Framför, en ekki má vanrækja "heimahleðslu."

Hraðhleðslustöðvar eru nauðsynlegar ef rafbílar eru notaðir utan þéttbýlis, og stöðvarnar, sem verið er að setja upp, eru mikið framfaraspor. DSC00152

Þó virðast Vestfirðir verða alveg útundan á næstu misserum, því að frá Staðarskála til Ísafjarðar eru 334 kílómetrar og frá Búðardal til Ísafjarðar um 300 kilómetrar. 

En þrátt fyrir hraðhleðslustöðvarnar eru þær ekki nothæfar eingöngu, því að í þeim fást aðeins 80 prósent fullrar orku rafhlapnanna.

Með vissu millibili verður að hlaða hvern rafbíl rólega upp í topp á venjulegan hátt með "heimarafmagni", t. d. á tveggja vikna fresti, annars missa rafhlöðurnar hæfni sína til að geyma orku. 

Á rafbílnum, sem ég er kominn á, tekur níu klukkustundir að hlaða rafhlöðina frá lægstu leyfilegu stöðu upp í topp, og möguleikar til að hlaða bíla við fjölbýlishús eru mjög takmarkaðir.  

 


mbl.is Hraðhleðslustöðvum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvað er að?"

"Hvað er að?" heitir eitt laga Jónasar og Jóns Múla Árnasonar, sem flutt er í söngleiknum Ellý í Borgarleikhúsinu og er gott dæmi um galdur leikhússins, þegar máttur hins beina sambands leikara og áhorfenda er best nýttur. 

Þessi orð koma í hugann þegar lesin er tengd frétt á mbl.is þar sem umsjónarmenn fjölmiðlanna, sem halda úti bloggi, lýsa einkennum þeirra sem þeir kalla "netdólga."

Þau eru býsna kunnugleg mér og fleirum síðuhöfum. 

Eftir tíu ára reynslu af því að halda úti bloggsíðu þar sem skrifaðir hafa verið meira en tíu þúsund pistlar og sennilega tvöfalt fleiri athugasemdir, er reynslan sú, að lygilega sjaldan hefur þurft að fjarlægja athugasemdir eða gestina, sem gert hafa athugasemdir. 

Hægt hefur verið að telja þessa aðgangshörðu gesti á fingrum annarrar handar. 

En þeir hafa að sama skapi verið afar illskeyttir á stundum og áhugavert fyrir sálfræðinga að kynna sér atferlið. 

Það er nokkurn veginn svona: 

Viðkomandi skrifar undir dulnefni og vegur úr launsátri, þ. e. skrifar ekkert, segi og skrifa ekkert annað en níð um bloggsíðuna, allt sem í hana er skrifað og síðuhafa. 

Hann vílar ekki fyrir sér að fullyrða og það aftur og aftur, að allt sem síðuhafi skrifar sé lygi og rangfærslur. 

Jafnvel vakað heila nótt við að setja inn sömu athugasemdirnar aftur og aftur. 

Já, þetta er makalaust, ef athugasemd er þurrkuð út skrifar "fúll á móti" hana aftur og síðan aftur og aftur þangað til að maður áttar sig á, að maður ætli ekki að eyða síðustu árum ævinnar í að þurrka út athugasemdir, sem ævinlega er troðið inn á ný. 

Engin leið er að útiloka leyniskyttuna, því að hann skiptir þá bara um dulnefni og IP-tölu og skýtur úr öðru launsátri. 

Eitt ráðið sem síðugestir af þessu tagi grípa jafnvel til, er að troða sér inn á nafni náins ættingja! 

Ef maður reynir að losna við óværuna, er taflinu snúið við: Síðuhafinn er fordæmdur fyrir ofbeldi og grófa ritskoðun. 

Síðuhafinn uppgötvar að hann er ekki lengur síðuhafi, heldur hefur óværan tekið öll völd og að annað hvort verði að lúta valdi hennar eða játa sig sigraðan og loka síðunni.

Sennilega yrði óvildarmaðurinn þá í einhverjum tímabundnum vandræðum, því að ekki er að sjá að hann láti svona á öðrum síðum. Nema að hann noti þá annað dulnefni.  

Fúll á móti virðist ganga með þá köllun að andskotast stanslaust árum saman út í eina persónu, síðuhafann, sem honum er svo mikið í nöp við, að eitt einasta jákvætt orð sést ekki hrjóta úr penna hans í síbyljueinelti hans. 

Ef reynt er að andmæla vegna þess að það að svara ekki er túlkað sem uppgjöf, og einhverjir sem ekki þekkja til, gætu tekið óvildarmanninn trúanlegan, keyrir leyniskyttan stóryrðin upp en segir afnframr að það sé síðuhafinn, sem sé með stóryrði vegna þess að hann "veit upp á sig sökina - rökþrota" svo að notað sé nýjasta orðalagið. 

Í því tilfelli var átti sök síðuhafans að vera sú, að hann væri mesti umhverfissóði jarðar og því hrikalegasti hræsnari jarðar. 

Í tengdri frétt á mbl.is kemur fram fróðlegt fyrirbæri, að óvildargesturinn safni jafnvel IP-tölum og búi til allt að tíu persónur, sem geti þá líka látið til sín taka, auk aðal hælbítsins. 

Tæknilega er því hugsanlegt að hann geti skipt sér í fleiri en einn gest með dulnefni, sem samsinni aðal óvildargestinum. Ekki þarf marga slíka til þess að hægt sé að loka hringnum með því að segja: Þeir virðast vera í meirihluta hér á síðunni, sem samsinna mér um lygar og rökþrot þín, og það sýnir best hvílíkar staðleysur þú viðhefur, þú aumi síðuhafi.  

Minnir mig á brandara sem Laddi fór með í Sumargleðinni fyrir 42 árum, þar sem hann sagði frá eltingarleik, þar sem hann var að reyna að komast undir ógnandi manni með hníf. 

Að lokum ætlaði hann að stökkva yfir lágan vegg, en datt, og lá varnarlaus á jörðinni.

"En þar sem maðurinn með hnífiinn stóð yfir mér datt mér snjallræði í hug til undankomu:  

Ég dreifði mér!"  

En vitið þið hvað hann gerði þá? 

Hann umkringdi mig!" 

Þetta fyrirbrigði, miðaldra maður, fullur af óvild, oftast mjög persónulegri, væri vafalaust athyglisvert rannsóknarefni fyrir sálfræðinga til að svara spurningunni: "Hvað er að?" 

En því miður er það ekki heldur hægt þegar leyniskytta, sem vegur úr launsátrum á í hlut. 

Og leyniskyttan hefur fyrir löngu komist að því hvað sé að, og lætur það ótæpilega í ljós að sá sem þessu valdi sé síðuhafinn, sem "viti upp á sig sökina / skömmina", og síðan heldur hælbíturinn áfram að ausa síðuhafann flestum þeim ónefnum, sem hægt er að finna.  

 

 

 


mbl.is Fréttir um konur og innflytjendur vekja hörð viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband