Eyðingarmáttur nautgriparæktarinnar og margfalt bruðl með næringuna.

Þegar borin eru saman næringarafköst maísræktar til matarframleiðslu annars vegar og hins vegar sú leið að fóðra nautgripi á maís og éta kjötið af þeim, er munurinn tífaldur, beinni nýtingu maísins í hag. 

En skammsýnir ráðamenn skoða bara hagvöxtinn af umsvifunum vegna nautgriparæktarinnar, vinnslu og sölu nautakjötsins og ruðningi lands fyrir þetta tífalda bruðl. 

Þar að auki er ráðist á skóglendi heimsins með því að eyða skógi og rækta beitarland fyrir nautgripi í staðinn. 

En á þessa skógareyðingarstefnu trúa Bolsoneri forseta Brasilíu og skoðanabræður þeirra og valdamenn í Norður-Ameríku.  


mbl.is Brasilía „útrýmandi framtíðarinnar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrefalt hættulegra að vera undir áhrifum á vélhjóli en bíl.

Ölvaður maður á hjóli, einkum vélhjóli, er í þrefalt meiri hættu að verða sér að aldurtila en ef hann væri undir stýri á bil. 

Ástæðan blasir við og maðurinn á reiðhjólinu í frétt á mbl.is, blóðugur eftir árekstur við ljósastaur, strax í upphafi ferðar, er ágætt dæmi. 

Ef hann hefði sest upp í bíl og ekið á næsta ljósastaur, hefði belgur blásist upp fyrir framan hann og verndað hann. 

Auk þess er margfalt erfiðara að halda jafnvægi og stjórn á hjóli en bíl. 

Hjálmleysi og akstur undir áhrifum á vélhjóli eru orsakir meiri hluta banaslysa á þeim, þannig að ef þetta tvennt er í lagi, hjálmur og að vera edrú, er hættan á banaslysi orðin svipuð á þessum tveimur tegundum ökutækja. 


mbl.is Ofurölvi á reiðhjóli auk fleiri brota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju þurfti allt i einu "belti og axlabönd" sem síðan halda ekki?

Þegar ljóst varð að innan stjórnarflokkanna væri meirihluti þeirra sem sögðust vera fylgjendur þeirra í skoðanakönnunum andvígur 3ja orkupakkanum, og mikill kurr heyrðist hjá almennum flokksfólki, brast Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við því með því að lýsa yfir því að sett yrðu "belti og axlabönd" á lögleiðingu 3. orkupakkans í formi fyrirvara. 

Þetta sýndi ljóslega að því fór fjarri að málið væri "fullskoðað og fullrætt", og síðan axlaböndin og beltið komu til sögunnar hefur komið æ betur í ljós hve haldlausir þessir fyrirvarar geta orðið, ef til kemur. 

Innihald þess sem komið hefur fram í því sem Bjarni Benediktsson kallar "fullskoðað og fullrætt" er einfaldlega svo tvíbent að við blasir að minnsta kosti stórkostlegur vafi og áhætta um afleiðingar þess að lögleiða orkupakkann. 

Það var þessi áhætta og vafi sem var ástæða þess að tjasla saman axlaböndum og belti, sem ættu að halda, - en gera það ekki, af því að þau standast ekki þær formlegu kröfur sem þarf til þess að vera tekin til greina, ef á reynir. 


mbl.is Málið „fullskoðað og fullrætt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki bara "frumstæðir" frumbyggjar í háskaleik.

Þegar farið var að halda fræga rallkeppni í Kenía hér um árið vakti það undrun hvernig heimafólk lék sér að því að standa inni á veginum og keppa um það, þegar keppnisbíll nálgaðist, hver yrði síðastur til að forða sér frá hinum aðvifandi bíl. 

Munaði oft hársbreidd að illa færi og þótti þessi áhættuleikur í meiri háttar fíflaháttur og  afar frumstætt uppátæki;  greinilegt, að aðeins vanþróaðir blökkumenn gætu tekið upp á öðru eins. 

En nú virðist sem svipað fyrirbæri hafi verið á ferð undir Reynisfjalli í kjölfar skriðufalla úr fjallinu, og allir þátttakendurnir í glæfraspilinu vel menntað hvítt fólk. 


mbl.is Ferðamenn reknir í burtu af svæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótryggð, föðurlandssvik og andstyggð að vera ekki sammála Trump.

Bandarikjaforseti heldur áfram að keyra endurkjörsbaráttu sína áfram með því gamla trixi nota skiptinguna "við-þau hin" um sem flesta, sem honum er illa við. 

Hann taldi um daginn fjórar bandarískar stjórnmálablökkkonur hafa fyrirgert rétti sínum til að búa í Bandaríkjunum, af þvi að þær gagnrýndu ýmislegt í landinu og vildu færa til betri vegar. Skyldu þær hypja sig til þeirra eymdarlanda blökkufólks, sem þær ættu ættir að rekja til. 

Nú sakar hann þá Gyðinga í Bandaríkjunum sem kjósa Demokrata, um ótryggð og nánast föðurlandssvik, og er það svo sem ekki í fyrsta sinn í heimssögunni, sem þeir fá slíkar kveðjur. 

Það nýjasta er að flokka viðbrögð forsætisráðherra Danmerkur við kröfu Trumps um að kaupa Grænlands sem andstyggileg. 

Sú var eitt sinn tíð að valdasjúkir einvaldar lögðu undir sig lönd og þjóðir með hervaldi, en það er engu líkara en að Trump telji í ljósi viðkiptaferils síns að ekkert sé eðlilegra en að hægt sé að kaupa lönd og þjóðir með peningum. 

Sá, sem ekki trúir því og andmælir, hann telst vera andstyggilegur.   


mbl.is „Andstyggileg“ viðbrögð Frederiksen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæknilega stórmerkileg virkjun en því miður ósjálfbær.

Tæknilega er Hellisheiðarvirkjun stórmerkilegt mannvirki, þar sem sjá má í framkvæmd helstu nýjungar í nýtingu jarðvarma svo sem kolefnisbindinguna. Á þessu sviði eru íslenskir vísindamenn enn í fremstu röð í heiminum. 

Á grundvelli íslenskrar reynslu og þekkingar er hægt að nýta þessa orkulind víða um lönd, ef krðfum um endurnýjanlega orku og hreina er fylgt.  

En því miður var virkjunin höfð allt of stór í upphafi og stenst því ekki kröfur um sjálfbærni. Ending orkunnar í aðeins nokkra áratugi er einfaldlega rányrkja. 

Í upphafi Þeystareykjavirkjunar gumuðu sumir af því að sú virkjun gæti orðið jafnoki Hellieheiðarvirkjunar. 

En í máli forstjórans við vígsluna kom skýrt fram, að 90 megavött verða látin nægja í upphafi til þess að eiga meiri möguleika á sjálfbærni til framtíðar. 


mbl.is Merkel heimsótti Hellisheiðarvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sum hjólin mjög öflug, t.d. Sleipnir á Kaldadal.

Bæði venjuleg fjallareiðhjól og fjallarafhjól eru afar öflug farartæki og njóta lipurðar sinnar. Óskar Guðmundsson hefur unnið afrek með hjólaferð sinni eftir endilöngu hálendinu. 

Hann segist hafa örmagnast tvisvar á dag, og það er áreiðanlega rétt hjá honum, ef marka má reynslu síðuhafa af því að hjóla á reiðhjóli sumarið 1956 á sjö klukkustundum frá Reykjavík til Glitstaða í Norðurárdal, sem þá var 160 kílómetra leið. 3. Sleipnir á Kaldadal.

Strax í botni Hvalfjarðar var allur kosturinn, sem var meðferðis í töskum á bögglaberanum, uppétinn, og þurfti að endurnýja hann aftur í Hvítárskála. 

Gísli Sigurgeirsson rafeindafræðingur í Reykjavík hefur smíðað fantagott fjallarafreiðhjól með drifi á báðum hjólum, bæði að framan og aftan. 

Meðfylgjandi á að vera mynd af þessu hjóli, sem hann kallar Sleipni, þar sem það er á slóð Sörla hans Skúla, sem þeyst var á hér fordðum daga í frægri kappreið. 


mbl.is „Ekkert mál“ að hjóla yfir hálendið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árekstrahætta á hvern ekinn kílómetra fer ekki eftir lengd aksturleiðar.

Í tengdri frétt af skondnu óhappi rétt hjá bílaleigunni, sem á bílinn, er talsvert rætt um það hve óvenjulegt sé að árekstur verði alveg í hlaðinu hjá bílaeigandanum.

Þetta rímar saman við það, að oft hyllast ökumenn til þess að sleppa því að spenna bílbeltin, á stuttum akstursleiðum, til dæmis innanbæjar. 

Rökin fyrir því eru sú að því lengri sem leiðin sé, því meiri líkur séu á því að óhapp verði. 

En þegar tölur eru skoðaðar sést, að langtum fleiri óhöpp verða samanlagt á stuttum leiðum innanbæjar en á leiðum utanbæjar, einfaldlega vegna þess að meðaljóninn ekur í kringum 80 prósent aksturs síns og jafnvel meira innanbæjar. 

Það er ekki aðeins jafn mikil áhætta á óhappi á hverjum kílómetra innanbæjar og utanbæjar, heldur meiri jafnvel meiri innanbæjar vegna þess hve umferðin er miklu þéttari og meiri. 

Hér um árið settust mæðgur upp í bíl fyrir utan skrifstofur eins tryggingafélagsins og ætluðu að færa sig stuttan spöl. Þetta var það stutt vegalengd að þær spenntu ekki bílbeltin. 

En samt lentu þær í árekstri og meiddust. 


mbl.is Ekkert smá bras að ná bílnum niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jðklarnir í Himalaya skipta tvo milljarða manna máli.

Það, að frægustu jöklar Íslands hverfi er að vísu mikill sjónvarsviptir, en þó smámunir miðað við það sem gerist í hamfarabráðnun jökla Grænlands, Suðurskautslandsins og Himalaja. 

Frá Himalayafjöllum renna fjögur stærstu fljót Suðaustur-Asíu, og vorleysingarnar í jöklunum, sem þær koma frá skipta um tvo milljarða manna miklu máli. 

Hverfi þessir jöklar eða rýrni stórlega hefur það einfaldlega svo gríðarlega mikil áhrif á landbúnað hag meira en fjórðung mannkyns, að það er mikill ábyrgðarhluti að láta sem ekkert sé. 


mbl.is Framtíð jökla ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falleg eyja. Af hverju ekki talað um ferkílómetra?

Í flestra huga þykir Tenerife fallegri og fjöllóttari eyja en Gran Canaria. En það viðhorf byggist oft á því að hafa aðeins skoðað austur- og suðausturströnd Gran Canaria frá Las Palmas suður til Puerto Rico þar sem loftslag er mun þurrara en hinum megin á eyjunni. 

En vesturströndin ef mun brattlendari og með meira fjallalandslag en austurströndin, og í góðu veðri er hægt að aka mjög fallega leið norður yfir hæsta hluta eyjarinnar og njóta þaðan góðs útsýnis norður til Las Palmas. 

Í tengdri frétt er talað um 6000 hektara land. Það er yfirleitt ekki nógu goð þjónusta við neytendur, sem verða litlu nær við að sjá þá tölu. 

Þetta þjónustuleysi er alsiða en lítið mál að laga þetta með því að taka tvö núll af tölunni og fá út 60 ferkílómetra. Því að hver ferkílómetri er 100 hektarar.  

Þá er fljótlegt að gera sér grein fyrir flatarmálinu með þvi til dæmis að sjá í hendi sér, að 6 x 10 kílómetrar eru 60 ferkílómetrar. 


mbl.is Stjórnlausir gróðureldar á Gran Canaria
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband