Þörf á möguleikum á fyrirbyggjandi aðgerðum.

Hér á landi vantar úttekt á hlutdeild aldraðra í banaslysum á borð við þá sem gerð hefur verið í Japan. 

En burtséð frá því er vitað að á meðal ökumanna hér á landi er fólk sem ekki hefur líkamlega hæfni til að aka bílum en er samt með ökuréttindi. 

Skortur á viðbragðsflýti og skert aksturshæfni sést oft langar leiðir hjá því. 

Á meðan ekki eru til fjármunir til að mæla þessi atriði í sérstökum prófum, heldur krefjast einungis einfalds læknisvottorðs á tveggja ára fresti eftir sjötugt, getur fólk sjálft gert athuganir á líkamlegri færni og hæfni til aksturs. 

Það þarf meira að segja ekki aldur til þess að færni hraki vegna þjálfunarleysis. 

Ég get tekið það dæmi af sjálfum mér að til 19 ára aldurs var ég reiðhjólafrík og gat gert magnaðar kúnstir, meira að segja hlaupið af reiðhjólinu á ferð ef hemlar biluðu. 

Æfði það atriði og sýndi einu sinni í túnbrekkunni fyrir framan Menntaskólann. 

Síðan liðu rúmir þrír reiðhjólalausir áratugir og þá lenti ég í smá keppni blaðamanna í reiðhjólafærni.  

Kom þá í ljós að enn leyndist gamla færnin að mestu leyti á óvæntan hátt, enda stundaði ég fjölbreytta líkamsþjálfum reglulega. 

Nú liðu 20 ár í viðbót og ég fékk mér rafreiðhjól.  En nú kom í ljós að áratuga æfingarleysi hvað snerti reiðhjól hefndi sín og að taka varð drjúgan tíma í að endurheimta forna færni, sem gat að vísu orðið meiri en nóg, en þó hvergi nærri eins og á unglingsárum. 

Á meðan reglulegar krefjandi ökuferðir áratugum saman um vegi og jökla höfðu viðhaldið og viðhalda enn getu til að stjórna bíl auk reglulegs flugs og prófflugs til að viðhalda flugskírteini höfðu haldið í horfinu á þessum sviðum, hafði gamla góða reiðhjólið orðið gersamlega útundan. 

Eitthvað einfalt til að prófa hvort lágmarksgeta sé fyrir hendi til stjórna bíl gæti verið athugandi. Til dæmis bílhermir. 

Ella Kolbrún Kristinsdóttir, bekkjarfélagi minn forðum í Lindargötuskólanum, hefur tekið háskólagráðu í rannsóknum á jafnvægi hjá fólki. 

Með aldrinum þarf fólk að fara að fylgjast vel með jafnvæginu og þjálfa það, því að langvarandi kyrrsetur valda svipaðri hrörnun í innra eyranu og hreyfingarleysi á vöðvum. 

Nú nota ég hraðhlaup upp stiga og það að hjóla bæði á rafreiðhjóli og léttu Honda PCX vespuhjóli til þess að halda mér við efnið. 

Göngur eða hlaup upp stiga getur hver sem er stundað. Ef tekin eru tvö þrep í skrefi er það góð æfing fyrir jafnvægi og fótafimi. 

Og með því að gera þetta undir skeiðklukkumælingu er hægt að fylgjast með ástandi varðandi kraft, snerpu, hraða og úthalds. 

Fyrirmyndirnar gætu verið menn á borð við Bob Hoover, sem sýndi flugatriði sem enginn annar gat framkvæmt alveg fram undir áttrætt. 

Ég spurði hann hvort hann óttaðist ekki að einn góðan veðurdag myndi honum mistakast. 

"Hafðu ekki áhyggjur", svaraði hann. "Ég verð fyrstur allra til að vita hvar ég stend". 

Enda æfði karlinn sig vandlega og varð 94 ára gamall.  


mbl.is Aldraðir ökumenn sívaxandi vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrír karlar leiða í Suðurkjördæmi. Forseti Alþingis fær að vera í 4. sæti.

Þrír karlar, Páll Magnússon, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason, leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Vafasamt er að karlaveldið verði sterkara annars staðar. 

Loks í fjórða sæti kemur kona, sem hefur verið forseti Alþingis og getið sér gott orð í því virðulega embætti að því er best er vitað. Eru þetta skilaboð um það að ef hún hefði ekki gegnt þessu mikilvæga embætti hefði hún kannski ekki átt það skilið að verða svona ofarlega á lista? 

Sú afsökun að það sé ekki hægt að raða kynjunum jafnt á lista var afsönnuð hjá Íslandshreyfingunni 2007.  

Þá var jafnt með kynjunum alveg ofan frá efstu sætum og niður úr. Í sex kjördæmum voru karlmenn efstir í þremur og konur í þremur. Kona var efst í öðru Reykjavíkurkjördæminu og karl í hinu og síðan voru kynin á víxl, koll af kolli. 

Það eru að verða liðin 17 ár af 21. öldinni og því er þessu uppröðun Sjallanna í Suðurkjördæmi athyglisverð og íhugunarverð. 

 


mbl.is Páll og Ásmundur leiða í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband