Vafasamt nýyrði og orð dagsins.

Á facebook hefur verið vakin athygli á nýyrði sem notað hefur verið í frásögnum af slysum, sem hafa falist í því að tappar á safaumbúðum hafa skotist upp í augu neytenda. 

Það er búið að innkalla umbúðirnar, því að þetta eru alvarleg slys með sjónskerðingu eða jafnvel blindu sem afleiðingar og því er akki sama hvaða orð eru notuð um svona slys. 

Því nýyrðið er svo nýstárlegt, að á facebook hefur verið spurt hvort þetta sé ekki orð dagsins.

En nýyrðið getur verið tvírætt, samanber þessa vísu: 

 

Fór á séns með bósa´og hlaut af klístrað kappa gys

kona ein, sem oft á böllum fór við happ á mis. 

Afleiðingar skapaði hið ógnar krappa ris,

óvelkomna þungun, skráð sem "safatappaslys."


Súrnun sjávar, stórmál fyrir Íslendinga, sem nær aldrei er nefnt.

Í allri umræðunni sem hefur verið vegna "40 þúsund fífla" sem kuldatrúarmenn segja að hafi farið á Parísarráðstefnuna 2015 hefur nánast aldrei verið minnst á súrnun sjávar. 

Ástæðan er sennilega ekki aðeins sú að hagsmunirnir sem í húfi eru vegna breytinga í efnasamsetningu sjávar eru miklu minni heldur en hagmunirnir varðandi hlýnunar andrúmsloftins, heldur einnig sú, að það hefur reynst auðveldara fyrir afneitarana, sem kalla ráðstefnugestina í París "40 þúsund fífl" að flækja umræðuna um lofthitannn með því að vefengja mælingar og rannsóknir "lélegra vísindamanna og falsara" og halda í staðinn fram mælingum "raunverulegra vísindamanna sem ekki láta glepjast af áróðri" svo að notað sé orðfæri Trump og ákafra fylgismanna hans hér á landi. 

Að mæla sýrustig og innihald sjávar og sýna fram á það að hafið drekkur í sig drjúgan hluta vaxandi koltrísýrings í andrúmsloftinu er hins vegar erfiðara að véfengja. En kannski verða rannsóknirnar á afleiðingum þess afgreiddar sem "lygar og falsfréttir." 

Fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð er það hins vegar stórmál að láta ekki súrnun sjávar verða þöggun eða afneitun að bráð. 

Um stórfelld áhrif á nytjastofna hér við land getur verið að ræða. 


mbl.is Súrnun hefur áhrif á allt lífríki hafsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svar fengið við 70 ára gamalli spurningu?

Þegar ég er spurður hvað það sé sem ég sé helst hræddur við, er svarið einfalt: Köngulær. 

Sjúkleg hræðsla, beinlínis hlægileg, við skordýr sem sér um að halda flugum í skefjum, skordýr sem hefur þróað með sér stórkostlega verkfræðilega hæfileika við að spinna vefi sína. 

Þessi ótti hefur speglast í svari mínu við spurningunni um það af hverju ég vilji búa á Íslandi. 

Ástæðurnar hafa verið fimm. 

1. Ég er fæddur og uppalinn hérna

2. Það eru fátt um varasöm skordýr, að köngulónni einni undanskilinni. 

3. Ýsa,...

4. ...smjör...

5. ...og karföflur. 

1947, 48 og 49, þegar ég var heilu sumrin í Kaldárseli, var óttinn við köngulær það eina sem skyggði á. 

Af þeim var mikið í mosanum í hrauninu. 

Einhver mesta skelfing sem ég man eftir var þegar ég vaknaði við það eina nóttina að risastór könguló var að skríða yfir andlitið á mér.

Nú er hugsanlega, þótt seint sé, búið að rannsaka og finna út af hverju þessi ótti hefur stafað og maður verður strax ögn rólegri. 

Það var þá eðlileg ástæða fyrir óttanum eftir allt  saman en ekki eimhver niðurlægjandi óhemjuskapur.


mbl.is Óttinn við köngulær á sér skýringar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband