjórnarandstöðunnar gefur, burtséð frá öllum skoðanakönnunum. 

Hið hlálega er, að á fyllerísfundi þar sem umræðuefnið var meðal annars að þeir Ólafur og Karl Gauti gætu hugsanlega gengið til liðs við Miðflokkinn og gefið honum þessa mikilsverðu eflingu og stækkun á þingi, varð þetta umræðuefni ásamt öllun hinu til mikils fylgishruns í skoðanakönnunum. 

En tala þingmanna blífur, - ekki skoðanakannanir eða fyrra fylgi. 


mbl.is „Ekkert óeðlilegt“ við kröfu Miðflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsannar hitinn á Stórhöfða allt "loftslagskjaftæðið"?

Löngunin til að víkja frá sér því sem er óþægilegt eða getur raskað núverandi skipan mála hjá þjóðum heims virðist geta brotist fram í afar gagngerðri og mikilli afneitun hjá mörgum. 

Gott vitni um þetta eru blaðagreinar og pistlar á samfélagsmiðlum, þar sem seilst er ansi langt í þvi að reyna að finna einhverjar tölur eða fullyrðingar sem geti rennt stoðum undir það, að hlýnunin á jörðinni sé ímyndun eða tilbúningur hjá vondum vísindamönnum, - og að í rauninni fari kólnandi. 

Ein aðferðin er að leita að tölum frá afmörkuðum svæðum eða jafnvel veðurstöðvum sem hægt er að lesa kólnun úr, rétt eins og að hitinn á jörðinni allri sé á svipuðum nótum. 

Á málþingi um umhverfismál í vikunni var hitinn á Stórhöfða í Vestmannaeyjum síðustu árin þungamiðjan í þessari rökfærlu hjá einum afneitunarsinnanna og hnykkt á að lofstlagið færi hratt kólnandi. Hiti í Stykkishólmi.

En jafnvel þótt þetta sé reynt og aðeins litið á hitafarið á jafn litlum hluta af jörðinni og Ísland er, sýnir línurit yfir hitann á okkar litla landi síðan á 19. öld ótvírætt hvert hefur stefnt. 

Þetta línurit birti Trausti Jónsson veðurfræðingur á bloggsíðu sinni um síðustu áramót. 

Hitinn hefur gengið í mislöngunm hæðum og lægðum, en alltaf hafa botnarnir hækkað og sömuleiðis topparnir, þannig að svölustu árin á þessari öld hafa verið hlýrri en flest árin á hinu 45 ára langa hlýskeiði 1920-1965. 

Og tal um að vísindamenn hafi jafnvel fiktað við línuritin og mælitækin bítur ekki á síðuhafa, sem horfði sjálfur á þessar tölur og línur af mikilli athygli strax fyrir 65 árum og festi sér í minni þá, hvernig þessi gögn voru. 


mbl.is Enn hlýnar á jörðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleg og drepfyndin "jeppa"keppni.

Hvað eiga bílarnir á myndunum, sem birtast munu hér, sagmeiginlegt?DSC05471 

Jú, þær eru af bílum sem sagðir eru í auglýsingum vera "jeppar", en aðeins einn þerra, Citroen Mehari, getur staðið undir því heiti. 

Skoðum forsöguna. 

Rekja má söguna af "jeppa"keppni bílaframleiðenda aftur til ársins 1977.

Þá sýndist Simca-verksmiðjum vera það mikil sala í dýrum Range Rover jeppum, að hægt yrði að bjóða bíl, sem liti jafnvel verklegar út en væri miklu ódýrari og þar að auki með rými fyrir sjö sæti og gæti þess vegna tekið hluta af markhópnum, sem Range Rover var miðaður við. Hyundai Kona (2)

Simca 1100 bílliSimca 1109 var einfaldlega tekinn og afturhlutinn hækkaður og stækkaður og honum auk þess lyft með aukinni veghæð. Hann leit út eins og "cross-country" bíll, skammstafað "xc". DSC05470

Hugmyndin beið skipbrot. Aðeins nokkur þúsund Simca Rancho seldust á ári. Fólk lét ekki útlitið plata sig.

Þetta var ekki jeppi með eingöngu drif á tveimur hjólum og það á öfugum enda, ef fara þurfti upp brattar brekkur. 

Þegar hlaðið var fólki og farangri í bílinn seig hann niður að aftan, og meginþungi bílsins færðist á hinn driflausa afturhluta þegar fara þurfti upp brattar brekkur, oft með grófri möl  eða lélegu gripi fyrir veslings framhjólin. 

Í dag er öldin önnur. Nú moka bílaframleiðendur "jeppum" á markaðinn, sem ekki er hægt að fá með afturdrifi, svo !Renault Kadjar, Opel Crossland og Grandland og Hyundai Kona rafbíllinn, og kalla þetta hikstalaust jeppa. 

Til að fullkomna "jeppa" blekkinguna eru notuð orð eins og "cross" eða stafurinn x í heitum þessara "jeppa." 

Kona "rafjeppinn" er í auglýsingum sagður vera fyrsti rafjeppinn, -  og í dag er auglýstur "fyrsti jeppinn frá Citroen, C5 Aircross." Einn af kostum hans er firna stórt farangursrými, líkt og á Simca Rancho forðum daga. DSC05469

Og af hverju er skottið svona stórt? 

Jú, af því að það er ekkert afturdrif á "jeppanum"!

Og ókostir þess að vera ekki með fjórhjóladrif eru svipaðir og á Simca Rancho í den: Þegar mikill þungi er að aftan á leið upp brattar brekkur er til lítils að hafa læst drif að framan þegar vantar afturdrifið, sem mestu skilar upp brekkur.

Í Auto Katalog þýska bílatímaritsins Auto Motor und Sport má sjá, að þessi Citroen"jeppi" litur að vísu sterklega út en "dugar ekkert utan vega, ("nict gelandetauglich").  Hann er ekki "jeppi" í þeim skilningi, sem hingað til hefur verið ríkjandi hér á landi. 

Munurinn síðan 1977 er hins vegar sá, að nú gleypir fólk við því sem umboðin keppast við að auglýsa sem "jeppa". 

Einn Simca Rancho var fluttur til Íslands og þá datt engum Íslending í hug að kallað þann bíl jeppa.Citroen Sahara 

Í ofanálag er C5 Aircross ekki fyrsti "jeppinn" sem Citroen framleiðir. 

1961 framleiddi Citroen fjórhjóladrifinn Bragga sem hét Sahara. 

Eins og sést á meðfylgjandi mynd er varadekkið ofan á húddinu. 

Ástæða: Það er ekkert pláss fyrir dekkið í skottinu, þar sem eru afturdrifið og vélin sem það knýr. 

Jeppar hafa hér á landi frá tilkomu þeirra fyrir meira en 70 árum þurft að hafa þetta: Fjórhóladrif, mikla veghæð og lágan fyrsta gír. 

Sahara var ekki með lágt drif og það felldi hann.DSC05472

En það var magnað að þetta skyldi vera tveggja hreyfla bíll, þar sem hæg var að grípa til þess ráðs, ef annar hreyfillinn fór ekki í gang, að láta hina vélina draga eða ýta í gang eftir atvikum! 

Síðar framleiddi Citroen bíl, sem gat staðist jeppakröfurnar betur, Mehari og var hann meira að segja brúklegur fyrir heri sem torfærubíll. 

Mehari mátti fá með fjórhjóladrifi, háu og lágu drifi og sæmilegri veghæð. 

Sá bíll var fyrsti raunverulegi jeppinn frá Citroen. 

Svo að öllu sé til haga haldið má C5 Aircross eiga það, að veghæðin er góð, lítil skögun að aftan og framan og hægt að læsa þessu eina drifi bílins.  

En bílablaðamönnum Auto Motor und Sport þykir ekki nægja til þess að segja að hann sé duglegur utan vega (gelandetauglich). 

Og fyrst það er auglýst að Hyoundai Kona rafbíllinn sé fyrsti rafjeppi landsins, væri mun frekar hægt að segja það um Tazzari Zero, minnsta og ódýrasta rafbílinn, sem er með nánast enga skögun að aftan eða framan, með 18 sm veghæð óhlaðinn og með 70% þungans á drifhjólunum, sem eru að aftan, þannig að þunginn og gripið aukast við það að fara upp bratta brekku í stað þess að minnka, eins og á bílum með framdrifið eitt. 

 

 

 

 


mbl.is Kynna hraðskreiðasta jeppa sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég veit hvað það hefur og ég veit hvað það þarf."

Þegar þref um kjarasamninga náði mestum hæðum hér fyrr á tíð og deiluaðilar dældu út tölum og útreikningum, sem áttu að sanna þetta og hitt, afgreiddi Gvendur jaki það oft með því að segja nokkurn veginn þetta: 

 "Ég þekki þetta fólk, sem býr við verstu kjörin. Ég veit hvað það hefur og ég veit hvað það þarf. Og það er ekki hægt að sætta sig við það, hve langt er þarna á milli."

Guðmundur sat sjálfur á Alþingi árum saman og sæti hann þar nú á dögum sjálftökuelítunnar, gæti hann sagt:

"Ég þekki þetta fólk, sem býr við bestu kjörin og skammtar sjálfu sér launahækkanir og kjarabætur, sem eru óravegu frá fólkinu á lægstu laununum. Ég veit hvað það hefur og ég veit hvað það þarf. Og það er ekki hægt að sætta sig við það, hve langt er þarna á milli, og hve óralangt er á milli þessara kjara og kjara hinna verst settu."

Þegar Macron Frakklandsforseti áttaði sig á hinni tilfinningalegu orsök reiði gulstakkanna, baðst hann opinberlega afsökunar á skilningsleysi sínu og firringu. 

Ekki örlar enn á neinu hliðstæðu hjá íslensku sjálfstökuelítunni, en þetta skilningsleysi og firring er helsta orsök þeirrar ólgu sem nú fer vaxandi. 

Finnist mönnum, að það séu öfgafullir sósíalistar, sem nærist á þessari óánægju til að efna til pólitískra átaka, er það ekkert nýtt. 

Margir helstu leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar á sjöunda áratugnum voru félagar í Sósíalistaflokknum og kallaðir kommar. 

En þeim tókst samt að leysa illleysanlega hnúta í samningum með atbeina ríkisvaldsins, sem skópu félagslegar kjarabætur, sem við njótum enn í dag.  

 


mbl.is Hækkun lægstu launa gefi ranga mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð saga á bak við gerð verðlaunamyndar.

Það vildi svo til, að síðuhafi heyrði af munni Benedikts Erlingssonar þegar vorið 2016 hugmynd hans að meginefni kvikmyndarinnar "Kona fer í stríð."

Mörg verk þessa snillings höfðu fram að því vakið hrifningu og hlotið lof, en satt að segja óaði mér við þeirri dirfsku, sem bjó að baki þessari geggjuðu hugmynd. 

Óttaðist að áhættan með gerð hennar væri of mikil og að hætta væri á því að nú gæti komið að því að Benni kollsigldi sig. 

Gaman var að fylgjast með töku á einu atriði myndarinnar í miðborg Reykjavíkur og sjá síðan kröfuharða úrvinnslu úr henni. 

Á Edduhátíðinni í kvöld kom endanlega í ljós, að þessi dirfska hins hugmyndaríka, fjölhæfa og snjalla listamanns, hefur fært honum einstaklega glæsilega uppskeru. 

Raunar hef ég sjaldan hrifist eins í kvikmyndahúsi og þegar myndin birtist þar, og sigurganga hennar á kvikmyndahátíðum erlendis er engin tilviljun. 

Íslenska kvikmyndagerð er það sterk um þessar mundir og keppinautar "Konunnar" það góðir, að segja má að þeir hafi verið óheppnir að þurfa að keppa við Benedikts, - annars hefðu þeir verið vel að Eddunni komnir á hinni glæsilegu hátíð í kvöld.

Einn af styrkleikum myndarinnar er sá, að hún vekur umræður og knýr menn til skoðanaskipta. 

Og þá kemur í ljós að það er ekki aðeins að menn andstæðra skoðana sjá hana í mismunandi ljósi, heldur hefur það jafnvel gerst, menn eins og Jón Magnússon, hafa fyrstu fallið mær eingöngu fyrir því hve vel hún var gerð, en síðar áttað sig á því að hægt var að finna út úr henni aðra merkingu en þeir höfðu talið hana hafa í upphafi.  


mbl.is Konan sigursælust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegt og of þunnt malbik og vanræksla?

Fyrir nokkrum misserum kom fram, að í sparnaðarskyni væri lagt þynnra malbik á götur í Reykjavík en þyrfti til að það réði við íslenskar aðstæður. Voru nefndar tölurnar 5sm í stað 10. 

Einnig, að í aparnaðarskyni væri notað lélegra efni í slitlögin en tíðkaðist erlendis, þar sem loftslag væri líkt og hér, til dæmis á vesturströnd Noregs. 

Í ofanálag væri viðhaldi ábótavant. 

Árleg vandræði vegna þessa hér á landi hljóta að kalla á nánari skoðun og upplýsingar um þetta en fengist hafa fram að þessu.  

Hvað er rétt og hvað er ekki rétt?


mbl.is Holutímabilið er hafið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matvælin og þriðji orkupakkinn.

Á næstu vikum stefnir í að tvö vafasöm atriði varðandi EES-samninginn verði lögfest hér á landi. 

Um bæði gildir, að alger sérstaða Íslands hvað snertir stöðu landsins úti í hafi, eitt og sér langt frá öðrum þjóðum setur okkur í allt aðrar aðstæður hvað varðar áhættu en er hjá öðrum þjóðum Evrópu. 

Íslendingar hafa vægast sagt slæma reynslu af því að hafa flutt til landsins dýr sem áttu að lyfta íslenskum landbúnaði á síðustu öldum. 

Í öll skiptin átti að vera tryggilega um hnúta búið en raunin varð önnur og niðurstaðan hrapalleg. 

Erlendur sérfræðingur, og raunar innlendir líka, að með því að lögleiða breytingu á lögum um matvæli og dýrasjúkdóma sé tekin óviðunandi áhætta í formi tilraunaleiks með íslensk mannslíf. 

Fyrir um 30 árum sat síðuhafi við hlið Karls Kristjánssonar, sem er sérfræðingur á þessu sviði, í vél Flugfélgs Íslands frá Akureyri til Reykjavíkur. 

Karl dró upp hrollvekjandi framtíðarmynd af sókn sýkla með lyfjaónæmi og baráttu lækna og lyfjafræðingar við þá ógn. 

Þessum sýklum færi fjölgandi, og það sem verra væri, gerð nýrra og sterkari lyfja framkallaði sýkla, sem yrðu sífellt ónæmari fyrir sterkari og sterkari lyfjum, oftast vegna þess að sjúklingar  

Á endanum gæti stefnt í það, að læknar yrðu að taka vaxandi áhættu á því, að sterkustu sýklalyfin yrðu orðin svo sterk, að þau settu sjúklingana sjálfa í lífshættu og dræpu þá jafnvel. 

Ekki grunaði síðuhafa þá, að hann sjálfur myndi 20 árum síðar lenda í því að glíma við svo stóra og illvíga sýkingu í baki, að eina lyfið, sem ætti möguleika á að ráða við hana, ylli alvarlegum lifrarbresti í þrjá mánuði. 

Eftir slíka lífsreynslu er ómögulegt að verjast þeirr niðurstöðu, að það eigi ekki að samþykkja neitt það, sem getur valdið slíkum afleiðingum. 

Látum vera, þótt það fluttir séu inn alvarlegir og banvænir erlendir búfjársjúkdómar fyrir mistök af völdum óþarfa áhættu, en hitt er ansi mikið verra ef um er að ræða líf og heilsu fólksins. 

Við búum við þá sérstöðu að þessi sýklaógn er mun skemmra á veg komin hér en í öðrum Evrópulöndum. Það er ekki lítils virði. 

Þótt EES-samningurinn hafi orðið mikill búhnykkur fyrir okkur á flesta lund síðasta aldarfjórðung á það ekki sjálfkrafa að þýða það að við tökum alltaf við hverju sem er inn í löggjöf okkar þar sem sérstaða okkar veldur því að viðkomandi löggjöf sé skaðleg fyrir okkur eða eigi hreinlega ekki við. 

Oft hefur að vísu verið tregða hér til lögleiðingar með þeim rökum að "séríslenskar aðstæður" ríktu, en rökin fyrir slíku afar hæpin, en um þetta er engin algild regla og verður að vega og meta slík rök vandlega. 

Enginn myndi til dæmis telja skylt fyrir okkur að lögleiða tilskipanir um járnbrautir hér á landi. 

Það styttist í ákvörðun um það hvort lögleiða eigi þriðja orkupakkann svonefnda hér á landi. 

Það er ekkert smámál heldur og efni í einn eða fleiri bloggpistla.  

 

ð


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband