Nýjar vígstöðvar?

Reyfarinn, sem nú er í gangi varðandi tölvuhakk / innbrot og dreifingu upplýsinga eftir miklum krókaleiðum um hið stóra pólitíska svið sem nær frá frambjóðendum í forsetakosningum í Bandaríkjum yfir til Pútíns Rússlandsforseta, felur líklega ekki í sér nýjar vígstöðvar í átökum stjórnmálamanna, hagsmunahópa eða ríkja, því að njósnir hafa ævinlega verið til.

Núna rétt áðan var verið að sýna mynd um þá stórmerkilegu konu, sem Elanor Roosevelt var, og það var ekkert smáræði af gögnum sem Edgar Hoover lét njósnara sína safna leynilega um hana og aðra, svo að hliðstæða þess sem nú er að gerast, hefur lengi verið til.   

En umfangið og eðli tölvustríðsins, sem háð hefur verið í haust og vetur sýna mikinn vöxt og útbreiðslu þessa sviðs, hamagangs í tölvukerfum, sem er dálítið óhugnanlegur, því að hvað vitum við hvert tækniframfarirnar á þessu sviði geta leitt okkur? 


mbl.is Tilurð „gullsturtu“-skýrslunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf að spýta í lófana. Þetta gengur ekki lengur.

Umhverfismál eru langmikilvægasta mál jarðarbúa og verða æ mikilvægari. Það gildir um öll lönd heims, líka Ísland. 

Vonandi verða athafnir látnar fylgja yfirlýsingum bæði fráfarandi og núverandi umhverfisráðherra með það að það þurfi að koma böndum á neysluna, en þar drögum við svo sannarlega lappirnar, eins og nánar er fjallað um í öðrum bloggpistli, næstnæst á undann þessum á síðunni. 


mbl.is „Verðum að hætta þessari neyslu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir vendir sópa best í Engeyjarstjórninni?

Á fiskifræðingamáli hefur nýliðun í ríkisstjórnum og á Alþingi sjaldan verið meiri og samfelldari í sögu lýðveldisins en í síðustu þremur kosningum. 

Máltækið segir að nýir vendir sópi best og verður svo vonandi nú þótt það hafi sést við fyrri stjórnarskipti að nýliðarnir hafi þurft að hlaupa af sér hornin ef svo má að orði komast. 

Það er til marks um nýja tíma að enda þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið með um fjórðungi minna fylgi í kosningunum núna en hann hafði fram til 2009, hefur staða hans sjaldan verið sterkari en nú. 

Allt frá tímum Thorsaranna hafa ættarveldi verið áberandi í flokknum. Ættfeðurnir Thor Jensen og Benedikt Sveinsson brutust til valda og áhrifa fyrir öld og synir Benedikts, Bjarni, Sveinn og Pétur urðu áberandi í stjórnmálum og efnahagsmálum nokkru fyrir miðja síðustu öld. 

Bjarni Benediktsson eldri tók við af Ólafi Thors sem forsætisráðherra á sjötta áratug síðustu aldar í Viðreisnarstjórninni og nú er aftur kominn Bjarni Benediktsson, tveimur kynslóðum síðar og hægt að kalla þessa ríkisstjórn Engeyjarstjórnina af því að tveir af þremur oddvitum hennar eru frændur og af þeirri ætt.

Og einn stjórnarflokkanna heitir meira að segja Viðreisn. 

Ekki eru þó allir stjórnmálamenn af ættinni á sömu pólitísku línu og þeir. Nægir að nefna Valgerði Bjarnadóttur og Guðrúnu Pétursdóttur í því sambandi.

Einhver staðar sá ég þau ummæli úr herbúðum Viðreisnar að það væri eins og að koma heim í heiðardal Sjálfstæðisflokksins að koma inn í þessa ríkisstjórn. 

Myndun stjórnarinnar er rökrétt afleiðing af því að Viðreisn var í þeirri oddaaðstöðu að geta ráðið því hvort mynduð yrði stjórn með hægri eða vinstri slagsíðu. 

Það minnir mig á að tveir ráðherranna, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson voru meðal fjögurra farþega í flugi með þau, Geir Haarde þáverandi forsætisráðherra og Arnbjörgu Sveinsdóttur þingmann Norðausturkjördæmis um norðausturhálendið og virkjanasvæði Kárahnjúkavirkjunar í ágúst 2006.

Vonandi sópa nýir vendir vel í sínum ráðuneytum í þessari ríkisstjórn, sem verður svo sannarlega ekki í öfundsverðri aðstöðu með sinn knappa þingmeirihluta og krefjandi verkefni í kjara- og efnahagsmálum. 


mbl.is Tilkynnti um fimm ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi hætt að draga lappirnar.

Á vönduðu málþingi á vegum Verkfræðingafélags Íslands fyrir meira en þremur árum, ef ég man rétt, var norskur sérfræðingur í rafbílum frummælandi og bæði þáverandi forseti Íslands og forsætisráðherra voru viðstaddir og töluðu um hraðar og markvissar aðgerðir hér á landi til að fylgja Norðmönnum eftir. Renault Twizy

Ekki hefur verið staðið við stóru orðin, alls ekki. 

Ég lét þau orð falla að ég ætlaði mér að minnka kolefnisspor mitt um allt að helming. 

Hafði í huga "rafbíl litla mannsins" Renault Twisy, en þegar það reyndist of dýrt átak fyrir mig varð lausnin fólgin í tveimur aðgerðum. Sörli. Bakkasel.

"Orkuskipti - koma svo!" "Orkunýtni - koma svo!"  Þetta voru tvenn kjörorð sem sett voru á flot hér á blogginu, á Youtube, á facebook í fyrra og hitteðfyrra og með tilheyrandi aðgerðum á vistvænum fararskjótum 18.-20. ágúst 2015 og 18.-19. ágúst 2016. 

Í aðgerðinni "Orkuskipti - koma svo!" 18. - 20. ágúst 2015 var farið á rafreiðhjólinu Sörla, sem eingöngu var knúið rafmagni, en pedulunum kúplað frá, frá Akureyri til Reykjavíkur fyrir 115 krónur í orkukostnað á einum sólarhring og 18 klukkustundum frá rásstað á Akureyri til heimilis míns í Reykjavík. Honda PCX, Léttir, Fljótum, Skagafirði (2)

Í aðgerðinni "Orkunýtni - koma svo!" 18. - 19. ágúst 2016 var farið á þjóðvegahraða á vespuvélhjólinu Létti frá Reykjavíkur til Akureyrar á 5 klst 40 mínútum brúttó fyrir 1900 krónur í bensínkostnað. Eyðsla 2,5 lítrar á 100 kílómetra.  

Stansað var í þrjár klukkustundir á Akureyri við blogg, facebook, ljósmyndun og fleira stúss, en síðan haldið áfram í 22 klst brúttó, og farinn allur hringurinn um Fjarðaleið, hringurinn því 1340 km á 31 klst brúttó, en 28 klst ef fjölmiðlunarstarf er dregið frá.

Eyðsla 2,6 l/100 km að meðaltali og bensínkostnaður allan hringinn varð innan við 6700 krónur.Nissan Leaf

Eyðsla og kostnaður í ferðum á svona fararskjótum er brot af því sem er á ódýrustu og sparneytnustu bílum.   

Þróun þessara mála er alltof hæg hér á landi, það sést til dæmis vel á samanburði við Norðmenn, - við drögum einfaldlega lappirnar,  einkum þegar þess er gætt að engin þjóð í heimi á eins gott með að skipta um orkugjafa og hér.

Hraðar framfarir eru í gerð rafbíla og næsta sumar stefni ég að þriðju aðgerðinni, sem gæti fengið heitið "orkudrægni - koma svo!"

Og ég hef ekki gefið upp vonina um Renault Twizy eða notaðan rafbíl af minnstu gerð þótt ég hafi síðastliðið sumar náð því takmarki að minnka kolefnisspor mitt um að minnsta kosti 60% með því að taka reiðskjótana tvo í notkun.   


mbl.is Brýnt að fylgja eftir orkuskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband