Störf og stefna mikilvægust.

Það skaðar aldrei að félög, stofnanir, fyrirtæki og flokkar hafi flott merki sem táknmyndir eins og Miðflokkurinn hefur nú sýnt. 

Þegar ég sá þetta merki tilsýndar fyrst datt mér fyrst í hug að þetta væri nýtt merki íslenska flugfélagsins með erlenda heitinu, enda afar líkt hinu gamla góða merki Flugfélags Íslands.

Góð merki geta aldrei gert annað en að gera gagn, en meira er þó vert um eðli þess, sem merkið stendur fyrir, hlutverk, stefnu og störf þess sem merkið stendur fyrir. 

Sjá má að margir lesa fjölmargt út úr nýja merkinu Sigmundar Davíðs.

Hesturinn er í svipaðri stöðu og hesturinn undir Napóleon á frægu málverki, og því finnst kannski einhverjum að það vanti Sigmund Davíð á bak hestsins í merki flokksins hans.

En sem dæmi um merki, sem eingöngu er hægt að les stefnu út úr, er merki Íslandshreyfingarinnar - lifandi lands, sem Ólöf Guðný Valdimarsdóttir átti grunnhugmynd að fyrir áratug en góður grafískur hönnuður vann síðan úr. Íslands-hreyfingin, merki.

Ef grunnurinn er dökkur líkist merkið móður jörð þar sem hún svífur um í tómi geimsins. 

Inni í jörðinni er tenging á milli þriggja þátta í lífinu á jörðinni og tilveru mannkynsins, sem verða að tengjast og vera í jafnvægi. 

Jörðin snýst ekki í jafnvægi um sjálfa sig ef einhver hluti hennar er úr samræmi við hina. 

Blái liturinn táknar efnahagslífið og nýtingu jarðargæða, græni liturinn táknar lífríkið og auðlindirnar og rauði liturinn táknar samfélagið. 

Það má líka likja merkinu við hjólið sem getur ekki rúllað í jafnvægi ef einn hluti þess er bólginn og stærri en hinir. 

  


mbl.is Tilvísun í Davíð Stefánsson og Jónas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætla Viðreisn og Björt framtíð að troðast undir?

Eins og er, virðist þungur straumur liggja frá hinum gömlu flokkum Sjöllum og Framsókn, sem eitt sinn voru svo stórir að þeir höfðu samanlagt yfir 60 prósent fylgi kjósenda. 

Núna er samanlagt fylgi þeirra aðeins innan við helmingur af því sem það var forðum. 

Framboðið er mikið af flokkum, sem vilja krækja sér í fylgi á miðjunni og út til vinstri, og það er engu líkara en að Viðreisn og Björt framtíð eigi á hættu að "troðast undir" í þessum atgangi.  


mbl.is VG langstærsti flokkurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einmenningskjördæmi í bland voru í þingkosningum fram til 1959.

Rétt er að geta þess í áhugaverðri umræðu um tillögu Kjartans Magnússonar um borgarfulltrúa, sem kosnir yrðu fyrir einstaka hluta Reykjavíkur, að í kosningum til Alþingis var hluti kjördæmanna einmenningskjördæmi allt fram til 1959. 

Ef þingmaður í slíku kjördæmi féll frá, var enginn varamaður, heldur var kosið að nýju um þingsætið. 

1952 féll til dæmis Finnur Jónsson frá, og var þá Hannibal Valdimarsson, frambjóðandi Alþýðuflokksins, hlutskarpastur í þeirri kosningu. 

Ef það er skylt í sveitarstjórnarkosningum að fullrúar séu búsettir í viðkomandi sveitarfélagi ætti það ekki að vera vandamál að láta sama gilda um einmenningskjördæmi innan Reykjavíkur. 

Skipta mætti borginni til dæmis í fimm einmenningskjördæmi, Vesturbæ, Austurbæ, Grafarvog, Grafarholt-Norðlingaholt-Selás-Árbæ og Breiðholt. 

Þetta yrði blandað kerfi eins og var í Alþingiskosningum til 1959, 18 borgarfulltrúar yrðu kosnir af listum eins og verið hefur í allri borginni, en 5 væru kosnir í einmenningskjördæmunum. 

 


mbl.is Fagna umræðu en óviss um framkvæmd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband