Því miður líkindi á að of mörgu sé pakkað niður.

Því miður er of margar undankomuleiðir að finna í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar til þess að draga brýn mál á langinn eða drepa þau. 

Afar víða eru málin afgreidd með því að skipa nefndir og starfshópa til að búa til skýrslur hér og hvítbók þar. 

Þetta er að sumu leyti skiljanlegt þegar um er að ræða flokka sem standa yst til hægri og vinstri í stjórnmálum. 

Þá er eina leiðin til að "brúa bilið" lausn, sem felur í raun í sér óbreytt ástand.

Varðandi sum þessara mála getur orðið um glötuð tækifæri að ræða til að koma málum í skaplegt framtíðarhorf, og er Landsspítaladæmið gott dæmi um það. Í því máli felst algert ósamræmi við það slagorð Katrínar og Bjarna að horft sé meira fram á veginn hjá þessari stjórn en hjá fyrri stjórnum. 

Rétt eins og það var fyrirsjáanlegt vorið 2013, að með því að fresta stjórnarskrármálinu myndi ekkert gerast næsta kjörtímabil í því máli, og þetta gekk eftir, er náttúrulega alveg jafnvonlaust núna að endurtaka þetta, - og ekki aðeins að endurtaka vonlausa og misheppnaða stjórnarskrárefnd í fyrsta sinn, heldur í fimmta eða sjötta sinn án árangurs allt frá árinu 1946. 

Og þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 og frumvarp stjórnlagaráðs virðast ekki nefnd einu orði. 

Sjallar og Framsókn fá auðvitað atvinnuvegaráðuneytin í sinn hlut til þess að tryggja eins óbreytt kerfi og unnt er í málefnum þeirra, og eins og ævinlega í öllum ríkisstjórnum, sem Sjallar hafa setið í í 75 ár, fá þeir dómsmálaráðuneytið í sinn hlut. 

Fögur orð um vandaðri og yfirvegaðri vinnubrögð og aukinna samræðustjórnmála hljóma vel og líta vel út á pappír, en þar er ekki á vísan að róa. 

Umhverfisráðherrann er afbragðs maður, með gríðarlega þekkingu á umhverfismálum og íslenskum aðstæðum og og hefur víðtæka reynslu af málarekstri á því sviði, en jafnframt vaknar spurningin um það, að stóriðju- og virkjanasinnar muni reyna að bola honum frá því að kveða upp úrskurði, vegna vanhæfis af völdum fyrri tengsla við hinar ýmsu framkvæmdir. 

 


mbl.is „Mistök fortíðar fest í sessi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla skúffubókhaldið er lífseigt.

Það er gömul saga sem var lýst í þjóðsögunni "hesturinn ber ekki það sem ég ber", þegar þetta svar var haft eftir manni sem sat á hesti og hafði stóran og þungan boka á baki sér í upphafi ferðar. 

Stundum hefur þetta verið kallað "skúffubókhald" og að peningar séu ýmist teknir úr eða settir í aðrar skúffur en eðlilegt gæti talist. 

Þannig er það talið vera sparnaður fyrir útgjöld þjóðarinnar að sjúklingar greiði beint ýmsan kostnað við lækningar í stað þess að ríkissjóður greiði hann. Já, "hesturinn ber ekki það sem ég ber." 

Þegar ég hóf störf fyrstu árin sem íþróttafréttamaður hjá Sjónvarpinu gat komið fyrir, að yfirmanni mínum, sem forstöðumaður Frétta- og fræðsludeildar, gat fundist það hentugt í samkeppninni við "hina deildina," Lista- og skemmtideild, að borga kostnað vegna dagskrárgerðar minnar úr skúffu íþróttanna, sem ég var aðeins einn í. 

Þegar kvikmyndin Lénharður fógeti var sett á dagskrá af hálfu Lista- og skemmtideildar og þótti óhemju dýr, enda tekin í lit, (en var samt aldrei sýnd í lit, enda var þá aðeins sýnt í svart-hvítu!) ákvað dagskrárstjórinn minn að láta sýna sama kvöldið heimildamynd á vegum fræðsludeildarinnar, sem ég gerði, og myndi ekki kosta krónu!  Tilkynnti hann þetta stoltur á fundi útvarpsráðs. 

Sú leið fannst til að koma þessu í kring, að ég fyndi einhverja íþróttaiðkun á Ísafirði til að fjalla um og að kostnaður við flug mitt þangað og til baka yrði færður sem kostnaður við íþróttaefni, síðan myndi varðskip flytja mig og þrjá leiðangursmenn ókeypis til og frá Hornbjargsvita, þar sem ókeypis fæði og húsnæði yrði fyrir hendi við gerð heimildarmyndar um vitavörðinn. 

Sem sagt: Ekki króna vegna ferðakostnaðar eða fæðis! 

Í kringum þetta gerðist raunar miklu lengri og ótrúlegri saga, sem vonandi verður hægt að segja síðar.

En eftir að hafa upplifað hana kemur mér fátt á óvart í þessum efnum, og þess má geta, að á núvirði kostaði umsókn um að Ísland ætti fulltrúa í Öryggisráði Sþ um tvo milljarða króna, án þess að þess sæi nokkurs staðar merki í bókhaldinu!    

 

 

 


mbl.is Kostnaðinum við umsóknina var leynt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjall og óvæntur leikur Katrínar.

Það var óvæntur en snjall leikur hjá Katrínu Jakobsdóttur að velja Guðmund Inga Guðbrandsson framkvæmdastjóra Landverndar og utanþingsmann í embætti umhverfisráðherra.

Nokkrar flugur eru slegnar í einu höggi: 

1. Búið er að velta vöngum yfir valinu á milli Lilju Rafneyjar og Ara Trausta sem kandidötum, meðal annars vegna þess að þau eru oddvitar flokksins, hvort í sínu landsbyggðarkjördæmi. Ég þekki Ara Trausta úr samstarfi frá fornu fari og hefði vel treyst honum fyrir ráðuneytinu. Miður hefur mér þótt stuðningur Lilju Rafneyjar við græðgisssprengju í sjókvíaeldi, og ég á líklega skoðanasystkin í því efni meðal fylgismanna Vinstri grænna. Með því að velja annað hvort Ara eða Lilju Rafney hefði Katrín hugsanlega skapað óróa inni í flokknum, sem er bæði með heitt náttúruverndarfólk innan sinna raða og einnig furðu margt ansi "framsóknarlegt" fólk úti á landsbyggðinni, samanber stuðning margra þar við stóriðju og eldri tegundir af "atvinnuuppbyggingu" eins og skoðanakannanir hafa leitt í ljós.  

2. Mörgum hefði hins vegar þótt óþægilegt fyrir Vg að ganga fram hjá landsbyggðarþingmönnum varðandi ráðherraembætti. En Guðmundur Ingi Guðbrandsson býr í Borgarfirði og telst því fyllilega vera landsbyggðarmaður. 

3. Fyrir flokk, sem kennir sig við umhverfismál, er það ótvírætt mikils virði að í fyrsta sinn í sögunni er maður, sem kemur beint úr forystu öflugra náttúruverndarsamtaka, skipaður umhverfisráðherra. Ég hef átt mikið og einstaklega gefandi og ljúft samstarf við Guðmund Inga Guðbrandsson um árabil og er sérstaklega ánægður með það mikla og kröftuga starf, sem hann hefur unnið á vettvangi náttúruvernarhreyfingarinnar í sjálfri grasrótinni af dugnaði en jafnframt lagni og útsjónarsemi ungs hæfileikaríks manns. Þess má geta að danskir sjónvarpsmenn gerðu þátt um íslenska náttúru og náttúruverndarmál fyrir þremur árum, þar sem Guðmundur Ingi var lykilmaður.  


mbl.is Ráðherrakapallinn opinberaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Keppinautur Grímsvatna og Kverkfjalla.

Hinn 1. september síðastliðinn náðust í fyrsta sinn svo góðar myndir af tveimur opnum sigkötlum á suðausturbrún öskju Bárðarbungu, að það sást niður í vatn. RAX, Bárðarbunga, sigketill

Vitandi um reginafl þessarar megineldstöðvar Íslands fannst mér eins og ég sæi niður til vítis. 

Nú hefur myndin skýrst enn betur í ferð Ragnars Axelssonar og báðir sigkatlarnir eru meira opnir en þeir voru í septemberbyrjun, einkum sá vestari. 

Að því leyti til eru þessir katlar öðruvísi en Skaftárkatlar og svipuð fyrirbæri í Grímsvötnum,, að Skaftárkatlar og Grímsvötn fyllast fljótt af snjó þar til hleypur úr þeim á ný, en þessir katlar Bárðarbungu virðast ætla að þrauka veturinn af líkt og gerist í Kverkfjöllum. 

Er þar með komið upp það ástand, að Bárðarbunga hefur bæst í hóp þeirra eldstöðva, sem opna sig á þennan hátt í gegnum jökulinn og að sjálfsögðu á afgerani hátt. 

Í septemberbyrjun hrósaði ég happi yfir því að hafa náð myndum í gegnum jökulinn, vegna þess að ég hélt að jökullinn myndi í snjókomu vetrararins hafa betur og hylja op sigketilsins til næsta sumars. 

En þar vanmat ég afl og mikilleik "eldstöðvar Íslands." 


mbl.is Hundrað metrar niður á vatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband