4.7.2007 | 23:43
LAXVEIÐIPERLAN MIKLA !
Hugmyndir um að gera Jökulsá á Dal að einhverri bestu laxveiðiá landsins vegna þess að fyrir neðan Kárahnjúkastíflu verði tær bergvatnsá eru í meira lagi hæpnar. Áin verður að vísu tær á vorin og allt fram í ágúst en þá breytist hún í grugguga jökulsá sem getur orðið með þeim stærri á landinu. Ástæðan er sú að aðeins 100 rúmmetrar af vatni fara á sekúndu um göngin austur í Fljótsdal og þegar áin er 5-800 rúmmetrar í hitaleysingum síðsumars fara því 400-700 rúmmetrar af dökkbrúnum flaumi um yfirfallið niður í Jökuldal.
Þótt talið sé að 80-90 prósent af aurnum í Jöklu setjist til í Hálslóni er þetta svo langaurugasta á landsins að afgangurinn gerir ána á yfirfallinu jafngrugguga og aðrar jökulár eru óstíflaðar.
Samanburður við Blöndu, miklu minna vatnsfall og hvergi nærri eins aurugt, er út í hött.
Ég á eftir að sjá að lax geti þolað svo stórkostlega og snögga árlega umbreytingu á vatnsfalli og blasir við að verður síðsumars ár hvert.
Í góðum vatnsárum mun þetta flóð hugsanlega koma í júlí og gaman væri að heyra álit sérfræðinga um laxagengd á þessu.
En auðvitað er langbest að lifa í trúnni á hin miklu búdrýgindi á alla lund sem óspart er haldið á lofti að Kárahnjúkavirkjun veiti þjóðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.7.2007 | 11:54
STAÐSETNING ÞJÓNUSTU.
Þegar flugvél fer í ársskoðun þarf að sinna nokkrum erindum og þá kemur í ljós hve mikill tími fer í erindi af þessu tagi hjá nútímamanni. Svona var þetta hjá mér að þess sinni: Frá flugvélaverkstæði í Skerjafirði með slökkvitæki til skoðunar í Borgartúni, sæti til lagfæringar í Ármúla, upp á Höfða að ná í málningu, en þá kemur í ljós að hún fæst í Skefunni. Farið í lyfjabúð í Kringlunni til að fá sjúkrakassa skoðaðan og vottaðan, síðan suður á Hvaleyrarholt syðst í Hafnarfirði með björgunarvesti til prófunar. Það tekur auðvitað tíma að reka erindið á hverjum stað.
En þetta er aðeins hálfur gerningurinn því að síðan tekur við annað eins ferðalag nokkrum dögum síðar vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið til þess að ná í hlutina, slökkvitækið, sætin, björgunarvestin og sjúkrakassann og fara með suður í Skerjafjörð, og aftur tekur tíma að reka erindið á hverjum stað.
Þetta ferðalag gefur athyglisverða vísbendingu. Ef dregin er lína frá Hvaleyrarholti um Ártúnshöfðann, Skeifuna, Borgartún og Kringluna sést vel að staðirnir sem þurfti að reka erindin á liggja út frá austurhluta Reykjavíkur. Þegar ég þurfti að reka sams konar erindi fyrir 20-30 árum lágu þessir staðir allir á svæðinu frá vesturhöfninni inn að Suðurlandsbraut.
Á hverju ári rekur maður sig á það að fyrirtæki flytji þjónustu sína í austurátt og til suðurs í Kópavog og Hafnarfjörð. Í fyrradag ætlaði ég að reka erindi í Borgartúni en fyrirtækið var flutt suður í Heiðarsmára. Tilviljun?
Það held ég ekki. Mannkynssagan sýnir að byggð, verslun og þjónusta þróast í kringum krossgötur og samgönguæðar. Ef dregin er lína frá Reykjanesbæ upp í Mosfellsbæ eða jafnvel áfram til Akureyrar og síðan önnur lína frá Suðurlandi til borgarinnar mætast þessar línur á svæðinu Ártúnshöfði-Mjódd-Smárahverfi.
Þetta svæði er í vexti og ekkert getur stöðvað það nema plássleysi sem mun hrekja sumt af aukinni starfsemi til beggja átta, ekki í áttina að miðborg Reykjavíkur, heldur eftir ásnum Reykjanesbær-Mosfellsbær.
Ef menn hefðu verið framsýnni og haft víðsýni til að bera hefði verið reiknað með mun stærra svæði fyrir þjónustubyggðina í hinni óhjákvæmilegu nýju miðborg heldur en gert var. ´
Ég man þá tíð fyrir 50 árum þegar hlegið var að því að gera ráð fyrir nýjum miðbæ í sunnanverðri Kringlumýri og í allmörg ár virtust hrakspár um þennan miðbæ ætla að rætast. Svæðið stóð lengi autt og það sýndist ljóst að þetta væri tálsýn og svæðið þar að auki of stórt.
Fyrir allnokkru kom í ljós að svæðið var alltof lítið til þess að geta orðið nýr miðbær.
Staðsetning Morgunblaðsins segir kannski sína sögu. Fyrst í Austurstræti og Aðalstræti, síðan við Kringluna og nú við Rauðavatn.
Tökum dæmi um hliðstæður í nágrannalöndunum.
Þegar ekið er þjóðleiðina norður með austurströnd Svíþjóðar liggur leiðin meðfram eða í gegnum miðborg Stokkhólms. Úr vestri enda þjóðleiðirnar frá Osló og Gautaborg í Stokkhólmi og mæta þar leiðinni norður austurströnd Svíþjóðar.
Þetta eru T-gatnamót alveg eins og eru hér heima þar sem Suðurlandsvegur mætir þjóðleiðinni Vesturlandsvegur-Reykjanesbraut.
Osló liggur líka á T-gatnamótum þjóðleiðarinnar fyrir botn Oslófjarðar og leiðarinnar þaðan norður til Þrándheims og á enda Noregs.
Munurinn á Stokkhólmi og Reykjavík er sá að miðborg Stokkhóms er í meginþjóðleiðiinni meðfram austurstönd landsins, en svokölluð miðborg Reykjavíkur liggur ekki við þjóðleið.
Miðborg Reykjavíkur lá í þjóðleið fyrir 1930. Þá lá þjóðleiðin lá úr austri niður að Reykjavíkurhöfn og þaðan á sjó norður og vestur um Faxaflóa. Þetta er liðin tíð.
Allar tilraunir til þess að gera "miðborg" Reykjavíkur að aðalmiðju frjálsrar verslunar og þjónustu eru dæmdar til að mistakast nema með óhemju róttækum aðgerðum sem myndu felast í því að gera þjóðbraut frá Hafnarfirði um Álftanes, Skerjafjörð, "miðborgina" og norður um Kollafjörð.
Jafnvel þetta allt myndi ekki nægja, - Mjóddin er í miðju T-gatnamótanna eftir sem áður.
Til þess gera "miðborg" Reykjavíkur að slíkri allsherjarmiðborg á ný þarf gríðarlegar samgönguframkvæmdir, ekki síst til þess að leysa þann vanda sem skapast af hinni auknu umferð sem sóst er eftir að beina til "miðborgarinnar".
Ég held að eina leiðin til að efla "miðborgina" sé að hið opinbera setji þar stofnanir sínar og menningarmiðstöðvar og að gera þar hið sama og gert var í borginni Santa Barbara í Kaliforníu, að að hafa þar gjaldfrjáls bílastæði.
Á þann hátt má gefa elsta hluta Reykjavíkur þokka og sjarma sem verður ólíkur streitukenndu yfirbragði verslunar- og þjónustuhverfanna á ásnum Ártúnshöfði-Mjódd-Smárahverfi.
Ein þjóðleið liggur þó enn við "miðborgina". Það er þjóðleið innanlandsflugsins sem er forsenda fyrir því að Akureyri og Egilsstaðir hafi svipaða aðstöðu og Borgarnes, Akranes, Hveragerði og Árborg, en allir þessir staðir eiga tilveru sína undir því að þaðan er innan við klukkustundar ferð til Reykjavíkur.
Ef innanlandsflugið verður flutt upp á Hólmsheiði bætist enn ein þjóðleiðin við "öfugu" megin við ásinn Reykjanesbraut-Vesturlandsvegur/Sundabraut og sú hálf milljón manna sem kemur árlega flugleiðis til borgarinnar mun þá reka sín erindi í austanverðri borginni fremur en að fara vestur eftir Seltjarnarnesinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)