Hvar verða hugsanlegir "villikettir"?

Ef stjórnarmyndunarviðræðurnar núna leiða til myndunar stjórnar með aðeins eins atkvæðis meirihluta á þingi vofir hættan á því að missa meirihlutann ævinlega yfir. 

Þetta þætti kannski ekki viðsjárvert í nágrannalöndum okkar þar sem löng hefð er komin fyrir minnihlutastjórnum, en samvinnuandinn á Alþingi frá því í apríl í vor hefur staðið skamman tíma miðað við áratug átakastjórnmálanna þar á undan og þess vegna liggur óvissa í loftinu.

Það hafa setið stjórnir hér á landi með minnsta mögulega meirihluta, t. d. 1967-1971, 1980-1983 og 1988-90. Aðeins einu sinni rofnaði samstaðan í stjórninni 1967-1971 þegar einn ráðherranna, Eggert Þorsteinsson, lagðist gegn einu af stjórnarfrumvörpunum. 

En það frumvarp réði ekki úrslitum um stjórnarsamvinnuna. 

Um áramótin 1980-81 ríkti óvissuástand þegar Guðrún Helgadóttir, Alþýðubandalagi, einn stjórnarþingmannanna, hótaði að styðja ekki stjórnina vegna máls flóttamannsins Gervasoni. 

En það tókst að finna lausn á því máli. 

Og þegar Nýsköpunarstjórninn var mynduð 1944 voru fimm "villikettir" í Sjálfstæðisflokknum sem ekki studdu þá stjórnarmyndun en gátu þó ekki komið i veg fyrir stjórnarmyndunina.

 

Miðað við ýmsar yfirlýsingar innan úr herbúðum Sjálfstæðismanna gæti orðið órói þar, en hins vegar er erfiðara að segja fyrir um þingflokkinn sjálfan, sem á eftir að taka afstöðu til hugsanlegs stjórnarsáttmála ef af verður.   


mbl.is Bjarni: Ytri rammi liggur fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er svona voðalegt við þjóðaratkvæðagreiðslur?

"Þjóðaratkvæði er ekki stefna Sjálfstæðisflokksins" segir formaður hans nú.  Sami maður lýsti því þó skorinort fyrir fyrir rúmum þremur árum að hann væri mjög opinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og hlynntur þeim. 

Ekki liðu þá nema nokkrir mánuðir þangað til sami maður sagði að þjóðaratkvæðagreiðsla um það, hvort halda skyldi aðildarviðræðum opnum við ESB, væri pólitískur ómöguleiki. 

Ef ekki væri 26. grein stjórnarskrárinnar um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þegar forsetinn notaði málskotsrétt sinn, hefði aldrei farið fram bindandi atkvæðagreiðsla á lýðveldistímanum í bráðum 73 ár. 

Það fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrá stjórnlagaráðs 20. október 2012 með afgerandi úrslitum, og á þessu ári á sú atkvæðagreiðsla fimm ára afmæli án þess að votti fyrir því að stjórnmálamennirnir skilji neitt eftir sig í því máli.  

Það blasir við að í raun er málum kyrfilega þannig fyrir komið hér á landi, að aldrei fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla á vegum þjóðþingsins. 

Vinstri græn lögðu fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun 2003 en þingið felldi hana. 

2009 lagði þáverandi stjórnarandstaða fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort farið skyldi í aðildarviðræður við ESB og sömu Vinstri grænir vildu það ekki. Stjórnarmeirihlutinn á þinginu tók það ekki í mál.

2013 lagði var þessi stjórnarmeirihluti orðinn að stjórnarandstöðu og lagði fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um sama mál, nokkuð sem þessir flokkar aftóku 2009, en þá brá svo við að þeir sem lögðu fram tillöguna 2009 lögðust alfarið gegn slíku.

Umskiptin voru alger og önnur kúvendingin í þjóðaratkvæðagreiðslumálum á einum áratug hjá Vinstri grænum. 

Stór hópur íslenskra kjósenda fagnaði í sumar tvísýnum úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um úrsögn úr ESB og einkum því, að enda þótt breska þingið gæti lagatæknilega komið í veg fyrir Brexit, stóð það að sjálfsögðu ekki í vegi fyrir því. 

Í því landi virtu menn það að vald þingsins komi frá fólkinu og starf þingmanna sé að framkvæma vilja þjóðarinnar, en ekki öfugt. 

Sami hópur íslenskra kjósenda sem fagnaði Brexit, má hins vegar ekki heyra það nefnt að þjóðaratkvæðagreiðsla megi ráða því hvort ESB-umsóknarferli verði sett af stað hér á landi. 

"Þú ert sjálfur Guðjón inn við beinið" var sungið hér um árið.  Nú mætti syngja: "Þú ert Ragnar Reykás inn við beinið." 

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012 var yfirgnæfandi vilji fyrir því að tillögur stjórnlagaráðs um beint lýðræði, náttúru og auðlindir, yrðu lögfestar, sem og stjórnarskráin öll.  

Alþingi hefur í raun sniðgengið þetta þrátt fyrir allan fagurgalann hjá einstökum þingmönnum eins og BB, um að þeir væru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslum og opnir fyrir því að greiða þeim götu. 

Í tillögum stjórnarskrárnefndar voru ákvæðin um sjálfbæra þróun og önnur lykilatriði útvötnuð svo mjög að þau urðu gagnslaus og málinu þar með drekkt. 

Málið er á sama stigi og eftir Þjóðfundinn 1851, en Þjóðfundurinn var sérstaklega kjörið íslenskt stjórnlagaþing, sem átti að setja þjóðinni íslenska stjórnarskrá.

Biðin eftir henni hefur nú staðið í 165 ár.

Trampe greifi stöðvaði málið þá. Nú eru greifarnir margir og sumir þeirra sægreifar.   

Og spurningin er: Hvað er svona voðalegt við þjóðaratkvæðagreiðslur? Hvað er svona voðalegt við það meginatriði vestræns lýðræðis að valdið eigi að koma frá þjóðinni?  

 


mbl.is Þjóðaratkvæði ekki stefna flokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband