Sá á kvölina sem á völina.

Eitt það fyrsta sem Benedikt Jóhannesson sagði þegar fyrstu fundir forsetans með formönnum stjórnmálaflokkanna hófust, var að hann teldi heppilegt að hann fengi umboð forsetans til að mynda meirihlutastjórn. 

Þótti það næsta hraustlega mælt af formanni flokks með um tíu prósenta fylgi. 

En ummælin byggðust á því mati á aðstæðum flokksins að ekki yrði hægt að mynda meirihlutastjórn án þátttöku Viðreisnar og að þar með yrði það hlutverk þess flokks að velja stjórnarmynstur til hægri eða vinstri. 

Hjá Bjartri framtíð virtist svipað stöðumat vera ríkjandi, því að þingmenn hennar límdu sig strax við Viðreisn og styrktu þar með stöðu beggja flokka. 

En sá á kvölina sem á völina. Vegna klofnings um nokkur höfuðmál, sem ekki fara eftir vinstri-hægri línum, svo sem Evrópumálin, getur það verið ansi snúið við gerð stjórnarsáttmála að finna málamiðlanir sem allir sætta sig við án þess að það sé gert með óbragð í munni. 

Þau ummæli Björns Vals Gíslasonar um komandi niðurstöðu stjórnarmyndunarviðræðna, að varla sé nokkur maður ánægður með afurðina, virðast hins vegar eiga nokkuð almennt við um allar stjórnarmyndunarviðræðnar hingað til, úr því að þær strönduðu.

Ef gangur núverandi stjórnarmyndunarviðræðna bendur til áhugaleysis, hefur áhuginn ekki varla verið meiri í hinum viðræðunum. 

Það hefur verið sagt að það geti verið merki um sanngjarna samninga ef allir aðilar eru nokkurn veginn jafn óánægðir með þá.  

Það sé merki þess að allir hafi lagt sitt af mörkum til að ná skástu mögulegu niðurstöðu.

Nú á eftir að sjá hvort það eigi við í þetta sinn.


mbl.is Varla nokkur ánægður með afurðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það, sem ekki var Rússum að kenna.

Það, sem ekki var Rússum að kenna en réði nógu miklu til þess að Donald Trump yrði forseti er meðal annars þetta: 

Enginn átti von á því að Trump ætti minnstu möguleika á að komast neitt áfram í forkosningum Republikanaflokksins. Trump nýtti sér eftirsókn fjölmiðla eftir krassandi fyrirsögnum, svo að hann var jafnt og þétt í fyrirsögnum fjölmiðlnanna og það var ekki Rússum að kenna.

Hillary Clinton ætlaði sér að spila á galla kjörmannakerfisins til þess að komast í Hvíta húsið. Það mistókst hjá henni og það var ekki Rússum að kenna.

Kjörmannakerfið olli því að næstum þriggja milljóna atkvæða meirihluti Clintons var langt frá því að nýtast henni til sigurs. Það var ekki Rússum að kenna.   

Demókratar töldu sig vera með tryggt og gróið fylgi í "Ryðbeltinu" svonefnda þar sem var fjölmenn verkalýðsstétt þessara fyrrum öflugustu iðnaðarríkja Bandaríkjanna. Trump tókst að virkja reiði og sárindi verkalýðsins vegna atvinnuleysis og hnignandi iðnaðar og það var ekki Rússum að kenna.

Trump tókst að beina reiði milljóna vonsvikinna Bandaríkjamanna að dæmigerðum fulltrúa stjórnmálastéttarinnar og stjórnkrefisins vestra, og það var ekki Rússum að kenna.

Margir eldri flóttamenn frá Kúbu voru Demókrötum reiðir vegna þess að Obama friðmæltist við alræðisstjórnina á Kúbu. Sú gjörð Obama var ekki Rússum að kenna.

Þegar allt þetta er lagt saman sýnist afar ólíklegt að "lekarnir" úr tölvukerfum Demókrata hefðu breytt nógu miklu til þess að úrslitin væru Rússum að kenna.

Trump reyndist hafa úr nógu að moða samt.  


mbl.is Herferð Rússa hafi engin áhrif haft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanlegt vegna legu hinna brautanna.

Íslendingar og Bretar lögðu ekki NA-SV brautina á Reykjavíkurflugvelli að ástæðulausu á sínum tíma og gerðu hana meira að segja næstum jafn langa og hinar tvær brautirnar eða um 250 metrum lengri en hún er nú. 

Ástæðan er sú, að hinar tvær brautirnar, sem nú er leyft að nota, mynda ekki kross með fjórum 40 gráðu hornum á milli brautastefna eins og algengast er á tveggja brauta velli, eldur er legan líkari mjóu X-i og hornið á milli brautanna 120 gráður í stað 90 í vindáttum milli suðurs (190 gráður) og vestnorðvesturs (310 gráður).  

Lega Skólavörðuhæðarinnar annars vegar og Öskjuhlíðarinnar hins vegar olli því að svona varð að fara að við hönnun brautakerfisins, en lagningu flugvallarins ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1938. 

Til samanburðar er lega brautanna á Keflavíkurflugvelli með fjórum 90 gráðu hornum á milli brauta í stað þess að í Reykjavík er hún 120-60-120-60. 

Við það myndast stórt horn á tvo vegu þar sem hliðarvindur verður of mikill í norðaustlægum og suðvestlægum áttum ef brautirnar eru aðeins tvær.

Og meira að segja suður á Keflavíkurflugvelli verður hliðarvindurinn of mikill fyrir sjúkraflugvélarnar sem þola minni hliðarvind en 20 sinnum þyngri þotur.  

Þessa daga og vikur er dæmigert vetrarveðurfar með stormum, sem er sjaldgæft á sumrin.

Enginn þarf því að verða hissa á því sem er að gerast og mun halda áfram að gerast í svipuðu vindafari og oft er á veturna, heldur var það fyrirsjáanlegt á sáma hátt og það verður fyrirsjáanlegt að þetta mun á endanum kosta mannslíf, ekki spurning um hvort, heldur hvenær.

Nokkrir möguleikar eru í stöðunni:

1. Að breyta engu, hin dæmigerða íslenska lausn. Spara með því peninga sem í staðinn munu fyrr eða síðar tapast í manntjóni. Með köldu mati hefur verið reiknað út að eitt tapað mannslíf kosti að meðaltali meira en hálfan milljarð króna. 

2. Að leyfa notkun neyðarbrautarinnar á meðan það er flugtæknilega hægt og verið er að opna NA-SV braut á Keflavíkurflugvelli. 

3. Að lækka blokkina, sem á eftir að rísa við brautarendann við Hringbraut, og mun mynda hindrun fyrir aðflug að brautinni, -  og hætta við að byggja við hinn brautarendann, svo að hægt verði að nota brautina áfram óbreytta án þess að fara í 280 milljón króna framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli. 

4. Að leyfa notkun neyðarbrautarinnar á meðan það er flugtæknilega hægt og fresta manntjóni sem því nemur.

5. Að hrófla ekki við því sem fyrirhugað er á Hlíðarendasvæðinu, hætta við byggingu húsa við hinn brautarendann og hnika brautinni til um ca þrjár gráður og lengja hana til suðvesturs. 

 

 

Lausnir númer 2 og 3 , opnun brautar á Keflavíkurflugvelli, hafa þann ókost að lengja flutningstíma sjúklings um 40 mínútur.

Sjálfur hef ég fylgst með sjúklingum á gjörgæsludeild í Reykjavík þar sem slíkt "smáatriði" skipti sköpum, sjúklingur dó en annar lifði sem ekki varð fyrir töf.

Sá sem lifði, lifir nú jafn góðu lífi og áður en fullkomnasta kerfið hér á landi bjargaði honum.

Það er afar skrýtið að sjá umræður um spítalann í Reykjavík snúast um það að sjúklingar séu jafn vel settir eða geti verið jafn vel settir í sjúkrahúsum úti á landi.

Ef svo væri, væri þarflaust að stunda sjúkraflutninga til Reykjavíkur og reisa þar fullkomið hátæknisjúkrahús.

Ástæðan fyrir mikilvægi hátæknisjúkrahúss í Reykjavík er einfaldlega sú, að við erum fámenn þjóð sem á fullt í fangi með að reisa bara einn slíkan spítala, hvað þá aðra úti á landi.     


mbl.is Komust ekki með sjúkling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband