Skortir breidd í sýnina um fjölbreytileikann í umferðinni?

Síðuhafi hefur í næstum 60 ár bent á möguleikann á meiri sanngirni í vali á einkabílum, sem felst í því að ívilna þeim sem spara rými á götunum með því að nota smærri bíla. 

Þetta hafa Japanir gert í hálfa öld og látið það koma að miklu gagni við að nýta göturnar og bílastæðin betur. 

Að meðaltali er lengd einkabílanna hér um 4,5 metrar, en þyrfti ekki að vera meiri en 4 metrar, sem er nokkurn veginn lengd VW Póló og aðeins lengri en Yaris. 

100 þúsund bílum er ekið daglega um Miklubraut við Elliðaár og ef meðallengdin styttist um hálfan metra, þýðir það, að 50 kílómetrar af malbiki, sem nú eru þakin bílum, yrðu auð á hverjum degi. 

Það eru til sveigjanlegri lausnir en sú, að afnema alveg einkafarartæki. Síðuhafi hefði gjarnan íhugað að taka þátt í aðgerð morgunsdagsins varðandi breyttan lífsstíl í samgöngum á létta vespuhjólinu sínu, sem sparar afar mikið rými á malbikinu, en fengi líklega ekki að vera með. 

Nýting léttra vélhjóla hefur lengi átt stóran þátt í að liðka fyrir hinni þéttu umferð í mörgum borgum erlendis. 

Hér á landi hefur þetta og fleiri atriði eins og þetta líkt og dottið á milli stafs og hurðar í þessum málum, þegar myndast hafa átakalínur á milli hópa unnenda einkabílsins og andstæðinga hans. 

En viðfangsefnið krefst meiri breiddar í sýninni á úrlausnarefnin í umferðarmálum. 

 


mbl.is „Þessi ást ykkar á risastórum bílum ...“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langþráð samgöngubót.

Þegar litið er til þeirrar spár að bílum á höfuðborgarsvæðinu muni fjölga um að minnsta kosti 40 þúsund fram til ársins 2030, og ekki hillir enn undir breytingu þar á, er ljóst að ekki verði hjá því komist að bæta samgönguæðarnar sem liggja um leiðina frá Kjalarnesi í gegnum höfuðborgarsvæðið til Suðurnesja. 

Sundabraut mun ekki aðeins dreifa núverandi umferð um þennan ás umferðar í gegnum svæðið heldur stytta vegalengdina þannig að það gagnast stórum hluta umferðar sem liggur þessa leið og þar með fleiri bílum en flestar aðrar samgöngubætur.  


mbl.is Sundabraut verði tilbúin 2030
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andóf gegn skammsýninni.

Þeir sem rembast við að ríghalda í þá skammgræðgis- og skammsýnishugsun sem ráðið hefur för hjá jarðarbúum fram að þessu, skilja ekki þá bylgju sem nú fer um heiminn og birtist meðal annars í fjölmennum mótmælafundum og verkföllum dagsins. 

Í bloggpistlum er talað niður til mótmælenda með því að tala niður til mótmælenda með orðum eins og "barnaleg mótmæli" og "unglingurinn Gréta Thunberg.

Hin gamalkunna aðferð að fara í boltann en ekki manninn. 

Það er ekkert barnalegt við þá kröfu unglinganna að þær kynslóðir, sem nú ráða förinni hjá þjóðum heims, hrifsi ekki til sín með rányrkju og græðgi takmarkaðar auðlindir jarðar og stofni jafnvægi loftslags og lífsskilyrða í hættu á ábyrgðarlausan hátt. 

Bylgjan, sem Gréta Thunberg hrinti af stað, byggist á þroskaðri raunhugsun og er nauðsynlegt andóf gegn skammsýninni og aðgerðarleysinu, sem í raun ræður enn ríkjum þvert á yfirlýsingar sem hafa reynst gagnslausar. 


mbl.is „Við verðum öll að vakna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókin blívur þrátt fyrir fornaldarfyrirbrigði í flutningum.

Unnendur íslenskrar tungu hafa lengi haft áhyggjur af framtíð bókarinnar hér á landi, enda hafa tækninýjungar sótt að henni úr mörgum áttum og bókaútgefendur verið í vörn við að halda þessu margra alda gamla tákni íslenskrar menningar á lífi. 

Einn angi af því er flutningur prentunar til fjarlægra landa, sem hefur leitt af sér það foreskjulega fyrirkomulag að fyrst sé bókin flutt landleið norður yfir þvert meginland Evrópu um borð í skip, sem sigli með hana yfir Atlantshafið. 

Afleiðing þessa hefur verið óheyrilega langur tími frá því að bækur koma úr prentun þangað til að þær birtist lesendum á Íslandi, varla minna en heill mánuður. 

Sé upplagið gallað tvöfaldast þessi tími og þetta leiðir af sér að sveigjanleikinn, sem innlend prentun veitir á aðal sölutímabilinu fyrir jólin, fýkur oft út í veður og vind. 

En þrátt fyrir áhyggjur af gengi hinnar hefðbundnu bókar heldur hún stöðu sinni merkilega vel. 

Hún hefur nefnilega ákveðna kosti, þrátt fyrir samkeppnina frá rafbókum og öðrum miðlum. 

Hún er til dæmis afar handhæg og hentug fyrir lestrarhraða hvers og eins og vel gerð bók getur þar að auki verið afar eiguleg og hentug sem tækifærisgjöf.  


mbl.is „Hefðbundnar“ bækur seljast ennþá meira en rafbækur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan endalausa.

Á árunum í kringum Hrunið var eðlilega mikil umræða bæði hér á landi og erlendis vegna síhækkandi ofurlauna þeirra, sem sitja í efstu stöðum hjá fyrirtækjum og stofnunum. 

Í aðdraganda Hrunsins voru þessi ofurlaun réttlætt með því að störfunum fylgdi svo gríðarlega mikil ábyrgð. 

Í samræmi við það hefði mátt ætla, að launin lækkuðu umtalsvert þegar hið hátimbraða efnahagskerfi lenti í mestu hremmingum um áraraðir. 

En það var nú öðru nær víðast hvar. Og gullfiskaminnið er mikið, samanber það, hvernig ofurlaun í efstu lögum launastigans hækkuðu mjög í aðdraganda síðustu kjarasamninga. 

Nú virðist það allt vera gleymt og grafið hjá öllum, nema kannski forseta Íslands. 


mbl.is Ólga vegna ofurlauna í skugga kjaraviðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrbætur í húsnæðismálum hafa dregist allt of lengi.

Hvað ætli það séu mörg ár síðan ástandið í húsnæðismálum var augljóslega í óviðunandi lamasessi? 

Það stig, sem hefur fengið heitið umræðustig, og virðist geta enst endalaust í mörgum svona málum án þess að úr rætist. 

Og enn er verið að vandræðast á flesta lund þótt allt í kringum okkur séu lönd, þar sem skoða mætti ýmsar hliðar mála og hefði átt að vera búið að ljúka því fyrir löngu. 


mbl.is „Yrði bylting á húsnæðismarkaði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Heilsu"rafrettur svipað fyrirbæri og filtersígaretturnar?

Sú var tíðin að svonefndar filtersígarettur voru auglýstar mikið sem heilsubætandi reyktóbak, að minnsta kosti miðað við venjlegar sígarettur. 

Helstu auglýsendur sígarettanna voru vinsælustu kvikmyndastjörnurnar, einkum þeir karlar sem léku töffara og hetjur. 

Marlborough-maðurinn geislaði af hreysti. 

En síðan fóru hetjurnar að hrynja niður úr krabbameini, einkum lungnakrabbameini, en samt tókst tóbaksframleiðendum ótrúlega vel að viðhalda reykingunum.  

Nú er sagt í fréttum frá svonefndum heilsurafrettum, og óneitanlega minnir það svolítið á það sem var í kringum filtersígaretturnar í den. 


mbl.is „Heilsu“ rafrettur bannaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýindi þurfa oft öfluga vinda til að komast til okkar.

Meðalhitinn í Reykjavík í september er 7,4 stig og hann lækkar að meðaltali um 0,1 stig fram í nóvember.  Á Akureyri er hann 6,3 stig. Það munar því um það í útreikningi á hita mánaðarins ef hitinn út þessa viku verður sums staðar meira en 10 stigum hærri. Skuggahverf úr lofti.

En í pistlum og athugasemdum efasemdarmanna um hlýnun andrúmsloftsins má sjá í dag og í gær, að þeir gera mikið úr því að ágústmánuður hafi verið heilu 0,1 stigi kaldari en í ágúst síðustu árin. 

Má segja, að litlu verði Vöggur feginn. 

Til þess að skila heitum lofmössum til okkar úr suðri þarf oft ansi mikinn vind, eins og er í dag. 

Þess vegna voru fyrstu dagar vikunnar með meira yfirbragð góðviðris, eins og meðfylgjandi mynd á að sýna, sem tekin var í gær. 

 


mbl.is Spá allt að 20 stiga hita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Nú er brennivínið orðið svo dýrt, að..."

Þegar rætt er um verð á áfengi, eins og gert er í tengdri frétt á mbl.is,  koma í hugann orð, sem einn af skemmtilegustu og orðheppnustu mönnum, sem síðuhafi kynntist hér um árið, sagði, - ekki aðeins vegna þess að þau væru sögð í skondnu samhengi, heldur ekki síður, að á bak við þau bjó grimm sýn á áfengisbölið og bakgrunn þess. 

Enn minnisstæðari urðu ummælin vegna þess, að sá, sem mælti þau, var gormæltur, þannig að hann rúllaði á stafnum r á þann hátt, að helst verður að nota stafinn g, lint g, þegar þau eru höfð eftir. 

Samhengið og kveikjan að þessum orðum voru, að þau féllu sem viðbrögð við hækkun á verði áfengis hjá ÁTVR, sem greint hafði verið frá í fréttum:  

"Nú eg bgennivínið ogðið svo dýgt, að maðug hefug ekki efni á að kaupa ség skó."

 


mbl.is Hæsta áfengisverð í Evrópu í boði stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingvellir, ein af vetrarperlunum á Íslandi.

Svipað gildir um Þingvelli á Íslandi og um Yousemite-þjóðgarðinn í Kaliforníu og fleiri vinsæla ferðamannastaði erlendis, að þeir njóta sín ekki síður um vetur en á sumrin. 

Síðuhafi minnist þess þegar hann hafði eignast sinn fyrsta smábíl, hve gefandi það var að bjóða nokkrum vinum sínum í bílferð til Þingvalla í afar fögru vetrarveðri, þegar þessi dýrmæti staður sýndi á sér alveg einstaklega fallega hlið í mjúkum og hvítum vetrarsnjónum, sem var nýfallinn og þakti hina einstæðu náttúruperlu, sem jafnframt er svo dýrmæt sagnaslóð. 

Síðar var farin svipuð ferð upp í Hvalfjörð til þess að opna alveg nýja sýn á það svæði.  


mbl.is Staðir sem eru jafnvel betri um vetur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband