Kannski betra en að fá Norðmennina?

Það er lið í sköpun, nýtt handboltalandslið Íslands, þar sem það kemur fyrir að nær allir leikmennirnir inni á vellinum eru nýliðar, allt niður í 19 ára gamlir. 

Ef rétt er á spilum haldið er hægt að nýta þessa fyrstu reynslu nýs landsliðsþjálfara og hálfgerðu unglingaliði hans og byggja upp nýtt öflugt framtíðarlandslið í fremstu röð. 

Það var engin skömm að því að tapa fyrir heimsmeistrunum með sex marka mun miðað við það, að Makedóníumenn, sem við gerðum jafntefli við í riðlakeppninni, voru hreinlega kjöldregnir af Norðmönnum, sem við hefðum annars lent á móti. 

Það er mikill munur á því að tapa fyrir þeim eða heimsmeisturunum fyrir framan metfjölda áhorfenda.  


mbl.is „Það eru jákvæð teikn á lofti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarlega vandasamt og stórt verkefni.

Það er lærdómsríkt að taka þátt í starfi björgunarsveita og fara í krefjandi leitir. Nokkra nasasjón fékk ég af þessu þá áratugi sem ég var þátttakandi í leitum sem félagi í björgunarsveit Ingólfs í Reykjavík. 

Það var svo margt sem gat hamlað árangri. Einna verst voru tilfelli þar sem leitarmönnum sást yfir hið týnda, jafnvel þótt þeir væru alveg rétt við það. 

Það var einkum vegna þess, að þá töldu menn að búið væri að leita á viðkomandi stað og beindu leitinni annað. 

Glöggt dæmi um þetta var umfangsmikil leit að flugvélinni TF-ROM sem hvarf á leiðinni frá Reykjavík til Akureyrar árið 1973, ef ég man ártalið rétt. 

Þetta var að vorlagi og ekki var ský á lofti á flugleiðinni en hins vegar mikið mistur, svo að skyggni var aðeins 4-5 kílómetrar. 

Leitin stóð í marga daga og í viðbót við að leita úr flugvél minni úr lofti, fór ég sem leiðsögumaður með björgunarþyrlu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli þar sem leitað var alveg norður um Tröllaskaga. 

Nokkrum dögum síðar fannst flakið þegar snjóa hafði leyst af Tvídægru, þar sem jörð hafði verið flekkótt af snjó þegar leitin hófst. 

Þarna hafði verið leitað úr lofti strax í upphafi, en flakið var afar torséð þar sem það lá við bakka eins af svonefndum Þverárvötnum og hafði lent að hluta til ofan í vatninu, svo að neyðarsendir vélarinnar fór ekki í gang. 

Vegna þess að þarna hafði verið flogið yfir strax í upphafi leitar, var ekki farið þangað aftur. 

Eftir á að hyggja var augljóst af hverju þetta var slysstaðurinn. 

Flugmaðurinn hafði ekki verið spenntur fyrir því að fara að fljúga beina loftlínu til Akureyrar í svona miklu mistri um ókunnar slóðir yfir snævi þöktu hálendinu og ákvað því að fylgja frekar þjóðveginum.  

En á Holtavörðuheiði var staðbundin lágþoka og þar tekur vegurinn 90 gráðu beygju til vinstri.

Vélinni var flogið beint áfram í lágflugi og lenti í ógöngum í þokuloftinu við Þverárvötn.

Á hinu stóra leitarsvæði í dag er vandasamt að velja úr einhverja staði, sem frekar þurfi að beina leitinni að en öðrum.

Þótt reynt verði að setja sig í spor þess sem er á viðkomandi farartæki og leita best þar, sem hann hefur líklegast farið, getur það verið erfitt mat.

Og reynslan sýnir, að oft finnst það sem leitað er að, ekki fyrr en búið er að fara áður árangurslaust yfir rétta staðinn eða svæðið.   

 

 


mbl.is 500 leita – verkefnin skipta þúsundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sum þessara mála eru undarleg.

Um áratuga skeið hefur það gerst hér á landi, að ekki þarf annað en að útlendingar veifi seðlum framan í okkur og nefni töfraorðin "atvinnuuppbygging" og "orkufrekur iðnaðar," til þess að hlaupið sé upp til handa og fóta og allar dyr opnaðar. 

Fyrir tæpum áratug komu "ríkir rússneskir fjárfestar" til dæmis til sögunnar með "99,9% pottþétt tilboð" um að reisa risa olíuhreinsistöð í Hvestudal í Arnarfirði sem veita myndi 500 manns vinnu og "bjarga Vestfjörðum". 

Halndir voru fjöldafundir vestra, bæði á Ísafirði og í Vesturbyggð vegna málsins, vegna þess að lofað var tveimur hreinsistöðvum og fögnuður greip um sig.  

Í sjónvarpsviðtali við landeigandann í Vesturbyggð sagði hann frá því, að hann hefði verið með margar góðar hugmyndir um nýtingu jarðarinnar, en legði þær nú allar til hliðar og ætlaði að bíða eftir stóru, stóru lausninni. 

Hann bíður enn. 

Við skoðun málsins, meðal annars með ferð til Noregs, sást að svona ferlíki hafa ekki verið reist í okkar heimshluta í aldarfjórðung, af því að enginn vill hafa svona skrímsli hjá sér. 

Og hinn "öflugi fjárfestir" reyndist vera skúffufyrirtæki í Skotlandi með enga starfsemi né peningaveltu, og aldrei var leitt í ljós hver hinn raunverulegi eigandi væri. 

Mikið hefur verið gumað af fyrirtækinu Silicor Materials varðandi hina dásamlegu "atvinnuuppbyggingu" og algerlega nýja aðferð við stórkostlega umhverfisvæna framleiðslu.

Athugasemdir vegna ferils fyrirtækisins í Vesturheimi og spurningar um hina nýju, pottþéttu og mengunarlausu framleiðsluaðferð, hafa verið afgreiddar sem nöldur manna, sem séu "á móti rafmagni og atvinnuuppbyggingu og vilji fara aftur inn í torfkofana." 

Engin ástæða hefur verið talin til að efast um þessa áður ónotuðu framleiðsluaðferð og mikinn peningalegan styrk fjárfestisins til að nýta hreina og endurnýjanlega orku.

Svo sést allt í einu lítil frétt um að þessi tryggi bjargvættur geti ekki einu sinni "staðið skil á gjöldum vegna hafnarsamnings, lóðaleigusamnings og lóðagjaldasamnings um fyrirhugaða aðstöðu fyrirtækisins við Grundartanga í Hvalfirði."  

Svona nú, hvaða fréttaflutningur er þetta, svona öflugur og tryggur viðskiptavinur hlýtur að fara létt með að snara út svona smápeningum hið snarasta í stað þess að þurfa átta mánaða frest til þess? 

Úr því hann leikur sér að því að reisa stóra og dýra verksmiðju ætti þetta viðvik ekki að vefjast fyrir honum. 


mbl.is Silicor Materials fær lokafrest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sókn auðræðisins leitar alltaf að farvegi.

Á tímum nýlenduveldanna var það nokkuð sjáanlegt hvað auðræðið innan þeirra var að gera. 

Nýlenduveldin drottnuðu í nýlendunum með harðri hendi og stunduðu arðrán og kúgun sem var í sumum nýlendum ekkert betri en ógnarverk nasista. 

En ógnarverk nasista hafa hlotið alla nær alla athyglina og illvirki nýlenduherranna hafa fallið í skuggann. 

Það er miður, því að þrátt fyrir upplýsingaöld átta menn sig ekki á því hve óhemju mikinn þátt hefndarhugurinn gegn gömlu nýlenduveldunum á í uppgangi öfga Íslamista og hryðjuverkum þeirra. 

Þegar nýlendurnar fengu sjálfstæði færðist farvegur auðræðisins með arðráni sínu og ofríki yfir á stórfyrirtækin í gömlu nýlendunum og hjá öðrum stórveldum og varð ekki alveg eins áberandi og áður var.

Segja má að Bandaríkin hafi í raun bæst í hópinn. Og þrátt fyrir talið um alþjóðahyggju, fríverslunarsamninga og alþjóðlega viðskiptasamninga viðgengst stærsta óréttlætið í heimsviðskiptunum í formi tollamúra sem ríkustu þjóðirnar sitt hvorum megin Atlantsála hafa reist til að viðhalda ríkisstyrktum landbúnaði sínum á kostnað þróunarlandanna. 

Og nú reynir auðræði hinna fáu og ofurríku að smjúga enn lymskulegar en áður með klær sínar inn í efnahagslíf þjóða heims í formi alls kyns meira og minna leynilegra viðskiptasamninga.

Þá leynd þarf að rjúfa svo að menn geti að minnsta kosti séð það jafn áþreifanlega og glöggt hvað er að gerast í raun og veru eins og hegðun nýlenduveldanna birtist með formlegum hætti í eignarhaldi þeirra á nýlendunum.  


mbl.is „Við þurfum öll að vakna!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband