Færsluflokkur: Bloggar

Meira en 80 ára hefð.

Það er meira en 80 ára hefði fyrir því að forystumenn stjórnmálaflokka séu þingmenn fjarri heimahögum og uppeldisstöðvum.

Tryggi Þórhallsson formaður Framsóknarflokksins var biskupssonur úr Reykjavík sem varð þingmaður Strandamanna og féll þar í kosningunum 1934 fyrir Skagfirðinginum Hermanni Jónassyni, sem eftir það varð þingmaður Strandamanna, formaður Framsóknarflokksins og síðar þingmaðurVestfjarðakjördæmis þótt hann hefði allt frá unglingsárum verið í Reykjavík. 

Sú hefð að formenn Framsóknarflokksins séu þingmenn úti á landi helgast af því, að fylgið i Reykjavík hefur löngum verið tæpt og þar féll Jón Sigurðsson, formaður flokksins, 2007. 

Þegar Sigmundur Davíð ákvað að taka slaginn og fara fram í Norðausturkjördæmi leit dæmið ekki vel út hér í Reykjavík eftir slæma útreið Framsóknarmanna í borgarstjórnarkosningunum 2010 og illindi og flokkadrætti. 

Þetta var hárrétt ákvörðun hjá Sigmundi Davíð þegar hún var tekin og sýndi kænsku hans í klækjum stjórnmálanna auk þess sem það er ekki verra að eiga lögheimili úti á landi og fá styrk til að fara frá heimili sínu þar til þingstarfa í Reykjavík. 

Steingrímur Hermannsson ólst upp sem forsætisráðherrasonur við Tjörnina í Reykjavík og átti síðan heima í Arnarnesinu en varð þingmaður Vestfirðinga. 

Fyrsti Framsóknarmaðurinn, sem náði kjöri sem þingmaður í Reykjavík, var Rannveig Þorsteinsdóttir 1949 og var slagorð hennar og loforð að "segja fjárplógsöflunum stríð á hendur." 

En flokkurinn fór í ríkisstjórn með þeim sömu "fjárplógsöflum" og fréttist ekkert til Rannveigar eftir það, sem sat aðeins þetta eina kjörtímabil og við tók Framsóknarþingmannslaus höfuðborg að nafninu til næsta áratug. 

Gunnar Thoroddsen var 23ja ára gamall sendur til framboðs í Mýrasýslu, þar sem hann þekkti ekkert til. Komst ekki að en þótti samt eðlilegt að hann byrjaði stjórnmálaferil sinn þarna. 

Árni Mathiesen er og hefur verið eðal Hafnfirðingur en fékk sér lögheimili fyrir austan fjall þegar hann varð þingmaður Suðurkjördæmis og með því fylgdi styrkurinn góði. 

Það, að þingmenn séu fluttir út á land við það að fá sér lögheimili þarf ekki að þýða að þar með séu þeir orðnir utanbæjarmenn og sestir að fjarri höfuðborginni. Fyrir því er 80 ára hefð að haga seglum eftir vindi í þessu efni. 

 

 


mbl.is Sigmundur Davíð fluttur til Austurlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áratuga gísling á enda.

Reykjavíkurflugvöllur hefur verið í gíslingu í áratugi vegna óvissu um framtíð hans og hatrammrar baráttu gegn tilvist hans.

Nú liggur fyrir að í skoðanakönnunum fær völlurinn ítrekað og vaxandi fylgi landsmanna, bæði þeirra, sem eiga heima í Reykjavík og fólks úti á landi. 

Það er því með ólíkindum hvernig hægt hefur verið að halda vellinum í þvílíkri gíslingu, að meira að segja hefur verið komið í veg fyrir það að hægt væri að malbika malarsvæði þar sem flugfarþegar hafa lagt bílum sínum. 

En sem betur fer hefur Ögmundur Jónasson nú séð til þess að höggva á þann skammarlega hnút, sem hefur reyrt flugvöllinn og starfsemi við hann niður og staðið eðlilegum notum hans og starfsemi við hann fyrir þrifum. 

Ég tel höfuðatriði að þegar hin nýja flugstöð verður byggð, verði haldið opnum þeim möguleika að hafa öryggissvæði það stór sitt hvorum megin við vestari hluta austur-vestur-brautarinnar að hægt verði að lengja þá braut og gera hana nothæfa sem varabraut fyrir millilandaflug. 

 


mbl.is Engin samgöngumiðstöð í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2003 og 2007 komin aftur: Take the money and run!

2003 og 2007 eru komin aftur. 2003 var því lofað að miklir peningar væru handan við hornið í formi húsnæðislána og þenslu vegna virkjana- og stóriðjuframkvæmda.Kunnáttumenn vöruðu við þessu en voru afgreiddir sem "úrtölumenn"

Og peningarnir komu og loforðin gengu eftir. Heimilin i landinu fengu meiri peninga næstu árin en dæmi voru um áður,  því að há skráning krónunnar gerði fólki kleift að fjárfesta í neyslu þar sem bílar og hvers kyns varningur fengust fyrir allt að 30-40 prósent lægra verð en ella. 

Gjöldum var meira að segja létt af stórum amerískum pallbílum svo að hægt væri að moka þeim til landsins. 

Skuldir heimilanna fjórfölduðust í þessu mesta "gróðæri" allra tíma.

Lars Christensen varaði við bankabólunni.  Íslensku þenslu- og hagvaxtarpostularnir afgreiddu hann og fleiri "vitleysinga" léttilega. "Öfundsjúkiur Dani." Um annan erlendan sérfræðing var sagt: "Þarf að fara í endurhæfingu."

Mestu náttúrufórnir Íslandssögunnar á kostnað komandi kynslóða voru dásamaðar og þeir sem andæfðu voru afgreiddir sem "öfgamenn" og "menn sem eru á móti atvinnuuppbyggingu og á móti rafmagni, - vilja fara aftur inn í torfkofana."

Svo fuðraði þetta allt upp í Hrunbálinu en samt er 2003 komið aftur. Lars Christensen er aftur orðinn öfundsjúkur Dani, en verra skammaryrði er varla hægt að finna um nokkurn mann.

Allir útlendingar sem eiga í eignum föllnu bankanna, líka erlendir lífeyrissjóðir, eru afgreiddir sem "hrægammar".  Þeir sem við lokkuðum til að fjárfesta í "íslenska efnahagsundrinu" voru kallaðir dæmi um nauðsynlega erlenda fjárfestingu þá en eru núna hrægammar.

Þeir sem andæfa eyðileggingu náttúruverðmæta frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið eru áfram, alveg eins og 2003, "öfgamenn, sem eru á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu og vilja fara aftur inn í torfkofana."

"Hófsemdarmennirnir" eru þeir sem vilja að við framleiðum tíu sinnum meiri orku en við þurfum sjálf fyrir iinnlend fyrirtæki og heimili, og þeir eru miklir hófsemdarmenn, sem vilja erlenda fjárfestingu hvað sem það kostar, jafnvel þótt það kosti að fara sömu leið og 2005 og bjóða orkuna á gjafverði. 

Take the money and run! Það er kjörorð þessara daga. 2003 og 2007 eru komi aftur nema að slagorðið er örlitið breytt frá 2007. Þá var það: "Árangur áfram, - ekkert stopp!"

"Nú er það: "Árangur aftur! Ekkert stopp!"  

Nema að 2008 varð stopp. En það er gleymt. 

 


mbl.is Kosningaloforð gleðja ekki fjárfesta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukið óorð bakpoka?

2004 fórum við Haukur Heiðar Ingólfsson ásamt eiginkonum okkar frá Íslandi til Los Angeles til að skemmta á þorrablóti Íslendingafélagsins þar.

Við tókum með okkur 80 kíló af þorramat og kviðum mikið fyrir því að burðast með hann í gegnum tollinn, þrátt fyrir vottorð í bak og fyrir, vegna þess að daginn áður hafði verið framið mikið hryðjuverk á Spáni, þar sem sprengjum var komið fyrir í bakpokum. 

Kvíði okkar vegna þorramatarins reyndist ástæðulaus. Hann flaug í gegn. Hins vegar var ég einn um það af ferðafélögunum að vera með bakpoka og það kostaði mig mikla rekistefnu og óþægindi, vegna þess hvernig hann var næstum tættur í sundur og allt sem í honum var. 

Nú má hugsanlega búast við svipuðu enda er miklu auðveldara að vera með þungan farangur í bakpoka en í tösku, sem borin er í annarri hendi.


mbl.is Myndir af grunuðum sprengjumönnum birtar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanmetnustu framleiðslustaðirnir?

Hvað skyldu þeir vera margir að meðaltali, bílskúrarnir, sem eru í raun einhverjar afkastamestu  menningarframleiðslustöðvar á landinu hverju sinni. Hve margar "bílskúrshljómsveitir"? Hve mörg hljóðver? Hve margir samkomustaðir fyrir skapandi fólk?

Þegar þess er gætt að tónlist og menning, sem eiga rætur eða uppruna í bílskúrum, eru orðin að sívaxandi framleiðslugrein, sem skapar verðmæti bæði innanlands og síðustu árin ekki síður erlendis í formi útrásar og auglýsingar á landinu sem ferðamannalands með áhugaverða og aðlaðandi menningarstarfsemi. 

Þessi "framleiðslugrein" er þegar komin vel fram úr grónum atvinnugreinum eins og landbúnaði hvað snertir hlutdeild í þjóðarframleiðslunni, hvað þá í gjaldeyrisöflun, þannig að kannski eru bílskúrarnir vanmetnustu framleiðslustaðir landsins. 

 


mbl.is Byrjaði í bílskúrnum fyrir 10 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki langt síðan svona hætta var hér.

Sú var tíð að íbúar í Grafarvogshverfi þurftu að berjast fyrir því að losa byggðina við þá hættu sem var fólgin í því að hafa heila áburðarverksmiðju í nokkur hundruð metra fjarlægð.

Þegar hún var upphaflega reist kom Örfirirey til greina, en hætt var við það vegna of mikillar nálægðar við byggð. 

En 40 árum síðar var verksmiðjan, sem reist var, jafn nálægt eða jafnvel nær byggð! 

Og það kom fyrir að litlu munaði að verr færi, þegar óhapp varð í verksmiðjunni. 


mbl.is Gríðarleg sprenging í Texas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvernig gat ég verið svona blindur?"

Bóndi einn stóð upp á opnum fundi um síðustu aldamót og lýsti því, að hann hefði áratug fyrr verið svo illur út í mig fyrir umfjöllun mína í sjónvarpi um ástand gróðurs í Þórsmörk og á Almenningum tíu árum fyrr, að hefði hann haft byssu og séð mig þar á þeim tíma, þá hefði hann verið í því hugarástandi að skjóta mig á færi. 

"En nú er ég nýlega", sagði bóndinn, "búinn að fara þarna inn eftir og sjá, hvernig ástandið er núna, og ég sagði við sjálfan mig þegar ég kom þangað í sumar: "Hvernig gat ég verið svona blindur?"

Þessi lýsing bóndanst á við allar tegundir afneitunar á raunverulegu ástandi, svo sem ofneyslu áfengis, afneitun sem oft er þannig, að viðkomandi trúa því sjálfir að hún feli í sér sannleikann. 

Set hér kannski inn myndir af Þórsmörk og Almenningum ef færi gefst. 

Þegar ég var að gera þætti og fréttir um þessi mál á níunda áratugnum heyrði ég oftast það viðkvæði hjá heimamönnum, að ég væri aðkomumaður og hefði ekki vit á þessum málum. Heimamenn vissu hins vegar að ástandið hefði alltaf verið svona. 

Ég var að byrja að trúa þessu þegar ég tvennt opnaði augu mín. Á nokkrum árum í rallakstri um Kjalveg hafði ég tekið eftir því að stórar gróðurtorfur hurfu á örfáum árum svo ótrúlega hratt.

Og þegar ég kom í Kaldárrétt og fékk þessi svör, gat ég svarað á móti: "Þetta er ekki rétt hjá ykkur. Ég var hér í sumardvöl þrjú heil sumur 1947 til 1949 og veit, að gróðri hefur hrakað hér síðan." 

Fáar þjóðir eiga eins færa vísindamenn og kunnáttumenn um þessi mál og við Íslendingar. Einn þeirra, Ólafur Arnalds, er eini Íslendingurinn sem hefur fengið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. 

Það verður því að skipa nefnd manna sem ekki eiga hagsmuna að gæta eða tengjast hagsmunaaðilum til að fjalla um það, hvort beita eigi fé á Almenninga og stefna þar í hættu uppgræðslu, sem er og verður á viðkvæmu stigi næstu ár og áratugi. 

 

 


mbl.is Segja úrskurðinn ekki standast lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drægið reynist aðalatriðið.

Það liðu ekki mörg ár frá því að bílaöld hófst í raun á Íslandi fyrir réttum hundrað árum þangað til búið var að setja upp bensínstöðvar úti á landi. Síðan þá hefur notendur bílanna getað gengið að því vísu að geta lagt af stað upp í akstur án þess að þurfa að hafa sérstakar áhyggjur að verða eldsneytislausir.

Eftir hátt í aldar reynslu af þessu er skiljanlegt að notendur rafbíla setji fyrir sig takmarkað drægi þeirra.

Eldsneytislaus rafbíll er í raun á sama stigi og bilaður bíll.  

Jafnvel þótt hægt sé að stinga honum í rafsamband á staðnum jafngildir hann biluðum bíll meðan beðið er eftir því að hægt sé að aka honum aftur af stað.

Þegar fyrstu rafbílarnir komu hingað fyrir um 15 árum lét ég mér detta í hug að hægt væri að leysa þetta með rafbílum, sem væru þannig útbúnir, að hægt væri á afar fljótlegan og einfaldan hátt að skipta út tómum rafgeymum og hlöðnum á álíka löngum tíma á þjónustustöðvum og nú tekur að fylla bensíngeymi.

Þetta varndamál hefur hins vegar ekki tekist að leysa, heldur er reynt að framleiða blendingsbíla, þar sem eldsneyti á bílnum getur tekið við af raforkunni sjálfkrafa þegar raforkuna þrýtur.

Þessi bílar eru flóknari og dýrari smíð en annaðhvort rafbílar eða bensín/dísilbílar og þar hefur hnífurinn staðið í kúnni.

En það er framþróun í þessum málum, og vegna þeirrar sérstöðu Íslands að hafa yfir hreinni raforku að ráða hljótum við að stefna að því að vera í fararbroddi í þessum efnum.  


mbl.is Verðum í fararbroddi rafbílavæðingarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö gerólík lönd þessar vikurnar.

Stundum er sagt að tvær þjóðir búi í landinu þegar kjörum er misskipt á milli þjóðfélagshópa.

En þetta getur líka átt við um landshagi, veðurfar og umhverfi.

Þannig er litla Ísland er eins og tvö gerólík lönd eða heimsálfur þessar vikurnar. Ég var að koma ofan frá Akranesi í kvöld í opnum bíl í 8-9 stiga hita á sama tíma snjóflóð falla á norðanverðu landinu og þar er allt á kafi í snjó og frera.

Þetta gerist helst á vorin og sem betur fer getur myndin stundum snúist við á sumrin þegar svöl og hryssingsleg suðvestan áttin með skúrum lemur syðri hluta landsins, en heitur og þurr hnjúkaþeyr með meira en 20 stiga hita steypist ofan af hálendinu fyrir norðan og austan í sólskini um sumardýrð.


mbl.is Minna slasaður en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver dagur er gjöf.

IMG_7404Hver dagur lífsins er gjöf. Stundum er munurinn á milli þess að lifa þann daginn og að hann verði hinn síðasti afar lítill og mínúta getur til dæmis skipt máli eins og kemur fram í frétt á mbl.is.IMG_7397

Ég er til dæmis þakkláttur fyrir mörg skipti, þar sem litlu mátti muna og rakst á eitt þeirra þegar ég var að þýða myndina "In memoriam?" sem ég gerði fyrir tíu árum um Kárahnjúkavirkjun fyrir erlendan markað og ætla að frumsýna hér á landi á næstunni, ef Guð lofar. IMG_7396 

Set hér inn stillimyndir úr kvikmyndarskeiði úr myndinni og rétt er að taka fram, að vegna þess hvernig þær eru teknar út, eru þær óskýrar, og að fyrir slysni er ljósmynd úr lokum atburðarásarinnar efst.  IMG_7399 

Á næstefstu ljósmyndinni stend ég eins og lítill dökkur depill neðst í horninu vinstra megin upp við tvö stór ísbjörg undir munna íshellis í Kverkfjöllum og er að gera viðvörunarfrétt vegna hættu á íshruni. IMG_7400

Segi frá því að u.þ.b. einu sinni á hverju ári hrynji jafnvel allt hellisþakið niður þarna yst. IMG_7401

Síðan hleyp ég burtu og byrja aftur að taka mynd fjær, en þá, um það bil mínútu eftir að ég stóð upp við ísbjörgin, hrynur ca þúsund tonna ísstál niður.

Á fjórðu mynd ofan frá sjást ísbjörgin, sem staðið var við, ennþá en eru á næstu mynd, næsta sekúndubroti, horfin sekúndubroti síðar inn í  griðarlega flóðbylgju, sem þeytist meir en tíu metra upp í loftið, blönduð stórum íshnullungum, skellur yfir staðinn þar sem ég stóð rétt áður.

Líkurnar á að ná þessu kvikmyndarskeiði á þann hátt sem það var tekið, með inn"súmmi" og útsúmmi, var um einn á móti 30 milljónum !

Já, maður má þakka fyrir hvern dag, hverja stund og hverja mínútu.  IMG_7401


mbl.is „Mínúta sem skilur á milli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband