Sætt sameiginlegt skipbrot? Nei.

Það voru miklu meiri væntingar, sem gerðar voru til liða Þýskalands og Danmerkur heldur en til liðs Íslands. Þess vegna má líta á vonbrigðin með árangur Dags og Guðmundar út frá tveimur mismunandi sjónarmiðum. 

Annars vegar er ekki lengur hægt að tala um áberandi mun á gengi þessara þriggja liða hvað það varðar að þau féllu öll í keppni í sextán liða úrslitum, - nokkuð sem fáir hefðu búist við af Dönum og Þjóðverjum. 

Einhverjum kynni að detta í hug orðtakið "sætt er sameiginlegt skipbrot" að þessu leyti, en það er bara ekki þannig, heldur eru það mikil vonbrigði að þrír íslenskir landsliðsþjálfarar skyldu falla úr keppni á sama tíma. 

Nú er bara að vona að Svíar komist sem allra lengst.  


mbl.is Ísland endaði í 14. sæti á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur gerst áður og ekki til góðs.

Á uppgangsárunum á þriðja áratug síðustu aldar var gengi íslensku krónunnar hækkað "með handafli". 

Á þeim tíma var ekki hægt að sjá fyrir heimskreppuna, sem gerði það enn verra en ella hefði orðið að bregðast við. 

Að lokum var gengið fellt 1939 þegar stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, Kveldúlfur, hafði orðið gjaldþrota og önnur útgerðarfyrirtæki riðuðu til falls. 

Þetta reyndist skammgóð lausn, því að óðaverðbólga skall á 1942 vegna hinna miklu uppgripa og stríðsgróða við vinnu fyrir herlið Bandamanna og fiskflutninga til Bretlands.

Gengi krónunnar var því þegar orðið of hátt 1942 og svo rammskakkt 1949, að enn varð að fella það. 

Þó nægði gengisfellingin ekki, heldur varð að búa til flókið fjölgengiskerfi, sem snerist í kringum svonefnt bátagjaldeyriskerfi, og taka varð upp harðsvíruðu innflutningshöft. 

Aftur færðist í sama horf og fella varð gengið 1961 og tvívegis árið 1967. 

Út öldina snerust efnahagsaðgerðir um að finna mótvægi gegn síendurteknu of háu gengi krónunnar og viðskiptahalla við útlönd þegar hátt gengi krónunnar var hvati fyrir innflutning. 

Fyrstu átta ár þessarar aldar var gengið í fyrsta sinn frjálst og hækkaði vegna dæmalausrar útþenslu bankakerfisins og  þenslu, sem stórfelldar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir ollu á sama tíma. 

Háir vestir í brengluðu hagkerfi sogaði erlent fjármagn inn í landið, sem fljótlega fékk nafnið snjóhengjan og hékk eins og Daemoklesarsverð yfir höfðum landsmanna. 

Allt sprakk þetta í loft upp haustið 2008. 

Nú horfa menn undir niðri með velþóknun á hækkað gengi, sem gerir kleyft í bili að lækka verð á innfluttum varningi og sporna gegn verðbólgu, en enda þótt bent sé á að undirstaða hækkaðs gengis sé ekki lánsfjárbóla eins og 2008, heldur raunverulega stórauknar gjaldeyristekjur af ferðamönnum, er það áhyggjuefni í ljósi reynslunnar hve mikið gengi krónunnar hefur hækkað. 


mbl.is Ekki styrkst eins mikið í áratugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Irmingerstraumurinn liggur vestur með ströndinni.

Ein grein Golfstraumsins, sem ber heitið Irmingerstraumur, kemur úr suðaustri upp að suðvesturströndinni og heldur áfram til vesturs fyrir Reykjanes og þaðan til norðurs.

Þess vegna berast fljótandi hlutir líklegast vestur með ströndinni. 

Hafi líki verið varpað út af Óseyrarbrú við ósa Ölfusár, ber árstraumurinn það fyrst út fyrir ósinn þar sem fyrrnefndur hafstraumur hrífur það með sér.

En það gæti líka hafa verið borið niður að sjó við Selvogsvita eða fyrir austan hann og borist til vesturs þangað sem það fannst.  

Suðurstrandarvegur er nýr og fljótlegt að aka hann og auðvelt að varpa hlutum beint í straumvatn af brúnni. 

Í þessu máli er nú kominn margfalt betri gagnagrunnur fyrir því að upplýsa málið en var í málum Gunnars Tryggvasonar 1968 og Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar 1974. 

Í máli Gunnars, sem var skotinn í bíl sínum, hafði lögreglan lík og morðvopn í höndum, byssan fannst í fórum hins grunaða alllöngu síðar og sannað var að sú byssa hefði verið notuð til að bana Gunnari. 

En það voru engar eftirlitsmyndavélar né farsímar eða ummerki um sakborninginn í bíl Gunnars, játning fékkst ekki, og því var hann sýknaður. 

Í málum Guðmundar og Geirfinns var bókstaflega ekkert efnislegt fyrir hendi, svo sem lík, morðvopn, farartæki né ferlar hinnar týndu og sakborninganna, - aðeins játningar, sem fengnar voru með aðferðum sem hvorki væru leyfðar né teknar gildar nú, og hinir sakfelldu drógu síðar til baka. 

Lát Birnu Brjánsdóttur hefur snortið þjóðina djúpt og er sorglegra en tárum taki. 

Líklega hafa minnst á annað þúsund manns lagt leitinni og rannsókn málsins lið af einstökum dugnaði og vandvirkni. 

Í svona erfiðum málum skiptir slíkt miklu máli, og einnig sá samhugur og hluttekining sem aðstandendum og vinum Birnu hefur verið sýnd.  

 

 

Í 


mbl.is Staða rannsóknarinnar í hnotskurn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband