HVEITIBRAUÐSDAGAR Í BIRTU OG YL.

Heyrði álengdar að nýja ríkisstjórnin nyti fylgis 83ja prósenta aðspurðra í Capacent Gallup könnun og fylgdi með að þetta væri met. Metið miðast að vísu við tímabilið frá 1992 en ríkisstjórnirnar 1992-2007 höfðu samanlagt hvergi nærri jafn mikið fylgi í kosningum og núverandi ríkisstjórn. Það er þekkt fyrirbæri eftir myndun ríkisstjórna að þær njóta góðs byrs í fyrstu líkt og brúðhjón á hveitibrauðsdögum.

Í stjórnarsáttmálanum eru ýmis fögur fyrirheit sem að vísu eru langflest eins og óútfyllt víxileyðublöð en undirskriftirnar líta ágætlega út á pappírnum.

Á þessum árstíma eru flestir komnir í "ég fer í fríið"-sumarskap og allt er í góðu, - að vísu vofir yfir erfið ákvörðun um þorskkvótann en ekkert hefur gerst ákveðið enn.

Það er birta og ylur yfir landinu, - fólk er ekki í skapi til að argast út í parið sem fór heim af kosningaballinu og hefur látið pússa sig saman.  

Það verður ekki fyrr en í haust sem hið raunverulega ástand fer að skýrast.

Maður hefur á tilfinningunni að Samfylkingin hafi lagt upp með það að þrátt fyrir að stóriðjufréttirnar dynji yfir nánast daglega verði hægt að fresta lokaákvörðunum um virkjanir fram í hálft kjörtímabilið og setja kíkinn fyrir blinda augað á meðan.

Eftir tvö ár: "Den tid, den sorg."

Við sjáum hvað setur. Þrátt fyrir loforðin fögru er enn ekkert fast í hendi um það að stóriðjuhraðlestin hafi hægt neitt á sér.

 


Bloggfærslur 1. júlí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband