Færsluflokkur: Bloggar
16.5.2014 | 13:37
Göfug íþróttagrein: Járnkarlskast.
Þegar ég byrjaði að fara norður í land í sveit 1950 ríkti mikill áhugi um allt land á frjálsum íþróttum og fleiri áhorfendur fóru þá á helstu frjálsíþróttamótin í Reykjavík en á helstu knattspyrnuleiki.
Aðstæður voru frumstæðar í sveitinni en vegna þess að við vorum rétt að skríða yfir 10 ára aldurinn, strákarnir, gátum við notað hrífusköft til að stökkva stangarstökk.
Frændi minn, Runólfur Aðalbjörnsson, sem þá var 15 ára, hafði smíða þríhyrnda stiku sem notuð var til að mæla nákvæmlega fyrir 60 metrum, 100 metrum og 400 metrum til að hlaupa, og var slóðinn sem lá heim á bæinn hlaupabrautin.
Einhverja kastíþrótt varð að stunda, og þá var járnkarlinn nærtækastur, og því varð járnkarlskast smám saman vinsætasta íþróttagreinin.
Við fundum út að hægt er að nota þrjá mismunandi aðferðir við að kasta járnkarli. Sú nærtækasta er að kasta honum eins og spjóti, en við vorum of litlir til þess að ná árangri á þann veg.
Fundum þá út aðra aðferð, sem er að nota báðar hendurnar, halda á járnkarlinum eins og haldið er á skóflu, þegar mokað er, og dugði sú aðferð best.
Hvammsmetið var 8,74 metrar ef ég man rétt, og átti ég það, en Birnir Bjarnason, "Dinni", átti stangarstökksmetið, 1,44 metra.
Löngu síðar, þegar við vorum báðir komnir yfir tvítugt, fórum við saman í Hvamm og kepptum þá að sjálfsögðu í járnkarlskasti.
Þá kom í ljós, að þriðji kaststíllinn reyndist best, að halda á járnkarlinum með annarri hendi við hlið sér og sveifla honum þannig að í stað þess að kasta "innan handar" eins og gert er í spjótkasti, var honum sveifðað "utan handar" upp á við og áfram.
Ég ól þann draum með mér að einhvern tíma gæti járnkarlskast orðið að viðurkenndri keppnisgrein í frjálsum íþróttum.
Vonir til þess fara eðlilega minnkandi úr þessu, en kannski mætti nota þetta sem þraut í aflraunakeppni.
![]() |
Er þetta skrýtnasta mótorsportið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2014 | 09:33
1951 er komið aftur!
Fyrir 63 árum gerðist það í fyrsta sinn á Íslandi að heilt bæjarfélag fór á hvolf við það að frækinn íþróttaflokkur kom þangað frá Reykjavík með eftirsóttasta bikar og titil landsins í flokkaíþróttum, knattspyrnu.
Þetta var hið frækna lið Akurnesinga sem hafði gert strandhögg í Reykjavík og hrifsað þennann bikar af sjálfu KR-veldin, sem þá var, og státaði meðal annars af tveimur Evrópumeisturum í frjálsum íþróttum.
Þá var Akranes næstum jafn langt frá Reykjavík og Vestmannaeyjar eru núna.
Til þess að keppa í höfuðborginni þurftu Skagamenn að hossast í rútu eftir krókóttum, holóttum og mjóum malavegi fyrir Hvalfjörð í hátt á annan klukkutíma og það tók lengri tíma en nú tekur að aka eftir malbikuðum vegi frá Landeyjahöfn.
Framundan var tími hins svonefnda Gullaldarliðs Akurnesinga, sem meira að segja náði svo langt, að meirihluti landsliðsins var skipaður leikmönnum þaðan, allt frá markverðinum Helga Daníelssyni, sem kvaddur var fyrir nokkrum dögum í afar fjölmennri jarðarför á Skaganum, til þeirra Rikka, Þórðar Þórðar, Donna og Þórðar Jóns í framlínunni.
Og árum saman réðu þeir lögum og lofum á miðjunni hjá landsliðinu, Guðjón Finnbogason og Sveinn Teitsson.
Síðar varð til söngurinn "Skagamenn skorðuðu mörkin!" sem nú getur breyst að minnsta kosti um sinn, í "Eyjamenn skoruðu mörkin!"
Nú ríkir sami fögnuður í Eyjum og á Skaganum ár eftir ár í hálfan annan áratug fyrir um það bil 60 árum.
![]() |
Þetta var bara alger snilld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2014 | 22:59
Sá, sem þráði titilinn meira, vann.
Það fór eins og mig grunaði og setti á blað hér á blogginu í gær, að þegar jöfn hörð og langvarandi keppni er í úrslitarimmunni í handboltanum, standi það lið uppi sem sigurvegari, þar sem leikmenn og stuðningsmenn þyrstir ögn meira í titilinn en mótherjinn.
Margir spáðu því fyrirfram að Haukar myndu hafa betur í rimmunni og vinna með tölunum 3:0, þ. e. sigra í þremur leikjum í röð og nýta sér sína miklu breidd í leikmannahópnum og sigurhefðina.
En það fór á aðra lund og minnir á það þegar KA varð Íslandsmeistari í knattpyrnu hér um árið.
Sigurinn er fyrst og fremst Vestmannaeyinga sem heildar, hinnar órofa samheldi og smitandi baráttugleði sem gæddi gamal málttæki nýju lífi: "Trúin flytur fjöll."
Til hamingju, Eyjamenn !
![]() |
Ótrúleg stemning þegar bikarinn fór á loft |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2014 | 19:37
Kemur eina vonin frá útlöndum ?
Vitnað hefur verið í þau orð Jóns Sigurðssonar að Íslendingar þyrftu aðstoð útlendinga við að færa þjóðinni fullveldi.
Danskur maður, Ramus Kristján Rask, var slíkur maður, forgöngumaður um að bjarga íslenskri tungu.
Enskur maður hafði um það forystu að bjarga íslenska hundinum.
Þetta á ekki síst við um ýmis mál, þar sem smæð samfélags okkar gerir þetta enn nauðsynlegra.
Geirfinns- og Guðmundarmálin voru þess eðlis, að hafi einhverjir haldið að við Íslendingar gætum haldið þeim málum alveg út af fyrir okkur, mun það ekki takast.
Í lýsingu Guðjóns Skarphéðinssonar og lýsingum þeirra tveggja, sem sannanlega voru hafðir saklausir í margra vikna gæsluvarðhaldi við illan kost, má glögglega ráða, hvernig þeir voru brotnir niður með aðferðum, sem voru þá og ekki síður á okkar tímum svo harkalegar, að slíkt er ekki aðeins ólöglegt, heldur eru framburðir, sem neyddir eru fram á þann hátt algerlega marklausir.
Davíð Oddsson, sagði eitt sinn á þingi þegar hann var forsætisráðherra, að í þessum málum hefðu verið framin dómsmorð.
Enn virðist ekki vera nógu langt síðan þessir atburðir gerðust og þar að auki er návígið svo mikið í okkar örþjóðfélagi, að okkur er það mögulegt að hreinsa upp þá smán á íslensku samfélagi, sem Geirfinns- og Guðmundarmálin voru, eru og verða þar til þau verða gerð upp.
Ef BBC og fleiri öflugir aðilar erlendis koma nú til skjalanna til að varpa ljósi á þetta mál er það kannski eina vonin til þess að við sem þjóð getum horfst í augu við þetta verkefni og leys það.
Ljóst er af framburði í dagbókum sakborninganna og vitnisburðum þeirra síðar, sést, að það var hin óbærilegi þrýstingur í íslensku þjóðfélagi sem knúði þessa vitleysu áfram, þar sem vantaði lík, vantaði morðvopn og vantaði ástæðu til þess að fremja morð á tveimur aðskildum mönnum sem aldrei tengdust neitt hvor öðrum, hvað þá sakborningunum.
Í dag bárust fréttir af harkalegum dómi í Súdan yfir konu, sem neitar að hverfa frá kristni og gerast múslimi.
Þær hafa réttilega vakið hörð viðbrögð um allan heim. Framkvæmd dómsmála hvar sem er í heiminum skipta máli.
![]() |
Ég viðurkenndi að hafa drepið Geirfinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.5.2014 | 08:37
Þarf alþjóðlegt dómsvald í svona málum?
Forræðismál virðast vera einhver erfiðustu mál, sem rekin eru fyrir dómstólum, og verða enn erfiðari ef þau eru orðin að eins konar milliríkjamáli.
Í ævisögu Steingríms Hermannsssonar, sem þurfti að glíma við mörg afar erfið mál í stjórnmálum, má skynja hve forræðismál hans sem tengdist tveimur löndum, var honum erfitt.
Enn er í minni málarekstur Sophiu Hansen, þar sem um var að ræða brottnám tyrknesks föður á tveimur dætrum Sophiu til Tyrklands.
Þrátt fyrir allt tal um að nútíma réttarfar sé svo miklu betra en það var fyrr á öldum, er engu líkara, en að þegar forræðismál lenda á borði tveggja þjóða, ráði þær ekki við þau, heldur verði þessi mál að bitbeini á milli þjóðanna.
Af þeim upplýsingum, sem fást af dómstólameðferð á máli Hjördísar Svan Aðalheiðardóttur í Danmörku, er að sjá að dönsk yfirvöld séu ekki fær um að leggja faglegt mat á mál hennar.
Og af tali lögfræðinga er heyra að slík hegðun sé alvanaleg þegar um svona mál sé að ræða.
Einhvern veginn finnst manni að til þyrfti að vera sérstakur alþjóðlegur dómstóll, sem fjalli eingöngu um svona mál út frá sjónarmiði óháðs þriðja aðila.
![]() |
Eingöngu að klekkja á Hjördísi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.5.2014 | 20:02
Aðdáunarverð baráttugleði.
Það hlýtur að teljast til afreka hve langt ÍBV-liðið hefur komist í Íslandsmótinu í handbolta vegna þess, að í langhlaupi í röð erfiðra stórleikja í lok móts getur skipt sköpum að hafa úr sem stærstum hópi góðra leikmanna að velja.
Margir álitu fyrirfram, að Haukar myndu standa betur að vígi á grundvelli stærri hóps sterkra leikmannaá bekknum og sterkara varaliðs, heldur en ÍBV hefur yfir að ráða.
Í fyrstu fjórum leikjunum hefur þetta farið á aðra lund. Með einstaklega öflugum liðsanda og baráttugleði samfara óborganlegri stemningu fylgismanna liðsins hefur tekist að komast alla leið í hreinan úrslitaleik.
Það hefur að vísu áður gerst, að lið af landsbyggðinni hafi borist áfram á hliðstæðri bylgju, allt frá þeim tíma þegar gullaldarlið Skagamanna varð til.
Í handboltanun minnist maður þeirrar stemningar sem reis í kringum lið Selfoss hér um árið.
Það hefur stundum verið sagt um úrslitaleiki í Íslandsmótinu að þegar um tvö afar jöfn lið er að ræða, ráði þráin eftir bikarnum mestu á úrslitastundu.
En á hitt verður líka að líta, að félag eins og Haukar, sem hefur oft hampað eftirsóttustu verðlaunum í íþróttum, nýtur oft góðs af þeirri reynslu og hefð, sem slíku fylgir.
Þess vegna verður óvenju gaman að fylgjast með úrslitaleiknum í Íslandsmótinu að þessu sinni.
![]() |
Rauðglóandi síminn hjá ÍBV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2014 | 13:24
Eldhúsdeginum þjófstartað með Prúðuleikaraþætti.
Fyrir hreina tilviljun datt inn til mín bein útsending frá Alþingi rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi, sem varð til þess að draga mann að tækinu, þvílíkt var fjörið. Þetta var nokkurs konar Prúðuleikaraþáttur.
Steingrímur J. var greinilega í stuði þegar hann fór í gegnum skuldaleiðréttinguna og séreignasparnaðinn og síðan lagði Vigdís Hauksdóttir sitt af mörkum til að halda fjörinu uppi með frammíköllum, sem af spunnust þriggja manna orðaskipti þegar þingforseti var dreginn inn í leikritið.
Lokakaflann átti síðan Pétur Blöndal og enda þótt ýmis orðaskipti þyki fréttnæmust frá þessum hluta umræðnanna í nótt, sitja þó eftir fræðandi og málefnaleg atriði í ræðum þeirra Steingríms og Péturs, sem eiga fullt erindi til landsmanna.
Í eldhúsdagsumræðunum í kvöld er hætt við að hún verði ekki eins grípandi og áhugaverð, vegna þess hve umræðan verður dreifð. Verði það þannig, er það synd, því að málefnalegar umræður með rökum og gagnrökum eru nauðsynlegar. Má segja að eldhúsdeginum hafi verið þjófstartað í nótt.
![]() |
Sagði Vigdísi að þegja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.5.2014 | 04:24
Risalínurnar dynja strax yfir í sumar.
Af öllum þeim aragrúa virkjana sem nú eru að hellast yfir landsmenn, tæplega hundrað nýjar í viðbót við um þrjátíu virkjanir sem þegar eru komnar, fer það eftir ýmsu, hve hratt þær geta gengið í gegn.
Um þær þeirra, sem ég vann að greiningu á fyrir Framtíðarlandið til þess að gera athugasemdir fyrir rammaáætlun 2011, svo sem virkjanir á Kröflusvæðinu og í Skaftárhreppi, gildir það að stórlega er áfátt mati á umhverfisáhrifum, sem virkjanaaðilar hafa fengið ákveðna verkfræðistofu til að framkvæma, svo að augljóslega eiga eftir að verða tafir á að klára þau mál, þegar hið rétta verður dregið fram í dagsljósið.
Það fer að vísu mjög eftir aðhaldi og árvekni gagnrýnenda hve vel verður farið ofan í saumana á þessum ósköpum en með hreinum ólíkindum eru þær rangfærslur og spuni, sem finna má í þessum gögnum.
Ástæðan er líklega sú, að verkfræðistofan gengur svo hart fram í að þóknast verkbeiðenda, að verkið verður stórgallað.
Af þessum sökum er líklegt að risaháspennulínurnar, sem leggja á í þágu stóriðjunnar um mestallt landið, muni fyrst dynja yfir, jafnvel þótt sumt, sem ætlunin er að gera, muni valda miklu stórfelldari spjöllum og skapa mun meiri áhættu en upp er látið nú.
Landsnet keyrir áform sín áfram og það er veifað sæstreng til Evrópu, tugum virkjana og álveri í Helguvík auk fleiri kaupenda raforku, sem flokkast undir hins tilbeiðslukenna "orkufreka iðnaðar".
Allt er það gert undir yfirskini "afhendingaröryggis til almennra notenda", sem er alrangt, því að almennir notendur þurfa ekki svona risavaxnar línur, heldur aðeins stóriðjan.
Risalínan, sem leggja á eftir endilöngum Reykjanesskaganum, á að liggja yfir vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins og nú er greint frá því í fréttum að framkvæmdir muni hefjast í landi fjögurra sveitarfélaga strax í sumar, enda búið að ganga frá því að valtað verði yfir þá, sem dirfast að andæfa þessum framkvæmdum. L'inurnar verða keyrðar í gegn með því að beita eignarnámi og því valdi, sem þurfa þykir að grípa til.
Tónninn var gefinn í Gálgahrauni í fyrra þar sem stærsta skriðbeltatæki landsins með atbeina sextíu lögregluþjóna með handjárn, gasbrúsa og kylfur var beitt til valdbeitingar gagnvart friðsömu fólki við náttúruskoðun, til að valda hámarks óafturkræfum spjöllum á sem skemmstum tíma í þágu þarflausrar framkvæmdar, þar sem framkvæmaleyfi var útrunnið og mat á umhverfishrifum úrelt og ónýtt.
Í ofanálag hafði svo verið búið um hnúta, að lögfesting Árósasáttmálans hér á landi, sem í öllum öðrum Evrópulöndum tryggir lögaðild náttúruverndarsamtaka að framkvæmdum, sem valda miklum og óafturkræfum umhverfisspjöllum, reyndist vera gagnslaust pappírsgagn að dómi Hæstaréttar.
Landsnet pressar nú stíft að fá að vaða um landið með risalínur sínar og líklega helst að fá að valda sem mestum spjöllum á miðhálendinu, sem býr yfir dýrmætustu náttúrverðmætum landsins, af því að við fleiri aðila er að eiga með línu um byggðir landsins, eignarlönd og sveitarfélög heldur en ef farið er um hálendið.
![]() |
Landsnet sækir um framkvæmdaleyfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.5.2014 | 00:10
Yfirfærsla reynslu í dýraríkinu vanmetin.
Okkur er tamt að tala um "skynlausar skepnur" þegar dýr og fuglar eru annars vegar og í því felst það til dæmis að dýr séu svo heimsk að þau geti ekki lært af reynslunni og því síður geti þau deilt lærdómi sínum með fleiri dýrum, svo sem afkomendum sínum.
Mörg ótrúleg dæmi eru hins vegar um það hve fljót dýr geta verið að læra á breyttar aðstæður og hvernig þessi þekking getur meira að segja dreifst á milli kynslóða.
Í fróðlegu viðtali við helsta frumkvöðul hvalaskoðunarferða á Húsavík kom fram, að hrefnur séu mikilvægasta hvalategundin fyrir hvalaskoðunarferðirnar, og að eftir friðun margra ára, séu þær orðnar bæði forvitnar og gæfar, en það er forsenda fyrir því að hvalir sjáist í námunda við hvalaskoðunarbátana.
En hann segir líka að að sama skapi séu veiðarnar á þeim að snúa þessu við, þannig að dýrin séu farin að verða fælin og stygg í vaxandi mæli og að með sama áframhaldi muni þetta rústa þessari ferðaþjónustu, sem nú sinnir jafn mörgum ferðamönnum árlega og komu hingað í heild fyrir áratug.
Það blasir við að hagsmunir hvalveiðimanna eru örlítið brot af hagsmunum hvalaskoðunarmanna og ferðaþjónustunnar.
![]() |
Oddvitar vilja stærra hvalaskoðunarsvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2014 | 20:34
Löngu úrelt skipting og skipulag höfuðborgarsvæðisins.
Ef litið er á kort af höfuðborgarsvæðinu sést að hverfin þrjú, Grafarvogur, Árbær og Breiðholt ættu miklu frekar að vera saman í sérstöku, stóru sveitarfélagi því að Kópavogur liggur nær Reykjavík.
Þyngdarmiðja íbúðabyggðar höfuðborgarsvæðisins er aðeins nokkur hundruð metra fyrir norðvestan Skemmuhverfið í Kópavogi.
1954 gafst gullið tækifæri til að sameina Reykjavík og Kópavog en eingöngu þröngir pólitískir hagsmunir tveggja flokka, Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokksins, komu í veg fyrir það.
Í Reykjavík voru Sjálfstæðismenn með meirihluta í bæjarstjórn en "kommarnir" voru í meirihluta í Kópavogi.
Sameining hefði þýtt að báðir þessir flokkar hefðu misst bæjarstjórnarmeirihluta, kommarnir vegna þess að þeir réðu ekki lengur sem meirihlutaafl í sérstöku sveitarfélagi, og Sjallar hefðu misst meirihlutann í Reykjavík við það að fá hina vinstri sinnuðu kjósendur í Kópavogi inn á kjörskrá í Reykjavík.
Að vísu hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau skipulagsslys, sem síðan hafa orðið á þessu svæði með því að drífa í því að nota lagasetningu til að skapa sérstakt sameiginlegt skipulagsvald fyrir höfuðborgarsvæðið, en það var aldrei gert.
Gott dæmi um ruglið er það, að til þess að komast á bíl hundrað metra vegalengd milli húsa, sem eru annars vegar í Salahverfinu í Kópavogi og hins vegar í Seljahverfinu í Breiðholtinu, þarf að aka fjögurra kílómetra vegalengd !
Milli landamerkjum þessara tveggja hverfa liggur sem sé á stærstum kafla svæði, sem líkist helst einskis manns hlutlausu svæði á milli tveggja óvinaríkja !
Í græðgisbólunni í aðdraganda Hrunsins ríkti stjórnlaus og skipulagslaus keppni milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um sölu lóða og byggingu nýrra hverfa.
Raunar hefur þetta ástand verið að miklu leyti viðvarandi árum saman á svæðinu. Þannig hefur Garðabær byggt blekkingar sínar varðandi Álftanesveg á þeirri draumsýn að reisa með hraði 20 þúsund manna byggð á Álftanesi með tilheyrandi hraðbraut og lengi vel var það draumsýn á Seltjarnarnesi að reisa stórbyggð þar til að geta selt nógu mikið af lóðum til að auglýsa "lægsta útvar á Íslandi."
Hugsunin á bak við er sú, að ef byggðin haldi ekki áfram að vaxa hratt, fækki þar yngra fólkinu og þar með myndu tekjurnar af því fyrir bæjarfélagið minnka.
Allir sjá, að á Seltjarnarnesi hlýtur að koma að því að ekki verði hægt að fjölga fólki og raunar er komið að því þegar.
En ef Seltjarnarnes væri hluti af Reykjavík og íbúar þar borguðu útsvar til Reykjavíkur, væri engin ástæða fyrir því kröfunni um hinn endalausa vöxt byggðarinnar þar.
Klaufagangur hlýtur að ráða því að framboð til borgarstjórnar í Reykjavík setji upp auglýsingu í Kópavogi og tali í henni um "hverfi borgarinnar".
Væri hins vegar höfuðborgarsvæðið eitt sveitarfélag með 3-5 nokkuð sjálfstæðum einingum drjúgrar sjálfsstjórnar, væri svona auglýsing hins vegar fullkomlega eðlileg.
![]() |
Er þetta upphaf óvinveittrar yfirtöku? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)