Færsluflokkur: Bloggar

Koltrefjarnar enn í sókn. "Eitthvað annað".

Það eru nokkrir áratugir síðan koltrefjar (composite) komu til sögunnar í flugvélagerð og fyrstu flugvélarnar, smíðaðar nær eingöngu úr þessu efni, komu til sögunnar.

Þetta voru yfirleytt litlar flugvélar, oft heimasmíðaðar. En síðan hafa þessi efni rutt sér til rúm, hægt og bítandi, og nýjasta Dreamlinerþotan hjá Boeing er að stórum hluta úr þessu efni, stærri hluta en nokkur önnur slík vél núna.

Þegar vélinni var hleypt af stokkunum sagði forstjórinn að þetta efni væri framtíðin og að hugsanlega sæu menn fram á stóra þotu þar sem ytra byrðið að minnsta kosti væri allt úr þessum efnum.

Af hverju?

Jú, vegna þess að í hverri þotu úr áli eru þúsundir svokallaðra hnoða, það er hnoðnagla, sem festa einstakar álplötur saman. Til þess að hnoða þessi hnoð þarf mörg hundruð starfsmenn, sem kostar fé að hafa í vinnu.

Orkan, sem þarf til að framleiða koltrefjar, er brot af þeirri orku sem þarf til að framleiða jafn mikið magn af áli.

Þess vegna er framrás koltrefjannna vondar fréttir fyrir áltrúarmenn á Íslandi, sem eru eins og nátttröll frá liðinni öld, þar sem sú trú var lögfest á Íslandi að því meiri orku sem hægt væri að selja "orkufrekum iðnaði", þ. e. stóriðju, á sem allra lægstu verði, því betra.

Koltrefjarnar eru í þeirra huga eitt af því vonda, sem fellur undir hugtakið og skammaryrðið "eitthvað annað."

Nú er runnin upp öld, þar sem orðið og takmarkið "orkumildur iðnaður" er ekið við af eftirsókninni eftir orkubruðlinu því að annars mun mannkynið ekki komast í gegnum 21. öldina.

En áltrúarmenn mega ekki heyra slíkt nefnt. Þeir lifa aðeins fyrir líðandi stund og gefa skít í líf og kjör komandi kynslóða.  


mbl.is Undirbúningur á fullu í koltrefjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundruð frambjóðenda hafa ekki getað kosið sig sjálfa.

Síðan núverandi kjördæmaskipan var tekin í meginatriðum1959, hafa Alþingiskosningar verið haldnar 17 sinnum og frambjóðendur hafa samtals verið vel á annan tug þúsunda. Algengt hefur verið að fólk hafi boðið sig fram í öðru kjördæmi en það hefur átt lögheimili í og er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gott dæmi um það.

Í kosningunum 2007 var ég til dæmis í framboði í öðru kjördæmi en ég á heima í og þetta er mjög algengt.

Þessi vegna finnst mér það varla fréttnæmt þótt svona sé háttað um Sturlu Jónsson en öllu fréttnæmara verður hvernig framboðinu reiðir af í höndum landskjörstjórnar á morgun.


mbl.is Sturla getur ekki kosið Sturlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eini óumbreytanlegi þingmeirihlutinn.

Þrátt fyrir kröfu þjóðfundar og þjóðaratkvæðagreiðslu um jafnt vægi atkvæða og aukið persónukjör, sem frumvarp stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár endurspegaði, virðist einhver ósýnilegur þingmeirihluti þvælast fyrir umbótum í þessum málum.

Það leiðir hugann að því að allt frá október 1959 hefur verið einn og sami þingmeirihlutinn allan þennan tíma:

Það er sá meirihluti þingmanna sem er fyrir hverjar kosningar í "öruggum sætum" og getur setið rólegur á kosninganótt með sitt glas og fagnað því óhjákvæmilega, að vera kosnir á þing.

Þetta myndi breytast ef val þingmanna yrði alfarið fært inn í kjörklefana. Nú eru svo miklar sviptingar á atkvæðafylginu að hugsanlega gæti þetta breyst 27. apríl.

Þess má geta, að í síðustu kosningunum með gamla laginu, í júní 1959, féll Emil Jónsson forsætisráðherra í kjördæmi sínu í Hafnarfirði, og Jón Pálmason, forseti sameinaðs Alþingis, féll í Austur-Húnavatnssýslu.  


mbl.is 82% munur á atkvæðavægi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dregur enn í sundur með Framsókn og Sjöllum.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn bæti við sig 1,7 prósentustigum bætir Framsókn við sig 2,5, þannig að það dregur enn í sundur með þeim. Ef Sjallar eru ánægðir með þetta gildir hið fornkveðna, að "litlu verður Vöggur feginn."

Rétt eins og í byggðakosningunum 2010 skín í gegn óánægjan með núverandi stjórnmálaöfl og hegðun stjórnmálamanna, til dæmis á Alþingi, að undanskildum Framsóknarflokknum að sjálfsögðu.

Einhver hefði látið segja sér það tvisvar að tveir nýir flokkar, Björt framtíð og Píratar, væru komnir í svipað fylgi og Samfylkingin, að Vinstri grænir stefndu í að fá aðeins um þriðjung þess fylgis, sem þeir fengu í kosningunum 2009 og að meira en 30% kjósenda ætluðu að kjósa einhver önnur framboð en fjórflokkinn.  


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfnin of frek? 83% þjóðarinnar líka of frek?

Sú var tíðin að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík skynjuðu og skildu þann uppruna og hlutverk borgarinnar að vaxa og dafna á forsendum þess að vera helsta miðstöð samgangna og þjóðustu sem höfuðborg og stóðu vörð um þetta hlutverk.

Þeir sáu að forsenda tilvistar borgarinnar frá upphafi hafði verið hve vel hún lægi á krossgötum samgangna, sem þá voru við gömlu Reykjavíkurhöfn þar sem sjóleiðin frá útlöndum og ofan af Akranesi og Borgarnesi mætti landleiðinni austur fyrir fjall og suður með sjó.

Nú hafa stærstu krossgötur landsins hins vegar færst austur að Elliðaám, en þetta virðast borgarfulltrúar Sjalla alls ekki skilja, haldur tönnlast á að miðja borgarinnar sé enn í Kvosinni og hafa nú tekið að sér forystu andstöðunnar við flugvöllinn ef marka má útspil þeirra varðandi flugvöllinn, sem þeir segja vera og "frekan" til rýmis.

Flugvallarsvæðið er um 7% af svæðinu vestan Elliðaáa eða álíka stórt svæði og Reykjavíkurhöfn tekur.

Nú má búast við að næsta skref hjá Sjallafulltrúunum verði að leggja höfnina niður af því að hún sé "of frek í umhverfi sínu" og að betra sé að reisa íbúðabyggð þar í staðinn.

Miklabrautin ein er hálfdrættingur á við flugvöllinn í "frekju" og verður kannski þar næsta verkefni að leggja hana niður.

Síðan vill svo til að 83% tóku afstöðu með flugvellinum í síðustu skoðanakönnun um hann og greinilegt að Sjallafulltrúarnir telja það fólk "of frekt í umhverfi sínu."

Æ, hvaða vesen er það að allt þetta fólk skuli hafa svona óæskilega skoðun og vera svona frekt.


mbl.is Flugvöllurinn of frekur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil gróska og fjölbreytni hjá unga tónlistarfólkinu.

Hlutverk tónlistarskólanna í þjóðlífinu verður seint ofmetin. Unga hæfileikafólkið, sem þar er alið upp og menntað, hrífur mann þegar tækifæri gefst til að heyra það sem það hefur fram að færa.

Sérstaklega er gaman að því heyra, hvað unga fólkið er opin og fordómalaust gagnvart tónlistarstefnum.

Þannig hefði maður haldið að gamla harmonikkutónlistin og það hljóðfæri yfirleitt þætti unga fólkinu einstaklega hallærislegt og gamaldags.

Þess vegna kom það þægilega á óvart að heyra Harmonikkukvintett Reykjavíkur, skipaðan æskufólki, sem hlaut verðlaun á Nótunni í fyrra, flytja alveg einstaklega áhugaverðar og góðar útsetningar á lögum, sem fyrirfram hefðu kannski þótt líkleg til að henta vel fyrir harmonikkuleik.

Þetta er dæmi um það, að það sem einu sinni var gott en hefur ýmist fallið í gleymsku eða dottið úr tísku, verður alltaf gott og getur þess vegna komist í tísku á ný.


mbl.is Guðföðurnum fagnað í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta hefur ekkert breyst síðustu árin.

Lýsingin á vinnudögum "fremstu forstjóranna" bendir ekki til mikilla breytinga í vinnuumhverfi þeirra né lífsstíl frá því sem var á dögum slíkra fyrir Hrun.

Enn er í minni frábært viðtal við Hannes Smárason í tímariti í ársbyrjun, sem tekið var í nokkrum bútum, á meðan hann var á leið upp í einkaþotu sína eða út úr henni, og gott ef að hann var ekki í nokkrum þjóðlöndum á þeim tíma sem leið á milli upphafs töku viðtalsins þar til henni lauk.

Ég efa ekki að hæfileikaríkt fólk, vinnusamt og metnaðargjarnt, leggi sig fram í slíkum störfum, fyrirtækjunum og þjóðinni til góðs. Um hitt efast ég, svo ekki sé meira sagt, að ofurlaun þess og ævintýralegir bónusar séu réttlætanleg fyrirbæri,  sem og sumt af því sem sóst er eftir að í stórgölluðu fjármálaumhverfi nútímans þar sem bankar fá vald til að búa til stórfelld "verðmæti" sem eru í raun ekki til.  

Ég hef stundum vitnað í suma speki þessa viðtals við Hannes Smárason, svo sem um það hvernig með nógu hröðum viðskiptum með fyrirtæki með tilheyrandi kennitöluskiptum og uppspólaðri viðskiptavild um tugi milljarða í hvert sinn var hægt að komast yfir óheyrilega mikil "verðmæti" á undraskömmum tíma, - fyrirbæri sem sprakk síðan með miklu hvelli í Hruninu.

Og lokasetningin um viðfangsefni "fremstu forstjóranna" var gull: "Það hefði engum dottið í hug að gera þessa hluti, sem við erum að gera, nema fólki, sem hefur enga hugmynd um það hvað það er að fara út í."

Skyldi þetta vera svona að einhverju leyti ennþá?


mbl.is Hvað einkennir fremstu forstjórana?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf gagnrýni hjá Jóni Steinari.

Hæstiréttur og dómskerfið voru mjög til umræðu í C-nefnd stjórnlagaráðs, sem fékk dómsmálin í fangið.

Þarna er um að ræða einn af þremur hefðbundnum handhöfum valdsins í lýðræðisþjóðfélagi og því skiptir miklu að þar sé vel um hnúta búið.

Niðurstaðan og takmarkið í starfi C-nefndarinnar var skýrt frá upphafi: Að dómskerfið væri sem traustast, óháðast og nyti sem mests trausts.

Ekki var efi í okkar huga um það, hve mikilvæg sérstaða Hæstaréttar sem æðsta dómsvalds þjóðarinnar og þetta er gulltryggt í ákvæðum nýrrar stjórnarskrár.

Ég hef lengi verið svipaðrar skoðunar og Jón Steinar Gunnlaugsson um að lengi hafi verið nauðsyn að breyta þannig umhverfinu, sem Hæstiréttur starfar í, að álag á hann minnki svo að betri tími og aðstaða gefist til sem vandaðastrar umfjöllunar hans um oft erfið og flókin deilumál.

Ég hef líka talið ástæðu til að taka upp millistig milli almennra dómstóla og Hæstaréttar, en ekki var tekin bein afstaða til þess í frumvarpinu um nýja stjórnarskrá, heldur látið nægja að hafa skýrt ákvæði um stöðu Hæstaréttar, miðað við aðra dómstóla, hvort sem stigin fyrir neðan hann yrðu eitt eða tvö.    


mbl.is Misræmis gætt í dómsúrlausnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of lítið auglýstur möguleiki, - persónukjör.

Í raun eru í gildi lagaákvæði, sem gera fólki kleift að viðhafa persónukjör í kjörklefunum, jafnvel í þeim mæli að sé þátttaka nógu mikil getur það farið langt áleiðis að hreinu persónukjöri.

Í síðustu breytingu á lögum um þetta var vægi útstrikana og uppröðunar aukið, en jafnframt hefur algerlega skort á að kjósendur séu fræddir um þessa möguleika.

Þar er bæði við fjölmiðla og framboðin sjálf að sakast.

Nú kemur í ljós í Norðaustur-kjördæmi að þetta er mjög mikilvægt ákvæði varðandi frambjóðandann í 9. sæti á lista Pírata í Norðausturkjördæmi, sem hefur styggt mjög hugsanlegra kjósendur listans.

Hann bauð sig sjálfur fram í 9. sætið og aðstandendur listans segjast ekki hafa vitað að hann hefði þær skoðanir, sem hann lét í ljósi á netinu á dögunum um Hildi Lilliendahl.

Ekki er hægt að breyta listanum eftir að honum hefur verið skilað til kjörstjórnar, en í kjörklefanum geta kjósendur með útstrikunum fellt hann út af listanum án þess að taka fylgi frá listanum sjálfum, og þeir geta líka raðað nöfnum upp á nýtt eftir ákveðnum reglum.

Að sumu leyti er skiljanlegt að framboðin og flokkarnir séu hikandi við að kynna kjósendum rétt sinn og möguleika til áhrifa, af ótta við að þeir geti gert atkvæði sín ógild ef þeir gera þetta ekki rétt.

Eitt er þó að minnsta kosti afar ljóst: Að með því að strika yfir öll nöfnin á listanum nema eitt, hefur þetta eina nafn færst upp í efsta sætið á þeim kjörseðli. Hins vegar finnst mér óskiljanlegt og raunar ámælisvert að yfirvöld og fjölmiðlar skuli ekki fræða kjósendur um þennan mikilvæga möguleika. 


mbl.is Hvetja til útstrikana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er rómverskt skip grafið í sandinum við Hólm í Landbroti ?

Mjög líklegt er að í Róm sé að finna ýmislegt tengt Íslandi sem ekki hefur verið vitað um áður, og að Rómverjar hinir fornu hafi komið meira við sögu hér á landi en vitað er um nú.

Dæmi: Í tveimur íslenskum blöðum, Tímanum og Lesbók Morgunblaðsins, var greint frá merkilegum fundi í landi Hólms í Landbroti, sem er skammt fyrir vestan Kirkjubæjarklaustur.

Greint er frá þessu nokkuð ítarlega í Lesbókinni 10. apríl 1932, þar sem sagt er frá því að þáverandi þjóðminjavörður, Matthías Þórðarson, hafi í hyggju að leita þá um sumarið að stóru skipi í farvegi Skaftár á mótum hans og lækjarfarvegar.

Runólfur Bjarnason, sem þá hafði falið syni sínum, Bjarna, forræði fyrir búinu, sagði frá því er hann og fleiri úr Landbroti fundu topp á stóru sívölu tré, sem stóð aðeins upp úr sandinum á ská, eftir að Skaftá hafði grafið sig niður þar um stundarsakir.

Skaftfellingar höfðu um aldir komið að strönduðum skipum á söndunum, og til dæmis fór afi minn, Þorfinnur Guðbrandsson, þá 17 ára, í eina af mörgum björgunarferðum þess tíma, og varð að vaða vatnið upp í mitti á leiðinni.

Runólfur Bjarnason sagði svo frá að sér sýndist þetta tré vera efsti hluti af mastri af stóru skipi, sem lægi hallandi á hlið eins og eftir strand.

Þetta gerðist einhvern tíman á áttunda áratug nítjándu aldar og fór hópur manna að trénu til þess að taka það upp. En það var pikkfast. Grófu þeir þá marga metra niður og var tréð því gildara eftir því sem neðar var komið, 30 sm í þvermál efst en 60 sm neðar.

Þegar svo neðarlega var komið var ekki hægt lengur að halda vatnsaganum í sandinum frá og voru leiðangursmenn ekki sammála um það hvað gera skyldi. Fyrst reyndu þeir að losa tréð með því að binda í það og toga í það allir í einu, en það gekk ekki.

Illu heilli var þá ákveðið að saga tréð (mastrið) í sundur eins neðarlega og hægt var og þar með voru örlög þess ráðin sem notadrjúgs viðar en á móti kom að þetta var hið mesta óráð, því að betra hefði verið að binda merkingu í topp mastursins sem hefði staðið áfram upp úr þeim sandi sem áin bar að staðnum, en sandurinn og áin voru sífelldum breytingum háð á þessum stað.

Stubbur mastursins grófst líka á örskömmum tíma niður í sandinn í vatnavöxtum og staðurinn týndist.

Runólfur taldi líklegt að þarna undir væri flak skips sem hefði strandað á sjávarfjöru þegar strandlengjan var á þessum slóðum áður en Skaftárhlaup og stærstu hraunstraumar á sögulegum tíma mannkyns höfðu fært landið langt út.

Jarðfræðingar telja ekki ólíklegt að ströndin hafi legið þarna fyrir 2000+ árum og Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur, telur að út frá forleifafræðilegum forsendum sé líklegra að Rómverjar hafi komið til Íslands fyrir landnám en Írar.

Fleiri siglingaþjóðir fornaldar en Rómverjar höfðu skip, þekkingu og burði til að sigla til Íslands fyrir meira en 2000 árum, svo sem Fönikíumenn og þjóðflokkur einn í Gallíu, sem bjó yfir mikilli siglingatækni.

Út frá þessari frásögn er ég byrjaður út frá 20 ára gamalli hugmynd að skrifa langstærsta bókmenntaverk, sem ég hef lagt í, og hef skrifað grind bókarinnar og nokkra kafla, alls um 100 blaðsíður.

Spurningin er hins vegar sú, hvort nútíma leitartækni geri það mögulegt að finna út gróflega hvaða staður það var, þar sem mastrið fannst, og athuga hvort hugsanlegir málmar í skipinu geti komið fram á leitartækjum, líkt og þegar togari fannst við strönd Skaftafellsfjöru fyrir 28 árum.  


mbl.is Óþekkt gögn um Ísland í Páfagarði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband