Færsluflokkur: Bloggar

Enn einu sinni.

Skoðanakannanir eru orðnar það góðar að ég minnist varla að umtalsverð skekkja hafi verið í þeim, hvað snertir megin línur. Þetta er að sumu leyti galli og dregur úr spennu. Þetta bitnar sérstaklega á þeim framboðum sem verða fyrir því að lenda undir 5% þröskuldinum, einkum á lokasprettinum.

Meðan Sjálfstæðisflokkurinn var lang stærsti flokkurinn, fékk hann yfirleitt nokkkuð minna í kosningunum en hann hafði fengið í skoðanakönnunum. Gripu sumir þeirra sem framkvæmdu skoðanakannanir til þess ráðs að gera fyrirfram ráð fyrir skekkju af ákveðinni stærð og fengu þá oftast rétta útkomu. 

Þessi skekkja á nú við um Pírata, sem eru netfólk, vant því að vinna og starfa við tölvur en ekki alltaf duglegt við að fara á kjörstað. Það er miklu auðveldara að taka upp símann og svara spyrjendum skoðanakannana en að fara á kjörstað. 

Af þessum sökum er það arfa slæmt og ósanngjarnt að gera kröfur um ákveðinn þröskuld þátttakenda í kosningum, því að það er ekki jafnræði með hópunum. Þeir sem vilja segja já, þurfa að fara að kjörstað, en stór hluti þeirra sem eru á móti, þurfa ekki að gera annað en að sitja heima. 

Skárra er að setja kröfu um aukinn meirihluta þeirra sem kjósa, svo sem 60% gegn 40%. 


mbl.is Kannanir afar nálægt niðurstöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forneskjufyrirkomulag á net- og tölvuöld.

Það er forneskjufyrirkomulagl að þurfa að aka með atkvæði milli ystu landshorna í 4-5 klukkustundir til enda kjördæmisins til að telja atkvæði.

Upplýst hefur verið að til sé plan B í Norðvesturkjördæmi varðandi það að telja atkvæði á Ísafirði og Patreksfirði ef ófærð er á Vestfjörðum, enda er hægur vandi að senda tölur á netinu til að leggja saman við tölur á aðaltalningastaðnum í Borgarnesi. 

Þetta ættti ekki að vera plan B heldur plan A í öllum landsbyggðarkjördæmunum og atkvæði í Suðurkjördæmi frá svæðinu austan Sólheimasands talin í þjóðgarðsmiðstöðinni í Skaftafelli en atkvæði í Norðausturkjördæmi fyrir hið gamla Austurlandskjördæmi talin á Egilsstöðum á sama hátt og send um netið til Akureyrar. 


mbl.is Síðustu tölur breyttu miklu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíu þingmenn "detta niður dauðir", - besta mál?

Það er að vísu ekki búið að telja, en ef það fer þannig, að Pírater komi ekki manni á þing, þótt atkvæðamagnið hefði annars skilað þeim þremur til fjórum þingmönnum er komið að því sem ég hef varað við í mörg ár og talið mjög ólýðræðislegt, að þriðji stærsti hópur þjóðarinnar, þeir sem geta jafnvel haft samanlagt allt að 20% fylgi, fái enga fulltrúa á þingi.

Þetta er mjög há tala, samsvarar kjósendafjölda eins og hálfs landsbyggðarkjördæmis, og enginn myndi telja það sanngjarnt að Norðausturkjördæmi fengi engan þingmanna og Norðvesturkjördæmi aðeins tvo. 

En nú horfir maður á það í umræðum í sjónvarpinu, að formenn stærstu stjórnmálaflokkarnir láti sér það vel líka að atkvæðafjöldi, sem annars myndi skila inn 10 þingmönnum, "detti niður dauð."

Auðvitað gera þeir það, því að það auðveldar þeim það að mynda hér fleiri en eina gerð af stjórn sem nýtur stuðnings minnihluta kjósenda. 

Ástæða þess að fylgi Pírata er lægra en í skoðanakönnunum getur stafað af því að þar er um að ræða fólk, sem margt er áhugasamt um þjóðmál og berst fyrir netlýðræði og beinu lýðræði, en er kannski ekki eins líklegt til að hafa fyrir því að fara á kjörstað. 

Í skoðanakönnun kemur þátttakan af sjálfu sér og er næsta fyrirhafnarlítil, miðað við það að fara á kjörstað, bara að svara í símann á þeim stað, sem viðkomandi er staddur. 


mbl.is 16% kusu flokk sem ekki fær mann kjörinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ef einhverjum væri mjög illa við mig..."

"Ef einvherjum væri mjög illa við mig myndi hann laumast inn til mín þegar enginn væri heima og skilja eftir hassköggul í gluggakistunni."

Þetta sagði við mig maður, sem var nýkominn úr meðferð eftir að hafa neytt allra þeirra fíkniefna, sem hægt er að ná í hér á landi, þeirra á meðal heróíns, kókaíns,amfetamíns og áfengis. 

Á þeim tímapunkti átti hann eftir að takast á við einu fíknina, sem var eftir, en það var nikótínið, sem yfirleitt er ekki talið með fíkniefnum, en er þó með langhæstu prósettöluna varðandi það hve stór hluti fíklanna geta með engu móti hætt neyslunni.

En vegna þess hve það er erfitt að hætta að reykja, er sú fíkn yfirleitt skilin eftir þegar fólk fer í meðferð, til þess að bæta ekki of miklu verkefni ofan á þá við að ná tökum á böli sínu og útrýma því.

En mér fannst þessi orð mjög athyglisverð og sýna, að það eru ekki endilega hörðustu fíkniefnin, sem erfiðast er að fást við, heldur þau lúmskustu.  


mbl.is Það er ekkert „bara“ við kannabis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærsta mál kosninganna nær ekkert rætt.

Skuldavandi heimilanna er stórt mál og mikið rætt. Ný stjórnarskrá er miklu mikilvægara mál en virðist í fljótu bragði, því að það er með hana eins og leikreglur í íþróttum, að reglurnar verða að vera góðar til að leikmenn og leikurinn sjálfur geti notið sín sem best.

En langstærsta mál þessara kosninga og nær ekkert rætt, er sú fyrirætlan að gera það sama og 2003, að fara út í meira 600 megavatta orkuöflun fyrir aðeins eitt fyrirtæki, sem gefur aðeins 0,2% vinnuaflsins vinnu og leiðir það af sér, að reisa þurfi á annan tug virkjana og gera svæði allt frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslur og upp á hálendið að samfelldu svæði virkjana með tilheyrandi borholum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum, skiljuhúsum, háspennulínum, vegum, stíflum og miðlunarlónum. 

Og yfirleitt verða þessar virkjanir settar niður á þeim stöðum sem mest gildi hafa sem náttúruverðmæti, -  staðir, sem laða að ferðamenn, af því að þar er hægt að komast í návígi við einstæða íslenska náttúru. 

Gufuaflsvirkjanirnar verða þess eðlis að orkan verður tæmt á virkjunarsvæðunum á nokkrum áratugum. 

Við ætlum barnabörnum okkar það hlutskipti að finna orku í staðinn og halda áfram í hernaðinum gegn landinu. 

Afleiðingar þess að uppfylla væntingar eiganda fyrirhugaðs álvers í Helguvík munu bitna á afkomendum okkar um aldir, löngu eftir að skuldastaða heimilanna 2013 verður gleymd og grafin. 

Vísa í pistil minn á undan þessum um nauðsyn þess að sem flestir grænir þingmenn verði á þingi. 

 


mbl.is „Þetta verður dagur breytinga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir verða varðmenn náttúrunnar á þingi?

Í kosningabaráttunni hafa sumar línur skýrst varðandi umhverfisstefnu framboðanna. Sú var tíðin að í fremstu röð grænna þingmanna voru þeir Birgir Kjaran Sjálfstæðisflokki og Eysteinn Jónsson, forystumaður Framsóknarflokksins og formaður Náttúruverndarráðs.

Mér skilst, að í tíð Eysteins Jónssonar hafi fleiri svæði verið sett á náttúruminjaskrá en nokkru sinni og einnig friðuð svæði.

Mikið væri nú gaman ef menn líkir þeim Birgi og Eysteini stjórnuðu þessum tveimur flokkum og væru í framboði. Stór hluti kjósenda þessara flokka eru hlynntir náttúruvernd og þyrftu að eiga málsvara í stjórn flokksins og þingflokki hans.

En þannig er það því miður ekki. Maður les í blaði í dag að álveraforstjórar geti varla beðið eftir því að ný ríkisstjórn setjist að völdum sem tekur upp stóriðju- og virkjanaþráðinn frá 2007 með Helguvíkurálveri og tilheyrandi stútun náttúrverðmæta frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið. 

Ástæða kæti áltrúarmanna er sú, að þeir þykjast sjá fyrir, að annað hvort Sjálfstæðisflokkur eða Framsóknarflokkur, helst báðir, verði aðilar að nýrri ríkisstjórn, og báðir flokkarnir eru stóriðjuflokkar.

Kætin minnkar ekki við það að sjá hilla undir það að grænir þingmenn muni falla út af þingi og grænir frambjóðendur í flokkum, sem lenda undir 5% þröskuldinum, komist ekki á þing þótt þessir flokkar hafi samtals um 10% fylgi.

Það er áhyggjuefni hve margir grænir þingmenn eiga nú á hættu að falla út af þingi. 

Þar ekki einasta um að ræða Vinstri græna, heldur er jafnvel enn meira áhyggjuefni að meðal þeirra grænu þingmanna, sem stóriðju- og áltrúarmenn myndu vilja að féllu út af þingi, eru til dæmis Samfylkingarþingmennirnir, sem ég sá meðal gesta á frumsýningu myndarinnar "In memoriam?" í gærkvöldi,  Skúli Helgason, sem tókst að ná samstöðu um Græna hagkerfið, Mörður Árnason, afar skeleggur baráttumaður fyrir náttúruverndar- og umhverfismálum á þingi, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Valgerður Bjarnadóttir.

Áltrúarmenn hlakka yfir þeirri tilhugsun að að hægt verði að fella þá Skúla og Mörð út af þingi og yrði þar skarð fyrir skildi. 

Þetta græna og góða fólk á mikinn þátt í því að á síðustu landsfundum Samfylkingarinnar hefur þróast stefnuskrá í umhverfismálum, sem er orðin þannig, að öllu grænni gerast þær ekki. Þess vegna er svo mikilvægt að þessir grænu þingmenn veri áfram á þingi og geti haft áhrif í þingflokki flokks síns ef eða þegar til stjórnarmyndunarviðræðna kemur. 

Það yrði gríðarlegt áfall ef stóriðjufíklarnnir fengju þvi framgengt að fella svona marga græna þingmenn í einni svipan út af þingi og þar að auki stoppa af nýja græna frambjóðendur sem eiga fullt erindi á þing. 

Nú er bara að treysta á það að kjósendur reikni dæmið sem best um það hverja þeir vilja fá á þing og hugsi sig vel um í kjörklefanum.  

 

 


mbl.is Ákvæði um styrk brennisteinsvetnis ekki frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

70 ára tær snilld í kosningaloforðum.

Þegar litið er til baka og skoðað, hverju flokkar lofa fyrir kosningar, sést að Framsóknarflokkurinn er líklega slungnastur allra flokka í þessu efni.

Flokkurinn stóð að vantrausti á minnihlutastjórn Ólafs Thors 1949 vegna áforma hennar um óhjákvæmilega gengislækknu, og fór Framsókn í þær kosningar með loforð um að koma í veg fyrir gengislækkun.

Eftir kosningarnar fór flokkurinn í stjórn með Sjálfstæðismönnum og gengið var auðvitað fellt í boði þessara flokka.

Í sömu kosningum fékk Framsóknarflokkurinn mann á þing í Reykjavík í fyrsta sinn í sögu sinni. Rannveig Þorsteinsdóttir lofaði því að flokkurinn myndi "segja fjárlplógsstarfseminni, sem Sjálfstæðisflokkurinn stæði fyrir, stríð á hendur".

Eftir kosningar var farið í eitt innilegasta stjórnarsamstarf í sögu íslenskra stjórnmála með helmingaskiptum við þá sömu fjárlplógsstarfsemi Sjálfstæðisflokksins og Rannveig Þorsteinsdóttir hvarf úr sögu en hafði gert sitt gagn fyrir flokkinn. 

Framsóknarflokkurinn lofaði 1956 að reka herinn úr landi. Hermann Jónason myndaði stjórn með þessu loforði í stjórnarsáttmála, en það var svikið. Í sömu kosningum var því lofað að vinna ekki með "kommúnistum" í stjórn. Mynduð var stjórn með þeim eftir kosningar. 

Framsóknarflokkurinn treysti á gullfiskaminnið og lofaði því aftur 1971 að reka herinn, en það fór á sömu leið hjá Ólafi Jóhannessyn og hjá Hermanni Jónassyni. Eftir kosningar 1974 fór flokkurinn í stjórn með Sjálfstæðisflokknum til þess að treysta veru hersins. 

Framsóknarflokkurinn lofaði því fyrir kosningarnar 2003 að auka svo mjög húsnæðislán heimilanna að þau yrðu minnst 90%. Hafði áður einkavætt bankanna og skapað þensu með virkjana-og stóriðjuframkvæmdum sem olli með þessu samanlögðu mestu þenslu og græðgisgróðæri sögunnar. 

Kunnáttumenn um þetta vöruðu ráðamenn flokksins eindregið við þessu og spáðu því, sem síðar kom á daginn, að vegna aðstæðna í boði Framsóknar og tilkomu einkaeignar bankanna myndi skapast útlánakapphlaup af áður óþekktri stærð. 

Heimilin fjórfölduðu skuldir sínar á örfáum árum, en afleiðingarnar af þeirri staðreynd eru nú nefndar "forsendubrestur" og Framsókn komin með kosningaloforð, ekki minna en hin fyrri, um að hrifsa nokkur hundruð milljarða af "hrægömmum" og dreifa þeim yfir þá, sem ákafast dönsuðu Hrunadans gróðærisins í boði Framsóknar. 

Þeir, sem ekki eignuðust neitt fá ekki neitt en hinir eru svo margir, sem skulda, og loforðið þar að auki látið ná yfir allar skuldarana, að fylgið sópast til Framsóknar, rétt eins og í kjölfar fyrri loforða í meira en 70 ár en þó i meira mæli en nokkru sinni fyrr. 

Það er pottþétt að ná í fylgi ef hægt er að benda á ytri óvin, sem berjast þurfi við. Í þessu tilfelli eru það eigendur "snjóhengjunnar" sem Framsókn fellir undir heildarheitið "hrægammar" með því að benda á illt eðli erlendra vogunarsjóða. Og vissulega er tilvist þeirra nöturleg en það gleymist að hún er í fullu samræmi við það hugarfar græðginnar sem 12 ára valdaseta Sjalla og Framsóknar fóstraði og nærði.

Vogunarsjóðirnir eiga að vísu aðeins helminginn þessum 1200 milljörðum, en það skiptir engu máli. Það verða teknir af þeim hið snarasta hundruð milljarða og dreift þeim til þeirra, sem forsendubresturinn lék grátt, íslensku heimilin, sem nú geta upplifað væntingarnar frá 2003 á nýjan leik. 

Staðreyndin er hins vegar sú að helmingurinn af eigendum snjóhengjunnar eru ósköp venjuleg fyrirtæki, sjóðir og einstaklingar, sem trúðu á stóru bóluna sem Framsókn blés upp eftir 2003 og horfa nú fram á hliðstæðan "forsendubrest" og íslensku heimilin gera. 

En hrægammar skulu þessir aðilar samt heita þótt þeir létu blekkjast til að fjárfesta á sömu forsendum og íslensku heimilin á meðan Framsókn réði ferðinni.

Og þeir aðilar íslenskir, sem létu blekkjast, eru allir felldir undir heitið "heimilin" þótt stór hluti íslensku skuldaranna geti ekki fallið undir heitið "heimili. 

En kosningaloforð verða að vera einföld og skýr:;

1949: Umbótastefna Framsóknar gegn fjárplógsstarfseminni

1949. Framsókn gegn gengisfellingu!

 1956: Framsókn gegn hernámi landsins! 

1956: Umbóta- og lýðræðisaflið Framsókn gegn kommúnistum!

1971: Framsókn gegn hernámi Íslands !

2003: Framsókn lætur fólkið eignast húsnæði!

2009: Framsókn gefur þjóðinni nýja stjórnarskrá!

2013: Hundruð milljarða til íslenskra heimila í boði Framsóknar!

Þessi einföldu slagorð eru svo áhrifarík vegna þess að með með er stillt upp einföldum andstæðum, sem allt á að snúast um: Erlendir hrægammar gegn íslenskum heimilunum.

Framsókn hefur staðið sig vel á þessu sviði síðustu 70 árin en oft í harðri samkeppni við keppinautana um hylli kjósenda. Sumir þeirra hafa ekki jafn mikið hugmyndaflug, svo sem Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur lofað skattalækkunum og minni eyðslu hins opinbera alla sína tíð ! 

Þegar mesta gróðærið var hér 2003-2008 tókst flokknum að þenja ríkisbáknið út meira en dæmi höfðu verið áður, einmitt þegar menn hefðu haldið að slíkt gerðist ekki. 

Og kratar og allaballar voru stundum samferða Framsókn í því að lofa meiru en þeir gátu efnt, svo sem að reka herinn, og Haraldur Guðmundsson fékk það hlutskipti að lýsa yfir því fyrir hönd Framsóknar og Alþýðuflokksins (Hræðslubandalagsins) að ekki kæmi til greina að vinna með Alþýðubandalaginu eftir kosningar. 

Haraldur var gerður að sendiherra í Osló strax eftir kosningarnar og sögðu sumir, að það hefðu verið laun fyrir það hvernig hann fórnaði sér. 

 

 

 

 


mbl.is Framsókn stærst í könnun Stöðvar 2
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flókin, viðkvæm og dýr tæki.

Þyrlur eru dásamleg afurð tækninnar með óviðjafnanlega eiginleika, sem gera þær ómissandi til þeirra nota, þar sem þær nýtast best. En vegna þess að vængirnir snúast en eru ekki fastir og óhreyfanlegir eins og vængir á flugvélum, eru þær miklu flóknari smíð en flugvélar og með margfalt fleir hreyfanlega fleti og liði.

Af því leiðir að það eru miklu fleiri hlutir sem geta bilað en í einföldum flugvélum og að þær eru viðkvæmari á mörgu leyti, enda það er þumalputtaregla að þyrla er um það bil fjórfalt dýrari í rekstri en sama stærð af flugvél, einkum vegna miklu tímafrekara, flóknara og meira viðhalds. 

Og af þessum sökum eru þyrlur óflughæfar vegna viðhalds miklu lengur en flugvélar og eyða mun meiri tíma á jörðu niðri. 

Fleira hjálpar til við að takmarka getu þyrlnanna. Það þarf meira afl til að lyfta loftförum lóðrétt heldur en að láta þær ná hraða á flugbraut svo að vængirnir geti lyft þeim eins og gert er á flugvélum.

Þyrlan þarf sérstaka skrúfu á stélinu til að halda á móti snúingsvæginu, sem verður við það að snúa þyrluspöðunum og vegna þess að blöðin fara aftur á bak öðru megin miðað við flugstefnuna, en áfram og á móti flugstefnunni hinum megin í snúningshringnum, verður hámarkshraði þyrlu ævinlega takmarkaður vegna loftmótstöðunnar þeim megin þar sem spaðarnir fara á móti flugstefnunni.

Þegar allt þetta er lagt saman er skiljanlegt að rekstur þyrlu er og verður ævinlega dýr og erfiður.

Síðustu áratugi hafa með reglulegu millibili komið fréttir af því að bættar þyrlur geti komið í stað flugvéla í flugi á fjölförnustu flugleiðunum.

Nú síðast var sagt við mig úti á Reykjavíkurflugvelli þegar Ögmundur og Jón Gnarr undiskrifuðu samkomulag um flugstöð og fleira, að það væri stutt í það að flugvölllurinn yrði úreltur, - það væru að koma þyrlur sem leystu flugvélar af hómi. 

En það er ómögulegt að komast fram hjá eðlisfræðilegum atriðum, sem valda því að þegar allt ofangreint er lagt saman er ljóst, að í flugi milli landshluta geta þyrlur aldrei keppt við flugvélar hvað varðar kostnað og hraða, auk þess sem flugvélar með jafnþrýstiklefa komast hærra og geta frekar flogið yfir slæm veðurskilyrði en þyrlur.

Það er því ekki hægt að sjá neitt, sem geti gert flugvelli óþarfa í flugi á milli staða.  

Á móti kemur að sá eiginleiki þyrlunnar að geta flogið í hvaða þá flugstefnu í lóðréttu og láréttu plani sem hugsast getur, gerir hana ómissandi, þvi að ekkert annað farartæki hefur þessa eiginleika.  


mbl.is Ljóst að bilunin er alvarleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núna er skekkja upp á fjóra þingmenn.

Árið 2000 var settur í lög hinn fáránlega hái atkvæðaþröskuldur 5% við Alþingiskosningar. Aðeins í tveimur löndum Evrópu, Þýskalandi og Tyrklandi, viðgengst svo hár þröskuldur. Í Þýskaldi af ótta við nýnasista og í Tyrklandi af ótta við öfgamúslima! 

Á báðum löndum eru margfalt fleiri þingmenn en hér á landi og því miklu meiri "hætta" á að fjölmörg framboð með innan við eitt prósent atkvæða komi mönnum að. 

Hér á landi væri raunverulegur atkvæðaþröskuldur rúmlega 1,6% fólginn í því að hafa engan sérstakan hækkaðan þröskuld, heldur einungis það lágmarksfylgi sem felst í því yfir alla línuna að ná manni á þing. 

Mögulegt er raunar fyrir sérframboð í einu kjördæmi, til dæmis í Norðvesturkjördæmi, að koma manni á þing, þannig að miðað við landið allt væri fylgið innan við eitt prósent. 

Núverandi fyrirkomulag felur sem sé í sér margfalt óréttlæti í báðar áttir. 

Ef 5% þröskuldurinn væri ekki, myndu fjögur af þeim framboðum, sem ná ekki inn manni, miðað við núverandi tölur í skoðanakönnunum, ná inn einum þingmanni hvert, Lýðræðisvaktin, Dögun, Flokkur heimilanna og Hægri grænir. 

Tölurnar í skoðanakönnununum geta þar að auki verið skakkar að því leyti til að sumir kjósendur þora ekki að nefna þau framboð, sem eru í næstu könnun á undan með minna en 5% fylgi. 

Er það lýðræðislegt að hafa kerfi, sem hræðir fólk frá því að kjósa fólk, sem á erindi á þing ?

Nei. Það hlýtur að eiga verið hlutverk kosningakerfis að laða kjósendur til að kjósa þá til setu á Alþingi sem þeim lýst best á. 

Vegna þess að kerfið mun að óbreyttu og að óbreyttum fylgistölum koma í veg fyrir að til dæmis Þorvaldur Gylfason og Pétur Gunnlaugsson komist á þing, verður hægt að mynda ríkisstjórn með minnihluta kjósenda á bak við sig.

Miðað við skoðanakannanir fyrr í vetur hefði fylgi allt niður í 42% kjósenda nægt til að fá meirihluta á Alþingi. 

Nýja stjórnarskráin stjórnlagaráðs myndi taka þessa skekkju í burtu. Það er búið að ræða um þetta óréttlæti í 14 ár en ekkert gerist. Af hverju? 


mbl.is Nánast jafnstórir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefðum hlegið að Bretum og Frökkum.

Okkur er tamt að hlæja að Bretum, Frökkum og öðrum þjóðum í Evrópu, þegar þeir segja fréttir og sýna myndir af því, sem við myndum kalla snjóföl og tala um gríðarlegar samgöngutruflanir og ófærð. 

Því er fyndið að sjá talað um það í innanlandsfréttum í morgun og í dag að snjó hafi "kyngt niður", þótt nokkurra sentemetra þykkt snjólag settist á götur og gangstéttir á höfuðborgarsvæðinu í rúma klukkustund í morgun og heyra síðan stanslausar fréttir fram eftir morgni um hina miklu "ófærð" sem hefði skapast svo að helstu leiðir væru torfærar eða lokaðar vegna snjóþyngsla.

 


mbl.is Héldu sínu striki í snjó og hálku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband