Færsluflokkur: Bloggar

"Tveir í Tungunum..."

 Nú funda þeir Sigmundur Davíð og Bjarni Ben í Biskupstungum. Þar í sveit er þetta nú sungið: 

 

Þeir eru tveir í Tungunum

og til í hvað sem er, 

hundleiðir á heimilum

sem hæst nú barma sér. 

Eftir fjögur ár í forinni 

þeim finnst þeir verðskulda

að horfa´úr stjórnarhöllinni

yfir höfuðborgina. 

 

        Þeir eru útbelgdir á ýmsum stöðum, 

        en nú reyna mjög sættir,

        klofnir upp að herðablöðum, 

        hávvaxnir og langfættir. 

        Ánægðir og ósammála, 

        allt þó fari´í keng, 

        Valdaþyrstir víkingar 

        í voðalegum spreng. 

        

Í snjóhengjunnar öngþveiti

þeir æða á krónufar 

og hamstra hundruð milljarða 

af hrægömmunum þar. 

 Simmi Gunnlaugs glennir sig

í grimmum skuldaræl, 

rennur svo´á rassgatið 

við að redda´öllu með stæl. 

 

        Þeir hafa auma bletti´ á ýmsum stöðum, 

        en þó bera sig mjög vel,

        Klofnir upp að herðablöðum,

        hæfir þarna kjaftur skel, 

        ánægðir og ósammála, 

        allt þó fari´í keng, 

        valdaþyrstir Vafningar 

        í voðalegum loforðaspreng ! 

      

  

 


mbl.is Viðræður áfram í Biskupstungum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leggst boltinn í ættir ?

Það getur verið gaman að fylgjast með þvi hvernig engu er líkara en að sumir hæfileikar leggist í ættir.602289b.jpg

Þetta kemur upp í hugann þegar fréttir berast af fljúgandi starti Mistar Edvardsdóttur í norsku úrvalsdeildinnii.img_7923.jpg

Fyrir neðan myndina af Mist er mynd af föður hennar, Edvardi Ragnarssyni 17 ára gömlum ásamt langömmu og langafa Mistar, Sigurlaugu Guðnadóttur og Edvardi Bjarnasyni. 

Myndin er plokkuð á ófullkominn hátt úr úr 53ja ára gamalli litkvikmynd, sem mér hefur áskotnast og Gunnlaugur Þorfinnsson tók í boði, sem afi Mistar, Ragnar Edvardsson, og amma hennar, Jónína Þorfinnsdóttir, héldu amerískum hjónum í heimsókn þeirra til Íslands sumarið 1960. img_7875.jpg 

Ragnar Edvardsson var sumarið 1939 aðeins 17 ára gamall útnefndur efnilegasti leikmaður Fram, sem varð Íslandsmeistari bæði í 1. flokki og mestarflokki.

Hann hafði alist upp á Skólavörðuholtinu með nokkrum af leiknustu knattspyrnumönnum þess tíma, svo sem Alberti Guðmundssyni, og bætti þar hver annan. 

Á mynd hér við hliðina situr Sigrún Gísladóttir, kona Gunnlaugs, á milli Ragnars og Jónínu. img_7907.jpg

Sumarið eftir var hann kominn á kaf í Bretavinnuna og að eignast fjölskyldu og þar með endaði knattspyrnuferill hans.

Nú er það svo, að hæfileikar erfast að sjálfsögðu ekki alfarið frá öðru foreldrinu til afkomanda, heldur getur þetta verið blandað, en engu að síður er gaman að velta upp þetta mörgum nöfnum úr sama ættarsamfélaginu. Þannig gæti ýmislegt hafa komið úr ætt Jóhönnu Magnúsdóttur, konu Edvards og sömuleiðis hjá öðrum, sem nefnd eru hér fyrir neðan, svo sem Margréti Ólafsdóttur, Rúriki Andra Þorfinnssyni og Olgeiri Óskarssyni.   

Mist og Margrét Ólafsdóttir eru systkinabörn, - Margrét er dóttir Ólafar Ragnarsdóttur, sem er 12 ára á myndinni hér fyrir ofan, og manns hennar, Ólafs Jóhanns Sigurðssonar.  img_8075.jpg

Eins og afi Magrétar, Ragnar, var Margrét útnefnd efnilegasti leikmaður úrvaldsdeildar Íslandsmótsins á sínum tíma og var landsliðskona og í allra fremstu röð íslenskra knattspyrnukvenna á þeim árum, - burðarás í landsliðinu.

Ekki er til nein mynd, svo vitað sé af Ragnari Edvardssyni með boltann, en í litkvikmyndinni frá 1960 bregður honum fyrir í 7 sekúndur, sem lýsa honum kannski betur en tveggja klukkustunda heiildarmynd um hann hefði getað gert. img_8073.jpg

Í þessar fáu sekúndur sést hann ganga niður tröppurnar á Stórholti 33. img_8078.jpg

Í lífsnautn augnabliksins býr hann til þögulan einleik í gamanleikriti með líkamstjáningu sem gefur til kynna hvað gerði hann svona skemmtilegan knattspyrnumann. 

Hann var maður augnbliksins, þetta var sjálfsprottið eins og þegar fugl byrjar að syngja.

Ef hann hefði verið beðinn um að gera þetta aftur hefði hann ekki getað það, heldur gert eitthvað allt annað.  img_8082.jpg

Magnús Edvardsson, bróðir Mistar, var afar efnilegur knattspyrnumaður á sínum tíma. img_8080.jpg

En meiðsli settu strik í reikninginn hjá Magnúsi, og eins og afinn lét hann staðar numið við dyr frægðarferils.

Rúrik Andri Þorfinnsson, 21. árs sonarsonarsonur Ragnars Edvardssonar, (sonur Önnu Hauksdóttur og Þorfinns Ómarssonar) hefur verið úrvaldsdeildareikmaður hjá Fylki, en spilað í vetur með liði háskóla í Texas, þar sem hann er við nám. img_8079.jpg

Og enn komum við að því, að knattspyrnuhæfileikar geti komið úr mörgum áttum. img_8076.jpg

Annað langafabarn Ragnars, Sigurður Kristján Friðriksson (og Iðunnar Ómarsdóttur), spilar nú aðeins 18 ára með meistaraflokki Fram og er stórefnilegur, enda knattspyrnan úr báðum ættum, því að afi hans og alnafni var í gullaldarliði Fram fyrir fjórum áratugum.

Enn ber að nefna Olgeir Óskarsson, langafabarn Ragnars Edvardssonar, (sonur Óskars Olgeirssonar og Jónínu Ómarsdóttur),  sem var snjall frálsíþróttamaður í yngri flokkum og var að vinna sig upp í fremstu röð í knattpsyrnunni hjá Fjölni þegar slæm meiðsli settu strik í reikninginn.

Mér er kunnugt um að fleiri upprennandi knattspyrnustjörnur séu á leiðinni, svo sem í hópi afkomenda Jóns R. Ragnarssonar og Petru Baldursdóttur, og það verður gaman að fylgjast með því þegar komið verður upp í meistaraflokka eftir innan við áratug. 

 


mbl.is Mist kom Avaldsnes á bragðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólaði daglega ofan af Hellisheiði í 9 ár.

Í níu ár samfleytt bjuggu hjónin Blómey Stefánsdóttir og Óskar Magnússon í næstum 400 metra hæð yfir sjávarmáli í litlum torbæ uppi á fjalli fyrir ofan Skíðaskálann í Hverdölum.

IMG_7937

Óskar vann við Reykjavíkurhöfn og hjólaði 35 kílómetra leið til vinnu daglega, jafnt að vetri sem sumri. 

Hann var þá kominn vel á sjötugsaldur en trúarhiti, eldmóður og reiði í garð þjóðfélagsins hélt honum gangandi.

Myndin af torfbænum er tekin seint í maí þegar jörð er búin að vera auð í meira en mánuð niðri við sjó. 

Hann hafði áður byggt magnað hús í Blesugróf, sem kallað var "Kastalinn" en hafði þurfti að hrekjast úr því 1973 þegar Breiðholtsbraut var lögð þar.

IMG_7935

Segja kunnáttumenn um arkitektúr og húsasmíði að Kastalinn hafi verið stórmerkilegt hús (Sjá mynd hér fyrir neðan)  

Hann gerðist utangarðsmaður í mótmælaskyni í torfbænum litla sem hann reisti á fjallinu og þraukaði þar með konu sinni í heil níu ár við sérstaklega erfiðan kost þar sem vetrarríki og stórviðri ríktu líkt og á hálendi væri langt fram á sumar og stundum strax aftur í september.

Sagt er frá þessum einstæða "sérvitrningi" og einhverjum besta batik-listamann Íslands í bókinni "Mannlífsstiklur".   


mbl.is 68 ára og hjólar allt árið í vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanmat á erfðafræðilegri færslu vitneskju dýranna?

Vanmat manna á getu dýrategunda til að nýta sér reynslu sína í leit að lífsskilyrðum í náttúrunni hefur lengi verið mikið. Það er algeng hugsun að dýr séu svo heimsk að þau geti ekki lært af því  hvernig umhverfi þeirra og aðstæður breytast. 

Þetta vanmat er furðulegt í ljósi ótal dæma um það hvernig dýr, fuglar og plöntur virðist "læra" af reynslunni ár frá ári, til dæmis vegna hlýnandi loftslags, og farfuglar komi til dæmis til landsins fyrr með hverju árinu, svo "heimskir" sem þeir eiga víst að vera.   

Vísindamenn hafa hins uppgötvað að vitneskja um umhverfisaðstæður geti jafnvel erfst á milli kynslóða, svo ótrúlegt sem það hljómar.

Í ljósi mikilla framfara í rannsóknum á þessu atriði er furðulegt hvernig menn leita nú að öllum mögulegum skýringum á því að hrefnu fækkar í flóanum og þær eru fælnari á Faxaflóa eftir að hvalveiðar hófust þar aftur. 

Gripið er til hins sama og við Mývatn þegar lífríkinu hnignaði þar eftir að Kílisliðjan tók til starfa og hafið var kísilnám í vatninu, - allra mögulegra annarra skýringa er leitað en að um áhrif frá inngripi mannanna sé að ræða, - allt annað en að Kísiliðjan, kísilnámið eða áhrif vaxandi byggðar og umferðar hafi valdið hruninu, sem nú er orðið í vatninu, og þvert á móti ætlunin að fara út í stórfelldar virkjanaframkvæmdir á svæði með afar flóknu og viðkvæmu lífríki. 

Eftir að mikil umferð og umrót hafði verið á Kárahnjúkasvæðinu í nokkur ár, en hreindýrin voru þar á kjörsvæði, sem þau höfðu sjálf valið sér á rúmlega tveimur öldum, sem þau höfðu verið þar, - brá svo við að þau fluttu sig að mestu leyti norður á Fljótsdalsheiði og víðar og hafa ekki komið suður eftir aftur, enda er hagkvæmasta svæðið fyrir þau þar nú komið undir Hálslón.

 

Sem betur fer hefur loftslag farið hlýnandi hér á landi síðustu ár þannig að missir hreindýranna á besta svæðinu fyrir þau hefur ekki komið að sök eins og annars hefði orðið.

Ekkert slíkt happ getur hins vegar komið í veg fyrir það tjón fyrir hvalaskoðun frá Faxaflóahöfnum getur orðið fyrir ef hvalir eru smám saman annað hvort fældir í burtu eða verða fælnari, svo að fótunum verði kuppt undan hvalaskoðuninni.

Á síðasta ári fjölgaði þeim, sem komu til hvalaskoðunarferða til Ísland, um 45 þúsund.  Fjárhagslegir hagsmunir vegna hundruða þúsunda hvalaskoðunarferðamanna ár hvert hljóta að vera orðnir meiri en hagsmunirnir vegna hvalveiðanna og sé einhver vafi um áhrif veiðanna, eigi hvalaskoðunarferðirnar að njóta þess vafa en ekki öfugt.     


mbl.is Hvalveiðar í Faxaflóa verði bannaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Lömuð önd."

Þótt formlega sé ekki hægt að sjá að svonefndar "starfsstjórnir" hafi minni völd en venjulegar ríkisstjórjnir hefur fyrir löngu myndast um það hefð í þingræðisþjóðfélögum að starfsstjórnir sinna aðeins óhjákvæmilegum embættisskyldum sínum en forðast að taka stefnumarkandi ákvarðanir eða ákvarðanir, sem geta beðið. 

Stundum er það svo, að undir lok kjörtímabils eru sitjandi forsetar eða ráðherrar kallaðir "lame ducks" eða" lamaðar endur" þegar lýst er stöðu þeirra gagnvart valdi þeirra.

Þetta á til dæmis oft við í Bandaríkjunum.

Ýmis dæmi eru um það hér á landi að ráðherrar hafa freistast til að framkvæma hluti örfáum dögum fyrir kosningar, sem jafnvel hafa legið í þagnargildi, enda ætlunin sú.

Dæmi um það er frá aðdraganda kosninganna 2007. Þá héldu Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra blaðamannafund rúmum tveimur vikum fyrir kosningar og kynntu þann vilja sinn, ef þau yrðu áfram í embættum, að komið yrði á fyrirkomulagi þar sem alveg yrði tekið fyrir það að virkja á þeim stöðum á Íslandi sem væru með mest náttúruverðmæti, nema að undangenginni sérstakri yfirgripsmikilli og vandaðri meðferð og með sérstöku samþykki Alþingis.

Inni á lista yfir þessa staði voru svæði eins og Askja, Kverkfjöll, Torfajökulssvæðið, og sérstakt svæði sem þau gáfu heitið "Leirhnjúkur-Gjástykki".   

Þetta síðasta var afar mikilvægt, því að þetta er áberandi landslagsheild Kröflueldanna 1975-84.  

Því miður er ekkert tillit tekið til þessa í mati á umhverfisáhrifum stækkunar Kröflu og er það hneyksli.

Með frumkvæði sínu í þessu efni náði Framsókn sér í fylgi, sem annars hefði farið yfir á Íslandshreyfinguna. Tókst samt ekki að verjast tapi því að nógu mikið fór samt frá þeim. 

Nokkrum dögum fyrir kosningar gaf iðnaðarráðherrann hins vegar leyfi til handa Landsvirkjun til að hefja tilraunaboranir í Gjástykki, en það þýðir oftast að fjandinn er laus, einkum á svæði eins og Gjástykki þar sem raskað er nýrunnu hrauni. Þetta vitnaðist ekki fyrr en eftir kosningar.

Mér þótti þetta afar miður, vegna þess að ég hef haft mikið álit á Jóni Sigurðssyni sem gegnum og góðum manni og hef þrátt fyrir þetta ekki skipt um skoðun í því efni, - öllum getur orðið á í hita leiks. 

Þegar ég frétti þetta bloggaði ég um það og var svo heppinn að hitta Össur Skarphéðinsson, sem varð iðnaðarráðherra á eftir Jóni út undir vegg í Skaftafelli og gera honum grein fyrir því að Gjástykki væri ekki aðeins ígildi Öskju að náttúruverndargildi, heldur stæði það jafnvel Öskju framar, og að Össur vissi vel um gildi Öskju eftir að hafa verið í nefnd um Vatnajökulsþjóðgarð og farið í ferðir um það svæði.

Össur tók sig til og vann að því sjálfur og nánast einn í ráðuneytinu að ganga þannig frá þessu máli að ekki yrði farið til þeirra borana í Gjástykki, sem lagt hafði verið drög að fyrir kosningar. Tel ég að þetta verk Össurar verði honum til sóma meðan land byggist.  

Ein af skýringunum á því hve illa gekk að koma stjórnarskrármálinu í gegn á Alþingi í vetur kann að vera sú að þáverandi meirihluti þingmanna hafi verið búinn að fá það á tilfinninguna að tapa stórt í kosningunum og vera að því leyti orðinn eins og "lömuð önd".

Enda höfðu stjórnarandstæðingar hótað því að snúa öllu til baka eftir kosningar ef / þegar þeir kæmust til valda.

Og skýringin á því af hverju 71. grein þingskapa var ekki beitt gegn taumlausu málþófi stjórnarandstöðunnar gæti verið sú, að ef það hefði verið gert, myndi næsta stjórn Sjalla og Framsóknar beita þeirri sömu grein gegn þingmönnum Samfylkingar og Vg.

Ef þetta er ástæðan, er svona ástand þegjandi samtryggingar kjörtímabil eftir kjörtímabil arfaslæmt, því að beiting málþófs keyrði um þverbak síðasta vetur og jafnvel fyrr á kjörtímabilinu.


mbl.is Starfsstjórn má gera hvað sem er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað selja kolvetnin, - pappír ?

"Kolvetnin selja" er fyrirsögn fréttar í dag. Ég hélt að kolvetni væru næringarefni sem gætu fitað mann eða örvað líkamsstarfsemina en hitt vissi ég ekki, að þau gætu selt hluti.

Hvað selja kolvetnin? Selja þau pappír? Selja þau bækur? Ég hélt að bóksalar og búðir seldu bækur.

Og hvað fá kolvetnin fyrir að selja eitthvað, sem ekki er nefnt? Peninga? 

Ef maður borðar yfir sig af sykri og sætindum, kolvetni í of miklu magni, getur manni orðið bumbult og selt upp. Það sýnist mér vera nokkurn veginn það eina, sem kolvetnin geti selt, selt upp. Samt langsótt að orða það þannig og raunar rangt, því að við seljum kolvetnunum upp ef svo ber undir en þau selja ekki neinu, hvorki upp né niður. 

Og þar með liggur það fyrir að ég skil hvorki upp né niður í fyrirsögninni.  


mbl.is Kolvetnin selja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, nei, nei, - ekki hætta !

Það er ekki oft sem handboltamaður hefur glatt mig eins mikið og Sigurður Eggertsson hefur gert í leikjum sínum í vetur og vor.  Ekki með því að stökkva himinhátt upp og þruma boltanum í skeytin, heldur með því að skjóta neðar, oftast í gegnum varnarveggi, að því er virðist í hvaða hæð sem honum þóknast.

Slík fjölbreytni og útsjónarsemi í skottækni og skotum er einstök og manni koma helst í huga Geir Hallsteinsson og Guðjón Jónsson á sinni tíð. 

Af því að þeir Geir og Guðjón tóku ekki upp á því að hætta einmitt þegar þeir voru að ná flugi, heldur glöddu þjóðina árum saman, þá vil ég leyfa mér að vera svo ósvífinn að biðja þau mæðgin, Sigurð Eggertsson og mömmu hans, að endurskoða ákvörðun sína. 

Hygg ég að ég mæli þar fyrir munn margra. En auðvitað geri ég mér grein fyrir því að það er frekja að vera að blanda sér í einkamál fólks með svona beiðni, og nær að þakka fyrir það að Sigurður hefur lægt þá rækt við íþrótt sína sem bar svo ríkilegan ávöxt síðustu mánuði og vikur. 

 


mbl.is Sigurður: Hættur fyrir mömmu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins aftur, eftir 43ja ára hlé!

Tveir handknattleiksþjálfarar settu mest mark á íslenskan handbolta fyrir 50-60 árum, Hallsteinn Hinriksson sem þjálfaði FH og Karl Benediktsson, sem þjálfaði Fram. Hallsteinn var fyrr á ferðinni og hafa sumir kallað hann föður íslensks handbolta, en þess má geta að handbolti var líka spilaður í litla íþróttahúsinu við M.R. og stóð Valdimar Sveinbjörnsson að því. 

Hafa mér fundist furðu gegna hugmyndir um að rífa þennan einstaka íþróttasal, hinn fyrsta, sem reistur var sérstaklega á Íslandi.

FH átti stórstjörnur í kringum á sjöunda áratug síðustu aldar, Geir og Örn Hallsteinssyni, Ragnar Jónsson, Birgi Björnsson, Hjalta Einarsson, Einar Sigurðsson, Pétur Antonsson o.fl., og voru það einkum skytturnar, sem voru rómaðar. 

Karl Benediktsson lét Fram spila öðruvísi handbolta, sem treysti meira á liðsheildina og leikkerfi með öguðum varnarleik og sókn með línuspili, sem hafði mikil áhrif á hinn blómstrandi íslenska handbolta á þessum áratug þegar Íslendingar urðu allt í einu í röð efstu þjóða á HM.

Dæmi um nýja tegund af skyttum var Guðjón Jónsson, sem skoraði yfirleitt með lúmskum lágskotum í gegnum varnarveggi á svo hógværan hátt að maður tók varla eftir því.

Upp úr 1970 kom fram tvíeykið Axel Axelsson og Björgvin Björgvinsson, sem var eitt hið besta tvíeyki sinnar tegundar sem ég minnist, - Axel sem skyttan og Björgvin sem línumaðurinn.

Því miður er ekki til einstætt myndbrot sem tekið var af þeim tveimur í landsleik við Austur-Þjóðverja þar sem Axel lyftir sér upp fyrir framan þéttan varnarvegg steratröllanna og skýtur föstu skoti, ekki yfir veginn, heldur niður á við, þar sem á milli tveggja varnartrölla sjást tvær útglenntar hendur og tvö augu á milli þeirra. 

Þar var Björgvin sem greip hið fasta skot, sneri sér eldsnöggt og skoraði!

Það er ekki tilviljun að Fram vann síðast tvöfalt 1970. Þá stóð sérstakt blómaskeið félagsins sem yljar enn í minningu gamals Fram-hjarta.  


mbl.is Tvöfalt hjá Fram í þriðja sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Grafningsstjórnin"?

Nú hefur verið upplýst að stjórnarmyndunarviðræðurnar fari fram í landi Ölvesvatns í Grafningi og hefur alls konar heitum verið varpað upp í stíl við það þegar Viðeyjarstjórnin fékk nafn eftir staðnum, þar sem stjórnarmyndunarviðræðurnar fóru fram, og Þingvallastjórnin, sem var mynduð á Þingvöllum. 

"Ölvesvatnsstjórnin" er greinilega bæði langt og óþjált heiti og líka "Þingvallavatnsstjórnin."

"Grafninsstjórnin" er þjálla og skárra en sumt annað samanber þessa vísu, sem ég skaut fram á hagyrðingamóti í Kópavogi í kvöld: 

Að nefna stjórnina´er vandaverk, 

svo verði´hennar staða góð og sterk. 

Að gefa´henni nafnið Grafningssstjórn

mér gest betur að en Vafningsstjórn. 


mbl.is Ræða einföldun á skattkerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er gert hér á landi en er vandasamt.

Nútíma tækni í læknavísindum gerir það kleift að halda lífi í fólki löngu eftir að það er til neins. Af því leiðir að svonefnd líknardráp gerast hvort sem fólki líkar það betur eða verr, líka í þeim löndum, þar sem slíkt er ekki leyft samkvæmt lagabókstafnum.

Ég hygg að flestir þekki dæmi um svona tilfelli og þar með vaknar spurningin hvort skárra sé að hafa þetta eins og það er eða að setja um það reglur, sem séu það strangar og öruggar að komið sé með öllum ráðum í veg fyrir að eitthvað fari úrskeiðis eða sé ekki rétt metið. 

Ég veit um tilfelli þar sem börn hinnar deyjandi öldruðu manneskju treystu sér ekki til þess að taka ákvörðun um það hvenær hinn óhjákvæmilegi verknaður eða öllu heldur verkleysi að hluta til færi fram. 

Ákveðið var að fela það mat hinu reynslumikla og góða fagfólki sem viðhélt banalegunni vikum saman,  hvort og hvenær þetta yrði látið gerast. 

Í stað þess að aðstandendur ákvæðu dauðadægrið á þann hátt að allir gætu verið viðstaddir, var það niðurstaðan að fagfólkið tæki ákvörðunina um að draga nægilega úr hjálpinni við að halda við lífsmarki sem fjaraði svo óskaplega hægt út. 

Með því móti bæri dauðann að gagnvart hinum nánustu eins og um "eðlilegan dauða" væri að ræða. 


mbl.is Fékk aðstoð við andlátið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband