Svipað gerðist 17. júní árið 2000.

Það getur skipt máli þegar jarðskjálftar verða að fyrstu upplýsingar séu sem nákvæmastar varðandi stærð og staðsetningu. 

Þegar stóri Suðurlandsskjálftinn varð 17. júní árið 2000 var sagt í fyrstu fréttum að hann væri 5,5 stig, sem var að mörgu leyti skrýtið, því að þar sem ég var staddur á flugvellinum á Tungubökkum með flugvél klára og allan nauðsynlegan myndavélarbúnað, fannst skjálftinn greinilega. 

Ef menn hefðu þá strax vitað að skjálftinn var í raun miklu stærri hefðu viðbrögð bæði mín og annarra kannski orðið önnur og gat þá skipt mestu máli að lögregla, læknar og björgunarsveitir vissu hvað var á seyði. 

Sjálfur gerði ég þau mistök að fljúga ekki strax af stað austur, taka þar myndir og fyrstu viðtöl og koma með þær til Reykjavíkur. 

Sjónvarpið hefði þá strax rofið útsendingu í stað þess að halda áfram að sjónvarpa fótboltaleik, sem ég man ekki lengur hver var. 

Yfirbragð viðbragða allra hefði orðið á aðra lund en varð. 

Þegar jarðskjálfti varð um miðja nótt 23. janúar varð bilaður jarðskjálftamælir til þess að ekki var hægt að miða staðsetningu jarðskjálftans út. 

Þess vegna kom það öllum algerlega í opna skjöldu þegar jörðin opnaðist við rætur Helgafells að austanverðu. 

Hvað sem segja má um kostnað við mælingar á ástandinu neðanjarðar og ofan á okkar mikla eldfjallalandi er óhætt að segja, að seint verði um of mikið af upplýsingum að ræða. 


mbl.is Skjálftinn mun stærri en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttar upplýsingar skipta oft öllu´máli.

Á svokallaðri upplýsingaöld er oft bagalegt ef upplýsingar skortir eða upplýsingar eru rangar. 

Af því leiðir að í mörgum tilfellum er ýmist ekki hægt að taka réttar ákvarðanir eða að teknar eru ákvarðanir, sem eru rangar. 

Í tengdri frétt á mbl.is kemur fram að Slysaskráningu Íslands sé svo ábótavant, að til vansa og vandræða getur verið.

Á þessari bloggsíðu hefur frá fyrsta pistli fyrir rúmum áratug verið bent á, að síbyljufullyrðining og auglýsingin á því að allar orkulindir Íslands séu "100% endurnýjanlegar" sé röng, og að það sé ekki hægt að réttlæta það að jafn stór fullyrðing sem er grundvöllur undir því hvernig við kynnum og auglýsum land okkar og þjóð sé til dæmis látin dynja á ferðamönnum frá því að þeir ganga eftir innganginum í Leifstöð með stóru Landsvirkjunarauglýsingunni þar til að þeir kveðja landið með því að ganga fram hjá sömu risamynd.

Í samræðum og samskiptum við útlendinga er þetta auðvitað oft nefnt og þá segi ég að rétt tala sé líklega nálægt 75%.

Af viðbrögðum þeirra sé ég, að sú tala er samt svo há, að athygli vekur.

Þess vegna er barnalegt af okkur að halda 100% tölunni fram.

Í sumum málum er gefin skökk mynd með því að sleppa því að nefna staðreyndir. Til dæmis er talað stanslaust um það í Teigsskógarmálinu hve hræðilegir fjallvegir hálsarnir í Gufudalssveit, Hjallaháls og Ódrjúgsháls séu.

Til þess að sjá þá í réttu samhengi er hins vegar nauðsynlegt að nefna, að á leiðinni milli Gilsfjarðar og Vesturbyggðar eru tveir fjallvegir í viðbót, Kleifaheiði og Klettsháls.

Kleifaheiði er hæstur fjallveganna á þessari leið, 402 metrar yfir sjó, og Klettsháls er 332 metrar.  En hinn ógurlegi Hjallaháls er álíka hár og Klettsháls, 336 metrar.

Eftir því sem ég best veit eru veður og færð oft verri á Klettshálsi en á Hjallahálsi, og Kleifaheiði er 66 metrum hærri en Hjallaháls.

Samt er aldrei minnst á nauðsyn þess að fara framhjá eða undir Kleifaheiði eða Klettsháls, enda búið að gera þessa fjallvegi betri en áður var og malbika þá.

Um alla nefndra hálsa liggja heilsársvegir og hægt er að lagfæra Hjallaháls og malbika veginn eða gera jörðgöng undir hann.

Ódrjúgsháls er með engu móti hægt að kalla hálendisveg því að hann er aðeins 160 metrar yfir sjó og telst því á skilgreindu láglendi hér á landi, álíka hátt yfir sjó og nýjustu hverfin við Vatnsendahæð í Kópavogi.

Vegarstæðið í austanverðum Ódrjúgshálsi er hins vegar afleitt og forneskjulegt, en vel er hægt að nota annað, nýtt og miklu betra vegarstæði.

Því er haldið fram að jarðgöng undir Hjallaháls yrðu svo miklu dýrari en vegur um Teigsskóg.

Auðvelt er að fá slíkt út með því að hafa gangamunnana í aðeins 40 metra hæð yfir sjó eins og gert er ráð fyrir í útreikningunum, en hitt er aldrei nefnt að með því að hafa munnana í 110 metra hæð, sem er ekkert meira en við Vestfjarðagöng og Norðfjarðargöng, verða jarðgöngin álíka dýr og vegur um Teigsskóg.

Burtséð frá því hver niðurstaðan verður í þessu deilumáli, er lágmarks krafa að allar réttar upplýsingar liggi fyrir.  

Framkvæmda- og virkjanasaga Íslands er full af svona málum og þegar hefur verið valdið mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum hér á landi með einu þeirra.

 


mbl.is „Við getum gert allt betur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband