Færsluflokkur: Bloggar

Ný sókn gegn náttúrunni?

Sú var tíðin að Birgir Kjaran, Sjálfstæðisflokki, og Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki voru öflugustu málsvarar náttúrnnar á Alþingi. Eysteinn var formaður Náttúruverndarráðs og flest friðaðra svæða á landinu voru friðuð í hans stjórnartíð.

Nú er öldin önnur. Talsmaður Sjálfstæðisflokksins kallar á fleiri virkjanir og færri verndarsvæði í heldur en eru í Rammaáætlun þegar hann svarar spurningu Umhverfisverndarsamtaka um meginstefnu flokksins. 

Og enduróminn má sjá í málflutningi Einars K. Guðfinnssonar um Teigsskóg. Það er að koma 2003 aftur og nú er lag að fara í sókn gegn verndun náttúruverðmæta. 

Talsmaður Framsóknarflokksins dásamar í sínu svari hve mikill náttúruverndarflokkur Framsóknarflokkurinn sé og hafi verið ! Kanntu annan? Reyðarfjörður og Kárahnjúkar 2003 og Helguvík 2013. Í báðum tilfellum um að ræða meira en 600 megavatta orkubruðl til stóriðju með ómældum óafturkræfum umhverfisspjöllum.

Þá er nú svar Sjallanna skárra. Þar er þó ekki verið að fela að hverju sé stefnt af hálfu forystu þess flokks.

En um báða þessa flokka er hægt að segja það, að ekki er rétt að dæma fylgjendur þeirra út frá stefnu flokkanna. Stór hluti kjósenda þessara flokka eru gott og gegnt áhugafólk um náttúruvernd og umhverfismál eins og hefur margoft komið fram í skoðanakönnunum um umhverfismál.   

 


mbl.is Vegurinn liggi í gegnum Teigsskóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn sterkari í miðju/vinstri stjórn ?

Í 80 ár hafa íslensk stjórnmál litast af þeirri stöðu Framsóknarflokksins að geta verið í stjórn bæði til hægri og vinstri. Þá ræður miklu fyrir Framsókn hve stór og öflug hún er miðað við samstarfsflokkana.

Þegar Framsókn var í stjórn með Sjöllum 1950 til 1956 voru utanríkismál svo mikilvæg, að vinstri stjórn kom ekki til greina. Hermanni Jónassyni líkaði ekki vel að vera minni aðilinn í stjórninni en annað var ekki í boði.

En 1956 var sú staða breytt, komin "þíða" í samskiptum við Rússa eftir fráfall Stalíns og með því að mynda vinstri stjórn 1956 var Framsókn stóri aðilinn en Kratar og Kommar minni aðilarnir, einkum vegna þess að þeir fengu ekki þingmenn í samræmi við atkvæðatölu. 

Í stjórn með Sjálfstæðisflokki var Framsókn hins vegar alltaf minni aðilinn, bæði 1974-78 og 1983-87.

Veik staða Geirs Hallgrímssonar olli því hins vegar að Framsókn fékk forsætisráðherraembættið 1983-87 þar sem Steingrímur Hermannsson fékk að njóta sín. 

Í stjórn með Sjöllum 1995-2007 voru Framarar alltaf minni aðilinn. 

Ef svo fer sem horfir að Framsókn fái nú jafn mikið eða meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn er það áður óþekkt staða. Ef Sjallar verða stærri en Framsókn gæti verið freistandi fyrir Framsókn að mynda stjórn með 2-3 mun minni flokkum og nýta sér það að vera langöflugastir í slíku samstarfi, - hlutfallslega miklu öflugri en þeim bauðst nokkru sinni fyrr í samstarfi við flokka vinstra megin við sig. 

Það gæti verið álitlegri kostur en að vera í stjórn með stærri flokki, jafnvel þótt Sjallar séu miklu veikari en þeir og fyrirrennarar þeirra hafa verið í 90 ár. 


mbl.is Sigmundur: Vinstristjórnaráróður sjálfstæðismanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Versta en göfugasta starfið?

Læknar eiga sinn Hippokratesareið og eru eðlilega mjög stoltir af því hvað starf þeirra er göfugt og gott að eiga Hippokrates sem fyrirmynd.

Það er göfugt að bjarga að helga sig því að líkna og bjarga mannslífum. 

Þegar Kristur var spurður á ögurstundu, til hvers hann væri kominn, svaraði hann samt ekki því að það væri til að líkna og bjarga mannslífum eins og hann hafði gert og orðið var frægt. 

Nei. Hann svaraði: "Ég er kominn til þess að bera sannleikanum vitni". 

Og þá spurði Pílatus: "Hvað er sannleikur?"

Blaðamennskustarfið kann að verar erfitt, vanþakklátt og ekki í miklum metum, enda eru þeir, sem hafa helgað sig því, bæði misjafnir, mistækir og breyskir eins og aðrir dauðlegir menn. 

En það er göfugt að bera sannleikanum vitni eins og er skylda blaðamannsins úr því að Kristur taldi það vera svo og ekki ónýtt að eiga slíka fyrirmynd, þótt það sé kannski erfitt að feta í fótspor meistarans og starfið það erfiðasta sem hugsast getur. 


mbl.is Blaðamennska er versta starfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki langt síðan slíkt ástand var líka hér í raun.

Okkur rennur til rifja að heyra um baráttu konu í Uganda fyrir því að þurfa að lifa í ótta í landi sínu við láta lífið fyrir kynhneigð sína og við þökkum fyrir að slíkt ástand skuli ekki ríkja hér. 

En okkur er samt hollt að hugsa til þess, hve það er stutt síðan hér ríkti svipað ástand í raun, hve stutt er síðan fólk hér á landi, sem var í svipaðri stöðu og konan frá Uganda, var komið í þá aðstöðu, að eina ráðið til að binda endi á óbæirilega aðstöðu var að taka líf sitt.

Þá brotnuðu sumir alveg niður og sviptu sig lífi. Persónlega veit ég um það, í gegnum hvílíkt helvíti gamall æskuvinur minn gekk á sínum tíma og hve nærri hann var því að binda enda á líf sitt þegar hér ríkti í raun svipað ástand og í Uganda, þrátt fyrir alla lagabókstafi um jafnrétti og frelsi einstaklingsins. 

Það er umhugsunarefni að slíkt ástand skyldi geta viðgengist í raun þrátt fyrir fagurgala um annað.

Það leiðir hugann að því, hvort það geti gerst, að ríkjandi ástand á ýmsum sviðum í þjóðlífi okkar, sem látið er þrífast nú, verði litið allt öðrum augum eftir jafnvel fáa áratugi eða ár.  


mbl.is Kynhneigð getur kostað hana lífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Friðsæld í Fossvogsdal - Kjarval í kyrrðinni!

Nú eru nokkrir áratugir síðan til stóð að gera hraðbraut eftir endilöngum Fossvogsdal og eftir strönd Fossvogs um Hlíðarfót niður í Vatnsmýri.

Rökin voru alveg þau sömu og nú eru notuð um nýja hraðbraut um Gálgahraun út á Álftanes, að tryggja hraða og vaxandi umferð í gegnum Reykjavík. 

Gegn þessu reis fólk sem taldi æskilegra að rjúfa ekki friðsæld Fossvogsdals og sunnanverðrar Öskjuhlíðar og einnig nauðsynlegt að varðveita einstæðar jarðminjar, svonefnd Fossvogslög, sem eru á strönd Fossvogs. 

Þetta var sem sé; " Friðsæld í Fossvogsdal"  - gegn  - "hávaði á hundrað". 

Í dag myndi engum detta í hug að orða það að fara út í þessa framkvæmd nú þótt forsvarsmönnum hennar fyndist ekkert athugavert við hana á sínum tíma. 

Í Gálgahrauni snýst málið um "Kjarval í kyrrðinni" - gegn - "allir á áttatíu.

Því fólki fjölgar hratt sem hefur uppgötvað töfra svæðisins fyrir holla og gefandi útivist í einstaklega fallegu hrauni, þar sem bæði er að finna slóðir Kjarvals og hraunmyndanirnar sem hann málaði í kyrrðinni og upplifa það sama og meistarinn, -  og einnig stíginn sem farinn var forðum út á Álftanes, stundum þrammaður af sakamönnum, samanber heitið Gálgahraun.

Jarðýtufíklarnir, sem þrá að láta skattborgarana borga fyrir þau umhverfisspjöll, sem fyrirhuguð eru, hundsa tillögur um að lagfæra veginn í núverandi vegarstæði, en það er vel hægt á miklu ódýrari hátt en að gera ótal slaufur og mislæg gatnamót, einfaldlega með því að breikka veginn og gera tvö hringtorg. 

Ástmenn ýtunnar gefa sér þær forsendur að umferðin á dag muni vaxa úr 5800 bílum upp í 20 þúsund. 

Ég rökræddi þetta mál við talsmann framkvæmda í flugstöð Flugfélags Íslands fyrir nokkrum dögum. 

Hann sagði að alltof seinlegt yrði að fara þarna í gegn á endurbættum vegi vegna minni ökuhraða. 

Þegar ég sagði að erfitt væri að sjá hve miklu munaði á 70 km harða og 50 km hraða, sagði hann að það þýddi ekkert að hafa 50 km hraða, - menn myndu ekki fara eftir því. 

Þar skaut hann sig í fótinn, nýbúinn að segja að hvað lítill ökuhraði gæti orðið þarna. 

Kyrrð er ein af auðlindum hins magnaða Gálgahrauns. Ég uppgötvaði ekki til fulls hvað hröð umferð þungra 2007 jeppa er hávær fyrr en fyrir nokkrum árum, þegar ég fór norður í Langadal til þess að taka það uipp, hvernig fuglarnir þögnuðu við sólmyrkvann, sem þá kom þar. 

Það var eftirminnilegasta minning mín frá sólmyrkvanum 1954, þegar fuglasöngurinn þagnaði við það að sólin myrkvaðist. 

En ferð mín misheppnaðist hvað þetta varðaði, vegna þess að dekkjahávaðinn miklu hraðari umferðar en 1954 yfirgnæfði allan fuglasöng. 

 


mbl.is Forsendur nýs Álftanesvegar verði kannaðar á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að passa sig á pillunum.

Óttar Guðmundsson læknir hélt fróðlegan fyrirlestur hjá Churchill-félaginu í fyrradag þar sem hann bæði sálgreindi Churchill og tók fyrir neysluvenjur hans og meðhöndlun læknis hans.

Fyrirlesturinn var á afmælisdegi Foringjans, Adolfs Hitlers, svo að hann bar líka á góma. 

Á tímum Hitlers og Churchills voru mönnum enn ekki fullljós ávandabindandi áhrif amfetamíns og fleiri lyfja sem síðar hafa komið betur í ljós, og læknar gáfu svefnlyf fyrir næturnar og örvandi lyf fyrir daginn, í mismunandi miklum mæli þó. 

Lyfjaneysla Hitlers tók sinn toll af heilsu hans til sálar og líkama. Hann fékk lyf til að halda sér við efnið á daginn en varð bæði háður þeim og líka öðrum lyfjum til að geta sofið. 

Hið síðarnefnda reyndist dýrkeypt fyrir Þjóðverja þegar bandamenn réðust inn í Normandy. Þann morgun höfðu  verið gefin ströng fyrirmæli um það að ekki mætti vekja foringjann og þess vegna misstu Þjóðverjar af dýrmætum klukkustundum sem liðu, án þess að hægt væri að taka afgerandi ákvörðun um viðbrögð við innrásinni. 

Hitler bjóst við innrás miklu austar, við Calais, og bandamenn höfðu uppi gabbtilburði til þess að láta líta svo að innrásin yrði þar.

Bandamenn  höfðu sett á svið umfangsmikla blekkingartilburði, meðal annars með gerviskriðdrekum og  Patton hershöfðingi látinn vera að störfum nálægt Dover á þann hátt, að Þjóðverjar fréttu það "óvart".

Í Frakklandi þorðu Þjóðverjar ekki annað en að halda brynsveitunum inni í landi til þess að geta sent þær þangað sem skjótast þangað sem þeirra yrði þörf í stað þess að staðsetja þær nálægt ströndinni þar sem þær gætu kæft innrásina í fæðingu, en það vildi Rommel gegn áliti Von Rundstedt, sem fékk Hitler á sitt band. 

Ef vel hefði átt að vera hefði Hitler ekki veitt af fyrstu stundum morgunsins til þess að vera með fingurinn á púlsinum svo að hann gæti eins fljótt og auðið væri tekið afgerandi ákvörðun.

Kosturinn við alræði Foringjans var skilvirkni og bein boðleið. Gallinn var hins vegar sú lömun, sem það gat þýtt að hann einn tæki allar helstu ákvarðanir. 

Í lok styrjaldar var Hitler þrotinn að kröftum vegna lyfjaneyslu og Göring var heróinsjúklingur.  


mbl.is „Fékk ekki einu sinni verkjapillur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjóskan varðandi Draugahlíðabrekkuna.

Þegar ákveðið var að taka í burtu mesta slysakafla Suðurlandsvegar, sem fólst í tveimur beygjum austast í Svínahrauni hefði verið skynsamlegast að fara með veginn norður fyrir Draugahlíðar í stórum sveig þannig að vegurinn hefði orðið beinn fyrir vestan Hveradali í stað þess að þar væri enn beygja við minnisvarðann um Karl Sighvatsson.

Eini ókostur þessa vegarstæðis hefði verið að vegamót Þrengslavegar og Suðurlandsvegar hefðu komið um 500 metrum norðar en nú. 

En kostirnir voru margir. 

Með því að fara fyrir norðan Litlu Kaffistofuna losnuðu menn við hina leiðu, bröttu og hættulegu brekku upp Draugahlíðar þar sem bílar lenda oft í vandræðum vegna hálku en ekki síður vegna mikilla sviptivinda í hvassri sunnan og suðsuðaustanátt.

Ég gerði um sérstaka sjónvarpsfrétt um þetta og byggði bæði á eigin reynslu en einnig viðtölum við kunnuga, svo sem Ólaf Ketilsson,  en fékk ekkert nema úrtölur hjá Vegagerðinni, meðal annars það, að þetta yrði dýrari kostur en að nota áfram Draugahlíðarbrekkuna og næstu tvo kílómetra fyrir austan hana. 

Ég hygg að nú þegar sé kostnaður vegna slysa á þessum kafla orðinn meiri samanlagt en nam þessum sparnaði.  


mbl.is Versti vegkaflinn er á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einstæðar 23 sekúndur.

Síðustu 23 sekúndurnar í leik Fram og FH nú áðan verða lengi í minnum hafðar. Fram var með boltann eftir leikhlé sem þjálfari þeirra bað um, og í slíkri aðstöðu er verkefnið einfalt: Að halda boltanum í 20 sekúndur og þruma á markið á lokasekundunum. 

En Framarar misstu strax boltann og skyndilega jöfnuðu FH-ingar og allt stefndi í framlengingu. Robert Aron Robert Hostert, sá, sem missti boltann, stefndi í að verða "skúrkurinn" í Framliðinu. 

En Framarar geystust fram, skoruðu þegar tvær sekúndur voru eftir og voru þar með komnir í úrslit í fyrsta sinn í 13 ár.  

Og "skúrkurinn" Robert Aron, breyttist í "hetju" Framliðsins á örfáum sekúndum!  


mbl.is Róbert Aron: Fylgdi bara skotinu vel eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gula bókin, kaupfélagsstjórinn á Fáskrúðsfirði og lendingarstaðir.

Oft er engin leið að átta sig á því hvaða mál ber hæst á góma allra síðustu dagana fyrir kosningar. 

Rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1958 var því slegið upp í Morgunblaðinu að nefnd á vegum vinstri stjórnarinnar, sem átti að gera úttekt á húsnæðismálum, hefði í gulri skýrslu viðrað stórvarasamar hugmyndir sem ógnuðu frelsi fólks í húsnæðismálum.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 10 menn kjörna af 15 í borgarstjórn í stórsigri, en ekkert hefur frést af Gulu bókinni síðan og hvar hún af sjónarsviðinu eftir kosningar jafn skjótt og hún hafði birst.  

Þessa síðustu daga fyrir kosningar fékk plaggið nafnið "Gula bókin" og kemur hún við sögu í laginu "Bjargráðin", sem var sungið siðar.

Bjarni Benediktsson var þá ritstjóri Morgunblaðsins og í í bragnum er þessu lýst svona.

Ég leitaði að Bjarna Ben sem best veit hlutina

og brátt ég fann hann rétt við sorpeyðingastöðina, -

hann var að fara með gömlu, góðu Gulu bókina...

Viku fyrir alþingiskosningarnar 1967 fóru málefni kaupfélagsstjórans á Fáskrúðsfirði á forsíður Morgunblaðsins varðandi uppsögn hjá kaupfélaginu eða eitthvað svipað, sem enginn maður mundi síðar eftir þegar kosningum lauk.

Svo mikilvægur varð Fáskrúðsfjörður vegna þessa að bæði Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn fengu mig með nokkurra daga millibili til að koma austur og skemmta á heitum baráttusamkomum, svo mikið þótti liggja við.

Sjálfur hef ég lent í því að slegið var upp stórfelldu afbroti mínu á Kárahnjúkasvæðinu í beinni útsendingu í Sjónvarpinu í kosningavikunni, hæfilega stuttum tíma fyrir kosningarnar til þess að ekki yrði hægt að verjast atlögunni. 

Átti ég að hafa framið þar umhverfisspjöll sem gætu varðað allt að 2ja ára fangelsi og væri búið að kæra mig fyrir þetta til lögreglunnar.

Fólust meint afbrot mín  í því að ég hefði lent flugvél ofan í Hjalladal, sem reyndar var búið að fylla af vatni og drullu þegar þessu var slegið upp.

Einnig á stað fyrir vestan Hálslón, sem hefur haft örnefnið "flugvöllur" í 75 ár frá því að Agnar Koefoed-Hansen lenti þar 1938 og falaðist eftir leyfi landeiganda til að merkja þar lendingarstað.

Í sjónvarpsfrétt um málið var sýnd mynd af afbroti mínu, og sást ég lenda þar flugvélinni TF-FRÚ og út steig Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra!  Síðar hafði Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra, einnig gerst meðsek á sama hátt.

Málareksturinn vegna flugvallarmálsins tók heilt ár og eftirtaldir málsaðilar voru dregnir inn í þetta mál: Náttúruverndarráð, Umhverfisstofnun, landeigandinn á Brú, skipulagsnefnd, sveitarstjórn og sveitarstjórn Norður-Héarðs, rannsóknarlögreglan á Egilsstöðum, Vegagerðin, Impregilo, Landsvirkjun, Landmælingar Íslands, Flugmálastjórn Íslands og sýslumaðurinn eystra.

Sýslumaðurinn vísað að lokum kærunni frá á þeim forsendum að ekki fyndist neitt saknæmt athæfi.

Í túni kærandans mátti sjá á þriðja tug bílhræja!

Sem sagt: Engin leið að spá fyrir um uppsláttarmál fyrir kosningar!  


mbl.is Sömu kosningaloforðin í áratugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrímfaxi. Slysið gleymda?

14. apríl fyrir hálfri öld var flugvélin Hrímfaxi í aðflugi að Fornebuflugvelli í Osló. Um borð voru tólf manns, þeirra á meðal hin ástsæla íslenska leikkona Anna Borg Reumert, sem hafði gifst Paul Reumert, einum helsta leikara Danmerkur.

Það var leiðinda veður og flogið blindflug síðasta hluta aðflugsins.

Skyndilega heyrði fólk á jörðu niðri mikinn hávaða í hreyflum vélarinnar, sem kom bratt niður úr muggunni, skall hart í jörðina og gjöreyðilagðist. Allir um borð fórust samstundis.

Þetta voru mikil sorgartíðindi heima á Fróni á árum margra stórslysa, enda fá ár síðan 30 sjómenn höfðu farist á Nýfundnalandsmiðum.

Níu árum síðar fórust tólf manns í snjóflóðum í Neskaupstað. 

Vickers Viscount skrúfuþoturnar voru að vísu ekki stærstu islenskku flugvélarnnar en hins vegar þær fullkomnustu og hraðfleygustu; -  einu skrúfuþoturnar. 

Tímamót urðu í íslenskum flugmálum þegar þær komu til landsins 1957. Vegna þess að þær höfðu fjóra hreyfla nutu þær sín sérstaklega vel á flugvöllum, þar sem fluggeta með einn hreyfil óvirkan skiptir miklu máli, en skiljanlega munar minna um það þegar einn af fjórum hreyflum bilar en þegar annar af tveimur bilar. 

Þess vegna nutu Viscountarnir sín til dæmis mjög vel á hinum erfiða og nýja Ísafjarðarflugvelli.

Ég hef kynnt mér slysasögu þessara véla og af henni má ráða, að koma hefði mátt í veg fyrir slysið í Osló ef nógu vel og fljótt hefði verið farið erlendis ofan í saumana á svipuðum slysum á undan.

Þegar Hrímfaxaslysið og önnur svipuð voru rannsökuð komu tveir gallar í ljós, sem báðir gátu valdið alvarlegum óhöppum. Annars vegar líklegasta orsökin í Osló, að hreyflarnir gátu dottið inn í nauðbeitingarfasa, en hins vegar gat ísing á stélflötum valdið því að vélin yrði stjórnlaus.

Ég man að síðara tilfellinu fannst mönnum það nöturleg skýring með tilliti til nafns vélarinnar. 

Ef annað hvort af fyrrnefndu gerðist í of lítilli hæð gátu flugmennirnir ekkert gert til að afstýra slysi.

Til voru flugmenn á þessum tíma sem voru ekki spenntir fyrir að fljúga Viscont vélunum, þótt afköst þeirra væru mikil og góð og þetta væri brautryðjendavél, fyrsta skrúfuþotan í farþegaflugi.

Ég minnist enn þessa hörmulega slyss með döprum huga og drúpi höfði þegar ég minnist þeirra,sem þar létu líf sitt. 

Einhvern veginn virðist þetta slys vera gleymt og það hafi farist fyrir hjá mér að minnast þess á réttum tíma, þótt sú væri ætlunin fyrr í vetur.  

 

 

 


mbl.is Fjöldi látinna enn óljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband