Afbrigði af "GAGA" ("MAD")?

Sagt hefur verið að Bandaríkin og Rússland búi yfir kjarnorkuvopnum, sem gætu fræðilega drepið íbúa hvors ríkis fimm sinnum. 

Og að grundvöllur þess að eiga þessi vopn sé sá, að hvor aðili um sig geri það ljóst að tryggt sé að hann sé reiðubúinn til að beita öllum þessum vopnum. Niðurstaða: Kenningin MAD (Mutual Assured Destruction) eða GAGA (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra) sem gilti mestallt Kalda stríðið, eftir að kjarnorkuheraflinn hafði þanist út beggja vegna.  

Varðandi deilu Norður-Kóreu og Bandaríkjanna er það hins vegar aðeins annar aðilinn, Bandaríkin, sem hefur getu til að drepa alla íbúa landsins fimm sinnum eða jafnvel oftar! 

Enn sem komið er langt frá því að Norður-Kórea hafi getu til neins sambærilegs gagnvart Bandaríkjunum, en gæti hins vegar fljótlega farið langt með að hóta nágrönnum sínum hræðilegum árásum. 

Í áratuga sögu kjarnorkuvopna hefur verið gerður greinarmunur á fyrirvaralausri fyribyggjandi árás og gagnárás.  

Yfirleitt velja ráðamenn kjarnorkuvelda fyrrefnda afbrigðið. 

Það er þess vegna áhyggjuefni þegar Trump tilgreinir ekkert slíkt, heldur virðist gefa í skyn að fyrirvaralaus fyrirbyggjandi gereyðingarárás komi til greina. 

Með því eykur hann líkur á því að Norður-Kóreumenn kjósi sjálfir í örvæntingu að gera fyrirvaralausa fyrirbyggjandi árás. 

Norður-Kóreumenn hafa sjálfir verið með stórkarlalegar yfirlýsingar sem gætu valdið því að Trump ákvæði að gera út um málin í eitt skipti fyrir öll með fyrirvararlausri stórárás. 

 


mbl.is Hægt að réttlæta beitingu kjarnavopna?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gott og illt eru ekki til, aðeins völd og veiklaðir"?

Nú er blaðafólk að tína til ýmis ummæli Donalds Trumps eftir að hann var kjörinn forseti og er þar um auðugan garð að gresja eins og vænta má. 

Ekki var um síður auðugan garð að gresja af ummælum fyrir kjörið eins og það þegar hann ráðlagði upprennandi bísnissmönnum að eiga litla bók og skrá í hana nöfn þeirra sem hefðu þvælst fyrir þeim til þess að geta sett þar inn upplýsingar um höggstaði á þeim til þess að hefna sín á þeim. 

Því miður getur þýðingin yfir á íslensku á einum tilvitnðum ummælum Trumps, sem ég heyrði í gær. verið ónákvæm, en orð hans eiga að hafa fjallað um það að gott og illt væru ekki til, aðeins völd andspænis veikluðum.

En af nógu er að að taka og kannski best að velta fyrir sér einu og einu í senn.

Að gott og illt séu ekki til er kannski annað orðalag yfir siðblindu?   


mbl.is Stormasamt fyrsta ár forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö yngstu gljúfrin í aldarbyrjun, en öðru þegar tortímt.

Rétt er að ítreka það sem hefur komið fram áður á þessari síðu, að yngstu gljúfur Evrópu voru í byrjun þessarar aldar tvö en ekki eitt. Bæði voru einkum mikils virði og upplifun fyrir þá sem sáu þau, að það, að horfa á Hverfisfljót og Jökulsá á Brú hamast við að sverfa þau og skapa eins og afkastamiklir listamenn. Hjalladalur.Stapar

Fyrir tæpri öld var ekkert gljúfur þar sem áin rann á innan við öld síðar um svonefnda Stapa um sérstaklega litfagurt gljúfur og einnig um Rauðuflúð og Rauðagólf, sem drógu heiti sín af litnum. 

Það var svonefnt flikruberg sem gaf gljúfrinu, klettunum, flúðinni og hinu halland steingólfi litadýrð sína. 

En 2006 var þessi stórbrotna sköpun stöðvuð og þetta gljúfur mun aldrei að eilífu birtast á ný, því að verið er í óða önn að sökkva því í þann aur, sem Jökla er nú að fylla Hjalladal með, 25 kílómetra langan og 180 metra djúpan. 

Þetta einstæða fyrirbrigði var ekki metið krónu virði þegar því var tortímt. 

Heldur ekki mesta hjallamyndun landsins eða 40 ferkílómetrar af svo vel grónu landi, að þar var beitt sauðfé í meira en 600 metra hæð yfir sjávarmáli og hreindýrin áttu þar griðland þegar mest svarf að þeim seint á 19. öld. Efst til vinstri á myndinni sést glytta í svonefndan Háls, samfellda margra metra þykka gróðurþekjuna sem Hálslón dregur nafn af, en undir honum var hjallaröð með grænum rennisléttum grundum og heitri lind. 

Þetta gljúfur er liklegra enn yngra en gljúfrið í Hverfisfljóti, en það skiptir ekki höfuðmáli, því að hið skaftfellska gljúfur er bæði jarðfræðilega og sögulega merkilegt. 

Í Skaftáreldum voru bæði Skaftárgljúfur og fyrrum gljúfur í Hverfisfljóti fyllt af nýju hrauni. 

Skaftá hefur ekki tekist enn að endurvinna sitt gljúfur en Hverfisfljót er á fullu við það. 

Við það að taka vatnið úr gljúfri Hverfisfljóts verður hinn stórvirki listamaður náttúrunnar stöðvaður við listsköpun sína, en að vísu mun eitthvað seytla um það en auðvitað miklu minna virði eftir að listamaðurinn hefur verið fjarlægður. Leirfok, Kárahnjúkar

P.S. Vegna sérlegra fáfræðiskrifa leynihöfundarins Hábeins í athugasemd bæti ég hér við loftmynd af lónstæði Hálslóns eins og það lítur út á heitustu og björtustu dögum snemmsumars, þegar hlýr hnjúkaþeir blæs úr suðri yfir þetta svæði. Hjalladalur.Stapar


mbl.is Skiptar skoðanir á virkjun Hverfisfljóts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband