Aftur góðar fréttir fyrir þá fyrir norðan og austan.

Síðasta aldarfjórðung hafa verið uppi spár um það, að við hlýnun loftslags á jörðinni muni verða til tveir til þrir kuldapollar á mjög afmörkuðum svæðum, og yrði einn þeirra fyrir suðvstan Íaland vegna þess að Golfstraumurinn myndi sökkva sunnar en áður á leið sinni norður í áttina til Svalbarða. 

Þessari kólnun myndi valda tært leysingavatn frá bráðnandi jöklum, sem er léttara en saltur Golfstraumurinn og flyti því lengri vegalengd en áður í yfirborðslögum sjávar á vestanvverðu Norður-Atlantshafi og kældi loftið yfir sér. 

Sumar af þessum spám gerðu ráð fyrir mun meiri og víðfeðmari kólnun á Norður-Atlantshafi en aðrar spár hafa gert síðustu árin. 

Veðurfarið í fyrra langt fram eftir sumri var mjög í þessa átt, og þegar skyggnst er í spá Einars Sveinbjörnssonar sést, að það verður fyrst og fremst um norðan- og austanvert landið sem hlýrra verður og bjartara en í meðalári, líkt því sem var í fyrra, en hins vegar allt upp í helmings líkur á svalara og blautara veðri á sunnan- og suðvestanerðu landinu eins og varð í fyrra. 


mbl.is Stefnir í hlýtt en vætusamt sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villandi samanburður milli rafbíla og dísilbíla.

Á einni af bloggsíðunum á blog.is eru fluttar þær fréttir úr Brussel times að þýskir sérfræðingar hafi reiknað það út að dísilbílar mengi minna í Þýskalandi en rafbílar. 

Út af þessu er lagt á þann veg að íslenski umhverfisráðherrann sé að boða algera dellu. Tazzari í litlu stæði

Þetta er skrýtin röksemdafærsla. Raforkan, sem þýskir rafbílar fá er að hluta til komin frá kolaorkuverum, en íslenska raforkan er öll komin frá vatnsorku og jarðvarmaorku. 

Útreikningar þýsku "vísindamannanna" eiga því ekki við hér á landi. 

Þegar greinin í Brussel times er lesin kemur í ljós að þýsku snillingarnir reikna út það kolefnisspor sem fylgir vinnslu og dreifingu lithium og magnesíum, allt frá náumgreftri yfir í bílana. 

Þarna sé um að ræða CO útblástur, sem verði til vegna nýtingar orkuberanna, en eigi að taka með í reikninginn. 

En hvergi er minnst á það spor sem fylgir vinnslu og dreifingu olíunnar, sem ekki verður komist án sem orkugjafa í formi eldsneytis.

Eitthvað hlýtur það að vera þegar ferillinn er skoðaður frá olíulind til hvers bíls. 

Fyrst verður mengun við olíuborun og flutning olíunnar yfir olíuhreinsistöðvar. Þar á eftir er olían flutt með olíuskipum til olíugeyma um víða veröld og síðan með olíubílum frá olíugeymunum yfir til bensínstöðvanna þar sem bensínið eða olían er loks sett yfir í bílana. 

Orkutap í rafhreyfli er þrefalt minna en í sprengihreyfli og jafnvel þótt orkan komi í rafhreyfilinn frá kolum eða olíu gerir þessi nýtni, sem er 90%, það að verkum, að rafbílarnir hafa forskot í þeim löndum, sem nota kolaorkuver og kjarnorku til þess að framleiða rafmagn. 

Yfirburða orkunýtni rafhreyfilsins í hybridbíl, sem ekki er hægt að setja rafmagn á, veldur því að uppgefnar eyðslutölur á hybrid bílum sýna 20-25 prósent minni bensíneyðslu enda þótt öll orka bílsins komi frá eldsneyti, sem að hluta til flutt yfir í rafhreyfil. 

Síðuhafi er sammála því að samanburður milli bíla með rafhreyfli og sprengihreyfli taki tillit til fleiri þátta en beins útblásturs úr bílunum eingöngu. 

En í umfjöllun Brussel times er ekki að sjá, að neitt hafi verið týnt til varðandi feril olíunnar í samanburði blaðsins, heldur eingöngu kafað ofan í sporið vegna ferils orkuberans, rafhlaðnanna.  Tazzar RAF, Náttfari og Léttir.

Síðuhafi notar rafreiðhjól, létt 125cc vespuhjól og minnsta, ódýrasta og umhverfismildasta rafbíl landsins til að fara ferða sinna innanlands, og getur vel verið, að vespuhjólið sé, þegar allt er tekið með í reikninginn, með minna kolefnisspor en rafbíll af venjulegri stærð. 

Það gæti verið efni í annan pistil. 


Þarf alltaf öll þessi ósköp af plastinu?

Gamli skemmtilegi "nöldrarinn" Andy Rooney heitinn, sem var með ca tveggja mínútna pistil árum saman í lok bandaríska sjónvarpsþáttarins 60 mínútur, var eitt sinn óborganlegur þegar hann tók fyrir þær oft tröllauknu umbúðir, sem ýmis söluvarningur væri settur í.Plastumbúðir 

Rooney vann mikla undirbúningsvinnu vegna viðfangsefnisins og hrúgaði upp umbúðunum fyrir framan sjónvarpsvélarnar. 

Síðuhafi þurfti ekki að leita lengi til þess að finna dæmi um þetta, nýbúinn að kaupa tvö lítil og einföld millistykki í snúrur, sem voru í svo rammgerðum kössum úr hnausþykku plasti,að engin leið var að opna kassana með handafli, heldur þurfti öflug skæri, hnífa eða hliðstæð áhöld til að brjóta sér leið inn í herlegheitin ná varningnum út. 

Hér er annar kassinn í súpudiski. 

Millistykkið inni í kassanum á þessari mynd er 7 sentimetra langt og einn sentimetri í þvermál, en kassinn er 150 rúmsentimetrar og gæti því rúmað minnst 20 stykki!  

Rooney velti fyrir sér hvort hinar rammgerðu og klunnalegu umbúðir utan um suma hluti væri hafðar svona miklar að umfangi til þess að gefa í skyn að innihaldið væri margfalt dýrmætara en það raunverðulega væri. 

Einnig hvort með þessu verið væri verið að hafa þetta svo rammgert, að því yrði síður stolið. 

Eða hvort hugsunin væri sú, að ef þetta væri jólagjöf, myndist byggjast upp þeim meiri spenningur og tilhlökkun sem erfiðara væri að opna herlegheitin. 

Það gæti brugðið til beggja vona með það hjá fólki þar sem gjafirnar væru margar og því leiðinlega tafsamt að standa í langdregnu veseni við að reyna að brjótast inn úr umbúðunum. 

Á þeim tíma sem Rooney var með þennan pistil var ekki byrjað að "gúgla" eins og síðar varð, og þess vegna varð úr því auka skemmtun þegar hann leitaði í bókaverslunum um eitthvert lesefni um þetta málefni og fann loksins eina bók um efnið, sem var að vísu inni í myndarlegum umbúðum, en samkvæmt texta auglýsingar um bókina, átti hún að geta verið notadrjúg fyrir þá sem þyrftu leiðbeiningar um opnun umbúða. 

En, - viti menn, - utan um bókina reyndust vera svo rammgerðar umbúðir, að Rooney féll á tíma í miðju kafi við að reyna að opna þær!


mbl.is Markaðurinn er yfirfullur af plasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en aldargamalt viðurkennt hugtak.

Árið 1913 fór Gandhi inn á svæði í Suður-Afríku, þar sem í krafti langvarandi aðskilnaðarstefnu, sem stóð út öldina, hafði verið sett á bann á menn af hans stigum að koma inn á. 

Þar sló í brýnu og Gandi var fjarlægður með valdi. Andóf hans má telja upphaf að fyrirbæri, sem hefur hlotið íslenska heitið borgaraleg óhlýðni og byggist á því að veita andóf án þess að beita valdi, að beita friðsamlegum mótmælum.   

Barátta Gandhi var byggð á þessu prinsippi og bar að lokum þann árangur, að næstfjölmennasta þjóð veraldar hlaut sjálfstæði 35 árum síðar. 

Síðar gerðust hliðstæð atvik í öðrum löndum, sem voru af svipuðum toga og fólust oftast í því að andófsfólkið hélt kyrru fyrir, stóð, sat eða lá og hlýðnaðist ekki skipunum lögreglu um að færa sig. Staðurinn gat verið hérað (Gandhi), sæti í strætisvagni (Rosa Park) opinber staður á almennafæri (Martin Luther King) eða land (Muhammad Ali).  

1955 settist blökkukona að nafni Rosa Park í sæti í strætisvagni í Montgomery í Alabama, sem aðeins ætla var svörtu fólki.

Rosa hafði fram að því farið eftir þessum lögum og sest í sæti svartra sem voru oft öll setin eða hinir svörtu stóðu, jafnvel þótt sæti hvítra væru ekki öll setin.

Í þetta skipti urðu sæti hvítra fullsetin, og var þess þá krafist að Rósa stæði upp fyrir hvítum manni og gæfi honum eftir sæti sitt.

Á þessari stundu fannst Rósu nóg komið og neitaði að standa upp.  

Henni var skipað að færa sig, og þegar hún neitaði var hún handtekin með lögregluvaldi og færð í fangelsi. 

Þetta atvik varð heimsfrægt og ákveðið upphaf að vaxandi réttindabaráttu blökkumanna, sem fór þó ekki að bera árangur fyrr en næstum áratug seinna. 

Það á nefnilega við um mörg svona atvik, að það þarf að biða lengi eftir árangri. 

Rósa var stundum kölluð "móðir mannréttindabaráttunnar". 

Martin Luther King var handtekinn og fangelsaður 35 sinnum í sinni baráttu, oftast fyrir að hafa verið staddur á þeim stað sem hann var, líkt og Rosa Parks. 

Hnefaleikaheimsmeistarinn Muhammad Ali neitaði af trúarástæðum að gegna herþjónustu og láta flytja sig nauðugan þvert yfir hnöttinn.

Hann vildi ráða því í hvaða landi hann væri. 1967 voru Bandaríkjamenn komnir með hálfa milljón hermanna í Víetnam og Ali spurði:  "Hví skyldi svartur maður drepa gulan mann fyrir hvítan mann, sem rændi landi af rauðum manni?" "Ég á ekkert sökótt við Viet Kong; enginn Viet-Kong maður hefur kallað mig niggara."

Ali vildi vera áfram í æfingasalnum og í hringnum, en var rekinn frá hvorutveggja og heimsmeistaratitilinn tekinn af honum.

Í þrjú og hálft ár voru málaferli yfir honum og hann stóð frammi fyrir allt að fimm ára fangelsi þar til Hæstiréttur sýknaði hann. 

Í lögum lýðræðisríkja er viðurkennd tilvera friðsamlegs andófs undir heitinu borgaraleg óhlýðni. 

Það er að þakka baráttufólki eins og Gandhi, Rósu Parks og Martin Luther King.

 


mbl.is „Borgaraleg óhlýðni er nauðsynleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laxeldi á landi, þvert ofan í hrakspár?

Í deilum um laxeldi hefur ekki verið deilt um eldi á landi, heldur fyrst og fremst eldi í sjókvíum.

En fram að þessu hafa sjókvíaeldismenn ráðið förinni í þessum efnum í krafti staðhæfinga um  að sjókvíaeldi sé svo margfalt hagkvæmara en eldi á landi, að landeildið eigi enga samkeppnisvon. 

Því vekur það athygli að sá kaupfélagsstjóri íslenskur sem hefur ásamt fleirum hafið Kaupfélag Skagfirðinga til einstakrar velgengni á mörgum sviðum, skuli vera að huga að umfangsmiklu laxeldi á landi, þvert ofan í eindregnar hrakspár sjókvíaeldismanna. 

Þórólfur segir að þróun í eldi á landi sé svo skammt komin og það svo lítið stundað, að það gefi ekki rétta mynd af þeim möguleikum, sem í því geti verið fólgið. 

Þórólfur verður varla sakaður um að hafa stigið mörg feilsporin í þróun á viðfangsefnum KS, að ekkert sé að marka hann. 

Á sama tíma sem stórveldi SÍS og kaupfélaganna hrundi að mestu, hefur veldi KS sýnt að hið fornkveðna er oft í gildi:  Veldur hver á heldur. 


mbl.is KS vill ala lax á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ekki að klára fermingarnar fyrir páska?

Þótt ferðalögum innanlands hafi fækkað eitthvað er greinilegt að Íslendingum, sem eru erlendis um páskana fjölgar ár frá ári. 

Ein af orsökunum eru mikil kaup Íslendinga á fasteignum erlendis einkum á Spáni þar sem fjölgun flugferða á milli Íslands og Spánar keikur stórt hlutverk. 

Margir, sem eiga húseignir erlendis, verða sennilega dálítið háðir því að fara að hegða sér eins og farfuglarnir, að eltast við gott veður og njóta í leiðinni ódýrs matar og nauðsynja og nýta fjárfestinguna í Suðurlöndum. 

Þetta veldur því að svo virðist sem þetta sé farið að bitna á fermingunum og fermingarveislunum, sem hafa verið snar þáttur í því að efla samkennd og ljúfar samvistir ættingja og vina á öllum aldri. 

Þeirri spurningu má því varpa fram, hvort ekki sé ráðlegt að færa fermingarnar sem mest fram fyrir páskana inn í marsmánuð og hafa fermingatímabilið þá. 


mbl.is Færri fara á fjöll um páska en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Fjarverandi vegfarendur" orðnir mesta ógnin.

Rannsóknir helda áfram að sýna það, sem áður hefur verið fjallað um hér á síðunni, að ný vá hefur haldið innreið sína í umferðina á öllum stigum hennar og er orðin sú versta. 

Ölvun við akstur og í umferðinni er ekki lengur algengasta orsök aldvarlegra slysa og banaslysa heldur fyrirbæri, sem má kalla "fjarverandi vegfarendur", þ.e. fólk sem er svo upptekið við lestur af mælum, símum og skjám eða í fingravinnu á þessum tækjum, að það jafngildir því að það sé með bundið fyrir augun. 

Síðuhafi hefur fundið þetta á eigin skinni og beinum; hefur eytt þessu ári frá fyrsta virka degi þess við að jafna sig eftir axlarbrot og fleiri áverka, sem urðu vegna þess að á maður á rafhjóli, sem kom á móti honum á hinum þekkta hjólastíg á Geirsnefinu sveigði skyndilega yfir á öfugan stígshelming svo að ómögulegt var að forðast harðan árekstur. 

Í ljós kom, að hann hafði hætt að horfa fram fyrir sig og var að reyna að lesa af litlum rafhlöðumæli, sem var erfitt að lesa af, vegna þess að það var orðið rokkið, og þótt tölurnar á mælinum sæust sekúndubrot í hvert sinn sem hann fór undir lága ljósastaura við stíginn, var þetta sekúndubrot allt of stutt. 

Það olli því að hann einbeitti sér æ meira af lestrinum og segja má að Reykjavíkurborg hafi siðan gulltryggt áreksturinn, því að miðlínumerkingin á stígnum, sem valdur slyssins sá þegar hann horfði beint niður, er orðin svo máð vegna viðhaldsleysis, að hún sést varla, og er raunar horfin á löngum köflum, meðal annars á þeim stað sem áreksturinn varð. 

Fleira hjálpaði til þótt "blindingsleikurinn" væri höfuðorsök. Eftir slysið kom í ljós, að í handbók rafhjólsins var sýnt, hvernig hægt væri að kveikja ljós á rafhleðslumælinum!  

Á hjóli síðuhafa eru hins vegar ævinlega logandi skær ljós sem sýna hve mikið rafmagn er á rafhlöðunum. 

Ef farið hefði verið að dæmi Akureyringa við gerð umrædds hjólastígs á Geirsnefinu, hefði hugsanlega ekki orðið árekstur.  Akureyringar breikkuðu svipaðan hjólastíg sinn úr 2,5 metrum upp í 3,0 metra, og þessi árekstur á Geirsnefinu hefði ekki orðið á svo breiðumm stíg, því að það munaði aðeins fáeinum sentimetrum að að tekist hefði að beygja nóg frá hinum aðvífandi "blindingja"; ystu hlutar stýranna á hjólunum kræktust saman og hjól síðuhafa snerist í kollhnís svo að af hlaust lóðrétt bylta beint niður á vinstri öxlina, olnboga, hné og ökkla. 

Þess má geta að ökklarnir sluppu við meiðsl, og má sennilega þakka það vélhjólaklossum. 

Síðustu fjögur ár hefur síðuhafi ýmist verið á ferli á rafreiðhjóli, 125cc vespuhjóli og minnsta rafbíl landsins og það hefur gefið gott tækifæri til að sjá hve gríðarlega algeng símanotkunin er, auk þess fyrirbrigðis, að fólk sé með heyrnartól að hlusta á hitt og þetta og heyrir þvi ekkert annað, til dæmis í hjólabjöllu eða bílflautu. 

Áberandi er hve margir eru á kafi í símanum þegar þeir eru við umferðarljós, og endurskoðandi síðuhafa hóf árið með hálskraga eftir harða aftanákeyrslu ökumanns á kafi í snjallsímanum, sem kom á fullri ferð aftan að honum en sá ekki, að bílarnir á undan honum urðu að stansa á rauðu ljósi. 

Tæknilega nætti athuga, hvort hægt sé að taka að einhverju leyti í taumana, til dæmis með samvinnu framleiðenda bíla og síma á þann veg, að tölvustýrt tæki með sendi, slökkvi sjálfkrafa á farsíma, sem er í eða við ökumannssætið. 


mbl.is Færri senda skilaboð undir stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þótt löngu fyrr hefði verið.

Vestfirðir hafa verið landsfjórðungur, sem hefur mátt búa við það í meira en hálfa öld að vera eini fjórðungurinn án flugvallar, sem nothæfur er allan sólarhringinn árið um kring, og með landveg á milli stærstu byggðakjarnanna, sem hefur verið kyrfilega lokaður stóran hluta vetrarins og aðeins fært um landveg með því að aka margfalt lengri vegalengd. 

Með tilkomu Dýrafjarðarganga og nútíma heilsársvegar um Dynjandisheiði er loks að koma bragarbót á þessu, sem hefði átt að vera komin fyrir löngu, því að þessi arfaslæma staða hefur að sjálfsögðu verið dragbítur á eðlilega þróun byggðar, atvinnulífs og mennngar fyrir vestan þannig að jafnvel var engu líkara en samtal um þetta væri orðið eitthvað þessu líkt: 

 

Það er fáfarið hér um slóðir, nær engin umferð á þessari leið. 

Af hverju?

Af því að það eru engin göng. 

Og af hverju eru engin göng? 

Af því að það er engin umferð.

 


mbl.is Sigurður Ingi sló í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margslungið og merkilegt viðtal.

Fyrir nokkrum árum varð til hugtakið "Skagfirska efnahagssvæðið" sem lýsing á veldi Kaupfélags Skagfirðinga og kaupfélagsstjórans. Í löngu og margslungnu viðtali við Þórólf Gíslason kemur svo margt merkilegt fram, að það tekur smá tíma að melta það allt. 

Stórmerkilegt er hvernig nýtingu framleiðslu landbúnaðarins er hagað og hver hugsunin er að baki því. 

Einhvern tíma í gamla daga hefði maður látið segja sér það tvisvar að stærsta og öflugasta samvinnufélag landsins ætti 20 prósenta hlut í Morgunblaðinu, en svona breytast nú tímarnir og mennirnir með. 

Þjóðarsjóðurinn, sem Þórólfur talar um, hefur verið byggður á svipaðri hugsun og olíusjóður Norðmanna. 

Þó er þar einn stór munur á og því er það þess virði að athuga skoðanir Þórólfs á íslenskri hliðstæðu. 

Þessi munur er sá, að olía er takmörkuð auðlind og um hana gildir að "eyðist það sem af er tekið". Þegar olían er gengin til þurrðar ætla Norðmenn að virkja sjóðinn til að minnka höggið af missinum. 

Þeir vita sem sé sjálfir hvenær þörfin verður til að nota sjóðinn, en hér á landi á það að verða háð mati ráðamanna á hverjum tíma, hvenær okkar sjóður verður notaður og hvernig. 

Þórólfur hefur eðlilega áhyggjur af lausung í þessu efni og þær áhyggjur eiga rétt á sér. 

Enn athyglisverðari eru efasemdir hans og áhyggjur vegna hugmyndanna um sæstreng og hækkandi raforkuverð hér á landi, sem af honum myndi leiða. 


mbl.is Gagnrýnir þjóðarsjóðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er rétta orðið "hörð lending" eftir geimskots uppgang?

Á undanförnum átta árum hefur erlendum ferðamönnum, sem koma til Íslands fjölgað um mörg hundruð prósent.  Þegar það er borið saman við hinar og þessar tölur sem sýna eins stafs prósentutölu í samdrætti í ferðaþjónustunni á þessu ári eru orðin "hörð lending" kannski ekki það sem á við. 

Einkum þegar þess er gætt að ekki er útlit fyrir annað en að ferðamenn í ár verði tvöfalt fleiri en þeir voru fyrir aðeins þremur árum. 

Nær væri að huga að því að skapa nauðsynlega innviði og traust, sem nauðsynlegt er til að viðhalda yfirburða stöðu og farsæls gengis þessa atvinnuvegar, sem hann nýtur þótt það sé ekki í einhverjum himinhæðum uppsveiflutalna á borð við þær, sem sáust í aðdraganda Hrunsins á sínum tíma. 


mbl.is Útlit er fyrir harða lendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband