Ólíkt höfumst vér að.

Fréttin um fangavist og háa sekt fyrir að brjóta þjóðgarðsreglur í Yellowstone er eitt af ótal dæmum um mismun á því hvaða augum náttúruperlur í Bandaríkjunum eru litnar og hvernig er staðið að verndun og umgengni við þær. 

Bandarískur sérfræðingur um nýtingu jarðvarma, sem var gestur og fyrirlesari á heils dags málþingi í tilefni af tíu ára afmæli ÍSOR, lýsti því á stóru korti af Norður-Ameríku, hvernig farið yrði í fótspor Íslendinga í nýtingu jarðvarmans vestr, sýndi fjölmarga staði og svæði vestra sem hægt væri að nýta til orkuvinnslu. 

Á kortinu voru þetta litlir deplar, misgulir eða rauðir, en einn nálægt miðju var margfalt stærri og eldrauður. "Þetta er Yellowstone" sagði sérfræðingurinn. "Það er heilög jörð sem verður aldrei farið inn á né nálægt þjóðgarðinum til nýtingar jarðhitans." 

Alls er svæði, sem verndað er gegn borunum í kringum Yellowstone á stærð við allt Ísland. 

Ef þetta er borið saman við viðhorfið hér á landi, er himinhrópandi munur.

Hér stendur til að vaða með gufuaflsvirkjanir inn á öll hliðstæð svæði á Reykjanesskaga nema Brennisteinsfjöll og umgengnin og ástandið á Geysissvæðinu hefur verið og er enn þjóðarskömm.

Ef bandarískum kröfum um vernd væri fylgt hér á landi, hefði Geysissvæðinu verið lokað fyrir langalöngu og búið að ganga tryggilega frá verndun þess.

Ef íslenskri hegðun og viðhorfum hefði verið fylgt í Yellowstone hefðu aldrei verið settar þær ströngu reglur í hvívetna sem þar gilda, heldur ferðafólki leyft að komast upp með að traðka niður svæðin, að ekki sé nú talað um gufuaflsvirkjanirnar, sem búið væri að reisa þar og allir baðstaðirnir, bláu, gulu og rauðu lónin.  


mbl.is Fangavist fyrir að brjóta þjóðgarðsreglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hugsa sér ef þetta hefði verið gert fyrr.

Stærsta fréttaefni "Framtíðarlandsins", bókar Andra Snæs Magnasonar, var það, að árið 1995 sendi opinber nefnd um finna kaupendur að íslenskri orku, á laun nokkurs konar bænarskjal til helstu orkukaupenda erlendis, þar sem boðið var upp á "lowest engergy prices", "lægsta orkuverðið á markaðnum" og í þokkabót boðið upp á "sveiganlegt mat á umhverfisáhrifum." 

En þessi merka uppljóstrun í bókinni vakti enga athygli fjölmiðlanna, þótt þar væru afhjúpuð nakin eymdin í stóriðjustefnu Íslendinga, sem setti Ísland niður á plan með fátækustu þjóðum heims sem verða vegna neyðar að þola yfirgang alþjóðlegra stórfyrirtækja, sem svífast einskis í arðráni sínu, sem er í raun aðeins framhald hinnar gömlu nýlendustefnu.  

Hvort tveggja, orkuverðið og endemis úrskurður þáverandi umhverfisráðherra, gekk eftir þegar samið var um smíði Kárahnjúkavirkjunar. 

Ekki var látið við það sitja að bjóða orku á gjafverði, heldur var sérstakt ákvæði í samningum við Alcoa um það að á meðan 40 ára orkusamningur væri í gildi mætti ekki setja lög sem mæltu fyrir um þak á skuldsetningu. 

Hendur Alþingis voru sem sé bundnar marga áratugi fra í tímann til þess að fyrirtækið gæti með bókhaldsbrellum erlendis og hér heima bókfært að vild skuldir hjá Alcoa hér á landi við systurfyrirtæki erlendis í slíkum mæli að ekki þyrfti að borga krónu í tekjuskatt af tugmilljarða gróða álversins á Reyðarfirði.

Meðal ótal ívilnana var að verktakafyrirtækið Impregilo fengi ókeypis rafmagn á þeim árum sem framkvæmdirnar stóðu, en þessi raforka var sem nam allri raforkuframleiðslu Lagarfossvirkjunar.

Stefnan "lægsta orkuverð" hafði raunar verið í gildi hér á landi allt frá 1965 og hefur því verið í gildi í meira en hálfa öld með óheyrilegu tjóni á íslenskum náttúruverðmætum.

Og tilhugsunin um það sem gert hefur verið á þeim tveimur áratugum, sem liðin eru síðan bæklingurinn "Lægsta orkuverð" er blandin hrolli og sorg.

Að hugsa sér hve miklu það hefði breytt ef það hefði verið gert fyrr en nú að tryggja að raforkufyrirtæki greiði markaðsverð fyrir nýtingu náttúruauðlinda í almennaeigu.  


mbl.is Greiði markaðsverð fyrir náttúruauðlindir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki 1. apríl, heldur er 2007 komið aftur.

20 kirkjur, 20 lögreglustöðvar 200 þúsund fermetrar, - maður nuddar augun og starir á þetta og lítur svo á almanakið.  

Nei, það er ekki kominn 1. apríl, en það er engu líkara en að 2007 sé komið aftur, árið þegar Viðskiptaráð ályktaði að við hefðum ekkert að sækja til að læra af þjóðunum í kringum okkur heldur þyrftu þær að læra af allt af okkur upp á nýtt.

Það er árið 2007 og stutt í árið 2008 þegar næsta ályktun í framhaldi af þessari varð að orðið hefði til algerlega ný og byltingarkennd formúla í viðskiptum, banka- og efnahagsmálum, nefnd "Kaupthinking", borið fram "kápþinking".

Einnig að ef einhver af helstu efnahagssérfræðingum annarra þjóða efaðist um þetta, þyrfti hann að fara í endurmenntun.

120 skrifstofubyggingarnaa, 20 lögreglustöðvar og 20 kirkjur eru að sjálfsögðu aðeins byrjunin á því sem koma skal.

Úr því að einkaaðilar hafa þegar átt sumar af helstu náttúruperlunum eins og Kerið, Geysi, Námaskarð og Gjástykki, hvers vegna ekki að breyta Þingvallalögunum með einni atkvæðagreiðslu á Alþingi og selja Þingvelli? Árnasafn? Handritin?  


mbl.is Ríkið selji hundruð fasteigna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband