Þarf að brenna sig aftur á sama soðinu?

Ferðaþjónustan færði þjóðinni mesta efnahagsuppgang Íslandssögunnar á árunum 2011 til 2018 og mestu um það réðu tvö eldgos, Eyjafjallajölkull 2010 og Gr´msvötn 2011, sem ollu truflunum á flugi um allan heim og komu íslandi endanlega á blað hjá öllum þjóðum heims. 

Fram til 2010 hafði verið sunginn samfelldur söngur um að ekkert annað gæti "bjargað" þjóðinni en stóriðjustefnan ein, en ónvænt og alger sigurganga ferðaþjónustu og skapandi greina, olli byltingu í þjóðarbúskapnum.  

Þótt víða væri varað við því að við færum ekki fram úr okkur á þessu nýja sviði, meðal annars á þessari bloggsíðu, gerðist það nú samt auk þess sem Covid faraldurinn varð skeinuhættur. 

Nú virðist vera að skapast á ný ofvaxtarsókn og gróðafíkn, sem varð skeinuhætt í umróti síðustu þriggja ára, og er ástæða til þess að hvetja til þess að læra eitthvað af þessu umróti og brenna sig ekki aftur á sama soðinu.  


mbl.is Ferðamannasprengja í kortunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ekki hamfaragos til að valda usla og fella Hvassahraunsflugvöll.

Þótt ekkert hamfaragos hafi orðið á Reykjanesskaga eftir ísöld, þarf ekki stórt gos til að valda miklum usla. 

Það sést best með því að skoða hraunin, sem runnu fyrir átta hundruð árum og þar á undan í kjölfar ísaldar. 

Fyrir átta hundruð árum opnaðist jörð í eldgosum til dæmis allt frá núverandi Suðurstrandavegi og norður til Óbrinnishóla skammt suður af Kaldárseli og austur af Straumsvík. 

Á strandlengjunni hafa hraun runnið út í sjó niður í Elliðaárvog, út á Alftanes og til sjávar á samfelldum kafla frá Völlunum syðst í Hafnarfjarðarkaupstað allt að Vogastapa. 

Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur eru utan hættusvæðanna varðandi hraunflóð og á besta staðnum við sunnanverðan Faxaflóa, en við marga ókosti fyrirhugaðs Hvassahraunsflugvallar bætast nú hraunstraumar, sem runnið geta að nýju á allri ströndinni frá Völlunum og Straumsvík suður í Voga. 

Við hættu á hraunflóði bætast síðan hætta á eitruðu lofti og mengun. Engin gos á Reykjanesskaga hafa verið hamfaragos en samt nægir stærð þeirra til að valda miklu tjóni á innviðum helsta þéttbýlissvæðis landsins.   

 

 


mbl.is Engin hamfaragos hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafflug getur skapað möguleika í innanlandsflugi en síður í millilandaflugi.

Það blasir við að rafknúnar flugvélar geta rutt sér hratt til rúms á stuttum flugleiðum. 

Eins og nú er komið málum, gætu flugleiðir eins og til Vestfjarða, Norðurlands og Vestmannaeyja komið til greina, og stutt flug á borð við kennsluflug er heillandi möguleiki. 

En hugmyndir manna um samkeppni í flugi á lengri leiðum svo sem yfir Atlantshafið með viðkomu á Íslandi reka sig á þann mikla ólkost rafknúinna farartækja eins og flugvéla, að ef þau eiga að geta klifrað upp í nægilega hæð til að komast yfir veður og nýta sér minni loftmótstöðu í hærri hæðum, eru orkugeymar og vélbúnaður bæði margfalt þyngri en hjá flugvélum knúnum eldsneyti, og þar að auki brenna eldsneytisknúnar vélar orkugjafanum á flugi og léttast mikið við það, - nokkuð sem rafknúin flugvél getur ekki.  

Í rafknúinni flugvél eins og forsetinn flaug í í dag, verður að sætta sig við það, að orkugjafinn léttist ekkert á flugi.  


mbl.is „Ég er heill á húfi!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer nú söngurinn um "40 þúsund fífl í París" ekki að hljóðna?

Upphaf ráðstefnu um loftslagsmál í Reykjavík í fyrradag var að blaðamaður, sem efaðist um að loftslag á jörðinni færi hlýnandi, tók sig til fyrir mörgum árum og kom upp eigin myndavélum og tækjum til þess til þess að safna gögnum um sem flesta jökla, meðal annars íslenska. 

Niðurstaða hans var hin sama og blasað hefur við milljónum ferðafólks um áratuga skeið, til dæmis við Sólheimajökul. 

Engu að síður hefur söngur vantrúarmanna haldið áfram að heyrast, þótt heldur dragi úr honum. 

Fyrir aðeins nokkrum dögum var því til dæmis enn haldið fram af einum þeirra, að Ök jökull lifði enn góðu lífi og að það hefði falsfrétt að hann væri á förum. 

Og enn bregða vantrúarmenn fyrir sig orðum eins og "40 þúsund fífl í París" varðandi umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í þeirri borg.   

Síðuhafi hefur starfs síns vegna átt þess kost að fylgjast með íslenskum jöklum árlega í 60 ár, og sjá með eigin augum hvernig þeir hafa hopað. lækkað og styst á þessum tíma.   

Fór meðal annars með ömmu gömlu í heimsókn að Svínafelli í Öræfum þar sem hún átti var alin upp á árunum 1903 til 1918 og mundi glögglega eftir því hve stutt Svínafellsjökull átti eftir árið 1903 til að komast alla leið inn að bæjarhúsunum. 

En í umræðum um þessi mál hefur ríkt stanslaus söngur á samfélagsmiðlum og hér á blogginu um það að allar fréttir um áhrif loftslagshlýnunar á jökla heimsins séu lygar og falsfréttir.    


mbl.is Jöklar í Sviss minnkað um helming
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegirnir: Stórfelldur dulinn kostnaður vegna álags. Alvöru úttekt vantar.

Á einum fundanna í aðdraganda kosninganna 2007 gaf kunnáttumaður um vegagerð magnaða lýsingu á ástandi vegakarfisins hvað varðaði þungaflutnginga. 

Hann lýsti því hvernig þyngstu og stærstu flutningabílarnir á vegunum þrýstu vegunum svo mjög niður undir sér, að þeir líkt og sigldu í öldudal eftir þeim og brytu þá smám saman upp, langt umfram eðlilegan endingartíma. 

Þessi fjölfróði maður um vegina lýsti því skýrt hvernig þessi misþyrming á vegunum kostaði í raun tugi milljarða í dulinn kostnað. 

Af þessum sökum væri brýn nauðsyn að gerð yrði altæk og vönduð kostnaðargreining með samanburði á þessum flutningamáta og annarra, svo sem með skipum. 

En í hruninu 2008 var hins vegar þvert á móti framkvæmdur stórfelldur niðurskurður á framlögum til vegamála, þar sem farið var í þveröfuga átt og dregið einna mest úr viðhaldi á vegunum. 

Og enn í dag, 15 árum síðar, bólar ekkert á neinni úttekt á raunverulegum kostnaði vegna flutninga á Íslandi.  

Eitthvað smávegis er kvakað yfir þeim skemmdum á vegakerfinu sem stórfelldir flutningar á jarðefnum muni valda án þess að vita um, hve miklar þær yrðu í raun og veru í milljörðum talið. 


mbl.is Vegirnir bera ekki umferðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrándheimur og Cork eiga heima á íslenska listanum.

Þrándheimur í Noregi og Cork á Írlandi eru kannski umdeildar hvað það varðar, að þær séu í hópi vanmetnustu borga Evrópu. 

Hn hvað okkur Íslendinga varðar hafa báðar sérstakt sögulegt gildi fyrir okkur. 

Í Þrándheimi gerast mörg þekkt atvik í íslenskri sögu, svo sem kappsund Kjartans Ólafssonar við Noregskonung í ánni nið og misheppnaður eiður Grettis eftir Grettissundið hið fyrra auk þess sem Þránheimur og Þrændalög eru hvað hnattstöðu, menningu, stærð og sögu framar öllum öðrum erlendum slóðum líkust Reykjavík og Suðvesturlandi.  

í Cork á Írlandi eru skyldleikatengsl Íra og Íslendinga áberandi, því að Cork er öflugasta borgin í suðvesturhluta írlands, sem leggur mikið upp úr því að vera hin raunverulega írska borg með afar flott landslag ekki langt undan, en ekki með þann mikla breska blæ, sem Dublin hefur. 

Síðuhafi byggir þessa skoðun á tveimur ferðum til Þrándheims og Þrændalaga og á dvöl í Cork og ferðum um þann landshluta. 


mbl.is Þetta eru vanmetnustu borgir Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er einn möguleikinn við Fagradalsfjall upphafið á myndun dyngju? (Shield)

Það hefur af og til komð til tals í umfjöllun sérfræðinga um eldgos hér á landi, að hinar mörgu eldfjalladyngjur (shields) hér á landi, aðallega norðan Vatnajökuls, hafi orðið til í mjög langdregnum gosum, sem stóðu í jafnvel mörg ár. 

Þegar skjálftahrina var í gangi árin 2007 til 2008 á svæðinu norðan fjallsins Upptyppinga suður af Herðubreið, var minnst á þann möguleika að fjallið Álftadyngja vestan Fagradal væri í raun dyngja og að gos þar að nýju gæti orðið rólegt og langdregið "túristagos." 

Á Reykjanesskaga eru nokkrar dyngjur, og ein þeirra, Þráinsskjöldur, er í nágrenni Fagradalsfjslls. 

Þegar nú er verið að giska á nokkrar mismunandi "sviðsmyndir" er spurningin hvort einn möguleikinn á framhaldi Meradalagossins gæti orðið langdregið dyngjugos með myndun hliðstæðu Þráinsskjaldar.  

Og þar með sá möguleiki, að myndun slíks eldfjalls sem eins konar frænku Skjaldbreiðar og Trölladyngju, gæti orðið túristagos. 


mbl.is Stærri gos gætu orðið í öðrum eldstöðvum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugið í Eþíópíu hefur löngum afar sérstakt. "Draugavöllurinn" Arba Minch.

Á  ferðalagi um Eþíópíu 2003 og síðan 2006 kom í ljós að ástand flugmála í landinu var einstakt að mörgu leyti.  

Í fyrri ferðinni var flogið víða um landið á Cessna Skylane flugvél, sem hafði verið seld þangað suður frá Íslandi til nota fyrir kristilega trúboðsstarfið.

Á tímabili hafði þessi skammbrautarvél verið með einkennisstafina TF-FRÚ heima á Íslandi og meðal annars lent í Surtsey, á Bárðarbungu, við leikhúsið á Akureyri og á Esjunni. 

Í ljós kom að telja mátti eþíópískar einkaflugvélar í þessu landi hundrað milljóna íbúa á fingrum sér. 

Á yfirborðinu ríkti þá þjóðkjön ríkisstjórn, en í rauninni var hún alræðisstjórn, enda þekktu landsmenn ekkert annað stjórnarform. 

Með styrjaldarástand við Eritreu að yfirskini var ekkert einkaflug í landinu, en hins vegar gætti ríkisstjórnin þess að fylgja jafnan Bandaríkjamönnum að málum, og lét meira að segja bandaríska flugherinn gera árás fyrir sig á bækistöðvar múslimskra skæruliða í nágrannaríkinu Sómalíu. 

Eþíópíumenn tóku upp náið samstarf með Bandaríkjamönnum í rekstri eina flugfélagsins í landinu, Ethiopian Airlines, sem varð nokkurs konar flaggskip landsins út á við með umsvifamiklu alþjóðaflugi.  

Allir innviðir þess flugfélags voru gerðir með hjálp Bandaríkjamanna. 

Á tímabili stóð til að efla innanlandsflug og var meðal annars gerður þessi fíni flugvöllur við borgina Arba Minch fyrir sunnan Addis.  

Þar var reist aldeilis kostuleg flugstöð, þar sem ekkert var til sparað og gölf öll voru úr marmara! 

Þegar við lentum þarna á vellinum var hann alger draugaflugvöllur, engin flugumferð önnur og hús mannlaus. 

Það var alveg í stíl við það að flugvélar flaggskips þjóðarinnar séu með sofandi flugmenn við stýrin og lendi á röngum flugvöllum. 

Þjóðartekjur á mann í Eþíópíu eru 300 sinnum lægri en á Íslandi og fátæktin yfirþyrmandi. 

Eitt er þó í lagi í landinu, af því að að það á annað flaggskip en ríkisflugfélagið. 

Það er forláta kóka-kóla verksmiðja í Addis, sem sér til þess að ekkert strákofaþorp er svo aumt, að ekki sé hægt að kaupa þar þennan þjóðardrykk, sem fæstir hafa þó efni á að kaupa! 


mbl.is Lenti óvart á flugvelli í byggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Seljum fossa og fjöll, föl er náttúran öll!"

Þessa dagana linnir ekki nýjum fréttum af stórfelldum umsvifum til að seðja sívaxandi orku- og neysluþörf mannkynsins með því að flytja milljónir tonna af íslensku hráefni þúsundir kílómetra með tilheyrandi mengun. 

Skammsýni nútíma jarðarbúa fer nú líka hamförum hér á landi á fleiri sviðum, því að það er ekkert nærtækara orð en hamfarir sem hægt er að nota yfir hinar hrikalegu háu tölur, sem menn nota um allar risa fyrirætlanirnar eins og tugi vindmillugarða sem framleiði tíu sinnum eða tuttugu sinnum meiri orku en nemur allri núverandi orkuframleiðslu. 

Og kalla á þá framtíðarsýn, að 95 prósent allrar orku landsins fari til stóriðju í eign útlendinga, en aðeins 5% til íslenskra fyrirtækja og heimila. 

 

Vindmyllugarðarnir hér heima eiga að verða uppi á það háum fjöllum margir hverjir, að spaðarnir munu ná upp fyrir hæstu fjöll, eins og til dæmis á Brekkufjalli í Hvalfirði. 

Við nánari athugun kemur í ljós að spaðarnir stór tætast í sundur á 10 til 15 árum og dreifast sem eitraðar öragnir um umhverfið, auk þess sem farga þarf þeim og urða.   

Hvergi í öllum þessum ósköpum örlar á öðru en ítrusu skammsýni. Meira að segja þjóðþrifafyrirtæki eins og skógræktin stendur víða að miklu raski á jarðvegi, sem mun jafnvel auka kolefnisfótspor en minnka, einmitt á næstu árum, þegar mest er þörf á að koma á kolefnisjöfnun sem fyrst. 

Flosi Ólafsson heitinn söng á sínum tíma þriggja ljóðlína texta sinn við lag Magnúsar Ingimarssonar: 

"Seljum fossa og fjöll!

Fðl er náttúran öll! 

Og landið mitt taki tröll!" 


mbl.is Tuttugu milljarðar fást fyrir jarðefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi að vita hvað sykurinn er mikill í nýja Póló.

Álitið á gosdrykkjum hefur breyst mikið á síðustu árum í kjölfar aukinnar meðvitundar um það hve þeir eiga stóran þátt í sívaxandi tíðni sykursýki. 

Á umbúðum þeirra eru upplýsingar um magn, sem sýnist í fljótu bragði sakleysislegt, 10 grömm af af hverjum hundrað. 

Flestar venjulegar kextegundir, einkum súkkulaðikex, eru með tölu í kringum 30.  

En það er ekki allt sem sýnist eða er einhlítt í þessu efni, því að magnið, sem drukkið er, getur valdið því að þetta verða 100 til 200 grömm á dag ef dagleg neysla er tvær til fjórar hálfs lítra flöskur. 

Prins Póló kex er skráð með 14 grömm á hver 100, sem er raunar grunsamlega lág tala með hliðsjón af magninu í sætu kexi eða súkkulaðiblönduðu snarli 

Hvert Prins Pólo kex er 35 grömm, þannig að það þarf 30 stykki til að komast yfir 1000 grömmin. 

Á yngri árum var síðuhafi drúgur við drykkjuna á Póló.  Drykkurinn fellur fólki misjafnlega í geð, og geta meira að segja verið miklar sveiflur hjá hverri persónu í því efni. 

Þegar móðir mín gekk með fimmta barn sitt varð hún alveg sjúklega sólgin í Póló, það stóð aðeins í hluta af meðgöngutímanum. 

En nægði samt til þess að skapa það ástand, að hún var alla daga að senda mann margar ferðir frá Stórholtinu yfir í verslunina Ás á Laugaveginum eftir þessum eðaldrykk. 

COVID hefur haft misjöfn áhrif á bragðskyn, og gildir það um fleira, því að mánuðina sem ég var með lifrarbrest og stíflugulu, varð ég skyndilega sjúkur í drykkinn Mix, sem áður hafði ekki notið neinnar hylli, en í staðinn hrundu kóladrykkirnir gersamlega í vinsældum á þessu tímabili. 

Áður hefur verið sagt frá Akureyrarfyrirbrigðinu Icecreamsóda, sem Hemmi Gunn kynnti fyrir Reykvíkingum á góðviðrisdögum fyrir norðan og samanstóð af mjólkurhristingi, shake, með Mixi viðbættu í ákveðnu hlutfalli.  

 


mbl.is Þjóðin tilbúin fyrir Póló á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband