Reykjanesskagi er illa útleikinn af margvíslegum umhverfisspjöllum.

Það þarf ekki langt flug eða ferðalög um Reykjanesskaga til að sjá að þetta er umhverfislega eitthvert verst útleikna svæði landsins og eru spjöllin alveg einstaklega fjölbreytt. 

Ómerktir slóðar eru víðsvegar og liggja sums staðar um mosagróið land, sem á erfitt með að jafna sig.

Á fundi með torfæruhjólamönnum fyrir nokkrum kom fram hjá furðu mörgum sú skoðun að það væri fullkomlega eðlileg krafa þeirra að fá að hjóla að minnsta kosti alla göngu- og kindasloða á landinu. 

Fjölmargir fallegir gígar, meira að segja hinn fyrrum undurfagri tvíburagígur á Hellisheiði ofan við Hveradali, hafa verið gereyðilagðir. 

Eitt dæmið um hugsunarleysið er hvernig vegur var lagður um hraun að Eldborg austur af Svínahrauni og byrjað að brjóta gíginn niður, en síðan hætt eftir sáralitla malartekju, sem þó var með mestu mögulegu skemmdum. 

Allir vita hvernig fór með Rauðhólana, og flestir kenna breska hernámsliðinu um það, en sem sonur vörubílstjóra á þessum árum getur síðuhafi fullyrt, að við Íslendingar sjálfir, bæði í upphafi malartöku í gígunum, og ekki síður eftir að Bretar tók þátt í eyðileggingunni, berum meginábyrgð á því hvernig farið var með þetta náttúrudjásn. 

Meðferð gróðurlendis á Reykjanesskaga er kapítuli útaf fyrir. Reynt er að bera í bætifláka fyrir hana með því að segja að ástandið hafi alltaf verið svona, en nokkrar staðreyndir, svo sem uppblásin svæði með fáeinum eftirlifandi gróðurtorfum; sú staðreynd að í landi Krýsuvíkur fyrr á öldum voru tugir býla; og að síðasta hrístekjan á Strandarheiði fór fram árið 1935. 


mbl.is Svíður utanvegaakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Einstæðar dyngjur og gígar og gjár...".

Svæðið norðan Vatnajökuls er fágætt á heimsvísu hvað varðar allar dyngjurnar, sem þar eru, alls um átta nafngreindar.  Þær stærstu Trölladyngja og Kollóttadyngja, tvær á sama svæðinu á stærð við Skjaldbreið.Kollóttadyngj Herðubr.-Tögl.SnæfellÞegar órói var á svæðinu milli Upptyppinga og Herðubreiðar 2007-2008 fór hann á tímabili yfir að svonefndri Álftadalsdyngju, sem liggur við Fagradal. 

Var þá varpað fram þeirri hugmynd, að ef það gysi í Álftadalsdyngju gæti það orðið rólegt en langvinnt dyngjugos, sem yrði meinlítið og sannkallað túristagos.  

Hér ámyndinni má sjá fjórar tegundir íslenskra eldstöðva; dyngju (Kollóttadyngja), stapi (Herðubreið), gígaröð (Herðubreiðartögl) og stórt eldfjall (Snæfell).  

Í ljóðinu og laginu KÓRÓNA LANDSINS eru þessar hendingar: 

 iðar

Allvíða leynast á Fróni þau firn, 

sem finnast ekki´í öðrum löndum; 

einstæðar dyngjur og gígar og gjár

með glampandi eldanna bröndum. 

Við vitum ekki´enn að við eigum í raun

auðlegð í hraunum og söndum, 

sléttum og vinjum og urðum og ám

og afskekktum sæbröttum ströndum.  


mbl.is Vísbendingar um dyngjugos sem getur varað í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan endurtekur sig, óðagot og deilur vegna nafngiftar.

Það er segin saga, að eldgos eru varla byrjuð hér á landi þegar upphefjast miklar umræður og deilur um að æða í að gefa gosinu nafn.  

Í nær öllum tilfellum hefur sem betur fer liðið drjúgur tími þangað til nafn var endanlega ákveðið. 

Vikum og mánuðum saman stóð yfir fáránleg deilo um það hvert nafnið á Holuhrauni ætti að verða, já, fáránleg með nöfnum eins og Nornahraun, á sama tíma sem gosið var allan tímann nokkurng  veginnn alveg inni í gossprungunni, sem gaus úr í kringum árið 1800 og eftir stóð hraun með nokkrum gígum í röð, sem hafði heitið Holuhraun mestallan tímann. 

Núna er rutt fram alls konar heitum, sem eigi að kenna við stærð gossins við Fagradalsfjall, þótt enginn viti hve stutt eða langt gosið eigi eftir að verða.

Það á að vera lágmark að nokkurn veginn sé séð, hvernig nýja náttúrufyrirbærið lítur út, áður en rokið verði í gefa því endanlegt nafn. 

Minna má á, að þegar menn fæðast, eru þeir aðeins nokkur kíló, en engum dettur samt í hug að rjúka í að skíra þá strax Lilla eða Stúf. 


mbl.is Litla-Hraun, Ræfill eða Geldingur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkennin eru þekkt og það þarf að læra af reynslunni.

Eftiri fyrri bylgjur faraldursins hér á landi eru einkenni þess, hvernig þeir byrja þekkt og af því hlýtur að leiða, að læra þurfi af þeirri reynslu og bregðast rétt við. 

Þetta virðast vera skilaboð sóttvarnarlæknis í dag, en eins og er, er beðið og séð hvað setur. 


mbl.is Smitin utan sóttkvíar áhyggjuefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsendan fyrir flugvelli er að engin hætta sé á eldgosi á Reykjanesskaganum.

Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur hefur nú dregið fram þá skjalfestu forsendu Rögnunefndarinnar svonefndu fyrir svonefndum Hvassahraunsflugvelli að engin hætta væri á náttúruvá vegna eldgoss á Reykjanesskaga næstu aldirnar. 

Nú hefur þeirri spurningu verið svarað all hressilega.  

Nokkra kílómetra fyrir suðaustan Rjúpnadalahraun eða Almenninga, svæðisins sem flugvöllurinn á að koma á, liggur um 25 kílómetra langt sprungusvæði sem hefur ausið eldhraunum yfir allt svæðið frá Völlunum í Hafnarfirði og suður úr. 

Þótt bæði sé unnið að því að Aiureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur geti gagnast fyrir alvöru sem varaflugvellir Keflavíkurflugvallar, er hvort tveggja, að þar er alllangt í land, og hitt, að vegna vegna fjarlægðar og hæða hindrana gagnast þeir ekki nema takmarkað í ákveðnum skilyrðum þegar um er að ræða flug eftir flugtak á Íslandi með fullhlaðna vél. 

Á Keflavíkurflugvelli háttar svo til að Reykjavíkurflugvöllur gerir gagn sem skráður varaflugvöllur við flugtak þegar skyggni er of lélegt til lendingar þar eftir flugtak, þótt skyggnið sé nógu gott í flugtakinu sjálfu. 

Nýju Boeing 737 þotur Icelandair eru brautarfrekari fullhlaðnar en Boeing 757 og því er mikið hagræði að geta haft varaflugvöllinn í jafn góðu og stuttu og færi og Reykjavíkurflugvöllur er. 

Í umræðu hér á síðunni nýlega var spurt, hvenær og hve oft hefði reynt á þennan möguleika til nauðlendingar.  

Sá, sem því slengdi fram virtist vilja miða við raunverulega nauðlendingu. 

En enginn flugstjóri veit fyrirfram hvenær hreyfilbilun getur orðið. 

En hann aflar sér flugtaksheimildar í fyrrnefndum aðstæðum af svipuðum ástæðum og að hann hefur flugvélina búna björgunarvestum og öðrum björgunarbúnaði, sem miðast við nauðlendingu á sjó eða vatni. 

Hann getur ekki vitað fyrirfram hvenæar til notkunar þessa búnaðar kynni að koma. 

Og reyndir íslenskir flugstjórar hafa upplýst, að það hafi marg sinnis komið sér vel að þurfa ekki að vísa farþegum frá borði eða bera út fragt eða farangur þegar háttar þannig til eins og lýst er hér að ofan:  Skyggni nógu gott til flugtaks en of lélegt til lendingar. 

En vegna veðurskilyrða eru margir dagar á ári, sem Reykjavíkurflugvöllur er með nægt skyggni í ssuðaustan og sunnanáttum þegar þær gera skilyrðin of slæm á Keflavíkurflugvelli. 


mbl.is Sýnir að Hvassahraunið er ekki hættulaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrír létust af völdum eldgosa á síðustu öld.

Skjalfest eru þrjú dauðsföll hér á landi á síðustu öld, einn maður af völdum Kötlugsssins 1918, einn vegna veltandi bjargs í Heklugosinu 1947 og einn vegna gasmengunar í Heimaeyjargosinu 1973. 

Í öll skiptin var engin leið að sjá atvikin fyrir, því að slíkt getur verið á svo marga vegu ófyrirsjáanlegt að séstaka aðgát verður að hafa og mun meiri en margir hafa sýnt nú í Fagradalsfjallsgosinu. 

Mikil mildi var að ekki skyldu fleiri farast í Kötlugosinu og raunar eru áhöld um það hvort skrifa eigi eina dauðsfallið þar beint á gosið. 


mbl.is Fólk vanmeti aðstæður við gosstöðvarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það ætti að vera hægt að leysa öryggismál í sóttvörnum í flugi á tækniöld.

Rétt eins og það hefur verið hægt með notkun ýtrustu tækni nútímans til þess að ná fram einstaklega miklu almennu öryggi í farþegaflugi, þá hlýtur einnig að vara hægt að bætta sóttvarnaöryggi við.

Hætt er við að einstaka farþegar reyni að svindla á því kerfi og því ætti að leggja mikla áherslu á að finna upp pottþétt kerfi sem tryggi að ekki berist smit í farþegafluginu sem heild. 


mbl.is Yfirvöld muni krefjast bólusetninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Google Earth er lygilega fráneygt fyrirbæri.

Fyrir um áratug tók ég einn dag í það að læra á Google Earth og skoða ýmsa hluti hér og þar á jörðinni. Mér til mikillar undrunar sást Sauðárflugvöllur á Brúaröræfum vel, allar þrjár flugbrautirnar af alls fimm, sem þá voru komnar. 

Samt var þessi lendingarstaður lagður með því einu að valta eggsléttan melinn og merkja brautarjaðrana með lausum merkjum. 

Á vellinum sást "flugstöðin", gamall Econoline húsbíll skýrt og greinilega! Á myndinni mátti sjá á mannvirkjagerð við Kárahnjúkastíflu, að hún hafði verið tekin síðsumars, og einnig af því að ekki er farið að hleypa vatni í lónstæði Hálslóns.


mbl.is Gosið sést úr geimnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnsta gos í heimi varð sennilega í Kröflueldum.

Í einni af umbrotahrinum Kröfluelda, sem ekki er skráð sem eldgos, hljóp lítið kvikuinnskot til suðurs frá miðju svæðisins, sem var við Leirhnjúk, og var gefin út aðvörun um hættu á því að í stað þess að öll niu eldgosin sem þarna urðu, komu upp fyrir norðan Leirhnjúk og fyrsta gosið utan í hnjúknum sjálfum, gæti gosið á sprungu sem lægi til suðurs um Bjarnarflag. 

Þetta gerðist um hánótt í dimmri hríð að vetrarlagi, svo að fjölmiðlamenn hlupu til og óku upp að Bjarnarflagi þar sem ekkert gos sást. 

Með stærðarinnar vasaljós að vopni var ákveðið að skyggnast örlítið víðar, og byrja á stórri gjá úr Mývatnseldum sem liggur í norður frá Bjarnarflagi. 

Þegar komið var inn í Krummagjá var allt í einu eins og eldingu lysti niður í allan hópinn í einu.  Menn litu hver á annan, og orðalaust, án þess nokkur mælti orð frá vörum, tóku allir á rás til baka, því að við hafði blasað sýn, sem var fáránleikinn í hæsta veldi: 

Hópur manna að leita að eldgosi með vasaljósi!

Daginn eftir sást að umhverfis borholurör í Bjarnaflagi var dökk hraunmylsna dreifð yfir kringlótt svæði kringum borholuna, og einhver á ferð þarna taldi sig hafa séð glóandi,örmjóa hraunbunu standa upp úr rörinu örstutta stund kvöldið áður og sundrast í storknandi mylsnu á leiðinni til jarðar. 

Þetta minnsta gos í heimi stenst þá kröfu um ELDgos að glóandi hraun hafi spýst upp úr jörðinni. 

En minni gerast eldgos varla. 


mbl.is „Eitt minnsta gos sem sögur fara af“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjafjallajökulsgosið 2010 hratt af stað ferðaþjónustusprengju. Hvað nú?

Þótt eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 væri margfalt meira en það smágos, sem nú er hafið í Fagradalsfjalli, og hið stóra eldfjall stöðvaði með öskufalli sínu flug um allan heim, kom Eyjfjallajökull nafni Íslands á allra varir um heimsbyggðinni á þann hátt, að það hratt af stað mestu efnahagsuppsveiflu í sögu Íslands.  

Eldgosið nú er án öskukfalls og flokkast því kannski undir hugtakið túristagos og gæti orðið akkur bæði fyrir nálæga byggð og jafnvel allt íslenska hagkerfið þegar heimsfaraldrinum linnir. 

Ótal spurningum varðandi faraldurinn og eldgos framundan er þó ósvarað. 

En hér á síðunni var því spáð fyrir nokkrum dögum, að umbrotahrina undanfarinna fjórtán mánaða markaði tímamót í eldvirknissögðu Reykjanesskaga og að framundan kynnu að vera nokkrar aldir með álíka umbrotahrinum og lauk árið 1240. 


mbl.is Myndband: Eldarnir í nærmynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband