Grátbroslegt séríslenskt fyrirbrigði?

Þeir eru orðnir nokkrir, erlendu ferðamennirnir, sem hafa undrast það í samtölum við mig að á leiðinni milli Leifsstöðvar og Reykjavíkur hefur Reykjanesbrautin verið tvöföld á þeim kafla sem er á miðri leiðinni, en hins vegar einföld þegar dregið hefur nær mesta þéttbýlinu við Hafnarfjörð þar sem gatnamót eru fleiri og umferðin meiri.

Ég hef reynt að leita skýringar, svo sem eins og að veður- og færðaraskilyrði hafi valdið því á kaflanum við Kúagerði hafi tíðni alvarlegra slysa verið svo mikil að ekki hafi verið hjá því komist að byrja þar á tvöföldun brautarinnar. 

Þegar einnig hefur verið undrast að hinn mjög svo fjölfarni kafli milli Hveragerðis og Selfoss sé enn einfaldur, verður erfiðara um svor, nena að muldra um "séríslenskar aðstæður." 

Sé svo, er ekkert fjarlægt að slíkt fyrirbrigði sé grátbroslegt.  


mbl.is Mislæg gatnamót tekin í notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins útreikningar á því hvað "eitthvað annað" gefur af sér.

Iðnbyltingin svonefnda hófst á 18. öld. Grunnhugsun hennar var að nota nýja orkutækni til framleiðslu á vörum, sem hægt var að vigta og telja í tonnum og skapa með því neyslusamfélag þar sem neyslan var mæld í þyngdar- og fjöldaeiningum.  

Verksmiðjur voru krafan, og stóriðja, þungaiðnaður, táknaði máttinn og dýrðina. 

Stóriðjan kom ekki til Íslands fyrr en hálfri öld á eftir flestum öðrum vestrænum löndum og afleiðinganna hefur líka séð stað hálfri öld lengur. 

Ný könnun á Austurlandi sýnir að ofuráherslan á risaverksmiðju með karllægum störfum hefur bitnað á konum í fjórðungnum og þær vilja að gerðar séu ráðstafanir til að hamla gegn því. 

Því að síðustu áratugi hefur komið í ljós að það er fjöldi kvenna á barneignaaldri, sem ræður úrslitum um íbúafjölda en ekki fjöldi karla, sem vinna í verksmiðjum. 

Vafasamt er að nokkru verði breytt fyrir austan. Fólk vildi þetta þegar stóra ákvörðunin var tekin og andmælendur voru úthrópaðir, kallaðir óvinir Austurlands og hugmyndir þeirra afgreiddar sem bábiljan "eitthvað annað" og "fjallagrasatínsla." 

Í útvarpsumræðum frá Alþingi í gærkvöldi var tvívegis minnst á rannsóknir á árangri fjárfestinga í því sem var úthrópað sem "eitthvað annað."

Þar kom fram að fjárfestingar vegna þjóðgarðsins yst á Snæfellsnesi skiluðu sér þannig, að fyrir hverja eina krónu komu 50 til baka. 

Vitað er að Vatnajökulsþjóðgarður hefur þegar skapað bein föst störf í tugatali, þar sem meirihlutinn er konur á barneignaaldri. 

En meirihluti ráðamanna í Árneshreppi vill frekar láta reisa virkjun, sem skapar ekkert beint starf í hreppnum og telur að hugmyndir á borð við Drangajökulsþjóðgarð séu of seint fram komnar, en þetta viðhorf byggist á því skammtímasjónarmiði að nýta umsvif við virkjanaframkvæmdir, sem standa í örfá ár og hafa svipuð áhrif og virkjun Blöndu hinum megin við Húnaflóann, mestu fólksfækkun í sögu héraðsins eftir að virkjanaframkvæmdum lauk.  

Ferðaþjónustan er dæmi um "eitthvað annað" og hefur þvert ofan í úrtöluraddir skapað mestu lífskjarasókn og tekjur síðustu sjö ár en dæmi eru um áður. 

Fyrirsögnin á tengdri frétt á mbl.is er "Hver króna skilar sér áttfalt til baka." Er þar átt við hugverkadrifið samfélag þar sem hlutföllin vegna fjárfestinga í háskólanámi voru 1:8. 


mbl.is Hver króna skilar sér áttfalt til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnti á gamla takta forðum daga.

Líklega hefur ræða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í umræðunum á Alþingi í kvöld verið einhver besta frammistaða hennar á því sviði á ferli hennar. 

Hún hefur þetta eins og stundum er sagt. 

Ekki aðeins efnistökin, heldur ekki síður flutningurinn kveikti að minnsta kosti leiftur minninga frá þeim tímum þegar faðir hennar heitinn átti eftirminnilega spretti í framsögn og flutningi svo að enn yljar um hjartarætur að minnast þess.  


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræðurnar Hungurleikar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. desember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband