Færsluflokkur: Bloggar
3.5.2013 | 21:49
"Hver er þessi eina á...?"
Glerá litast ekki í fyrsta sinn á þessum degi. Meðan verksmiðjur SÍS stóðu við ána með fjölbreyttan iðnað sem þurfti litunarefni, litaðist hún stundum og varð marglit.
Þá var gerð þessi vísa:
Hver er þessi eina á,
sem aldrei frýs,
gul og rauð og græn og blá
og gjörð af SÍS ?
![]() |
Blóðrauð Glerá eftir litarefni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2013 | 13:54
Siðgæði er kall þessarar aldar.
Bætt siðgæði er kall 21. aldarinnar, því að án aukins siðgæðis mun mannkynið ekki komast í gegnum öldina án mikilla ófara. Þess vegna er fagnaðarefni framlag fimm háskólamanna í formi ákalls um þetta.
Mannkynið mun heldur ekki komast í gegnum siðferðilegar áskoranir þessarar aldar rányrkju á auðlindum jarðar, tillitssleysis gagnvart komandi kynslóðum og arðráns, nema að sú siðbót verði hjá fólki, sem aðhyllist margs kyns trúarbrögð og lífskoðanir.
Þótt hverjum finnist sinn fugl fagur í því efni eru ákveðin gildi sígild í siðferðilegum efnum, sem mynda grunnstoð hverra trúarbragða og hverrar þeirrar lífskoðunar, sem berst fyrir réttlæti, sanngirni, frelsi og jafnrétti.
![]() |
Stórt skref í mannréttindabaráttu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.5.2013 | 23:21
Á þessu svæði ætti að finna víkingaskipi stað.
Það er dæmigert fyrir þrönga hugsun í sambandi við skipulagið á þeim stað, þar sem Ingólfur Arnarson lagði að landi að kalla svæðið "Landsbankareitinn" og hugsa í þúsundum fermetra af skrifstofuhúsnæði.
Ingólfur Arnarson kastaði öndvegissúlunum fyrir borð við flæðarmálið svo þær ræki á land á þeim stað á Íslandi sem líkastur var Hrífudal í Noregi. Súlurnar voru heimilisguðir eða heimilisvættir Ingólfs og í flæðarmáli hefur væntanlega farið fram trúarleg athöfn þar sem heimilisvættirnir friðmæltust við landvættina.
Þegar sagan er skrifuð, meira en 200 árum síðar, er þau tvö atriði að vísu rétt að Ingólfur hafi kastað súlunum fyrir borð og þær hafi rekið á land í Reykjavík. En vegna hafstrauma gat hann ekki hafa kastað þeim fyrir borð annars staðar en mjðg skammt frá þeim stað þar sem þær rak á land.
Það er skömm fyrir Reykjavík að hafa látið Keflavík taka að sér það hlutverk varðandi landnámið og víkingatímann, sem Reykjavík hefði fyrir löngu átt að þjóna og vanrækir enn stórlega.
Til Reykjavíkur sigldu Ingólfur og Hallveig, dönsku konungarnir stigu hér á land, svo og Nóbelskáldið og Þorbergur Þórðarson og Nelson og Lindberg lentu við höfnina.
Ekkert markvert er hins vegar vitað um, sem hafi komið á land í Keflavík, ekki einu sinni Svartadauði! Með þessu er ég ekki að hnýta í Keflvíkinga. Þeir eiga heiður skilið fyrir það að hafa sinnt því sem höfuðborgin vanrækti.
![]() |
Landsbankareiturinn til sölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
2.5.2013 | 20:30
Launsátur og blekkingar, skuggahliðar netfrelsisins.
Netheimar, nethagkerfi og netlýðræði eru meðal þeirra nýyrða, sem hafa skapast með netbyltingunni.
Net- og samskiptabyltingin hefur þegar skapað nýjar aðstæður víða um heim, og vafasamt má til dæmis telja að lýðræðisvorið í Arabalöndunum hefði skollið á með byltingu í Egyptalandi og Túnis og borgarastyrjöld í Sýrlandi.
Þessi bylting og frelsið og möguleikarnir, sem hún hefur leitt af sér, er fyrirbæri sem afar mikilvægt er að vernda og þróa til góðs vegar. Þess vegna eru setningar um það í frumvarpi stjórnlagaráðs, sem tryggja eiga að þar ríki nauðsynlegt frelsi og gagnsæi.
En netbyltingin á sér líka skuggahliðar eins og sést á þeim lágkúrulegu skrifum, sem nú hafa réttilega vakið óróa í netheimum. Því miður er þetta ekki einsdæmi. Óprúttnir aðilar komast því miður upp með það að vega úr launsátri í skjóli nafnleyndar eða sigla jafnvel undir fölsku flaggi.
Nafnleynd kann að eiga rétt á sér í afmörkuðum tilfellum í fjölmiðlum, og nafnlausar forystugreinar og pistlagreinar í blöðunum hafa verið við lýði í minnsta kosti 90 ár. Má þar nefna höfunda eins og "Hannes á horninu", "Velvakanda" og "Reykjavíkurbréf" auk nafnlausra leiðaraskrifa.
Komið geta upp tilfelli þar sem upplýsingar, sem eiga erindi til almennings, verða að njóta nafnleyndar, því að öðru kosti þori viðkomandi ekki að láta þær koma fram. Þetta þekkja flestir blaðamenn, sem hafa verið einhvern tíma í því starfi. Í hugann kemur "Litli Landssímamaðurinn."
En hvimleitt er þegar lúalegar, harkalegar, ósanngjarnar og jafnvel upplognar árásir eru gerðar úr slíku launsátri, að ekki sé minnst á þann ódrengskap að gera þær undir fölsku flaggi.
![]() |
Fordæma árásir á Sigmund Davíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2013 | 08:26
"Því ber öllum að virða hana og vernda..."
"Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Því ber öllum að virða hana og vernda."...segir í þeim kafla frumvarps stjórnlagaráðs, sem ber yfirskriftina "Mannréttindi og náttúra."
Því fer hins vegar enn fjarri að náttúra Íslands, sem er ígildi handrita okkar tíma, njóti virðingar eða að það sjónarmið sé haft í heiðri að virða hana og vernda.
Raunar var í upphafi lögð fram tillaga um að upphaf greinanna um náttúru Íslands hljóðaði svona: "Náttúra Íslands er friðhelg. Því ber öllum að virða hana og vernda."..., en ekki fékkst meirihluti fyrir því í stjórnlagaráði.
Stendur þó óhaggað í grein um eignaréttinn: "Eignarrétturinn er friðhelgur."..., og var í rökstuðningi mínum fyrir sams konar ákvæði um náttúruna vísað til þessarar hliðstæðu.
En niðurstaðan, að fara vægar í sakirnar varðandi náttúruna, sýnir, að enn á sú hugarfarsbreyting nokkuð í land að meta verðmæti óspilltrar og einstæðrar íslenskrar náttúru eins og vera ber, og spellvirkin í Hverfjalli og Grjótagjá eru dæmi um.
Allt vatnakerfið undir Hveraröndinni í Námaskarði, Bjarnarflagi, Grjótagjá og Mývatni er afar flókið, svo flókið, að í mati á umhverfisáhrifum treysta menn sér ekki til þess, til dæmis, að sjá fyrir hvort fyrirhuguð Bjarnarflagsvirkjun muni verða til þess að virknin í Hverarönd hverfi, standi í stað eða jafnvel aukist.
Þetta hverasvæði er það eina, sem stendur við hringveginn.
Nú, þegar ætlunin er að þrítugfalda afl Bjarnarflagsvirkjunar, er því gróflega brotið gegn þeirri hugsun Ríó-sáttmálans, sem Íslendingar hafa undirritað, að náttúran "eigi að njóta vafans.
Því var kröfuspaldið með áletruninni "Mývatn! eitt helsta spjaldið, sem borið var í grænu göngunni í gær.
P. S. Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því, eins og sjálfsagt er, að í 1. maí-göngunni í gær hafi verið hópur fólks, líklega rúmlega 50 manns, sem mótmælti inngöngu Íslands í ESB. Það er fréttnæmt og frásagnarvert vegna þess að áhrifamenn í verkalýðshreyfingunni hafa margir verið meðmæltir inngöngu, þótt skiptar skoðanir séu um það mál í hreyfingunni, og því eðlilegt að sjá megi eða skynja bæði sjónarmiðin í svona göngu. Hins vegar er ekki orð í Morgunblaðinu um að 5000 manns í göngunni hafi verið þar vegna umhverfismála með sérstök flögg og spjöld og athöfn á Austurvelli. Ég gæti bara vel trúað því að það hafi allt saman bara verið draumur minn en ekki veruleiki og ber að lesa bloggskrif mín í því ljósi. En ég setti þessa pistla niður, vegna þess að ég var í góðri trú.
![]() |
Skemmdarverk í Mývatnssveit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.5.2013 | 00:31
Græðum meira á því að selja "hreint loft" og "endurnýjanlega orku."
Hvað er verið að fjargviðrast yfir því þótt þúsundir vinnustunda og tugir, ef ekki hundruð milljóna króna fari í súginn vegna brennisteinsmengunar í lofti? Hvað er verið að fjargviðrast yfir því þótt engin lausn muni finnast fyrr en í fyrsta lagi eftir 2020 ef hún finnst þá nokkurn tíma?
Hvað er verið að barma sér yfir því þótt loftið á höfuðborgarsvæðinu standist ekki kröfur Kaliforníu mánuðum saman á ári og öndunarfærasjúklingar þjáist. Þeir geta bara flutt eitthvað annað.
Hver hefur áhyggjur af því að nú eigi að bæta hressilega í og þekja Reykjanesskagann með fleiri svona virkjunum, sem endast aðeins í nokkra áratugi ?
Hvað er verið að fjargviðrast yfir því að Orkuveita Reykjavíkur sé og verði áfram kúpunni?
Þetta kemur okkur ekki við, - börn okkar og barnabörn leysa þetta auðveldlega, borga brúsann, finna orku í staðinn og leysa mengunarvandann. Þau eru ekki of góð til þess. Hvers vegna skyldum við vera að gera eitthvað fyrir yngstu börnin og ófæddu börnin? Ekki hafa þau gert neitt fyrir okkur.
Við græðum nefnilega miklu meira á því að fjölga ferðamönnum um ca 200.000 á hverju ári með því að auglýsa "hreina" og "endurnýjanlega orku" og "óspillta náttúru sem er einstæð í öllum heiminum."
Hver þarf að vita að þetta er allt saman lygi, - að við séum að selja svikna vöru? Ljúgum bara þeim mun meira að okkur sjálfum og öllum heiminum. Annars komum við ekki "hjólum atvinnulífsins af stað".
Þjóðfundirnir tveir lögðu áherslu á heiðarleika, réttlæti, gegnsæi og ábyrgð. En Davíð segir að þessir fundir hafi verið einhver mesta vitleysa, sem framkvæmd hafi verið, jafnvel þótt Bjarni Ben og hans eigin flokksmenn á þingi hafi átt þessa arfavitlausu hugmynd.
![]() |
Mengun í Reykjavík er dýrt spaug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.5.2013 | 17:32
Kannski sú fjölmennasta í áraraðir?
Í kröfugöngu dagsins í dag bættust að þessu sinni um það bil fimm þúsund þátttakendur í aftasta hluta hennar, sem kölluðu sig Grænu gönguna. Þar voru uppi hafðar alþjóðlegar kröfur um sjálfbæra þróun eða góðyrkju í stað rányrkju og arðráns, kröfur til heilnæms vatns, lofts, hafs og aðgangs að óspilltri náttúru, sem ekki fela aðeins í sér lífsgæði og lífskjör, heldur skapar stóraukin eftirsókn ferðamanna eftir þeim gæðum þúsundir nýrra starfa.
Viðbót náttúruverndarfólksins gerði samanlagða göngu kannski þá stærstu, sem sést hefur 1. maí í mörg ár.
En fyrst og fremst voru Græn ganga og útifundur helguð einstæðri náttúru Íslands, heimsgersemi sem okkiur ber sem vörslumenn að virða og vernda.
Athöfn göngumanna á Austurvelli varð mikklu lengri en búist hafði verið við, því að það tók drjúgan tíma að bíða þar eftir göngunni, sem var svo löng, að þegar staðið var á horninu gatnamóta Austurstrætis og Pósthússstrætis sá ekki fyrir endann á henni handan við gatnamót Laugarvegar og Skólavörðustígs.
Enginn átti von á þessari miklu þátttöku og því voru aðeins gerðir eitt þúsund grænir fánar til að stinga niður í klukkustund fyrir framan Alþingishúsið.
Nú eru stjórnmálaleiðtogar að möndla með málaflokka í stjórnarmyndunarviðræðum og því mátti það ekki seinna vera en að þverpólitísk fjöldahreyfing hvatti þá til að vinna gott starf varðandi umhverfismálin.
![]() |
Fjölmenn kröfuganga í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.4.2013 | 19:04
Hálfdrættingur á við Ólaf Ragnar.
Forseti Íslands hefur nú eignast þjáningarbróður varðandi það að falla af hestbaki og glíma við afleiðingar byltunnar. Þetta er forseti Túrkmenistan. Hann er þó ennþá aðeins hálfdrættingur á við okkar forseta.
Og forseti Túrkmenistan á enga möguleika á að gera þetta á jafn táknrænan hátt og okkar forseti hvað varðar möguleika á orðalagi.
Í íslensku er nefnilega talað um að valdamen "axli ábyrgð" og það má leika sér með það orðalag. Og í slíkum orðaleik hefur enginn "axlað" ábyrgð í svipuðum mæli og Ólafur Ragnar, nefnilega tvisvar, og meira að segja í bæði skiptin á sömu öxlinni.
![]() |
Forsetinn féll af hestbaki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.4.2013 | 08:44
Þátttaka græna fólksins í hátíðarhöldum 1. maí er óhjákvæmileg.
Þessa dagana eru þegar byrjaðar viðræður um stjórnarsamvinnu og innihald stjórnarsáttmála í einstökum málaflokkum. Einn þeirra málaflokka eru umhverfismál, sem nær ekkert fengust rædd í kosningabaráttunni og komandi ríkisstjórn hefur því ekki sams konar umboð frá kjósendum í þeim málum eins og þeim málum, sem voru nær eingöngu rædd alla kosningabaráttuna.
Þess vegna telja 15 umhverfis-og náttúruverndarsamtök það nauðsynlegt að hvetja nýkjörið Alþingi á jákvæðan hátt til góðra verka í umhverfismálum, íhuga þau vel og vanda til verka.
Við munum líka minna á að í nýjum skoðanakönnunum var góður meirihluti með því að verja Mývatn og yfir 60% þeirra, sem tóku þátt, voru andvígir nýjum álverum. Þessi mál þarf að kryfja til mergjar.
Það er tilviljun að eini dagurinn, sem í boði er til að gera þetta nógu tímanlega, er morgundagurinn, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, sem við virðum og styðjum á alla lund.
En það á ekki að vera vandamál ef rétt er að staðið. Í stað þess að ganga sérstaka göngu og keppa við kröfugöngu verkalýðsins sýnum við henni virðingu með vinsamlegri og jákvæðri stuðningsþátttöku.
Við viljum að engu leyti eigna okkur daginn eða draga athyglina frá honum og baráttumálum verkalýðsins, heldur viljum við þvert á móti með því að verða öftust í árlegri kröfugöngu leggja okkar af mörkum til þess að gera heildarþátttökuna og heildarstærð hennar sem stærsta og veg hennar sem mestan, - verða aftast til þess trana okkur ekki fram og nefnum okkar hluta göngunnar grænu gönguna.
Verðum meðal annars með spjöld sem styðja meginkröfur dagsins.
Við verðum með græna fána, en munum víkja af leið í stutta stund og setja þá niður í klukkustund fyrir framan Alþingishúsið í stuttri athöfn, sem á engan hátt á að trufla baráttufund á Ingólfstorgi.
Við erum flest eða höfum verið launþegar og munum því flest sameinast fundarmönnum á Ingólfstorgi án grænna fána til þess að gera fundinn sem stærstan og glæsilegastan á okkar hljóða hátt.
Það er áratuga hefð fyrir því að fólk úr öllum stjórnmálaflokkum og ýmsir sérhópar, svo sem herstöðvaandstæðingar, femínistar o. s. frv. taki þátt í kröfugöngunni og leggi sitt af mörkum til að gera hana sem stærsta en hafi jafnframt uppi spjöld með sínum áhersluatriðum. Þegar femínistar fóru í gönguna 1970 vakti það litla hrifningu sumra, en þætti sjálfsagt nú.
Við leggjum áherslu á græna hagkerfið, sem var samþykkt einróma á síðasta þingi og er brýnt hagsmunamál fyrir launþega og alla landsmenn.
Við bendum á að hreint og heilnæmt vatn, loft og haf og aðgangur að einstæðri og óspilltri náttúru eru hluti af lífsgæðum og lífskjörum allra landsmanna og að þessi gæði draga stórvaxandi fjölda ferðamanna til landsins sem skapa þúsundir nýrra starfa ár hvert.
Við bendum líka á að í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem 64% þáttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslu studdi, og yfir 80" studdu auðlindakaflann, er eitt af mikilvægustu grundvallarákvæðunum þetta: "Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Því ber öllum að virða hana og vernda".
Annað ákvæði snýr að því að landsnytjar hlíti lögmálum sjálfbærrar þróunar en ekki rányrkju sem bitni á komandi kynslóðum.
21. öldin færir öllu mannkyni viðfangsefni af áður óþekktri stærð sem varðar framtíð mannsins á jörðinni, á tímum þar sem að óbreyttu er stefnt að því í skammtímagræðgi að kippa fótunum að ganga svo á auðlindir jarðar á þann hátt sem bitna mun fyrst og mest á alþýðu allra landa um aldir.
![]() |
Búist við umboði forsetans í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
29.4.2013 | 13:28
Munurinn á Styrmi og Bjarna.
Skelfing er að heyra ungan stjórnmálaleiðtoga tala eins og gamlan afturhaldssegg um persónukjör, svo mikið afturhald, að það nær aftur fyrir 1851.
Hann gefur frat í þann vilja, sem kom fram hjá Þjóðfundi, stjórnalagaráði og í þjóðaratkvæði síðastliðið haust að innleiða persónukjör í auknum mæli.
Þvert á móti telur hann það stóran galla persónukjörs, hve mörg atkvæði "falli dauð niður", og fyrst svo er, má álykta að honum þyki persónukjör hið versta óráð
Rökrétt væri því í framhaldinu að hann beiti sér fyrir því að leggja prófkjör niður hjá Sjálfstæðisflokknum.
Röksemdafærsla Bjarna er sú að það sé í góðu lagi að meira en 20 þúsund atkvæði detti dauð niður að óþörfu í Alþingiskosningum, og nefnir hann sérstaklega kjör til stjórnlagaráðs sem samanburðardæmi.
Þar er hins vegar ólíku saman að jafna.
Í Alþingiskosningum hefur fjöldi framboða á landsvísu farið upp í kringum 10, en þingsætin eru sex sinnum fleiri, þannig að framboðið er meira en eftirspurnin og engin ástæða til þess að vera að skekkja það neitt.
Í stjórnlagaþingkosningunum voru frambjóðendur hins vegar 523 en 25 fengu mest fylgi og framboðið því margfalt meiri en eftirsurpnin. Hvernig getur útkoman í slíkum kosningum orðið önnur en sú að 25 verði kjörnir en 498 komist ekki að?
5% þröskuldurinn, sem Bjarni líkir við þetta, er því ekki sambærilegur. Hvaða önnur aðferð hefði getað tryggt önnur úrslit en að 498 kæmust ekki að? Jú, sú aðferð, sem Bjarni virðist elska, að sérstök nefnd útvalinna hefði valdið fólk í ráðið.
5% þröskuldurinn í Alþingiskosningum jafngildir því að sett hefði sérregla í stjórnlagaþingkosningunum um eitthverjar sérstakar hömlur, sem hefðu skekkt hina lýðræðislegu aðferð sem notuð var.
Gagnrýni Bjarna á persónukjör kemur aftan úr forneskju miðað við þá umræðu og kröfu um aukið beint lýðræði, sem til dæmis Styrmir Gunnarsson, flokksbróðir Bjarna, hefur barist fyrir.
Munurinn á Styrmi og Bjarna er sá, að Styrmir er gamall maður með ferskar, nútímalegar hugmyndir.
Bjarni talar hins vegar eins og ungur maður með gömul og steinrunnin sjónarmið, svo mikið afturhald, að það nær aftur fyrir 1851.
1851 voru nefnilega persónur í kjöri til Þjóðfundar í hverju kjördæmi en ekki sérútvalið fólk, fólk valið af uppstillingarnefndum, sem valdamenn höfðu puttann í.
Draumur þeirra, sem ekki vilja persónukjör, er sá að ákveðin nefnd sjái til þess hverju sinni að það verði ekki fleiri í framboði en verða útvaldir. Það hefur nokkrum sinnum verið gert hjá Sjálfstæðismönnum fyrir kosningar í Reykjavík.
Eða, eins og gert var að minnsta kosti tvívegis í prókjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, að þrátt fyrir prófkjör var sérstök uppstillinganefnd í náðinni hjá borgarstjóranum, sem hafði úrslitavald um að möndla með úrslit prófkjörsins að vild og gerði það auðvitað, færði suma fram og henti öðrum aftar, jafnvel um fjögur sæti.
![]() |
Ekki ástæða til að endurskoða 5%-reglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)